sunnudagur, janúar 30, 2005

Bransinn
Það er ekki laust við að ég sakni þess að vera með í slúðrinu í bransanum, þjóna og kokkabransanum. Jón Eggert talar til dæmis um slúður á blogginu sínu sem gerðist í Frakklandi á heimsmeistarakeppni kokka. Einn á víst að hafa staðið upp á viðhafnarkvöldverði og migið á gólfið... Ef ég væri ennþá að þjóna þá hefði ég í fyrsta lagi frétt þetta fyrir helgi en ekki í dag og fengið að vita STRAX hver það væri en væri enn í óvissu hver þetta hefði gert.

Ömurlegt? Já!

Sigurvegari!
Ég fór í keilu í gær með Möttu, Unu, Ásdísi og Þóri, strák sem þekkti mig einu sinni. Keppnin var bæði drengileg, skemmtileg og sanngjörn. Hrúturinn í Þóri vaknaði helst til kröftuglega þegar ég sló hann út og sigraði á síðasta endasprettinum, en hann hafði verið yfir allan tímann. Í áttunda leik hafði Þórir 20 stiga forskot á mig og átti þó eftir að vera með eina feikju. Það er skemmst frá því að segja að ég náði að sigra Þóri með tveggja stiga mun, sem ekki þótti vinsælt.

Ég á útprentun af leiknum, leita núna logandi ljósi að ramma til þess að varðveita skjalið.

laugardagur, janúar 29, 2005

FSS sinnum tveir
Ég hef lengi vel verið FSSari og starfað innan FSS í háskólanum. Nýjasta dæmið er svo að vera félagsmaður í FSS - félagi starfsmanna stjórnarráðsins, árshátíðin hjá þeim verður næsta 11. febrúar. Púkinn í mér erð hvetja samstarfsfólkið mitt í Könnunardeild Hagstofunnar til þess að vera með eitthvað húllum hæ. Veit ekki hvort það takist, en kannski lesið þið um það í fréttum á næstunni þegar við brókum Dóra ráðherra!

föstudagur, janúar 28, 2005

Í spreng eins og hinar stelpurnar
Var það sem mamma sagði við mig í gær eftir að ég átti fund með Landsbankanum. Ég var á hlaupinu heim og gat ekki hugsað því blaðran var undir miklu álagi og miklum þrýstingi. Þetta skot hennar var ekkert til þess að hjálpa. Ég veit ekki hvor okkar flissaði meira, ég eða mamma, hænan eða eggið. Góð samlíking annars hjá mér. Hvorugt getur án hins verið og annað á alltaf hinu að þakka uppruna sinn.

Kvöldinu í gær lauk svo með Þóri, mjög eftirminnilega. Sundferð var það, heillin. Konan í afgreiðslunni reyndist vera vinkona mín. Ég hafði hellt hana fulla á Þorrablótinu, sem ég sagði ykkur frá um daginn, en hún var að vaska upp þessi elska - hafði enga hæfileika til þess undir það síðasta enda var ég duglegur að koma með eitt og eitt "óhreint" glas til hennar. Það skilaði sér svona vel og endaði með frírri sundlaugarferð fyrir mig og hjákonuna mína.

Gufa, heitir pottar og sundnámskeið frá Vigdísi voru bara upphitunum. Strákakroppasýningar í sturtum, heitum pottum, sundlaugarbökkum og sundlaugum voru bara til þess að krydda. Á annan tug ferða í rennibrautina voru svo til þess að kóróna kvöldið. Ég var samt ekki búin að fá nóg þegar Þórir og Vigdís vildu fara í heita pottinn til þess að skoða sætu strákana. Ég vildi samt ekki fara einn. Vigdís fór því að tala við tvo stráka sem voru líklega tíu ára, kynnti okkur svo. Annar hét Víglundur og köllum hinn Atla. Ég hljóp með þeim upp í turninn, með annan á undan og hinn á eftir. Þegar sá fyrri er kominn efst þá er hann ekkert að tvínóna við hlutina heldur stoppar ekkert og hoppar upp í loftið og áfram, grípur í fæturnar sínar og brýtur þær undir sig. Hann snýst í loftinu, lendir í rennibrautinni á fleygjiferð og snýst af hnjám upp á bak. Án þess að hugsa reyndi ég að gera það sama. Ég er samt aðeins stærri, áttaði mig ekki á því þá og líklega hef ég meiri stökkkraft.

Ég stekk því á jafn miklum hraða og hann, með meiri stökkkraft, hærri í loftinu en reyni að herma eftir (gat ekki lúffað fyrir tíu ára strák sem heitir Víglundur). Ég hef örugglega ekkert litið vel út þegar ég byrja á því að rekast upp í rennibrautina, fell niður á hnéð, rétti snögglega úr mér en gengur illa, berst því um eins og fiskur í andarslitrunum á bakkanum og fæ slæm sár í annan nárann og á bæði mjaðmabeinin. Á tímabili skýst ég niður með höfuðið á undan en af einhverjum ástæðum sem ég ekki skil eru skyndilega tærnar komnar á undan, þá rétti ég strax úr mér og næ að hafa þá stefnuna á þangað til ég kem niður í laug. Ég á erfitt með að vera í gallabuxum.

Annars er stór dagur framundan hjá mér. [Ritskoðunarnefnd: Héðinn ekki lesa lengra] Eftir hádegi hitti ég nýja stjórn húsfélagsins í Maríubakka og fer yfir fjármálin með þeim. Eftir það mun ég ekki snerta þetta lengur. Hamingja. [Ritskoðunarnefnd: Héðinn má byrja að lesa aftur] Eftir hádegi mun ég svo hitta tvo þingmenn sem vilja hitta ungt fólk vegna samkynhneigðra málefna. Ég er pínu upp með mér að þeir skuli leita til mín, orðspor mitt fer víða... Um kvöldið ætla ég svo út að borða með Siddý minni á Argentínu. Eitthvað segjir mér að við munum panta okkur limmósíu til þess að keyra okkur í kvöldverðinn.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Vin(n)ur í Íraq
Ég hitti loksins hana Siddý mína í gær. Það var rosalega gott og gaman. Siddý kom heim um daginn eftir nærri tveggja ára dvöl í Íraq. Við settum okkur stefnumót á Kaffibrennslunni en svo kom á daginn að ég þekkti nær hvern einasta kjaft þar inni. Ég og Siddý náðum að setjast lengi niður og spjalla. Vá við höfum um svo mikið að ræða. Hún er búin að upplifa svo marga skemmtilega hluti.

Fyrir ykkur sem ekki vita þá var Siddý yfirmaður NCCI og var það í raun alveg þangað til í gær en það var síðasti dagurinn hennar í vinnu. Auðvitað vorum við að fagna því. Siddý rak samtök sem höfðu 3 skrifstofur í Íraq, eina í Jórdaníu og eina í Kúwait. Hún var með fleira en 70 starfsfólk fyrir utan persónulegt þjónustulið og samhæfði starf meira en 100 hjálparstofnanna á þessu svæði. Mér þótti langt flottast að heyra frásögn af því þegar hún reddaði því á mjög íslenskan hátt að bjarga því að samtökin yrðu tekin af fjárlögum Evrópusambandsins. Hún var stödd í Erbil í Norður-Íraq þegar skrifstofan hennar í Amman, Jórdaníu er tjáð það að Evrópusambandið muni ekki fjármagna lengur skrifstofuna í Suður-Íraq. Þau myndu fá 24 tíma til þess að svara þessari ákvörðun. Þetta var á sunnudegi og Siddý nýkomin til Íraqs. Það er mjög erfitt að fljúga í Íraq og það gera bara hjálparstofnanir og herinn. Panta þarf flugsæti með allavega 10 daga fyrirvara. Siddý er náttúrulega ekkert að tvínóna við hlutina, líklega hefur Íslendingurinn vaknað í eitt af mörgum skiptum, drífur sig út á flugvöll og freistar þess að fá far með fluginu. Það var auðvitað ein sem að mætti ekki í flug. Laggó, Siddý er skyndilega mætt til fulltrúa Evrópusambandsins og hefur með þessu líklega bjargað öllu hjálparstarfi í Íraq því að það voru svo margar hjálparstofnanir sem að geta ekki lifað af án NCCI. En Siddý sér að mestu leyti um öryggismál og upplýsingamiðlun fyrir allar stofnanir þeirra og er því lífæð allra sem vinna þarna. Vá hvað mér leið vel yfir vinkonu minni og stoltur af henni. Var ég búinn að segja ykkur að hún er ekki orðin þrítug? Hún hefur samt á tveimur árum líklega talað við fleiri sendiráð, alþjóðastofnanir og herdeildir heldur en íslenski utanríkisráðherrann nokkurn tímann...

Stoltur af þér Siddý!

Á morgun ætlum við svo að dekra okkur. Ætlum út að borða voðalega grand. Spurning um að ferðast um á limma fyrst. Fordrykkur, forréttir, aðalréttur, tvo eftirrétti, kaffi og líkjör á eftir. Það verður ekki leiðinlegt...

Annars er von á uppgjöri mínu fyrir árið 2004. Ég er mikið langt kominn með það. Finnst það pínu skemmtilegt sjálfur. Bíðum og sjáum með skoðun ykkar...

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Blendnar tilfinningar
Ég veit ekki hvernig mér á að líða þegar ég les svona. Fyrst þornaði ég upp í munninum og maginn herptist saman. Svo starði ég bara á myndina af Páfanum. Tárin fóru að streyma niður kinnarnar og mér fannst heimurinn vondur. Mér leið síðast svona þegar amma mín dó. Ég get ekki átt sama Guð og þessir menn. Ætli Páfinn myndi lofsama það ef ég sendi honum bréf sama dag og ég fremdi sjálfsmorð þar sem ég myndi tilkynna honum að ég hefði lokið mínu samkynhneigða lífi?

Ég ætla samt ekki að hvetja nokkurn mann til þess að prófa það.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Hvað myndir þú gera?
Ef tveir vina þinna myndu skrifa bloggfærslur um þig á bloggin sín sama daginn og án þess að eiga eitthvert samráð þar á milli. Annar býr til ansi skemmtilega sögu um mig þar sem frjálslega er farið með margar, alls ekki flestar, staðreyndir. Hinn skrifar vangaveltur um mig og segjir frá ákveðnu banni sem hann hefur sett mig í. Auðvitað er ég upp með mér að hafa þessi áhrif á blogganda vina minna. En báðir á sama degi? Að vísu voru þeir einu sinni saman... en sá eldri (takið eftir, sá eldri) sagði víst þeim yngri upp áður en þeir byrjuðu saman. Til þess að fara yfir strikið get ég sagt að ég hef átt í frekar nánum snertingum við þá báða. Já það er furðulegt að vera hommi á Íslandi í dag.

mánudagur, janúar 24, 2005

Til hamingju með daginn!
Já ef það er ekki tilefni til þess að halda upp á daginn elskulegu lesendur. Ég komst að því í kvöld hjá HerraKökugerðameistara að í dag er þunglyndasti dagur ársins. Til hamingju með það öll sömul! Í tilefni dagsins hittust fjórir hommar og ein dönskufarar hækja að borða pönnukökur og gulrótarköku. Margar kökur það kvöldið. Ásgeir og Pétur komu semsagt í heimsókn til fjölskyldunnar minnar; ég er pabbinn, Þórir mamman og Sigga er barnið. Við ræddum svo mörg og mikilvæg málefni að það urðu á annan tug óþægilegar stundir sem að Sigga neyddist til þess að bjarga með því að kyssa mig. Þegar við urðum á þrot með umræðuefni drógum úr klámspilastokknum margfræga sem alltaf er geymdur á Hverfisgötunni. Með stokknum fundum við upp skemmtilegan leik, talan (og typpið) á því spili sem þú drógst átti að hafa ákveðna merkingu og metnað fyrir sum okkar. Það verður ekki fjallað nánar um það. En sitt á hvað voru menn hvattir til ýmissa verka en bönn set á aðra verknaði og athafnir. Á tímabili voru þetta eins og góðar samningaviðræður fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem að bönnum var skipt fyrir annað bann og allir vildu koma sínu á framfæri.

Ég vona að ég eigi jafn innihaldslausar stundir í framtíðinni með vinum mínum þó að ég eldist. Nógu slæmt finnst mér að vera hættur í framhaldsskóla. Æi farðu ekki að grenja!

Dagurinn er nú ekki ómerkilegri fyrir það að bóndinn í Haga, frú Sigrún, á afmæli í dag. Kerling er orðin 44 ára, til hamingju með afmælið mamma!

Svona í lokin get ég kannski upplýst það að ég gef móður minni aldrei afmælisgjöf eftir að ég kom út úr skápnum. Ég er elstur systkina minna, mér finnst það ákveðið afrek og held hún sé ánægð með að ég hafi seinkað því um nokkur ár að hún þurfi að taka upp ömmu-viðurnefnið. Hún nær aldrei að þakka mér nóg fyrir það. The things you do for your mother!

sunnudagur, janúar 23, 2005

Ítalía
Ég er mjög ábyrgðarfullur maður og tek verkefnin mín alvarlega. Til dæmis nýlega hef ég velt því fyrir mér að sækja um að verða skiptinemi á Norðurlöndum, Hollandi, Ítalíu eða Washington. Í kvöld dreif ég mig í því að kynna mér matargerð Ítala, eins nálægt því og maður getur hér í Reykjavíkurborg. Ég fór á veitingastaðinn Ítalíu með Adda og mér líkaði bara ágætlega. Líklega hefði ég átt að sleppa súpunni á undan nautasteikinni þó að hún hefði verið mjög góð því magaplássið hafi ekki verið mikið. Lét það þó ekki stoppa mig í að fá mér marensköku með "heitri" súkkulaðisósu. Sem betur fer vorum við á bíl því ég hefði líklega ekki getað gengið heim á Ránargötuna.

Svo er bara að fara borða bandarískan og hollenskan mat á næstunni. Vill einhver KFC eða BigMac með mér?

laugardagur, janúar 22, 2005

Þorrablót
Hrútspungar, karlpungar og strákpungar. Já það er ekkert leiðinlegt við Þorrablót. Sérstaklega ef þau eru heima hjá þér úti á landi þar sem ættingjarnir þínir og sveitingar koma saman. Rúmlega 300 manns og þú þekkir alla nema fjóra með nafni. Skemmtiatriðin eru staðbundin og innansveitar. Gert er grín að framsveitarfólki, hreppstjórum, minnihluta sveitarstjórnar, pizzastaðarins og fleira.

Stemningin eykst allt kvöldið og verður gífurleg, allt fram að því þegar hljómsveitin tekur við að spila. Í þetta skipti var fengin hljómsveit ofan úr Borgarfirði og það hefur aldrei lukkast vel að fá einhverja utan sýslunnar að spila á þessari samkundu. Þeir voru því ekkert hressir og dansgólfið var frekar rólegt þar til að ég með ættingja mína í broddi fylkinga þrömmuðu á dansgólfið. Við erum ekkert lengi að spæna upp parketið og mér þætti líklegt að Atli þyrfti að skipta um parket, að minnsta kosti að pússa. Atli er semsagt umsjónarmaður fasteigna hjá hreppnum, upplýsingar fyrir utansveitarfólk.

Eftir mikla drykkju hefst ég við að ferja fólk heim. Ég þurfti að fara tvær ferðir á jeppanum. Stútfullum jeppanum. Seinniferðin var ekki farin fyrr en kona hafði farið á fjörurnar við mig, hún lýst því yfir að það væri synd og sóun að ég væri hommi, pabbi snarar henni í jörðina, mamma messar yfir henni, allir fara að væla og skæla, pabbi sest inn í bílinn, heldur í hendina á mér alla leiðina heim, viðreynslukonan sest inn í bílinn (hún var að fara á næsta bæ) ásamt restina af liðinu sem fara að tala um það að vera hommi og hvaða fordóma hún hefði.

Ég ætla ekkert að vera borðleggja þetta eitthvað lengra eða þreyta ykkur. En niðurstaðan er sú að þau enda öll á sulli þar sem að allir gráta, pabbi minn er með yfirlýsingar sem ég hef sjálfur aldrei heyrt hann tala um, viðreynslukonan sjálf brotnar niður og viðurkennir það að hún sé drulluhrædd um það að sonur hennar sé hommi.

Eru hommar fullir foreldrar í dramakasti? Eða er það á hinn veginn? Ég skil hvorki upp né niður í neinu lengur.

föstudagur, janúar 21, 2005

Bóndadagur
Í dag er bóndadagur og það stendur margt til. Morguninn byrjaði rólega þar sem ég var heima að læra fyrir karlmennskufagið mitt í Háskólanum. Það finnst mér skemmtilegt fag. Að því loknu fór ég á skólafund í MR þar sem ég ræddi við krakka á fyrsta ári um það hvernig það er að vera hommi, koma út og lifa sem samkynhneigður einstaklingur. Það var mikið gaman og krakkarnir spurja margra kemmtilegra spurninga. Hrabba stórlessan mín tók allt upp á myndband til þess að hafa sem efni í myndina "Svona fólk" en hún fjallar um réttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi.

Eftir vel heppnaðan og kraftmikinn fund arkaði ég heim til mín og henti ofan í tösku. Bý mig undir að leggja af stað á Þorrablóg með ættingjum mínum, sveitungum og fjölskyldu. Ég hugsa eiginlega til þessa með pínu kvíða. Á síðasta sveitaballi sem var síðasta haust snéri mamma Önnu Völu vinkonu niður í gólfið þannig að hún var send með sjúkrabíl suður og snúinn ökkla. Afsökunin var auðvitað eingöngu sú að Papar voru að spila og Anna Vala var ekki viðbúin þessu mikla átaki frá móður minni. Á Þorrablótinu í fyrra komu svo Ási og Paw með mér. Ég og Ási unnum á barnum en Paw vann mest við það að drekka brennivín og bregða sér á hákarli. Eitthvað var um drykkjuna hjá okkur en því til staðfestingar fundust nýlega myndir frá þessu balli og þar má sjá mig og Paw bæði skiptast á og rífast um bleikan kúrekahatt sem við bárum til skiptis allt kvöldið. Ég hef svo reynt að draga Þóri með mér á Þorrablótið núna en það er ekki að takast. Listafólk (ekki listamenn) Röskvu eru fýsilegri kostur að hans mati.

Annars eru þessi Þorrablót mikið furðuleg fyrirbæri. Til dæmis gegna þau miklu félagslegu hlutverki í ættinni minni. Öll ættin mætir auðvitað, makar og mjög gjarnan vinir. Þetta skipar einhvern veginn meiri sess en nokkurn tímann jólinn, jólaboð eða afmælisboð. Á Þorrablótið mæta allir. Þegar ættingjarnir eru svo orðnir tvöfaldir og hættir að vera einfaldir er mætt með nýja makann á Þorrablót. Ég er mjög feginn að vera hluti af þessari ætt en ekki maki, því ég held að makar fái mikla og erfiða reið frá ættingjunum. Þetta er einhvers konar inngöngupróf. Það er keppst við að hafa nýju makana sem lengst á gólfinu og við höfum hreinlega vaktaskipti til þess að reyna sprengja þá í dansgleði.

Í sveitinni eru til mörg orðatiltæki og mörg orðasambönd. Til dæmis er aldrei talað um að hestur sé gamall, heldur hversu marga vetur hann hefur lifað. Þannig er einnig talað um ástarsambönd í Hagaættinni. Jóhanna og Óli frændi minn hafa til dæmis verið saman fimm Þorrablót...

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Orðið á götunni
Já það er satt sem þið hafið heyrt. Ég skrifaði þetta bréf og auðvitað ætti ég bara líka að halda kjafti þar sem ég hef þvottabretti til þess að þvo sokkana mína. Nýlega samþykkti ég svo að það væri gefið út tímarit með mínu nafni.

Í kvöld sá ég undir hælana á einstaklingi sem stökk út um dyrnar eftir að hann frétti að ég hefði verið á lista fyrir Vöku til Stúdentaráðs. Þessi sami einstaklingur mun opinbera sig hjá Röskvu annaðkvöld. Dramatískar breytingar á sambandi okkar urðu eins þegar mannréttindabrotin voru framin á Torgi hins himneska "friðar"...

Prentarar
Já í dag fór hann í fýlu út í mig og ég botna ekkert í honum. Ég held honum líki ekki við mig. Hann heldur kannski að hann komist upp með þetta en held ég pakki honum saman, kveðji hann og leyfi honum að fjúka. Nýtt ár, nýir strákar og nýjir prentarar! Hvort líst ykkur betur á þennan eða þennan? Eða þennan eða þennan?

miðvikudagur, janúar 19, 2005

6 ára
Í dag hélt FSS upp á 6 ára afmælið sitt. Dagurinn var ótrúlega merkilegur og skemmtilegur. Við fengum til dæmis alla háskólana á höfuðborgarsvæðinu til þess að flagga FSS fánum, gayfánum og bifánum í tilefni dagsins. Einn skólinn flaggaði meira að segja íslenska fánanum í tilefni dagsins! Um kvöldið lýstum við Aðalbyggingu HÍ í regnbogalitunum eins og svo oft áður. Síðan var þessi fína afmælisveisla haldin upp í Regnbogasal Samtakanna 78 þar sem að bæði var boðið upp á grænmetishollustu og afmælisköku. Æðislegur dagur.

Dagurinn verður samt líklega eftirminnilegastur fyrir það eitt að ég eyddi rúmum einum og hálfum tíma í að leyta að lyklakippunni minni á meðan ég var símalaus, peningalaus, skilríkjalaus, hugmyndalaus og vettlingalaus. Það var hræðilegt. Var svo löngu búinn að gefast upp þegar ég kem bara inn í Pétursbúðina mína og ætla að fá að betla þar eitt símtal. Þá glottir stelpan við, án þess að ég næ að segja nokkuð, smellir í góm og spyr mig svo: "Ertu nokkuð búinn að týna lyklakippunni þinni?" Þá skildi ég hana eftir á borðinu hjá henni um morguninn þegar ég keypti mér drykkjarjógúrt til að drekka á leið í skólann...

Af hverju gat hún ekki hlaupið á eftir mér fyrr um morguninn?

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Meiri skóli - meira gaman
Jæja, nýr skóladagur með nýju fagi. Mér finnst þetta fara allt of hægt af stað! Í dag byrjað ég í nýju fagi. Þetta byrjaði allt of hægt. Ég var auðvitað löngu mættur á undan öðrum, búinn að hita upp sætið, tengja tölvuna í vegginn og opna nýtt autt skjal til þess að taka niður glósur. Af hverju geta kennarar ekki kennt fyrstu kennslustund? Eru þeir eitthvað hræddir við námsfúsa nemendur eða bara enn í jólafríi og skammast sín fyrir að hafa ekki yfirferð jólaprófanna?

Kennarinn skoraði samt mörg prik þegar hann lét okkur öll kynna sig með þeim afleiðingum að ég náði að skrifa niður öll strákanöfnin í bekknum mínum á tölvuna. Ég er ánægður með það. Eftir kynningu hvers og eins þá gat ég á svo einfaldan hátt skrifað smá álit við nafn hvers og eins; rauðhærður og gleraugu; ljóshærðar strípur; fallegt bros og fleira. Það sat strákur við hliðina á mér sem glápti á glósurnar mínar og dáðist svo að restinni af glósunum sem ég tók niður restina af tímanum. Að lokum spurði hann mig hvort ég væri alltaf svona duglegur að glósa. Ég brosti bara til baka, eignaðist minn fyrsta vin. Ég veit ekki hvort honum fannst svona spennandi að sjá mig glósa um alla strákana eða glósa um námsmat og kennslufyrirkomulag kennarans í vetur.

Eyddi orkunni sem ég hafði í dag til þess að skoða ERASMUSskiptinám til þess að fara vorönn 2006. Ég get farið til Hollands, tvo skóla í Belgíu, Svíþjóðar, Ítalíu og Frakklands. Svo er það NordPlus, það eru færri sem fá þá styrki en þeir eru hærri en þar er líka meira val. Við erum að tala um 3 danska háskóla, 8 finnska, 3 norska (og mér sem finnst Norðmenn svo sætir og Osló svo yndisleg og tungumálið best) og svo 5 sænska (ekki verra tungumál en samt erfiðara og ólíkara dönsku sem ég er svo góður í). Hjálp!

Ég veit ekkert hvert ég ætti að fara, einhverjar hugmyndir? Og ég sem þarf að ákveða mig fyrir fimmtudag!

mánudagur, janúar 17, 2005

GAMAN
Eftirvæntingin var mikil í gærkvöldi þegar ég fór að sofa. Ég hef aldrei farið svona spenntur í bólið áður, ef frá er talið örfáum sinnum þegar ég hef ekki farið einn. Man ekkert eftir því að hafa sofnað. En ég man þegar ég vaknaði. Ég opnaði augun eins og Lísa Lotta, gamla dúkkan hennar Freyju frænku sem var úr postulíni og hafði postulínsaugu sem gátu opnast. Lá samt alveg hreyfingarlaus eins og það væri einhver að horfa á mig. Stalst svo til þess að læða hendinni undan sænginni og sækja vekjaraklukkuna, hún var hálf sjö. Hálftími í að klukkan myndi hringja. Svo lá ég andvaka þangað til hún gerði það blessunin. Ég var stokkinn á fætur áður en hún kláraði að hringja einn tón. Búinn að slökkva áður en hún byrjaði á þeim næsta. Búinn að tannbursta mig áður en fingrafarið af takkanum náði að þorna. Dundaði mér heillengi við að vakna, fór í sturtu, bar á mig krem, borðaði morgunmat, gerði nokkrar leikfimiæfingar, horfði á fréttir, las blaðið og leit yfir dagbókina. Skólataskan stóð við útidyrahurðina og hafði verið þar tilbúin síðan kvöldið áður. Ég labbaði af stað nákvæmlega tvær mínutur í átta. Ég gekk nefnilega í skólann í gær og tók tímann til þess að sjá hversu lengi ég væri að labba þangað.

Allt passaði þetta svona ljómandi fínt og ég var mættur fimm mínutum áður en að kennslustund hófst. Ég var búinn að taka mér penna í hönd og opna glósubók áður en að kennarinn gekk inn. Því miður var ekkert kennt í tímanum, hún bara kynnti sig og talaði um námsmat. Ég skráði þetta allt samviskusamlega niður með feitasta brosi á vör. Þið ykkar sem hafið horft á Friends munið kannski eftir því þegar Monica fór á námskeið. Þannig var ég. Önnur hendin skrifaði og hin hendin var að veifa eftir athygli frá kennaranum.

Anna Vala sagði mér í dag að það þyrfti alltaf einhver að vera nörd til þess að hinir gætu verið kúl. Ég er líklega sá eini sem er kúl í þessum bekk.

Fer svo út á Keflavíkurvöll í kvöld til þess að sækja hana Siddý mína. Hún er að koma heim eftir 22 mánaða vinnudvöl í Írak. Já gott fólk, hún var að taka til eftir Dóra og Dabba, fékk samt ekki vinnuna út á íslenskan passa heldur var ráðin af því að hún er sænskur ríkisborgari. Gott að vera Íslendingur.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Gleði og hamingja
Hendur á lofti!
Einu sinni eyddi ég mörgum stundum með henni Gunnþóru Klöru (hún er kölluð Tóta). Tóta er frá Selfossi og var á þessum tíma mikið skotinn í mér og ég var nú mjög hrifinn af henni, en alls ekki á sama hátt og ég var hrifinn af henni. Tóta kom oft í bæinn á appelsínugula Benzinum hennar pabba hennar, örugglega þeim eina á landinu. Við rúntuðum oft um bæinn, þóttumst vera mikið og merkilegt fólk, keyptum ís og fórum í bíó. Mýkri bílsæti hef ég líklega aldrei setið í og bílinn var svo breiður að líklega var erfitt fyrir alla bíla að mæta okkur. Ef það eru til tveir appelsínugulir Benzar á landinu, þá hafa þeir líklega aldrei mæst, því að þá væru þeir báðir skrámaðir.

Ef okkur fannst eitthvað gott og skemmtilegt þá sögum við gjarnan: "Gleði og hamingja - hendur á lofti!" - Ég sakna þess, það þarf einhver að fara gera svona kjánalega hluti með mér aftur.

Á áramótunum stóð ég uppi á stól og vinahópurinn hélst í hendur og stökk niður á gólf þegar ártalið breyttist í sjónvarpinu. Þessari hefð hafði ég aldrei kynnst. Í minni sveit er farið út að skjóta flugeldum og stærsta flugsprengjan er spreng svona ca á miðnætti, eða þegar búið er að hella kampavíni í öll glösin og skála (oft tekur það langan tíma að hella enda kannski um 30 manns kannski sem þurfa að skála). Matta (sem tók þennan sið heiman frá sér) stóð svo skyndilega á gólfinu með lokuð augun og leit út fyrir að vera gera upp á bak á miðju stofugólfinu. Þegar hún opnaði augun hafði hún óskað sér. Hennar fjölskylda óskar sér á áramótunum. Ég óskaði mér einskis en líklega hefði ég átt að gera það, sé það núna. Hefði átt að óska mér þess að vera ekki skilinn eftir, einn eftir.

Þórir, tökukonan mín, er að flytjast búferlum til Kaupmannahafnar. Ég verð þá einn eftir á klakanum, heitir það að vera á köldum klaka? Það virðist vera örlög þeirra sem ég fyrir konur að þeir flytji til Danmerkur. Að vísu átti ég óeðlilega mikinn þátt í að kjánalingurinn lét verða af þessu, sé auðvitað eftir því núna.

Matta, Héðinn, Ási, litla systir, Þórir, Paw, Hjörtur, Eva Lind, Eyþór, Þóra Gerður, Gugga, Yndi-Gugga og líklega verð ég að nefna Kidda; öll búin að gabbast til Danmerkur. Ætli þetta sé tímaspursmál, náttúrulögmál, tímabundið eða móðins?

En það fer að líða að því að hamingjuhendurnar mínar takist aftur á loft en fékk óvænta tilkynningu í dag frá henni Siddý minni sem hefur núna verið í næstum tvö ár úti í Írak. Hún er að koma heim á mánudag og hún bað MIG UM AÐ SÆKJA SIG. Ég er svo spenntur að ég er að springa. Er að skipuleggja þvílíka móttöku. Líklega ætla Óli og Dorrit að koma með mér ef þau verða ekki eftir sig út af söfnuninni á laugardagskvöldið. Það væri nú vel við hæfi. Siddý er búinn að vera þarna úti í tvö ár að samrýma og stjórna alþjóðlega uppbyggingar og hjálparstarfi frá því að Bandaríkin, Dabbi og Dóri lögðu þarna allt í rúst. Er ekki bara best að setja Siddý beint í Utanríkisráðuneytið fyrst að Dabbi þarf að taka sér frí, látum hann bara taka sér eitt gott frí. Siddý talar bæði betri sænsku og ensku en bæði Dabbi og Dóri til samans...

Að lokum: Eyþór stakk upp á því að ég keypti mér eitthvað af þessari síðu til þess að gleða mig. Ég held að Eyþór hafi hitt naglann á höfuðið þarna enda ELSKA ÉG NÆRFÖT. Núna er bara að forða VISAkortinu frá á meðan ég fletti í gegnum úrvalið... Einhverjar tillögur að kaupum?

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Nýtt ár! - Nýtt líf? - Ný byrjun?
Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Á ég að biðjast afsökunar eða á ég að skammast yfir óþolinmæði lesenda þessarar síðu? Ég ætlaði ekki að setja nein áramótaheit, en þau hafa ósjálfrátt orðið - þegar ég hugsa um það eftir á. Allt er í endurskoðun hjá mér. Sérstaklega það dýrmætasta sem við eigum, tíminn og ég hef enn ekki náð fullkomum stjórn á eyðslu minni á honum. Líklega er þetta eitthvað í stjörnunum hjá mér. Ég er að meta allt. Er þessi mynd mér mikils virði? Þarf þetta að vera hérna? Þarf ég að sinna þessu? Hvað veitir mér orku? Hvers vegna hef ég aldrei þróað samband með neinum? Versta spurningin samt af öllu hefur komið upp: Til hvers er ég að þessu? Og enn verr: Hver er tilgangur minn?

Það er nú orðið frekar svart ef að maður hefur átt svo mikinn tíma með sjálfum sér að maður hefur komist svo langt á spurningalistann. Spurningin sjálf á að vera aðvörun um að breyta um lífsmynstur, EKKI SVARIÐ. Því að þessum spurningum getum við aldrei svarað og ættum ekki að svara.

Ég er mikið að velta fyrir mér frásagnarstílnum mínum. Auðvitað er ég bæði að fá þörf fyrir ákveðna frásagnarþörf, jafnvel athyglissýki en líklega er þetta þörf mín til þess að segja frá því sem kemur fyrir mig. Mér dettur í hug þrjár hugsanlegar útfærslur eða þróun á þesu bloggi.

  1. Ég get haldið því líkt og einhvers konar dagbók þar sem ég geri upp mína liðnu daga.
  2. Ég gæti fjallað meira um þær góðu (og yfirleitt brosmiklu) minningar sem ég hugsa til.
    Dæmi um svona blogg er Tannsmiðurinn en mér líkar einstaklega vel við sögurnar hennar og ég gæti vel hugsað mér að segja frá mörgu því sem ég hef lent í. Á aðfangadagskvöld var rafmagnslaust heima hjá mér og erfitt að finna okkur eitthvað að gera. Vegna einstakrar heppni átti ég þónokkrar færslur frá Tannsmiðnum í tölvunni minni og því skemmtum við okkur konunglega við það að lesa upp færslur eftir Tannsmiðinn í myrkrinu þangað til að rafhlaðan kláraðist úr tölvunni.
  3. Þriðja og síðasta útfærslan væri svo að fjalla meira um það sem á mér brennur í þjóðfélagsmálum.
    Ég gæti farið að rífast yfir því að ég þarf að borga 5.100 krónur fyrir Vegabréf á meðan einstaklingur með örorku greiðir 1.900 krónur. Eða ég gæti fjallað um ósiðsemi þess að hafa gagnkynhneigðan strák sem þennan keppa í keppni með samkynhneigða framkomu. Hneysa! - Langt síðan ég hef sagt "hneysa"!
Ég er mikið að spá. Held því líklega áfram.