miðvikudagur, desember 31, 2003

Gleðilegt nýtt ár og slysalaus áramót!
Gamlársdagurinn minn hefur verið einstaklega furðulegur. Ég ætlaði aldrei að komast á lappir en það er helst því að kenna að ég kom ekki dúr á augu. Síðan stökk ég til og valdi úr engu úrvali freyðivína í ríkinu upp úr hádegi, fór svo í Hagkaup að versla það síðasta. Hitti svo vinkonu mína en við minntumst þess í sameiningu að mamma hennar heitin hefði átt afmæli í dag. Þessi vinkona mín er algjör hetja en á sama tíma sjálfstæðasta manneskja sem ég þekki. Hún missti foreldra sína þegar hún var ung. Við fundum kerti við hæfi sem hún gæti kveikt á.

Þegar ég kom heim var ég kominn með hausverk og beinverki. Ég er búinn að vera með hálsbólgu síðan á sunnudaginn og hálsbólgan bara versnaði. Ég hætti að geta hugsað skýrt. Ég klæddi mig því í mikil föt og lagðist undir teppi. Drakk svo 80 lítra af heitu tei og kakói. Bruddi heila brjóstsykursverksmiðju og lagði mig öðru hverju. Núna um sexleytið er ég allt annar og er tilbúinn að hitta Þóri, Héðni og Bjarna í áramótagleði á Hverfisgötunni.

Snemma í fyrramálið keyri ég í sveitina til þess að vera í nýársmat hjá ömmu í hádeginu... Það er ekki alltaf sem við höfum mikla lyst, en yfirleitt eru allir mjög svangir. Sumir hafa sofnað í sófanum í þessu boði, þetta er hefð sem enginn vill sleppa.

Gleðilegt ár elsku vinir! Ég þakka það gamla.

mánudagur, desember 29, 2003

Ruslpóstur
Er þetta bara hjá mér eða fá allir aðrir svona 50 rusl-emaila á dag? Núna er ekki hægt að skamma mig fyrir að vera á klámsíðum því þar gef ég aldrei upp email... úbs...

Jólakortasjóður Gulla
Borist hefur tilkynning frá Gulla. Í ár fór jólakortasjóður Gulla allur til þess að greiða niður VISA reikninga og í ferðsjóð sama einstaklings. Þið sem ekki fenguð jólakort frá mér getið huggað ykkur við það að ég kemst til útlanda á næsta ári. Ég vil þakka ykkur skilninginn og samvinnuna á árinu.

Skemmtilegar sögur - ekki fyrir alla
Ég gæti látið gamminn geysa á bloggsíðunni minni í dag. En ég má það ekki. Mér er meinað að fjalla um Héðinn á persónulegan hátt. Hann er farinn að merkja öll sín samtöl við mig og hátterni á þann hátt að mér er meinað að fjalla um það við þriðja aðila og þar með talið að fjalla um það á blogginu. Ef þið bara vissuð hverju þið eruð að missa af. Mér er hinsvegar ekki meinað að fjalla um Héðinn innan Pönnunar, enda líkist hún mjög svo Evrópusambandinu, það er frjálst flæði vöru, upplýsinga, fólks og fjármagns þar innandyra.

Annars fékk Pannan í fyrsta skipti lögfræðiálit í gærkvöldi, það reyndist nauðsynlegt að fá aðila til þess að skýra lög pönnunnar til þess að finna út hvernig valdahlutföllum og heiðursnafnbótum var skipt þá stundina. Í dag hefur komið fram önnur lögskýring sem skýrir lög Pönnunnar á allt annan hátt. Ætli það verði ekki haldið málþing um þetta.

Annars er búið að ræða að stofna tvö embætti við pönnuna. Pannan hefur nú þegar gjaldkera og ritara, en nú er talað um að skipa PartýPlanner og Almannatengslafulltrúa. Ég ætla svo að leggja það til að skipaður verði einnig dómari/lagatúlkunarmaður við Pönnuna því ágreiningsefni koma greinilega alls staðar upp, embættið gæti heitið Lögsögumaður.

Annars er það framundan hjá Pönnunni að haldið verður uppgjörsfundur ársins 2003. Á fundinum gerir hver Pönnumeðlimur grein fyrir því hvernig árið hjá honum hafi verið bæði einkalífslega, atvinnulega og fjölskyldulega séð. Síðan setjum við okkur markmið fyrir árið 2004. Ég held að uppgjörsfundurinn verði einstaklega áhugaverður. Kannski getum við selt sjónvarpsréttinn af honum. Var ekki einhver að blogga um að hann gæti verið eins og Kryddsíld á Stöð2 eða var það einhver annar hópur fólks sem átti þá hugmynd?

Þorri
Hefur einhver skoðað gestabókina mína? Hvernig skriðtæklar maður svona skilaboð?

Jólagjafir
Þær voru nokkrar og ansi skemmtilegar. Fyrst opnaði ég gjöf sem innhélt handklæði frá vinnunni, það var ansi smart, skreytt með útsaumaðri rós og öllu (kaldhæðni púnktur is hjá mér ef þú náðir því ekki).
Mamma og pabbi gáfu mér hníf, dökkblátt lak og bókina "Evrópusamruninn og Ísland" (Ási spurði mig hvað mamma væri að spá, maður gæfi ekki homma annað en hvítt lak, það væri svo erfitt að ná blettum úr öðru... - ég ætla bara að láta konuna mína og mömmu ræða þetta. Bókin eru mestu vonbrigði síðan ég gleymdi að setja skóinn út í glugga þegar ég var sjö ára. Litla systir mín hefur betra tak á íslenskri tungu en þessi "menntamaður".)
Systkini mín gáfu mér kaffibaunir og kaffimalara frá Siemens. Æðislegt, ég hef samt ekki náð að búa mér til kaffi úr því. Það bíður betri tíma.
Konan mín gaf mér bleikar nærbuxur og danska matreiðslubók. Ætli hún búist við því að ég matreiði ofan í hana á þessu landi fyrst hún eldar ofan í mig erlendis? - Sjáum til - Konan mín allavega fæðir mig og klæðir, það er við hæfi.
Litla systir mín bjó til öfugan jólasvein og saumaði handa mér þvottapoka í skólanum og frændsystkini mín gáfu mér jólasvein sem spilar á fiðli. Ég er algjör jólasveinn.
Afi gaf mér Söguatlas og mynd af mér þriggja ára í jólasveinabúning.
Amma gaf mér pott.
Bjarni bilaði gaf mér klámmyndabók (ég VERÐ að taka það fram að þetta var eina gjöfin sem ekki gekk hringinn í fjölskyldunni fyrir aðra að skoða - langamma og afi eyddu jólunum með okkur... Um nóttina gisti litli bróðir upp í hjá mér, ég skoðaði Söguatlasinn en hann sótti sér klámmyndabókina - ég fékk margar spurningar þekka jólanótt... )
Anna Vala gaf mér bol úr Zöru.
Ofurkonan a.k.a. Anna Gréta gaf mér vöðvaslakandi baðsölt.
Fleiri gjafir voru þær einhverjar, man þær ekki í augnablikinu, gafst þú mér gjöf?

Annars er aðfangadagur alltaf aðeins meira fyrir mig. Pínu saga í kringum það. Afi minn og nafni á afmæli á aðfangadag. Þannig var að ég var skírður á þeim degi og ég hef reynt að krúnka út aukagjöf út úr foreldrum mínum, enda man maður alltaf eftir því að vera skírður á þeim degi. Það tókst á 10, 15 og 20 ára skírnarafmæli mínu. Sami siður hefur ekki gengið yfir hin systkini mín... Núna er ég með pínu samma. En í ár gaf afi mér nafnagjöf. Hann gaf mér 22 ára gamla mokkajakkann sinn - já gott fólk, jakkinn er jafn gamall mér. En hann lítur út eins og hann sé síðan í fyrra, ekki út af því að hann sé last sesion heldur út af því að það sér svo lítið á honum. Í kaupbæti fékk ég mokkahúfu í stíl en Ási, konan mín, er ekki mjög hrifinn af henni. Henni tókst meira að segja fela hana, ég finn hana vonandi aftur...

Skápasögur
Já elskurnar, núna haldið þið að þið séuð komin í feitt. Sum ykkar verða kannski vonsvikinn. Ég er búinn að vera svolítið duglegur að taka út úr skápum heima hjá mér, henda og endurraða. Eitt af því sem ég varð var við var að ég á orðið fleiri sokkapör en nærbuxnapör. Það er eiginlega þónokkuð. Einu sinni átti ég lang mest af bindum og nærbuxum. Fimmtíu stykki af hvoru var ekkert óeðlileg tala. Núna er nærbuxum eitthvað búið að fækka (þið þekkið þetta, sumt dettur úr tísku, sumt þolir ekki álag, sumt er rifið af manni (!) og annað hreinlega tekur ekki nógu vel við stærðarbreytingum). Þetta leiddi af sér áhugaverða niðurstöðu þannig að ég skipti. Núna eru nærbuxur í sokkaskúffunni og sokkar í nærbuxnaskúffunni. Við skulum bara svo vona að ég verði ekki of þreyttur þegar ég klæði mig einhvern morguninn með sokk framan á mér og nærbuxur bundnar um ökklana...

laugardagur, desember 27, 2003

Tilfinningar
Það er ekki gott að fara í heitan pott, dekra við sig, fara í fótabað, bera á sig krem, raka sig og dunda við sig. Þegar maður er farinn að líða svona vel líkamlega finnur maður hvað maður er í andlegu ójafnvægi og líður illa á sálinni. Mæli ekki með dekri í jólagjafir.

miðvikudagur, desember 24, 2003

Gleðilega hátíð
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Takk fyrir samleiðina á árinu! Njótið hátíðarinnar.

laugardagur, desember 20, 2003

Getur einhver þýtt?
Met m`n handen vang ik je
aan m`n raamwerk hang ik je
met m`n pik berijd ik je
met m`n hand bevrijd ik je
Goedemorgen Lieverd.

Geen kind
geen morgen
geen vrouw
geen zorgen
maar ook dat kan
netzogoed
andersom zijn.

föstudagur, desember 19, 2003

Bloggfrí
Hef verið einhversstaðar annars staðar en í tölvuvinnu. Mín bíða 60 emailar svörum og bloggsíður lestri. Náði að þrífa sameignina og halda morgunbrunch fyrir vinnufélagana. Kláraði bónbrúsann (þetta var 5 lítra brúsi) og því er íbúðin mín shiný, nóg að kveikja á einu ljósi og það endurkastast um alla íbúð. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þetta lítur út núna með aðventuljós og aðrar jólaseríur, það vantar bara hommatónlist og við erum komin með diskó. Annars held ég að þetta sé allt henni Siggu systur að kenna, hún kom með svona stefnu að það mætti taka sér bloggfrí. Munið eftir því?

Ætli svona blogg geti komið af stað nýrri fræðigrein? Gæti fólk skrifað í anda ákveðinnar stefnu eða stíls? Væri hægt að rannsaka þetta? Gæti fólk tekið master í bloggfræðum? Væri þetta innan félagsvísindadeildar? Hvað er maður að segja?

Bloggmisskilningur
Ég er fyrst núna að komast í það verk að skoða blogg annarra og comment á minni eigin síðu. Fólk hefur verið að saka mig um ritstuld á sögunni sem ég fékk senda í tölvupósti. Það var semsagt ekki ég sem fór í Bónus og rak við úti í bíl, enda versla ég ekki á laugardagsmorgnum í matinn, á ekki fjölskyldubíl með manninum mínum og á ekki einu sinni mann. Fyrirsögnin sem ég setti á þessa sögu var: Framtíðin mín? En þar var ég að segja og spurja ykkur í leiðinni að þetta væri eitthvað sem ég sæi mig rosalega sterkt í að gera í framtíðinni. Einhvern veginn held ég að eitthvað svona eigi eftir að henda mig, þegar það gerist, þá læt ég ykkur vita.

Annars er það furðulegt að hafa ekki lesið nein blogg, það er svona eins og að líða alla daga eins og ólærður fyrir próf. Samviskubit nagar mann upp að innan og maður sofnar með magaverki, líðandi eins og dagurinn hafi ekki verið nýttur í æsar. En boy ó boy, hef ég verið að nýta dagana, mætti einn daginn í Kringluna klukkan 17:15, keypti fimm jólagjafir og var svo mættur í vinnuna 17:50. Til þess að undirstrika kraftaverkið voru ekkert af þessum jólagjöfum fyrirfram ákveðin, þetta bara fæddist á staðnum. Keypti meira að segja gjöfina sem systkinin mín geta gefið mér í jólagjöf.

Þjónastéttin
Undanfarna daga hef ég komist að því að það er aðeins ein stétt sem er lægri en þjónastéttin. Núna haldið þið kannski að ég sé að tala um uppvaskarana, en svo er ekki. Gangstéttin er eina stéttin sem er lægri en þjónastéttin. Svo getur maður menntað sig sem slíkan, hvað er það? Undanfarna daga hef ég eytt öllum kvöldum við það að gera kvöld annarra í aðventunni ógleymanleg og skemmtileg. Stundum er það gefandi og lífsfullnægjandi, stundum ekki.

Í gærkvöldi átti ég voðalega erfitt kvöld. Ég var ekkert svo hress en reyndi að halda haus. Síðan greip konan á tíunni um úlnliðinn á mér þegar ég var að gefa henni vatn. Það var líkt og hún vildi bara vera viss um að hafa athygli mína þegar hún myndi deila úr viskubrunni sínum á næstu sekúndum. Hún snéri hausnum að mér, leit svo þungt í augun mín, tók djúpan andardrátt og sagði svo: "Þú hefur aldrei fengið ást þína endurgoldna, er það?" - Þegar þarna kom við sögu var ég svo hissa, þarna var algjörlega komið aftan að mér. En þetta var ekki búið, því hún átti eftir að bæta við um leið og hún sleppti olnboganum mínum: "Hafðu ekki áhyggjur, þú átt eftir að taka eftir því þegar það gerist." - Já, það hefði maður rétt vonað - voru þetta eitthvað nýjar fréttir hjá kerlingu? Maður myndi vona að maður yrði var við það þegar einhver elskaði mann eða endurgyldi ást manns. Kvöldið endaði vel en Svenni var svo kelinn og ágenginn. Kannski var það það sem gamla konan átti við?

Ef þetta er íslenska hefðin í stað þess að gefa þjórfé, af hverju er ég ekki hættur að þjóna?

Um helgina síðustu var mikið bókað hjá okkur. Fólk þurfti hreinlega að troða sér. Til þess að alt gengi upp þurftum við að setja ellefu manns á venjulegt átta manna borð. Þau voru vægast sagt geðveik af vonsku. Allir höfðu stóla, en ekki endilega aðgang að borði til þess að geyma glösin sín á. Einhverjir hefðu verið sárir, en hver hefði æst sig svona mikið. Ég held hreinlega að mér sýndist þessi örfáu hár sem eru eftir á höfðinu á Adda (yfirþjónninn) vera hrynja af eða stórskyndilega vera breyta um lit og verða grá. Auðvitað redduðum við þessu, Addi fann frábæra lausn. Ég sagðist myndu redda þessu ef hann færi á hnén og sygi mig eftir vakt. Ég fór hreinlega í það að rimma liðið. Það gekk vel, enda er ég atvinnumaður. Þegar þau fóru þá komu þau öll til mín, föðmuðu mig, sumir kysstu mig og þökkuðu fyrir ógleymanlegt kvöld. Samt hafði ég fengið þau til þess að sitja við borðið, borga fyrir matinn og sætta sig við það sem við höfðum áætlað þeim í upphafi. Ég þarf ekki að taka það fram að Addi fór aldrei á hnén, þótt hann hefði viljað það. Hann var svo illa rakaður, ég er með svo viðkvæma húð.

Um helgina kom líka löggan í heimsókn. Tilefnið var það að leigubílaskiltinu okkar sem stendur fyrir utan Argentínu var stolið. Löggan kom til þess að taka skýrslu. Addi var fenginn í verkið að sjálfsögðu, hann stendur þarna semsagt og talar við laganna verði um miðja nótt meðan allir hlaupa um allt að ganga frá. Ég verð að segja að klámsíðurnar hefðu getað poppað upp á öðrum tíma en akkúrat þarna. Löggan taldi sér ekki fært að þiggja kaffibolla, en hringdi svo í strákana (það sást bílnúmerið þeirra) en löggan sagði við þá (orðrétt): "Þú hefur fimm mínútur til þess að koma með skiltið hingað niður á Argentínu eða það verður gefinn út ákæra á þig og ég hringi í pabba þinn." Skiltið var þá komið í bílskúr í Breiðholtinu og löggan fór þangað að sækja strákana og skiltið. Löggan kom svo til baka með skiltið og strákana til þess að færa okkur afsökunarbeiðni.

Já það er margt búið að gerast á Argentínu.

mánudagur, desember 15, 2003

Bankadagur
Syngist með laginu "Það er Daloon dagur í dag"
Já það er bankadagur í dag. Frískandi dagur með gull í mund. Byrjaði eldsnemma við bókhaldið fyrir húsfélagið. Þvílík óreiða. Ég er bara að reikna upp öll gjöld fyrir 56 íbúðir upp á nýtt - og aftur í tímann. Fólk er bara búið að vera borga epli og appelsínur. Síðan er stigangurinn númer 18 bara ekki búinn að standa í skilum síðan í mars. Ég hef aldrei verið jafn feginn við að læra prósentureikninginn í Versló eða tölvukennsluna á Excel hjá Baldri en þegar maður lendir í svona peningaútreikningum. Eyddi um það bil tveimur tímum á netbanka húsfélagsins, skoðaði gjöld og færslur, reikna aftur í tímann og bull. Ótrúlegt hvað er búið að takast að gera ekkert hérna. Á tveimur árum er ekkert búið að leggja til hliðar eða greiða neitt almennilega niður. Peningar hafa legið á reikningum sem halda ekki einu sinni í við verðbólgu/byggingavísitölu og hafa síðan horfið hægt og rólega í rekstur því fólk stendur ekki í skilum og gjöldin eru of lág. Þetta þarf greinilega að komast í rétt horf fyrir áramót.

Síðan fór ég að taka út hjólastólaaðgengi í Árnagarði. Hitti hana Ingveldi sem er með mér í nefnd. Ég var korteri of seinn því ég hafði gleymt mér yfir útreikningi fyrir húsfélagið. Hún var ekki sátt. Síðan þurfti ég að hlaupa upp á SHÍ til þess að sækja mér tommustokk. Ég og Ingveldur vorum ekki lengi að þessu. Vantaði bara smákökur og malt til þess að fullkomna jólaskapið hjá okkur. Frekar fyndið samt að vera mæla fleti, lyftuna, handrið og stigana á meðan Árnagarður var fullur af fólki í prófum. Það var eins og við værum ekki í takt við nokkurn hlut.

Næst fór ég til Hauks í Landsbankanum, Unaðsfulltrúinn minn í bankanum. Ég hef allavega aldrei verið spurður áður af þjónustufulltrúanum mínum hvort ég sé topp eða bottom. Hélt að þessi dagur myndi ekki koma. Heimur fer bestnandi gott fólk. Skaust svo til þess að hitta mömmu og Völu á KFC. Þar nýtti ég tækifærið til þess að prófa nýja jeppann. Mamma vildi ekki skipta um bíl. Mömmu tókst samt að gera uppákomu á KFC. Hún missti bakann með öllu gosinu okkar á buxurnar sínar og skó. Við þurftum því að láta skúra gólfin upp á nýtt og gefa okkur nýtt gos. Mamma er nú alltaf jákvæð og hamingjusöm. Auðvitað sá hún björtu hliðarnar, hún þyrfti líklega að kaupa sér nýja skó og buxur...

Amma mín er á spítala. Það er ótrúlega skemmtilegt, ég ætla að segja frá því næst. Núna ætla ég að heimsækja hana, kaupa hækjur, fara í Kringluna og vinna svo í kvöld.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Áhugamálið mitt og annarra
Hingað ættu allir að fara. Takk fyrir það.

miðvikudagur, desember 10, 2003

Stigagangurinn - alveg að gera sig
Jæja við drifum í því í kvöld, ég og Dóra (yndisleg gömul kona sem á heima á móti mér) að kalla til fundar í stigaganginum, enda ekki haldinn fundur þar í heilt ár. Furðulegt. Ég veit. Fundurinn var bráðskemmtilegur. Dóra hellti upp á Mokkakaffi og bauð upp á Nóakonfekt. Ég upplifði jólastemninguna í fyrsta skipti núna fyrir jólin. Það var greinilega ekki lengra að sækja þau en yfir til Dóru.

Á fundinum var margt nauðsynlegt rætt, fjármál og fleira. Þetta var svo bráðskemmtilegur fundur að það var ákveðið að hittast oftar. Við ákváðum meira að segja að gera okkur lítið fyrir og kaupa nýjan dyrasíma fyrir alla og það yrði sett upp næsta sumar, peningar; það var ekkert mál. Svo var ákveðið að kaupa þrif á sameigninni og hún þrifin að lágmarki einu sinni í viku, peningar; það var ekkert mál. Síðan gerði ég athugasemd við það að hússjóður stigagangsins hafði staðið í rosalega háum yfirdrætti og hvort við ættum ekki að búa til niðugreiðsluplan; peningar; skyndilega var ekkert svoleiðis til. Ekki samþykkt. Núna munu húsgjöld hækka um 3000 krónur til þess að geta greitt alla vextina og auka útgjöldin. Gáfulegt, nei, en Heppin.h

Þegar ég kom heim var ég kominn í algjöra jólastemningu eins og áður sagði. Ég gat ekki setið á mér að tæma eitt herbergi og bóna það. Núna á ég bara eftir að bóna eldhúsið og þvottahúsið. Á morgun ætla ég að læra. ÉG skal lofa að næsta blogg verður ekki húsmæðrablogg.

Framtíðin mín?
Einu sinni var ég á einhverju heilsufæði sem samanstóð af alls konar baunum...og aukaverkanir af því voru þær að vindgangurinn var rosalegur og hrikalega illa lyktandi...ætla ekki að lýsa honum hér..læt ykkur um að ímynda ykkur þann fnyk!!!

En hvað um það.. á laugardagsmorgni þarf ég að bregða mér í Bónus.. kallinn vildi bara bíða í bílnum þar sem ég þurfti ekki að gera nein stórinnkaup. En röðin var rosalega löng og ég þurfti að bíða lengi lengi.. og mér var mál að leysa vind. En auðvitað gerir maður það ekki í röð í Bónus.. svo ég hélt enn fastar í mér.. og var gjörsamlega orðin viðþolslaus þegar það var loksins komið að mér.. hrúgaði vörum í pokann og nánast henti peningunum í kassadömuna. Hljóp svo út eins hratt og ég komst..hentist inn í bílinn hjá kallinum mínum.. og prumpaði og prumpaði og gaf svo frá mér feginsandvarp og sagði hátt.. AHHHH.. ÞETTA VAR GOTT.. um leið og ég snéri mér að kallinum mínum til að útskýra þrautagöngu mína í Bónus. People!.. ég hélt að það myndi líða yfir mig.. þegar ég leit á hann og sá að ég var í vitlausum bíl.. og maðurinn sem sat við stýurið var ekki maðurinn minn.. heldur einhver allt annar kall sem var greinilega að kafna úr skítafílu OG HAMAÐIST VIÐ AÐ SKRÚFA NIÐUR RÚÐUNA SÍN MEGIN.

Ég hélt ég myndi deyja.. tautaði einhver afsökunarorð.. og tróðst svo bara út úr bílnum.. og aumingja maðurinn sagði ekki orð.. var líklega alveg að kafna og greinilega skíthræddur við þennan ruglaða prumpustamp.

þriðjudagur, desember 09, 2003

Hissa?

Find your inner Smurf!

mánudagur, desember 08, 2003

Lærdómur í skítugu húsi
Já núna er bara eitt forgansmál. Ég mæti ekki einu sinni á Argentínuna. Hvað er þá að? Júbbs það eru próf, þau eru búin á föstudaginn. Það bjargaði deginum að fara með Völu systur á McDonalds. Takk Vala! Talaði svo áðan við Siggu systir á MSN, hún var á Hressó með fartölvuna sína að læra fyrr sálfræðipróf á morgun. Héðinn var með góða frétt í kvöld, ég bara gapti. Þórir hefur ekkert bloggað, hann er líklega að læra líka, tók einhver vinnuna hjá honum? Fór út að borða á Argentínu í gærkvöldi með Ingva og Karen. Það var hræðilega gaman. Síðan fór ég á Ölstofuna til þess að hitta starfsfólk Vegamóta, en þau voru líka að borða á Argentínu. Kvöldið var hryllilega gott í unaðslegum félagsskap. Drakk samt einum bjór of mikið á Ölstofunni. Aldrei þessu vant er ég búinn að finna jólagjöfina handa foreldrum mínum, guð forðaði mér frá því að finna gjöf handa kærastanum.

laugardagur, desember 06, 2003

Í háttinn klukkan átta
að vísu ekki í faðmi fjölskyldunnar en í háttinn var það samt, um laugardagsmorguninn. Lauk vinnu þegar nokkuð var liðið af nýjum degi. Kom heim og fann mig ekki alveg til þess að fara sofa strax. Horfði á tvær stuttmyndir fyrir HinBio, affrysti frystiskápinn minn, skúraði þvottahúsið, las tvo kafla í Félagsfræði og tók aðeins til. Þá var klukkan orðin átta, hlustaði á morgunfréttir í útvarpi allra landsmanna. Vaknaði svo loksins um hádegi, eftir smá stríð við augnlokin en Broddi Broddason sagði mér það helsta um leið og ég dró fæturna fram úr rúminu. Þá var ráðist í það verkefni að raða upp á nýtt í frystiskápinn. Það var eitthvað sem var alveg kærkomið til þess að vekja mig. Ég stóð semsagt úti á svölum (þar sem ég hafði sett allar frystivörurnar úr frystiskápnum) á nærbuxunum í mokkasíum í rigningunni að flokka frystivörurnar - oj boy var ég í stuði. Þetta var alveg að bjarga svefnlausa deginum mínum. Í frystiskápnum mínum eru fjögur hólf. Eitt hólf hafði ég fyrir brauð, annað fyrir heimaslátrað, eitt fyrir keypt kjöt og það þriðja fyrir fisk og rækjur. Splendid. Síðan get ég notað frystihólfið í ísskápnum bara fyrir ís og heimabakað núna. Ég er svo hrifinn af eigin smekk að ég fæ svima.

föstudagur, desember 05, 2003

Lesbíska átveislan
Í gærkvöldi var sko tekið á því. Eftir mikinn og langan lestur kom Jóhanna í heimsókn. Við elduðum okkur pulsur, ræddum lífsnauðsynjar og fleira. Eftir að hafa borðað 6 pulsur og djúsþykkni hélt ég áfram að lesa. Seinna um kvöldið kom Guðrún Yfirtrukkur í heimsókn. Það er langt síðan ég sá hana. Það var bara rosalega gaman hjá okkur, get ekki sagt annað. Síðan kom eitthvað yfir mig sem ég get ekki lýst. Ég fékk einhverja lotugræðgi. Varð hreinlega að éta allt. Borðaði kex, pantaði síðan pizzu, opnaði snakkpoka, smurði hafrakex, kók, mjólk, kakó og fleira. Inn á milli gúffaði ég í mig súkkulað. Síðan þegar Guðrún yfirgaf mig þá stefndi ég í háttinn. Ég gat ekki sofnað út af hungurverkjum. Fór þess vegna fram úr til þess að búa mér til vöfflur, þeytti rjóma og skellti sultu líka á. Þetta var alveg heavy magnað. Sofnaði svo loksins. Var samt að vakna í alla nótt og morgun með þá mestu magaverki sem ég hef nokkurn tímann fengið. Ég hélt á tímabili að botnlanginn hafði sprungið. Þið sem þekkið mig vitið að það þarf eitthvað að ganga á til þess að ég láti trufla svefninn minn...

fimmtudagur, desember 04, 2003

Brandari frá vínberinu
Jón verkfræðingur deyr og fer auðvitað upp til himna eins og allir verkfræðingar. Þegar þangað kemur leitar Pétur í nafnalistanum og segir svo: "Þvímiður Jón minn, þú ert ekki ekki á listanum. Þú verður að fara niður".

"En en, ég er verkfræðingur..."

"Já sorrí, en þú ert ekki á listanum !".

Þannig að Jón er sendur niður til helvítis.

Mánuði síðar er Guð að fara yfir nafnalistana og sér að þau mistök hafa átt sér stað að Jón verkfræðingur hafi óvart verið sendur til helvítis. Hann bjallar í Satan og biður hann um að skila nú Jóni. Satan segir strax, "Ekki séns, þú færð Jón sko ekki aftur, þín mistök."

Guð er ekki sáttur og segir, "Láttu ekki svona, Jón er verkfræðingur, hann á heima á himnum með hinum og þú veist það".

Þá var Satan mikið niðri fyrir og sagði "Sko, áður en Jón kom var ógeðslega heitt hérna, það var hraunstraumur hér um allt og brennisteinsfnykur og viðbjóður. Jón breytti þessu öllu. Núna erum við komin með loftræstingu, brýr, vegakerfi, flóðvarnagarða og ég veit ekki hvað og hvað, allt hannað af honum.Þetta er orðið helvíti næs hérna hjá okkur. Það er ekki séns að þú fáir hann".

"Sko Satan, þú lætur mig fá hann aftur, eða ég fer í mál við þig !"

"Já er það, og hvar þykist þú ætla að fá lögfræðinga..."

Yfirheyrsla
Ég var yfirheyrður af Politica. Yfirheyrsluna má nálgast hér.

Haukur Agnars
Hversu marga bræður á Tjaldurinn eiginlega? Undanfarna sjö daga hef ég hitt svona sjötíu tvífara hans. Einn þeirra slysaðist svo til þess að koma út að borða á Argentínu. Ég var ekki lengi að vippa mér að borðinu hans og spurði hann með svona casual rödd: "Ekki ert þú Agnarsson" - hló svo pínu að sjálfum mér (ég var svo viss).

Leiðinlegt að fá nei við þeirri spurningu, sérstaklega þegar hann var á svona rómó dinner kvöldi með því sem ég geri ráð fyrir að hafi verið kærastan hans. Þess vegna vona ég að Haukur segji mér hversu marga myndarlega bræður hann eigi, hvort hann eigi einhvern af þessum sjötíu myndarlegu strákum sem hafa verið alls staðar að þvælast fyrir mér.

miðvikudagur, desember 03, 2003

Siddý
Hún er kjarnakona. Hún er líka að vinna með mér á Argentínu. Þar er samansafn úrvalaliðs. Ég og stelpurnar erum fólkið sem höfum fengið gáfur og hlédrægni í vöggugjöf, en strákarnir hafa allir fengið þá vöggugjöf að vera umlyktir kynþokka og vilja deila honum sem mest með mér. En mig langaði samt mest að tala meira um Siddý. Hún er svo svöl. Þegar hún verður þreytt, og þetta hef ég sagt ykkur áður, þá talar hún íslensku með sænskri setningaskipan. Það getur verið ansi skemmtilegt.

Siddý hefur búið í Svíþjóð frá því hún var fjögurra ára og hefur síðan þá ekki fengið að fá íslenskan ríkisborgararétt. Furðulegt hvað við getum verið hert og leiðinleg. Hún segjist vera í ansi erfiðri klemmu. Öll fjölskyldan hennar býr á Íslandi en vinirnir og kunningarnir búa allir í Gautaborg. Það er ekki gaman að vera ferðamaður eða í heimsókn í sínu eigin föðurlandi. Til þess að eignast íslenskan ríkisborgararétt þarf hún að gefa þann sænska frá sér og það getur hún ekki gert og vill ekki, því að Svíþjóð hefur tekið vel á móti henni og alið hana upp.

Siddý var núna í haust í Gautaborg að verja mastersritgerðina sína sem fjallar um alþjóða þróunaraðstoð. Við erum búin að eyða miklum tíma í að ræða hana og hvað henni finnst. Hún er með ansi skemmtilegar og þungar skoðanir á málunum í heiminum, stöðu Íslands og almenna þróunaraðstoð. Ritgerðin hennar hefur vakið verðskuldaða athygli. Að komast í viskubrunn svona gáfaðrar manneskju er ótrúlega gott fyrir heilann, staða Íslands í heiminum, Evrópusambandið, NATÓ, Bandaríkin, hernaður, varnarlið, staða Norðurlanda og allt þetta - hefur hún skoðun á og við erum búin að ræða það.

Mikið er ég samt lengi að koma mér að efninu. Öll þessi umræða fékk mig til þess að hafa mikinn áhuga á ÞSSÍ sem er Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Síðan þegar ég hitti Siggu systir einn daginn var hún að skila inn verkefni í skólanum einmitt um ÞSSÍ. Ég var ekki lengi að sperra upp eyrun, vildi fá að lesa, bæði það sem hún skrifaði og heimildirnar hennar.

Lesturinn
og núna er lestrinum loksins lokið, en ég kláraði að lesa smárit sem ÞSSÍ hefur gefið út um þau lönd sem Ísland veitir þróunarhjálp. Fyrst las ég um Malaví, þá um Namibía, Mósambík og að lokum Úganda. Úganda var eiginlega mesta sjokkið, hitt voru bara svona týpiskar afrískar sögur. En í Úganda er fjölbreytilegt landslag, menning og fólk. Ríkið veitir ekki sömu þjónustu um allt land, eins og á Íslandi. Lengi vel var land innan landsins sem hét Búganda og það stjórnaði allri Úganda, eftir að þau fengu sjálfstæði frá Bretum. Það yrði svona svipað eins og ef Akureyringar stjórnuðu öllu Íslandi, af því að þeir væru Akureyringar. Það sjá allir að það yrði ekki gott - sérstaklega þar sem Akureyringar kunn það eitt fag að vera fallegir. Maður stjórnar ekki landinu með fegurð einni saman.

Þegar ég hélt að sjokkið væri búið las ég um LRA sem er uppreisnarsamtök sem eru að mestu í norðurhluta landsins. Þessi samtök eru enn við lýði í landinu en þau halda sér gangandi með því að ræna börnum, drepa foreldra þeirra og ef börnin flýja eru þau elt uppi og hin börnin látin drepa þau eð því að lemja sveðju í hausinn á þeim sem flúði. Ef börnin neita að drepa þann sem flúði þá eru þau sjálf drepinn. Þannig halda samtökin uppi aga og enginn þorir að flýja. Foreldrarnir eru drepnir til þess að börnin geta ekki flúið til þeirra. Vegna LRA er ríkisvaldið mjög veikt í norðurhlutanum og þar er litla skóla og heilsugæslu að finna.

Hefur einhver efast um það að nauðsynlegt er að hjálpa þjóðum sem búa við svona lagað? Ég treysti allavega henni Siddý nokkuð vel til þess að takast á við eitthvað svona. Hún er svo mikill trukkur blessuninin. En hún ætlar fyrst til Afganistan, kannski hún geri eitthvað sniðugt þar fyrst.

Sæti strákur: Reyndu við mig aftur!
Tilkynning til sæta stráksins sem reyndi við mig í búningsklefanum eftir æfingu. Þegar þú gefur þig á tal við mig næst, skal ég ekki hlaupa undan með handklæðið og hlaupa inn í sturtuna - í sokkunum. Síðan þegar ég er búinn að standa skjálfandi í sturtunni í 20 mínútur máttu gjarnan bíða eftir mér, ekki fara. Ég er bara svona furðulegur.

Næst - skal ég ekki beila.

Svala Björgvins
Skondið, ég er að fylgjast með viðtali við Björgvin Halldórs og dóttur hans Svölu Björgvins. Blessuð stúlkan ber alveg háralitinn sinn með réttu. Hún var spurð af hverju henni hefði verið líkt við Cristínu Agulera og aðrar slíkar stúlkur, var meira að segja spurð á penan hátt hvort að hún væri að reyna stæla þær. Hún sagði bara á sinn barnalega og einfalda hátt: Æi, ég veit það ekki, kannski af því að það er bæði sungið og dansað í mínum myndböndum.

Dö stelpa! Er ekki sungið og dansað í öllum myndböndum? Þú svaraðir ekki spurningunni! Enda fannst pabba hennar nauðsynlegt að bæta við svarið hennar og bjarga heiðri dótturinnar. Ekki skrítið að hún hafi ekki meikað það þarna. Ef ég lít snöggt í kringum mig þekki ég fólk sem myndi bjarga sér betur úti í heimi við að selja ávexti eða tölvuvírusa.

Svala Björgvins - ekki svo svöl

þriðjudagur, desember 02, 2003

Pönnustaða
Þegar ég vaknaði í morgun fór ég allt í einu að hugsa, kannski hugsaði ég of mikið. Allavega var göngutúrinn í morgunn það snúinn að ég villtist í hverfinu mínu. Áttaði mig allt í einu á því að síðan Pannan var stofnuð þá hef ég aldrei haft hana. Allir aðrir Pönnumeðlimir hafa haft Pönnuna, sumir hafa meira segja haft hana oftar en aðrir. Kannski er maður í vitlausum vinahóp. HAHAHA. Það ríkir allavegana HÖRÐ samkeppni hjá þeim. Ég veiti þeim litla samkeppni.