föstudagur, febrúar 24, 2006

Háskólaeiningar
Ég er ekki nýbyrjaður í Háskólanum, en ég virðist vera nýbyrjaður að kynnast náminu. Allavega náminu sem er stórfurðulegt. Ég er búinn að eyða núna heilum morgni í að sitja í kennslustund í Word. Við erum búin að búa til töflur, fyrirsagnir og efnisyfirlit. En hér er skyldumæting eins og þegar ég var í Versló, nema að kennslan var um það bil átta sinnum betri (þó að kennarinn væri bara einn) og námsefnið var meira en sautjan sinnum kröfuharðara og lærdómsfyllra.

Var fullur í gær. Vel fullur. Við vorum að undirbúa námsferð til Brussel. Hef aldrei áður fengið einingar fyrir að drekka bjór. Fórum yfir belgíska menningu, hefðir og hvernig við högum okkur þar. Belgar leggja víst mikla áherslu á að drekka allan bjór úr réttu glasi. Rétt að muna það, svo bara að hafa vegabréf og engar gallabuxur inn í NATÓ, ESB, EFTA og það allt saman. Held ég ætti að geta munað þetta.

Annars hafði ég samband við Versló um daginn. Fannst það skrítið að ég fengi aldrei nein boð í þessi afmælisreunion eða væri boðin áskrift að Verslunarskólablaðinu eða annað því um líkt. Svarið sem ég fékk var eftirfarandi: "Því miður Guðlaugur virðist vera að þú sért ekki skráður fyrrverandi nemandi í Versló, gæti verið að þú hafir ekki lokið námi?" - eee... ég ætla rétt að vona ekki, því annars mætti ég nú líklega ekki vera að læra í þessu háskólanámi...

Kannski drakk ég ekki nóg í Versló?

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Magnaðir vinir
Ég á svo magnaða vini, vini sem láta svo marga drauma rætast. Margir vina minna hvetja mann áfram til þess að ná markmiðum sínum, gera það skemmtilega í lífinu og lifa því. Ég á einn hollenskan vin sem er þannig. Hann fer til Boston í næstu viku með fyrrverandi kærastanum sínum að heimsækja móðurfjölskylduna sína, stoppar stutt í Keflavík og á þessum hálftíma ætlum við að ná einum Kaffitárbolla í Keflavík - alveg eins og síðast.

Núna ætlar hann hinsvegar að stoppa í viku á leiðinni heim. Við ætlum meðal annars til Akureyrar, í mat til mömmu, í Bláa Lónið og gullna hringinn. Held að við göngum ekki á nein fjöll samt.

Svo er ég að fara í námsferð til Brussels í mars, tveimur vikum eftir að ég kveð þennan vin minn. Auðvitað langar mig að fá sem mest út úr þessari viku í Brussel og hef því verið að skoða vefsíður og athuga hvað ég ætti að gera. Allur hópurinn vill endilega fara saman í "gay sauna" en því miður varð ég að hryggja þau með því að ég get ekki verið leiðsögumaður á slíka staði þar sem ég er alveg blautur á bak við eyrun á svo skítugum stöðum.

Við lendum á laugardegi í Amsterdam og tökum rútu til Brussel. Það er hinsvegar ekki fyrr en á mánudagsmorgni sem að NATÓ tekur á móti okkur og allar þessar stofnanir sem í BeNeLux löndunum eru. Heil vika af stofnunum, matarboðum, kokteilum og ferðum. Tvær einingar í háskólanámi. Það er því þarna eitt laugardagskvöld og heill sunnudagur sem engin dagskrá er.

Vinur minn er sniðugur, hann var að kaupa sér bíl. Hann vill endilega prófa þennan yndislega sportbíl sem hann var að kaupa. Því stakk hann upp á því að við færum til Parísar um leið og ég lenti í Amsterdam og værum þar eina nótt hjá vini hans. Tækjum svo sunnudag í París að skoða Eiffelturn, kaffihús, stráka, söfn og slíkt áður en við förum seinnipartinn af stað til Brussels og ég get farið að njóta þessara tveggja háskólaeininga í boði áfengis og frís matar (ásamt fyrirlestrum).

En hann stakk líka upp á Köln, því þar á hann líka vin sem við getum gist hjá og hommadjammið er ekkert síðra þar (jafnvel sniðugra þar sem ég tala skít í þýsku en þoli ekki frönsku). Köln er jafnvel líka sniðug því að Köln er ekki borg sem maður bara skreppur til einn daginn, en þannig er París.

Því er ég í valkvíða, einmitt þegar ég á að vera lesa handbókina um NATÓ og það tekur alla einbeitinguna mína frá því. Hjálp.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

I will think about you
Voru skilaboðin sem voru mynduð með seglum á ísskápnum mínum eftir að ég kom heim á þriðjudaginn. Ólöf er flutt og Sambýlið er dáið. Síðasta stundin okkar var á Kaffitári, svo keyrði ég hana smá spöl. Hún gekk upp Frakkastíginn og ég held að hún hafi grátið. Ég þurfti að stoppa í næsta bílastæði því ég var kominn með svo mikið af krókódílum í augun. Einhvern veginn hefur þetta vofað yfir sambýlinu okkar, að hún væri að flytja til Ástralíu en svo kom að raunveruleikanum.


Sambýlið að Hringbraut er saklaust um margt, en við erum svo sek fyrir að hafa:

Farið í heimsókn í sveitina til foreldra minna á góðum sunnudegi þegar kýrnar voru úti í haga, við heyrðum í ánni, mamma mín grillaði og við keyrðum um allan Þjórsárdalinn.

Fórum með Héðinn í óvissuferð upp að Glym í Hvalfirði, þar sem við óðum á, töluðum um það stundarbrjálæði sem kviknar í hverjum haus þegar fólk langar til dæmis að stinga sér niður með vatninu. Deginum lauk í sundi eftir að við höfðum fundið okkur laut, grillað pulsur, hamborgara og buff en lukum máltíðinni á grilluðum ferskum ananas, niðurskornum með bráðnuðu rjómasukkulaði í massavís... Þornaður ananassafi fannst niður á geirvörtur á okkur öllum. Áður en við lögðum af stað í borgina sofnuðum við í smástund í kjarrinu (rétt eftir slökkvistörf) undir heitri júlísólinni.

Við færðum hvort öðru afmælismat í rúmið. Ólöf kom með kerti á hjartabakka handa mér, ásamt niðurskornu rúnstykki og grænmeti, kaffi og ávaxtasafa. Þegar hún átti afmæli kom ég með ávaxtasafa og vítamín - dró hana svo með mér á Kaffitár.

Við héldum líka 90 manna partý á síðustu nótt ársins, vel heppnað og einungis einu glasi fórnað.

Við erum sek fyrir að elska blöndun: DVD og púrtvín. Samt var einungis ein flaska drukkin á þessu sambýli. En mikið var horft á 24, Queer as folk og Sex and the city. Hommarnir og Jack Bauer fengu stöðugt meiri prik en Carrie er ekki vinkona okkar lengur - okkur þykir hún væla svo mikið.

Eitt kvöldið héldum við upp á sambýlið, fórum í okkar fínasta púss, út að borða (borðuðum meðal annars rándýra ostsneið á B5) og svo í leikhús að sjá Edith Piaf.

Heila helgi eyddum við saman á breskri grundu, nánar tiltekið í Manchester og Notting Hill. Í Manchester drukkum við áfenga drykki og borðuðum mat með Héðni. Í Notthing Hill skoðuðum við inn um glugga á flottum húsum, keyptum okkur að borða, töluðum við ríkt fólk og fundum flottasta húsið á svæðinu.

Ólöf skrapp til Kýpur og þar datt henni í hug að kíkja til Egyptalands. Sniðug stelpa. Á meðan var vont veður á Íslandi.

Alltaf á slaginu 23:25 datt okkur í hug að leigja videó eða kaupa ís. Yfirleitt náðum við að komast út í búð áður en búðinni lokaði - en oftar en ekki náðum við því ekki. Þá er gott að eiga nóg af púrti og fullt af DVD.

Einn sameiginlegan þynnkudag fórum við á "Töfrateppið" en það felur í sér að kaupa hamborgara, sjeik og franskar á Hamborgarabúllunni, 12 tommu Subway ásamt samloku og frönskum í BSÍ. Þetta er allt tekið heim og borðað á útbreiddu teppi á miðju stofugólfuni á meðan horft er á bandaríska framhaldsþætti.

Sigurlaug vinkona okkar sem býr á móti okkur í blokkinni er besta vinkona okkar, við vorum í reglulegri njósnastarfsemi um hana, skráðum niður fólk sem kom, bílnúmer og fleira.

Gengum upp á Keili ásamt hressa útivistarvini okkar, Héðni. Þar á eftir fórum við í Bláa Lónið og ég var sakaður um að vera duglegur að veiða sæta stráka til þess að spjalla við okkur.

Ólöf fór með mig í minn fyrsta tengdaforeldradinnar (mat heim til foreldra hennar) og það er ómetanleg fyrsta reynsla. Ég get aldrei verið hræddur við tengdaforeldra eftir þetta.

Heima hjá okkur var líka búinn til 40 lítra mjólkurgrautur sem síðan var étinn á Ægisíðu. Já við vorum dugleg að elda... Ýmist var þetta í ökla eða eyra. Ólöf, takk fyrir gott sambýli. Ég hlakka til þess að hitta þig í Ástralíu, milli jóla og nýárs.