fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Buxur
Buxur í draumi eru fyrirboðar daður séu menn giftir en rifrildis séu þeir einhleypir.

Deig
Að hnoða deig í draumi er fyrirboði góðrar heilsu.

Drífa
Fyrirboði snjókomu.

Rjómaís
Drymi menn rjómaís munu börn koma mkið við sögu í lífi þeirra í framtíðinni.

-Tekið úr stóru draumráðningabókinni

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Aðrir bloggarar
Hef verið að taka til í blogglinkum mínum, taka fólk út sem ég er hættur að lesa eða eru jafnvel latari bloggarar en ég sjálfur. Ég bætti inn Möttu í dag í linkasafnið mitt enda er Matta einn mesti snillingur sem hægt er að kynnast.

Þið hafið vonandi tekið eftir því að blogger er kominn með nýjan fídus, en þá er hægt að ýta á takkann "next blog" og þá fæst random næsti bloggari sem hefur bloggað þann daginn. Þetta er nýja fetishið hjá mér. Eftir að hafa athugað hvað Matta hafði skrifað í dag ýtti ég á takkann og lenti á mjög athyglisverði síðu. Skoðið hana http://justjetaime.blogspot.com/ en þið þurfið að hafa kveikt á hátölurum, helst líka að vera tóm í hausnum og einmana. Þá mun ykkur líða betur.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Íbúð í San Sebastian
Var að velta því fyrir mér hvort að þessi íbúð væri málið, skoðið myndirnar og segjið mér hvað ykkur finnst. Væri einhver til í að heimsækja mig í þessa íbúð?

Svefnherbergi 1, Svefnherbergi 2, Stofa, Svalir, Eldhús, Baðherbergi & Húsið að utan

Staðsetningin er mjög nálægt háskólanum, í aðeins 5 mínutna göngufæri þaðan, 15 mínutna göngufæri frá miðbænum og strætóferðir á 5 mínutna fresti í allar áttir. Leigan er svolítið há, 320 Evrur á mánuði fyrir utan gas og hita. En hún virðist hreinleg og björt.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Brottfarardagurinn mikli
Í dag virðist vera almennur brottfarardagur frá Íslandi. Í dag yfirgaf verðandi sambýliskona mín landið, hún Stína ásamt Joni og Xavier, Spánverjunum tveimur sem hafa verið hérna á landinu í tíu daga hjá Pétri vini mínum. Bjarni yfirgaf landið ásamt nýja kærastanum sínum, von á öðrum þeirra seinna í vikunni. Mér finnst borgin vera grá og líflaus, kannski út af öllu þessu fólki sem mér finnst vera farið. Fékk líka póstkort frá konunni minni, kortið var sent frá Ítalíu en í millitíðinni hefur hún verið í Sviss með Florian og manninum sínum, er núna í Þýskalandi á leiðinni heim. Hugurinn minn er úti í heimi, get lítið einbeitt mér að því að hafa samband við fólk á þessu landi. Reyndi að tala við mömmu, pabba og systkini mín í símann áðan, ég hef örugglega verið drepleiðinlegur. Er staddur í vinnunni núna, ætla að gera mitt besta þar og brosa. Samt líður mér ekki illa. Borðaði kannski of mikið í staffamatnum áðan. Kannski er einhver búinn að snerta hjartað mitt, kannski ekki, hvernig veit maður það? Hlakka svo til að fá Siggu systur heim. Vala systir mín fer til Finnlands næsta föstudag, ég er að vinna þá helgi. Í dag eru 30 dagar þangað til ég flýg til heitari landa. Samt er mér alveg nógu heitt. Í dag eru 30 dagar þangað til lífið mitt einfaldast í öðrum löndum, samt er lífið mitt ekkert flókið. Um helgina upplifði ég margt andlega og líkamlega sem ég hef aldrei upplifað áður. Það var þægilegt. Talaði í síma áðan til Spánar, tilfinningin er mögnuð. Ég hló út af engu, ég hlakka svo til að geta gert það með einhverjum. Kannski einhverjum ákveðnum. Um daginn varð ég graður aftur, hef ekki verið graður síðan í júní. Ég man ennþá eftir augnablikinu, ég var að vinna og það var eins og að fá vítamínsprautu í rassgatið, mikið þótti mér gott að finna fyrir því að vera á lífi á ný. Ég velti því mikið fyrir mér af hverju ég hef ekki verið með strák allt þetta ár, hvað veldur? Var það út af því greddan var ekki til staðar? Kannski veit það einhver annar en ég. Ætli ég sé búinn að skrifa samhengislaust? Hver ætli skilji mig?

föstudagur, ágúst 20, 2004

Hamskipti
Glöggir lesendur síðunnar taka eftir því að hún hefur verið klædd í fegurri og aðgengilegri búning en áður. Sömu lesendur hafa jafnvel eftir því að ekki hefur verið ritað á þessa síðu mikið í sumar. Sumir hafa nefnt það við mig að ég sé ekki mikill sumarbloggari, líklega verð ég að taka undir það. Hver getur afsakað sig yfir því að ég eiga ekki 5 mínutur á hverjum degi. Betra að ég umorði þetta enn betur: Hvaða einhleypi einstaklingur getur afsakað sig á því að eiga ekki 5 mínutur aflögu á hverjum degi til þess að blogga um afdrif sín til annarra? Ég kenni þessu góða veðri um. Sjáið þið hvað þetta var vel gert, ég tók á mig sökina, en skellti henni strax yfir á einhvern annan. Þessi hæfileiki mun nýtast mér vel þegar ég fer í stjórnmál. Hvernig líst lesendum síðunnar á nýja haminn?

mánudagur, ágúst 09, 2004

Skamm skamm
Hef verið skammaður ótrúlega mikið undanfarið fyrir óvenju slappt blögg. Verð bara að taka undir það. Er bara í fullri vinnu að fullnægja 50 erlendum evrópskum stúdentum sem hér eru staddir vegna mín! he he he. Ási og Paw eru í Rúmeníu, fyndið því ég var akkúrat að flytja inn fjóra slíka menn til landsins fyrir nokkru. Og talandi um Rúmeníu, ég er þá orðinn einn af þessum mönnum sem er búinn að skrifa upp á leyfi fyrir fólk til þess að komast inn á Schengen svæðið, já já, maður er orðinn svo merkilegur. Þetta var allt voðalega formlegt, ég þurfti að staðfesta við Ungverskulandamæralögregluna í síðustu viku að allt þetta fólk væri á mínum vegum og það ætti að þurfa að sýna fram á 500 Evru framfærslugetu fyrir tvær vikur á Schengen svæðinu, ég þurfti svo að stimpla og votta að ég myndi borga allan matinn ofan í þau. Ótrúlega flókið allt saman, eru þessir Rúmenar eitthvað hættulegir, kannski Ási og Paw geti eitthvað sagt til um það eftir að hafa farið þangað að kanna aðstæður. Annars eru margir búnir að kvarta undan þessum rúmensku strákum, þeir þykja eitthvað svo ágengir greyjin, enda eru samkynhneigð bara bönnuð þar, ég myndi nú líklega missa mig í sælgætisverslun erlendis ef nammi væri bannað hér á landi. Samt þykir mér ólíklegt að þessi rúmenski hópur verði hleypt aftur inn á Schengen svæðið, allavega af okkur í FSS, þeir eru að misskilja það að ég sé ekki druslan/tíkin/hóran þeirra.

Núna er klukkan orðin þrjú að nóttu til og ég þarf að vakna eftir fjóra tíma til þess að hugsa um þessi evrópsku börn mín. Þeim er búið að takast allt, setja svip sinn á GayPride, týna 3 vegabréfum, hella niður miklu magni af áfengi í dýnur Almannavarna höfuðborgarsvæðisins, rugla í hausnum á mér, drekka 10 kassa af bjór, tvo kassa af hvítu heimabrugguðu víni, tvo kassa af heimabrugguðu rauðvíni og þónokkuð af landa. Þeim er líka búið að takast að biðja um bjór með matnum í kvöld, sunnudagskvöld, en ég - big mama - tók ekki í mál að það yrði drukkið þriðja daginn í röð. Sá svo eftir því að hafa hvatta alla til þess að kaupa sér áfengi í Leifsstöð því það var ekki byrjað að vaska upp þegar fyrsta flaskan var opnuð. Svaf í Melaskóla í síðustu nótt eftir GayPride, það var gaman, vaknaði við það þegar pólski hópurinn vakti alla klukkan tíu með graðhestamúsikk í botni, löndin skiptast á að vekja á morgnanna. Þegar slökkt hafði loksins verið á græjunum þá mátti heyra í kirkjuklukkum í svona klukkutíma á eftir því, það var ekki hjá því komist að fara fram úr.

Það eiga margir erfitt með að sofa þessa dagana, sama hvort það er fólk sem býr á Spáni eða á Íslandi. Talaði við einn sem býr á Spáni í kvöld, það geta verið misjafnar ástæður fyrir því af hverju fólk getur ekki sofið.

Góða nótt - ef ég sofna.