þriðjudagur, maí 23, 2006


Robbie rændur
Það gerðist um miðja síðustu viku að lífsförunaut mínum til margra ára var stolið. Það var líka ekkert venjulegt rán. Háöldruð miðaldra kona sem hefur selt meira en sálu sína dröslaði sér inn í Verslun Guðsteins þar sem hún fékk að hringja. Þegar ég hafði lokið afgreiðslu á myndarlega manninum þá ætlaði ég að gera mig líklegan til þess að senda skilaboð. Ég fékk skyndilega svo kaldan svita yfir mig allan; Nokia 3510i-eitthvað símanum mínum hafði verið stolið og það sem verra var; berrassaði Robbie minn á bakhliðinni (sjá mynd) var stolið með! Ég varð svo hissa og pínulítið reiður að ég fann hana hvergi þó að ég hafði hlaupið upp og niður Laugarveginn í lengri tíma. Lögreglan sagði mér að gleyma símanum, en Kristján (lögreglan sem svaraði) var ekki að skilja að mér væri sama þó að dópistinn hirti símann, ég vildi bara fá Robbie aftur!

Ég og Robbie erum búnir að vera saman núna í nærri fjögur ár. Þetta hefði orðið fjórða sumarið okkar saman. Ég kynntist honum á útimarkaði í Boscome í suður-Englandi þegar ég svaf í risíbúð sem Vala systir mín leigði af dópistanum í kjallaranum og leigði ásamt finnskri stelpu. Ég á ennþá snældu af bröndurunum sem við sögðum alla nóttina og hún kenndi okkur finnsku eins og við hefðum aldrei vitað neitt áhugaverðara.

Það er bara svo erfitt að segja bless, en í staðinn verð ég bara að þakka fyrir allar góðar minningar sem ég átti með Robbie, ég var nefnilega mjög stoltur af honum og duglegur að sveifla honum hvert sem ég fór. Syðst fór hann til Spánar, vestast fór hann til Helsinki, nyrst fór hann til Húsavíkur og austast fór hann til San Fransisco.

Ég var svo reiður þegar ég fór upp í Kringlu seinna um daginn að þessi kerlingarbeygla má bara vera heppin að hafa ekki verið að ganga meðfram vegunum sem lágu upp í Kringlu. Það er ljótt að segja það en samt mun verra að hugsa um það að hefði ég séð hana, hefði ég látið vaða.

Ég hef því tekið saman við Samsung E340E og við auglýsum eftir öðru fólki og símum þeirra sem vilja skiptast við okkur á símanúmerum, því Robbie tók allt með sér þegar hann skildi við. Við erum tilbúnir að vera duglegir að senda sms og hringjast á, komi eitthvert símapar sig í samband við okkur í síma 6988998.

En rekist þið á Robbie, þá mun Toyotan ekki þurfa að aka niður einn bæjarrónann, komi þið honum til mín.

miðvikudagur, maí 17, 2006


Feit flugfreyja
Hefur þú séð einhvern hlaupa nýlega í Vesturbænum, með hvítt der, gömlum hlaupaskóm og í þröngum, bleikum VANILLA ICE bol? Var kannski heitt og sólríkt? Eða var viðkomandi að hlaupa hringinn í kringum Tjörnina þegar fyrstu ferðir Strætós bs. fóru í morgunsárið? Varst þú kannski einn af þeim sem góndu þegar gula drossían þaut framhjá, í sinni fyrstu ferð sinni þann daginn? Eða varstu sofandi utan í glugganum, með greinilegt koddafar á hinum vanganum?

Það er mjög líklegt að þetta var ég. Núna er liðin vika síðan ég fékk einkennisbúninginn minn frá síðasta sumri aftur og ef ég hætti að hlaupa, kemst ég ekki í hann í næstu viku þegar ég á mitt fyrsta flug.

Þannig að það má endilega flauta á mig þegar þið keyrið framhjá mér, hvetjið mig.

Þessi flugfreyja verður ekki sú sem kom feit undan vetri og þurfti á nýju setti af vinnufötum að halda. Það er nóg að hún krafðist þess að fá nýtt par af leðurhönskum uppi í flugdeild Icelandair þegar hún sótti búninginn.

þriðjudagur, maí 09, 2006


Hún hallaði bara örlítið
kransakakan sem ég bjó til fyrir fermingu litlu systur minnar. Blátt var þemað og þótti ekki við hæfu í stúlkufermingu í mörgum blómabúðum og öðrum álitsstöðum. Ég var samt ekki sá sem mætti með köku áletraða eldri systurinni og gjöf sam var merkt yngri bróður mínum. En þetta var hin fínasta skemmtun. Heill dagur fór í skemmtanahöld heima hjá mér en dagurinn byrjaði í hárgreiðslu hjá Sæunni, eldsnemma. Þegar búið var að ferma krakkann og fólk var byrjað að safnast saman var boðið upp á fimmtán lambalæri að hætti Sigrúnar frænku minnar á Kotlaugum ásamt miklu meðlæti og sjálfsögðu gráðostasósu. Fékk mér þrisvar. Og aukaskammt af brúnuðum kartöflum.

Veit einhver hvað þarf mikið af brúnuðum kartöflum í tvær meðalstórar ættir og vinahjörð, rúmlega hundrað manns? Það eru margar kartöflur get ég sagt ykkur...

Ég skemmti mér mjög vel í veislunni, enda löngu hættur að nenna því að láta mér leiðast svona samkomur. Við vorum ekki byrjuð að borða þegar ég dró systur ömmu minnar með mér í hókípókí uppi á þriðju hæð og braut þar allan ís og reif upp stemningu. En það var bara byrjunin, því ég krafðist þess að fólk myndi safnast saman og klappa fyrir mér þegar ég gengi inn með kransakökuna á eftirréttarborðið. Þá safnaði ég fólki saman í myndatöku og reif meðal annars nokkrar konur í upphlut saman í myndatöku.


En þó að ég hafi látið eins og fífl náði ég líka að vera rólegur og spjalla smá við fólkið. Meðal annars sagði frændi minn skemmtilega frá því þegar hann kom til fyrsta skipti til Reykjavíkur og var þá að vinna við einhverja sjómennsku, en fékk að gista í hegningarhúsinu á nóttunni. Yfirleitt svaf hann þar uppi á lofti en stundum í klefa sem var laus.

Svo er fólk að kvarta undan húsnæðisleysi í Reykjavík? Það ætti frekar að kvarta undan of háum kröfum nú til dags...

Svo var það presturinn sem sagði mér að hann hafi fengið ákveðna vitrun þegar ég gekk til spurninga hjá honum, en það var í fyrsta skipti sem hann sá einhvern njóta þess að mæta í fermingartíma og hann sannfærðist um að það væri skemmtilegt þegar ég ásamt foreldrum mínum létum eins og fífl, hlógum og leystum saman þau verkefni sem okkur voru ætluð á foreldrakvöldinu.

Annars er klukkan orðin sultumargt og löngu farið að birta af degi. Lærdómi í dag er lokið og svefn í Höllinni að Hringbrautinni er að fara byrja.

þriðjudagur, maí 02, 2006


Sulturólegur
Er orð sem lýsir mér vel núna. Það er hánótt og það er farið að birta. Sambýlingurinn minn hefur tekið nokkur köstin og það síðasta var þegar tölvan hennar lést, tímabundið. Omnibookinn minn virkar enn ágætlega þrátt fyrir að hafa þjónað mér frá 2001 og þjónað mér jafnt erlendis sem upp í Þjóðveldisbæ.

En rólegheitin mín stafa af öðrum hlutum, þessa stundina. Það er nefnilega á morgun sem ég fer í próf í kenningum. Kenningar eru snúið fag því að þar er allt svo opið og mjög hættulegt að búa til nokkur dæmi um kenningasmíðina, því slíkt er náttúrulega svo heftandi fyrir kenninguna. Ég vissi það til dæmis ekki fyrir viku síðan að stofnanakenningin er upphaf stjórnmálafræðinnar og að í raun má segja að skynsemiskenningin skýri flest allar þær ákvarðanir sem einstaklingarnir taki. Þannig get ég til dæmis sagt, án þess að hefta kenningarnar með dæmunum, að hinar óformlegu stofnanir samfélagsins líkt og stjórnarskráin hefur haft mikil áhrif enda er um að ræða sterkar reglur samfélagsins. Skynsemishyggjan skýrir hinsvegar þá hegðun okkar að við endurvinnum ekki ruslið okkar, því það er ekki hámarkandi hagnaður okkar í dag - þó að við höfum fulla vitneskju um að án endurvinnslu sköðum við umhverfið okkar og erum að skaða samfélagið í heild sinni. En okkur er alveg sama.

Þetta vissi ég ekki fyrir viku síðan, ekki svona vel...

Annars veit ég ekki hvort að það megi leita skýringa hjá atferlishyggjunni, femínsimanum eða túlkunarkenningunum hvers vegna ég þurfi eftir 12 tíma að mæta í 3 tíma kenningapróf, skila rannsóknarskýrslu um þátttöku kvenna í sveitarstjórnarmálum í ljósi komandi sveitarstjórnarkosninga, skila úttekt um opinbera stefnumótun íslenskra stjórnvalda í umferðarlöggæslu og utan þess að vera tilbúinn að skella fram einni ritgerð þar sem ég ber allar kenningarnar saman.

Hefði ég valið guðfræði eða dönsku, hefði þetta þá verið verkleg eða munnleg próf? Á ég að prófa enn eina deild Háskólans?

mánudagur, maí 01, 2006

Já ég veit, ég á að vera læra...

Guy Undertaking Lustful Loving and Indulgence


Próf og ritgerðir
Síðustu dagar hef ég legið ofan í svo skemmtilegum bókum, bókum sem ég vissi ekki að væru svona skemmtilegar. Þær eru allar til prófs á næstu dögum. Ég á greinilega ekki að dæma námsefni út frá heiti eða kiljunni. Ljótustu bækurnar og þykkustu eru hreinlega skemmtilegastar.

Og ef þið haldið að ég sé í Pollýönnuleik núna, þá skjátlast ykkur. Pælið í muninn ef ég hefði lesið þetta í febrúar...

Fékk í gær heimsendan matsvein sem eldaði ofan í sambýliskonuna og mig. Sætur strákur sem snaraði fram kjúklingasalat á meðan ég hélt áfram ritgerðasmíð um konur í sveitarstjórnum.

Snillingurinn hún litla systir mín kom í bæinn á föstudaginn og tók mömmu með. Ég er að fara ferma hana næstu helgi. Litla dýrið hefur saumað sjálf kjólinn sinn og kom til Reykjavíkur til þess að taka ferminingarmyndirnar sínar í þessum lík svakalega Carrie Bradshaw kjól.

Annars er það að frétta að ég er með ferðalagaþörf núna, en þessi þörf heitir líka Héðinsþörf. Héðinn er nefnilega besti ferðafélaginn og ég get ekki beðið eftir að við tökum upp á einhverju öðru ferðalagi fljótlega. Mér datt Suður-Evrópa í hug eða Ástralía. Héðinn er að velta þessu fyrir sér...

Fjölskyldan mín er annars að stefna að því að fara saman í utanlandsferð haustið 2007. Okkur reiknast það til að það er síðasti séns til þess fara saman áður en að systkini mín komast á pörunaraldurinn. Því ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af því hjá mér og stóru systur, það sýnir reynslan okkur.