miðvikudagur, júní 14, 2006


Akureyri
Höfuðstaður Norðurlands er ekki sá sami eftir síðustu fjórar vikurnar. Síðan ég skilaði mínum síðustu ritgerðum hef ég tvisvar sinnum alið manninn í þessum yndislega bæ norðan heiða. Í fyrra skiptið breiddi ég út fagnaðarerindið um homma og lesbíur í lífsleiknitímum grunnskólanna ásamt lesbískri hjúkku. Þessir tveir dagar í lífi mínu hafa líklega verið þeir mest skemmtilegstu í mínu lífu. Ég og bláókunnug lesbía stóðum saman fyrir framan 20-40 manna hópa um það bil 15 sinnum að segja sögur af sjálfu okkur. Og börnin spurðu og þau spurðu. Skömmuðust sín ekkert fyrir spurningarnar sínar og við reyndum að skammast okkar ekki fyrir svörin. Ég hef því eignast nýjan aðdáandahóp. Sá fyrri eru flugfreyjur sem eru meðalaldri og finnst gaman að hafa stráka til þess að lyfta hlutum, taka með í búðir erlendis og fleira. En nýji aðdáendahópurinn eru kennarastétt Norðurlands, sem hefur verið ansi duglegur að senda mér tölvupósta til þess að hrósa fyrir mælsku og hreinskilni. Ef ég hefði ekki verið þarna fyrir norðan að tala um kynhneigðina mína, hefði ég haldið að þau væru öll að reyna við mig.

Um síðustu helgi fór ég aftur til Akureyrar, kom beint úr flugi frá París þegar Matta og Alma biðu eftir mér úti í bíl og gáfu mér tæpar 7 mínutur til þess að pakka fyrir útileguferð til Akureyrar. Bjórtaskan sem ég hafði keypt úti í Baltimore kom sér vel en hún var fyllt af bjór og í hana fenginn klaki hjá KFC í Mosfellsbæ. Stelpunni í afgreiðslunni þótti bónin furðuleg að setja klaka í töskuna sem ég dró á hjólum á eftir mér, en bjórinn hélst kaldur alla helgina í staðinn! Þegar ég var kominn norður komst ég að því að strákurinn sem pakkaði niður fyrir mig hefur ekki verið í lagi og alls ekki gert ráð fyrir útilegu, þar sem í töskunum fundust tvær peysur, báðar hvítar og ekkert skópar, utan hvítra spariskópars.

Við vorum sex; ég, Matta, Magga, Hlédís, Tóti og Alma sem tókum tæplega fjórðung af tjaldsvæðaplássi Akureyrar með einn tjaldvagn, kúlutjald, badmintonvöll, krikketvöll, örfá tré, setusvæði og tvo bíla.

Helsta á Akureyri:
- grillveisla hjá Silju Báru, kennaranum mínum í HÍ þar sem ég fór á kostum við grillið og Silja Bára í líkjöraframboði
- ég týndist í Karnaskógi, lagðist því niður og svaf í einn og hálfan tíma
- jólastemningin var heimsótt í Jólahúsið
- Café Amor og Kaffi Akureyri fengu að finna fyrir hommaskapnum mínum
- rakst á konu frænda míns
- gervigæsin var skírð eftir skandal ferðarinnar: Helvítis fyllerí (sést á flestum myndum)
- rakst á Erlu í stelpuferð
- rakst á Kolla, nágranna minn úr sveitinni en fann ekki konuna hans
- sofnaði í heita pottinum í Sundlaug Akureyrar, ásamt tvíburasystur minni Hlédísi í rúman klukkutíma
- hitti strák sem ég hafði kynnst úti á Kanarí
- fékk símanúmerið hjá dyraverði

Ég rétt náði að pakka öllu niður, kaupa kaupa mér flug suður á sunnudagsmorguninn fyrir klukkan átta - því ég átti að vinna síðar á sunnudeginum til New York - að ég hélt - en ég endaði í Boston, sem er önnur saga.

Matta, Hlédís og Silja blogga um Akureyrarferðina.

föstudagur, júní 09, 2006


Ljótt að sjá
Það er gott að vera kominn aftur í háloftin. Skemmtilegt fólk sem eru eins og ég í dimmbláum göllunum hnepptum með gylltum hnöppum. Eftir að stjórnmálafræðibókum hefur fækkað á náttborðinu hef ég leyft mér að ráfa meira á netinu og meðal annars gleymdi ég mér á innri vef Icelandair og IcelandairGroup. Þar fann ég þessa ófögru sjón sem þið sjáið hér fyrir ofan.

Tvær flugfreyjur, önnur glæsileg eins og með blásaravél Karollu í Eurovision og óaðfinnanlega kvöldförðun. Hin freyjan lítur út fyrir að vera offitusjúklingur, stuttu eftir bílslys, sveitt og ósmekklega klædd. Báðar voru þær staddar á árshátíð. Tvennt er því í stöðunni; aldrei að leyfa myndatökur af sér eða vera heima. Einnig má skoða þann möguleika að fá sér aldrei í glas aftur.

Nei, grín.