þriðjudagur, september 30, 2003

Evrópsku húsmæðraverðlaunin
Fara til Gulla. Núna er hann búinn að vinna íslensku handy-daddy verðlaunin (legg ekki í evrópsku, enda liggja þau hér og það þarf átak til þess að vinna þau frá þessum) og laga þurrkarann. Og þvílíkt bros! Núna er mín búin að þvo öll handklæði upp á nýtt og þurrka, þau eru nefnilega svo miklu mýkri svona en þegar þau eru látin hanga og þorna. Í kjölfarið var tekið upp nýtt handklæðabrot, þannig að þau myndu ekki klessast niður og auðveldara væri að lofta um þau.
Það þarf svo litla hamingju til að láta mér líða vel.

mánudagur, september 29, 2003

Siddý
Ég er búinn að eiga alveg yndislegt kvöld í vinnunni. Þegar ég mætti klukkan sex voru 0 manns pantaðir. Klukkan hálf átta var ekki ein hræða búin að rölta inn. Ingvar var farinn að tala um að þetta yrði kannski þriðja kvöldið með 0 manns síðan staðurinn opnaði, en það var fyrir 14 árum. Það var komin hræðsla í liðið þegar eitt par gekk inn, með tvo fyrir eitt tilboð og svo stuttu seinna fimm norðmenn. Það voru því örlítið labb hjá mér, svona rétt til þess að brenna öllu súkkulaðinu og kaffinu sem ég hafði troðið í mig síðan ég mætti.

Siddý var að vinna með mér, hún er Íslendingur sem ólst upp í Svíþjóð. Héðinn og ég erum einmitt svo hrifnir af henni. Sæt stelpa, synd að maður sé ekki str8 þegar maður hittir svona stelpu. Af því að Siddý er uppalin í Svíþjóð vill hún oft segja ansi skemmtileg orð. Þau komu alveg nokkur í kvöld. Hún sagðist hafa borðað einstaklingsvínabrauð en ætlaði að vera í skúringafötum á morgun. Þetta finnst ykkur kannski ekki merkilegt en skemmtilegast var þegar hún var að tala um sólarniðurganginn. Þá var nú synd að hafa ekki fleiri í húsinu.

Ég er farinn heim, klukkan er rétt rúmlega tíu, þetta er met hjá mér og Siddý. Ég held að við séum besta teamið í húsinu. Ætli Héðinn sé að baka, kannski maður athugi það til þess að bæta á sig efitr svona kvöld.

Rangar
Hef undanfarið reynt að komast inn á bloggið hjá Ragnari, en aldrei tekist. Ég var farinn að hafa ansi margar áhyggjur af kauða, þangað til ég áttaði mig á því að ég skrifaði rangar ekki ragnar. Það er ekkert rangt við Ragnar!

Sokkarnir
Verð aðeins að segja ykkur frá samtali sem ég átti við Héðinn fyrir nokkru. Ég og Héðinn vorum einu sinni sem oftar að hanga í símanum og spjalla, umræðan fór einhverja hluta vegna í átt að strákum og kynlífi með þeim. Síðan fór Héðinn að draga umræðuna um það hvenrig við myndum passa saman í kynlífi og sambandi, þetta var skemmtileg pæling. Ef þetta hefði farið fram á einhverri heimasíðunni þar sem maður svarar spurningum þá hefðum við verið svona 98 eða 99% match. Okkur þykir það sama skemmtilegt og nauðsynlegt í kynlífi. Við erum báðar eldhúsfrelsaðar og erum frekar svipaðar á margan hátt. Á tímabili varð þetta þó alveg vandræðalegt. það er þó eitt atriði sem skilur okkur að og er örugglega ástæða þess af hverju við erum ekki saman: mér þykir ekki mikilvægt að fara úr sokkunum áður en maður fer úr buxunum og það er meira að segja auðveldara að klæða sig fyrst í sokkana áður en maður klæðir sig í buxurnar. Þetta getur Héðinn þó ekki sætt sig við og getur ekki lifað með því. Þess vegna.

sunnudagur, september 28, 2003

Allir að herma!
Nei nú er komið nóg! Það er nóg að allir borði amerískan mat, horfi á amerískar bíómyndir, borði amerískan mat, tali amerísku, sé drepinn af ameríkana, hati ameríkana og allt það. Það þurfa ekki allir að herma líka eftir mistökunum þeirra, er eitthvað vandamál að halda rafmagni á borgum í Evrópu? Hvað er það næst?

Skyndilegt djamm
Í gær gerðist það. Þegar ég var nýskriðinn fram úr hringdi síminn, þá var það Halli frændi með gríslingana tvo í göngutúr um hverfið. Hann vildi bara fá að vita svar við tveimur spurningum, hvort við værum heima og hvað við vildum úr bakaríinu. Ég og Vala höfðum vakað fram eftir nóttu, skiptast á að elda rétti og horfa á video. Bakarísmatur var því alveg kærkominn í morgunsárið. Eftir að við höfðum öll setið, étið og allir skipst á hamingjusömum fjölskyldusögum keyrðum við þau heim. Þetta var svo sniðugt og skemmtilegt að þetta verður að gerast aftur. Það væri jafnvel hægt að fara í aðrar fjölskyldur í ættinni. Sniðug hugmynd.

Síðan lá leið til þess að sækja bílalausa miðbæjarrottuna Héðinn til þess að fara í Kringluna. Keypti skírnargjöf handa Nonna frænda og Andreu. Man ekki alveg hvað við gerðum þar meira. Fórum síðan og sóttum Pétur, þetta endaði allt í vöfflupartýi á Hverfisgötunni. Pétur fór heim en Héðinn fór í vinnuna. Pétur kom síðan í dijon-kjúklingabringur hjá mér. Við rifjuðum upp Berlín og ég sagði Spánarsögur, í kringum þetta allt saman vorum við að ræða hvernig við myndum hafa það í Kaupmannahöfn eftir mánuð.

Pétur keyrði mig niður í bæ til þess að hitta Siddý, ég átti boðsmiða á Pravda þar sem var boðið upp á ókeypis áfengi, sem virkaði mjög vel fyrir mig og Siddý. Einhvern slatta af fólki hitti ég, man ekki alveg hverja og ekki, en þið sem ég hitti megið endilega “shouta út” hjá mér! Ég sem hélt að þetta gæti ekki versnað, boy was I wrong! Hlupum þaðan upp í Leiklistaskóla hjá Bjarna þar sem fjölskyldupartý. Staupaði þar nokkrum bjórglösum til þess að gera sig aðeins hressari og ómarkvissari í snúningum.

Ég og Siddý vorum svo farin af stað á Hverfis, held ég, nei það var Vegamót/Ölstofan, síðan 22 og svo Ölstofan. Hef heyrt það í dag að ég hafi verið í kossakeppni, kyssti einn og annan, þennan og hinn, aðalega voru þetta víst krakkar sem voru með mér í Versló. Núna bíð ég enn spenntari en áður yfir því að hafa reunion.

Dó síðan á Laugaveginum, mér skilst að ég hafi haldið í hurðarhúninn á Skarthúsinu, setið á veginum þegar Héðinn kom og bjargaði mér. Ég átta mig ekki hvort að ég hafi átt stefnumót við hann eða hvort það hafi verið tilviljun. Gisti síðan hjá Héðni og mikið var Sigga systir hans fegin þegar hún hélt að Héðinn væri að fá að ríða, held samt að hann hafi ekki fengið það.

Skemmtilegast var samt að vakna eitthvað svona um áttaleytið í morgun, ég þorði ekki að opna augun, því ég hélt að ég væri ennþá á Hverfisbarnum, enda man ég síðast eftir mér þar. Hélt semsagt að ég hefði bara dáið uppi í einhverjum sófa þar, núna væri búið að loka og svona. Fann það greinilega að ég var mjög fáklæddur og þess vegna velti ég því meira en lítið fyrir mér hvort að ræstingarfólkið væri mætt. Þegar ég opnaði augun var miklum létti af mér létt (getur maður sagt svona). Sofnaði svo aftur og svaf fram

Ég og Anna Vala settum svo Evrópumet í að mæta hress í skírnarveislu nokkru síðar. Okkur fannst samt verst að ekki var neinn fordrykkur, enda vorum við bæði að þjást af vökvaskorti. Eftir tvo tíma voru hlaðborðin loksins opnuð. Eftir að hafa móðgað stelpuna sem stjórnaði drykkjunum, með sjálfsafgreiðslu og þambi, var farið í röðina að kökunum og heitu réttunum, enda vorum við hvort í skapi fyrir sykur. Í röðinni var ég með svolítil skemmtiatriði sem varð til þess að fólk fór að hlæja að mér.

Skondið samt svona í ættarmótum, tvær ættir að hittast og margir í fyrsta skipti. Ættin mín hreiðraði fljótlega um sig út á svölum, enda var gott veður og heitt inni. Gárungar myndu kannski segja að við lifðum bara of glatt, reyktum flest og þyrftum frískt loft út af þynnku. Um það vil ég ekkert segja, en við vorum semsagt þarna á pallinum. Gunna, mamma hans Nonna frænda sagði sögur frá því í Denn þegar hún var að vinna á Hressó, ásamt nýjasta slúðrinu af fræga fólkinu, hún var einmitt líka svo vel að sér hvað var að gerast á níunda áratugnum og allt þetta var svona skemmtilegt. Jón Þór, pabbi hans Nonna frænda, er hommi og var mættur þarna með manninum sínum. Einstaklega skemmtilegar stundir þegar við stóðum þarna þrír hommarnir, staddir með fullt af hommahækjum eins og Gunnu, Önnu Völu og fleirum. Flestir ættingjarnir úr hinni fjölskyldunni voru ekki að skemmta sér jafn vel yfir þeim sögum og lifnaði sem átti sér stað þarna á pallinum, við vorum því eins og hundar, búnir að merkja okku svæði.

Gæti ekki lifað án ættingjanna á svona þynnkudögum!

laugardagur, september 27, 2003

breast implants!
YOU HAVE BREAST IMPLANTS!!!


what's YOUR deepest secret?
brought to you by Quizilla

föstudagur, september 26, 2003

Spurðu líka hinnar spurningarinnar!
Las í Fréttablaðinu áðan viðtal við hann Ívar sem leikur homma í leikritinu Pabbastrákur. Ein af spurningunum sem var borið fyrir hann var hvort að það væri ekki erfitt að leika homma og hvort að það væri jafnvel ekki skrítið. Hvenær væri hommi spurður að því hvort að það væri erfitt að leika gagnkynhneigðan karlmann og þreifa á konu. Það er víst ekkert sem á að vera erfitt að leggja á okkur.

Hvar er jafnréttið? Ég vil það líka! Það er ekkert erfitt að vera hommi, hvað þá að leika eitthvað annað, þess vegna heita þetta leikarar. Ég lék gagnkynhneigðan karlmann í mörg ár og á skilið meiri verðlaun heldur en þegar einhver gamall karl í Hollywood mætir í vinnuna átta tíma á dag. Ég var í leikriti allan sólarhringinn!

Kvöldmaturinn
Það er svo nauðsynlegt að eiga frítt föstudagskvöld með Völu. Við fórum út í Hagkaup áðan, versluðum mat fyrir 15.000 krónur. Mér brá pínu, en Vala sagðist bara vera feginn því að hún hafði aldrei séð mig setja heimsmet í að kaupa óþarfa. Henni finnst einhver óþarfi að kaupa fallegan mat sem á eftir að taka sig vel út í krukkum og hirslum. Nafnið mitt í dag er krukkumaðurinn.

Þegar heim var komið bjuggum okkur til Joey (úr Friends) samlokur. En þær eru þannig að við kaupum langlokubrauð, setjum á það dijon sinnep, síðan kemur kalkúnaskinka, agúrkur, rauðlaukur, pítusósa, roastbeef, sveppir, paprika, sinnepssósa, skinka, ostur, krydd og pitusósa. Samlokan er það stór að mig verkjar í munnvikinn, hef ekki tekið svona stórt upp í mig áður... Vala skemmti sér vel við þá sýn að sjá mig troða þessu ofan í mig.

Núna bíður Royal karamellubúðingur eftir okkur í ískápnum. Hmm... Föstudagskvöld - í fríi...! Ég held bara að ég hafi saknað þess!

Aftur og nýbúið
Ég vil meina að ég sé undir slæmum áhrifum frá vinnufélögum. Í gærkvöldi var það í annaðskiptið sem ég var plataður á skyndilegt fyllerí af vinnufélaga. Í gærkvöldi voru opnaðar nokkrar flöskur af rauðvíni, þónokkuð af bjór og súkkulaði. Ég svaf á þessum líka fína sófa, en þegar ég vaknaði í morgun (um tíuleytið) þá hélt ég að ég væri staddur erlendis. Sex tíma drykkja frá eitt til sjö tekur svo hressilega á. Það var semsagt á mánudagskvöldið sem ég var líka plataður af vinnufélaga til þess að ræða málin yfir flöskunni.

Takk fyrir mig!

BodyStep vonbrigðin mín
Í dag rauk ég út úr húsi með töskuna mína, áttaði mig á því að ég hafði gleymt handklæði, rauk upp aftur á 3ju hæð, þegar ég var kominn út í bíl var ég með gleraugunum á mér. Ég get ekki verið í BodyStep með gleraugun, þannig að þriðja ferðin upp var farin til að sækja linsurnar sínar. Bara tíu mínútum áður hafði ég farið tvær ferðir upp með drasl og dót sem ég og Vala höfðum verslað. Þegar ég mætti svo út í Sporthús hafði tíminn fallið niður. Mikið rosalega var ég feginn, enda búin með nokkur step.

fimmtudagur, september 25, 2003

Siggi Bróðir – Brandarakall
Litlu systkini mín og Völu komu í heimsókn fyrir síðustu helgi. Þau gistu tvær nætur og við skemmtum okkur vel. Meðal annars fórum við á skauta, bíó, elduðum, út að borða, versla og fleira skemmtilegt. Eitt skiptið vorum við að fara í Pictionary og það var verið að skipta liðum. Við erum fjögur, ég, Vala (19), Heiðrún (11) og Siggi (10). Vala stakk upp á því að við skiptum í liðin stelpur og strákar. Þá gellur í Sigga litla bróðir, “nei takk, ég verð sko ekki einn í liði” síðan skríkir í honum eins og sprunginni vindsæng um leið og við förum í eltingaleik.

Ég þarf hjálp og ég á skilið að fá bætur fyrir fjölskylduna mína.

Fullt af gelgjum
Meika ekki þessar tölvustofur lengur. Núna voru bara 8 gelgjur að mæta inn með tilheyrandi varalitum, píkuskrækjum og látum. Við hliðina á mér situr strákur sem skoðar myndir af stelpum með stór brjóst og hinum megin er stelpa sem er í heimabankanum sínum, greinilega í fjárhagsvandræðum að reyna redda sér með því að millifæra milli reikninga. Fyrir framan mig sitja erlendir nemar sem eru greinilega hérna bara til þess að hanga í tölvunum, greinilega betra neta hér en heima hjá þeim, dööö, við erum líka miklu færri hérna sem þýðir minna álag. Þau eru helst að senda email heim til sín og segja að hér sé kalt en skemmtilegt.

Ég ætla að stinga af heim, ekki til þess að vaska upp, ryksuga, skúra, taka til, þvo þvott eða versla í matinn. Ó NEI! Ég er farinn heim til þess að laga þurrkarann. Í dag er ég handy-daddy, enda lærði ég taktana hjá Paw.

Fallegasta sundalaug í heimi!
Ég vil benda fólki á fréttasíðu Sjonna þar sem að Þjórsárdalslaug var kosin fallegasta sundlaug í heimi. Hægt er að lesa fréttasíðu Sjonna með því að smella hér.

Sakna þess að blogga
Núna er ég búinn að sitja uppi í Háskóla í rúman klukkutíma. Ég er með svo mikið samviskubit út af tímaeyðslu að ég er búinn að svitna meira heldur en eftir góðan BodyStep tíma hjá Unni. En vá hvað það er gaman að geta loksins sagt alla þá vitleysu sem maður hefur áhuga á að koma út úr sér, þó að helst hafi maður verið að lesa blogg hjá öðrum. Á þeirri rúmri viku sem ég hef ekkert bloggað - virðist enginn annar hafa bloggað. Er ég bensínið eða er Blogger klárlega búinn að vera í ólagi hjá þér líka? (ég semsagt get ekki lesið blogspot né skrifað á blogger heima hjá mér).

Stokkhólmur - púðurskot
Ég var í algjörri spennutreygju á mánudagskvöld. Það myndi koma í ljós seinna um kvöldið hvort ég færi til Stokkhólms daginn eftir. Það var rosalega gaman að bíða og sjá hvort að ég og Elfa myndum drífa okkur út til Stokkhólms til þess að fara á ráðstefnu um "Same-sex-marriage". Ásgeir ætlaði að leyfa mér að gista og læti. Við ætluðum þá að vera í viku. Síðan var Ási eitthvað búinn að tala um að kannski myndi hann bara koma og segja hæ - í Stokkhólmi. Þið getið rétt ímyndað mér hvernig ég var orðinn. Síðan var ég kominn heim, á mánudagskvöldinu, alveg í sjokki og spenningi eftir að hafa verið á neyðarfundi stjórnar FSS vegna Blóðbílsins sem kæmi daginn eftir. Síðan kom ég heim, ekki alveg viss hvort ég ætti að pakka niður til að fara til Stokkhólms eða hvað. Þá hringir dyrabjallan, þar stendur hún Svava sem er að vinna með mér. Hún segjir bara hæ, spyr hvort að ég geti ekki búið til Latte - það var náttúrulega ekkert mál - en þá dró hún upp flösku af Amarúla sem hún sagði að færi einstaklega vel út í kaffi. Það endaði með þvi að við drukkum þrjá eða fjóra latte - helmingurinn af því var samt Amarúla. Þegar Svava fór um nóttina, þá áttaði ég mig á því að ég var bæði orðinn kenndur og kominn með of mikið af magni af koffeini í líkamann. Ég veit ekki hvenær Svava fór, en ég hætti að lesa klukkan 4 en lá andvaka fram eftir nóttu. Aldrei hafa verið jafn mikil not fyrir kærasta eins og þá - ekki jafn líklegt að maður hefði fengið jákvætt viðbrögð að reyna vekja einhvern á þessum tíma.

Stórborg
Fréttir frá Kaupmannahöfn fæ ég aðallega frá konunni minni, sem er búsett þar, fjölmiðlum MSN og slúðri sem sleppur á milli landamæra. Merkilegt hvað Danir og Skánverjar halda að þeir séu stórir og merkilegir, en kannski voru þetta bara stjörnustælar í þeim að reyna líkjast eftir Bandaríkjamönnum. En svona atburðir látta mann velta því fyrir sér hvenær þetta gerist hérna á Íslandi og það verður þegar hugmyndir manna um að flytja rafmagn úr landi verða að veruleika. Þið kannski munið eftir því þegar fólk var að tala um að setja rafmagnssnúru til Færeyja/Skotlands. En ef við gerum það þá er h ægt að fara skella skuldinni á okkur, eins og Bandaríkjamenn og Svíar hafa brugðist nágrönnum sínum.

Annars hefði ég gefið aleiguna til þess að vera staddur í Köben þegar allt var rafmagnslaust. Þetta gæti jafnvel orðið túristaefni. "Kaupmannahöfn mun vera rafmagnslaus fyrsta mánudag í hverjum mánuði" - sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Ég myndi reyna að mæta að minnsta kosti einu sinni.

Ef þú varst að velta því fyrir þér
þá var það ég sem var á forsíðu mest lesna dagblaðs á Íslandi í gær. En ef þú vissir það ekki þá var ég á blaðsíðu 2 í mogganum, líka í gær.

mánudagur, september 22, 2003

Loksins
Kemst ég af tölvunni minni inn á heimasíðu bloggers, en það hefur verið vandamál síðan um helgi. Það hefur svo margt gerst sem ég VERÐ að segja ykkur frá!

miðvikudagur, september 17, 2003

St. Pétursborg
Talaði við Geira áðan á MSN. Skyndilega spyr hann hvernig lífið sé á Fróni. Vissi ekki alveg hvaðan á mig stóð veðrið. Spurði hann hvar kauði væri. Hann er semsagt í St. Pétursborg og verður þar að minnsta kosti í 18 mánuði. Af hverju sagði mér enginn/hann neitt? Fyndið hvað fólk getur bara horfið af landi brott en haldið áfram að vera á MSN. Steypa hjá mér. Ég veit. Búið.

Hrækti á gólfið og setti Brimkló á fóninn
Þetta gerði systir mín í dag. Fyrst settum við Ladda plötuna á fóninn sem við áttum (ég) þegar við vorum lítil. Við gerðum dansinn við Súpermann lagið, einstaklega gaman að rifja upp taktana sem við lærðum saman í Dansskólanum í denn. Fjör baby fjör! Síðan endaði þetta í einhverjum eltingaleik og fíflagangi, eftir að hún hafði sparkað í mig og ég kýlt hana, lagðist hún á gólfið og hrækti á það. Hún þekkti mig of vel því þarna náði hún vopnahléi, ég var mættur eftir 3 sekúndur með sótthreinsandi og klút til þess að þrífa. Á meðan ég var upptekinn við það skipti hún yfir í eldgamla plötu með Brimkló og friður var í höfn. Spurning hvort svona aðferðir geti virkað fyrir botni Miðjarðarhafs til þess að ná sáttum og stefna að friði? Þetta virkar svona líka fínt heima hjá mér!

þriðjudagur, september 16, 2003

Hætt saman?
Af hverju er slúður svona skemmtilegt? Er það satt að Jónsi Jósep fallegi er hættur með konunni sinni? Getur maður þá tekið númer? Var Hanni að hætta með Birgittu því hann áttað sig á því að hann væri hommi? Má maður líka taka númer þar?

Aldrei fara á húsfundi!
Ég hefði alveg verið til í að heyra þessa ráðleggingu í dag eða bara einhvern tímann um helgina. Ég var semsagt á formannafundi uppi í Háskóla í dag strax eftir æfingu. Á eftir ætlaði Stúdentakjallarinn að bjóða okkur upp á ókeypis bjór til þess að kynna okkur starfsemina í vetur og eitthvað. En ég er eitthvað svo samviskusamur að mér fannst að ég ætti frekar að mæta á húsfund í blokkinni minni. Mætti aðeins of seint þannig að ég missti af innganginum og þurfti að setjast fremst. Síðan gekk dagskráin áfram og ég var alveg niðursokkinn í að skoða rekstarar- og efnahagsreikning félagsins. Eftir að hafa komist að því að efnahagsreikningurinn stefndi ekki og ég hef aldrei séð verra framsettan reikning var komið að næsta lið. Þessi liður var að kjósa formann. Fundarstjórinn spurði hverjir væru úr stigagangi 26, auðvitað rétti ég upp hendi á meðan ég renndi yfir tölurnar með hinni hendinni. Skyndilega sagði fundarstjórinn, að hérna fengjum við að sjá næstu stjórn. Ég leit fyrir aftan mig og þar sá ég allar konurnar í blokkinni minni, gamla manninn, gömlu konuna og svo unga manninn sem var líka með upprétta hendi, hann heitir Valur og á heima á 2. hæð. Það var semsagt samþykkt í þessari blokk að stjórnin gengi á milli stigaganga og þið eruð líklega búin að átta ykkur á því að stigagangurinn minn átti skyndilega að sjá um stjórnartaumana. Ég fékk að velja hvort ég vildi vera formaður eða gjaldkeri. Furðulegt val, það verð ég að segja. Endaði með því að ég valdi gjaldkerann. Valur er því formaður. Við fengum hana Jóhönnu úr fyrrverandi stjórn til þess að vera ritari hjá okkur og því var þessi úrvals stjórn kjörin eftir rússneskum leiðum. Síðan var okkur bent á allt sem að er komið í vaskinn. 5 milljónakróna lán er í veseni og fólk er að borga vitlaust mikið af því. Það kemur í minn hlut að reikna þetta allt upp á nýtt milli 54 íbúða sem eiga að borga út frá grunnfleti íbúðar. Spennandi, held ég vaki bara frameftir í kvöld. Síðan þarf að laga þakglugga hér og þar. Setja upp handrið, slétta stéttar og helluleggja upp á nýtt. Síðan þarf að losa niðurfall á einhverjum stað sem ég skildi ekki og klára eignarskiptasamninga. Gervihnattakerfið er í ólagi og sýnir bara þýska klámstöð (sem ég var ekki búin að átta mig á) 200.000 krónur hafa farið í þennan disk árlega undanfarin 5 ár en enginn hefur séð neitt, af hverju var þetta ekki stoppað? Ég var með einhverjar yfirlýsingar á þessum fundi yfir hvað væri illa gert í fjármálum og setti fingur út í margt. Meðal annars var greitt fyrir sérfræðiþekkingu um það hvort ætti að skipta um glugga einhvers staðar sem var dýrari en verktakinn var svo sjálfur. Heppni! Síðan komumst við að því að gervihnattatækið er í búrinu hjá konunni í kjallaranum á 24. Hver gerir svona lagað? Til hvers er þá sameign?

Ég fékk það samt samþykkt að allir myndu greiða 1000 krónur inn á sérstakan reikning væri notaður í framkvæmdir í framtíðinni. Öllum fannst þetta geðveikt sniðug hugmynd. Síðan tók ég það ekki í mál að greiða þennan 200.000 krónur í gervihnattadisk nema að einhver tæki það að sér að kanna möguleika okkar að nýta þetta kerfi. Þetta gerði ég allt eftir að hafa verið skipaður gjaldkeri, ásamt fleiru. Síðan var verið að tala um rólurnar og sandkassann, allt er þetta í lamasessi. Síðan kom spurning frá konunni í 22 til mín hvort að ég ætti börn. Ég átti síst von á þessari spurningu en þegar ég hafði svarað henni neitandi þá sagði hún að hún vildi fá samþykkt fundarins fyrir því að barnasvæðið væri tekið í gegn því að það liti út fyrir að ég myndi ekki greiða neitt eða leggja í neinn kostnað við það.

Þegar fundi var slitið gekk hún að mér, svona rétt til þess að afsaka spurninguna mína, snerti á mér upphandleggsvöðvann og sagði við mig: "þú ættir bara að drífa þig að eignast börn". Af hverju þarf ég alltaf að svara svona spurningum á einn veg? Auðvitað sagði ég: "ég og kærastinn minn erum að reyna, en ég bara verð ekki óléttur."

Þannig endaði ég minn aðalfund og núna sefur örugglega ekki blokkin mín því þau hafa áttað sig á því að þau lögðu milljónirnar í hendurnar á homma. Ætli þau búist ekki við að ég fari að versla með tékkheftinu? - Sem er annars mjög góð hugmynd.

fimmtudagur, september 11, 2003

Síðdegi á fimmtudegi
Er í smá lesupásu heima hjá mér. Ekki laust við að hér sé 1980-1990 stemning hjá mér. Ég sótti plötuspilarann í viðgerð áðan og hef verið að spila Strumpana (sem ég átti þegar ég var lítill), Kardimommubæinn (líka mín), fyrsta plata Björgvin Halldórssonar (pottþétt frá mömmu), BoneyM (spurning hvort pabbi hafi keypt hana), og fleiri plötur sem ég er búinn að stela frá þeim. Ég fann meira að segja tvær plötur sem aldrei hafa verið opnaðar, spurning um að geyma þær eins og rauðvín til betra tækifæris. Hvern er ég annars að blekkja, hvað getur það verið? Einhvern tímann þegar ég stunda kynlíf, góður þessi Gulli! Ég ætla að opna þær um leið og ég er búinn að posta þessa færslu. Kannski maður verði bara drepinn eins og Svíinn næst þegar ég fer að versla föt. Hver er að ná þessari vitleysu annars?

mánudagur, september 08, 2003

Skólinn á ný
Held að ég hafi aldrei tekið jafn vel eftir í nokkrum tíma og í morgun. Eyrum sperrt og ég glósaði eins og brjálæðingur. Ég var staddur í mínum fyrsta tíma á þessum vetri, er búinn að missa af einni viku, ég veit. En þetta er semsagt sama námskeið og ég var í fyrra. Miðað við aukinn áhuga á faginnu þá á ég eftir að brillera. Sjáið bara til. Ég meira að segja er búinn að lesa þrjá kafla í dag og næ örugglega að ná restinni í kvöld þannig að ég verði á áætlun, vonum svo bara að þetta haldi áfram svona. Stefán Ólafsson er skemmtilegur karl og gerir sig að fífli á hverri mínútu í Háskólabíó, fyndið að ég hafi ekki tekið eftir þessu í fyrra, svo er fólk að borga fyrir að fara á Stand-Up og komast í bíó. !?!?!

Kannski er ástæðan sú að ég er að koma úr alveg yndislegur "fríi" frá Spáni og Kaupmannahöfn. Ég er orðinn svo yfirmáta rólegur að ég er meira að segja 10 mínútum lengur að keyra upp í Breiðholt, gef stefnuljós og keyri bara yfir á grænu ljósi. Síðan er ég orðinn einn af þessum ökumönnum sem fussar yfir fólki sem tekur fram úr og er að flýta sér. Það tekur nefnilega allt sinn tíma. Svona lagað lærir maður í Köben. Ég pikkaði sem betur fer ekki upp neina ósiði á Spáni, þar einbeitt ég mér bara að góðum hlutum :)

föstudagur, september 05, 2003

Hejsan
Þá er Ráðmannsgatan kvödd, ég er búinn að pakka niður. Það virðist vera einhver hefð fyrir því að ég bloggi alltaf rétt áður en ég legg af stað út á flugvöll. Skemmtileg hefð verð ég að segja. Vaknaði í morgun við það að Paw setti brjálaða poppmúsik rétt fyrir sjö og sagði: Party, party! Óvenju morgunhress sá strákur! Síðan var farið af stað við að finna til danskan morgunmat sem samanstendur af brauði og miklu áleggi. I like it. En núna verður Íslendinganýlendan Kaupmannahöfn kvödd og mitt ferðalag til Spánar fer bráðum að ljúka. Takk æðislega vel fyrir mig, þið sem sinntuð þörfum mínum og þið sem ég ferðaðist með. Héðinn, þetta verður endurtekið!

mánudagur, september 01, 2003

Hann fór
Þegar ég var búinn að horfa út um gluggan í smá stund og vaska upp þá fór sæti fótboltastrákurinn. Ég pældi mikið í því hvort að ég ætti að hætta að vaska upp, en þá komu verkamennirnur úr pásu, en það er semsagt verið að grafa upp "garðinn" hérna á Rådmannsgötunni.

:)
Það er gott að vera á Rådmannsgötunni. Núna er ljóshærður hávaxinn sætur dani að kenna krökkum fótbolta á lóðinni fyrir utan. Ég held ég fari bara að vaska upp.

Kaupmannahöfn baby!
Jæja vaknaði í morgun í hvítum svefnsofa á Rådmannsgötunni í Kaupmannahöfn. Önnur táin hafði náð að gæjast fram undan sænginni og það voru sólargeislarnir sem voru byrjaðir að leika við tærnar á mér. Yndislegt að láta svo Ása vekja sig.

Ási og Paw höfðu að sjálfsögðu náð að læðast svo vel um íbúðina að ég hafði ekki rumskað við þá, en sólargeislarnir náðu að vekja upp allt líffræðilega kerfið inn í mér. Kannski er ég orðinn vanur því að sofa í kringum 20 manns í herbergi og verð því ekki var við þó einn af þeim fari á klósettið eða fái sér að ríða. Í gærkvöldi kom ég á Rådmannsgötuna eftir mikið og langt ferðalag. Á sunnudagsmorguninn kom ég heim af djamminu klukkan hálf sex, aðeins í glasi og átti eftir að pakka. Rútan fór semsagt klukkan sjö á flugvöllinn. En vegna einstaklegra mikillar æfingar við að pakka í glasi var það bara ágætt og að sjálfsögðu tókst það, náði meira að segja að fara í skemmtilega sturtu og leggja mig í korter - áður en ég byrjaði. Ég, Héðinn og Raúl höfðum farið á eitthvað celeb djamm í San Sebastian. En við fórum með einhverri sjónvarpsstjörnu á djammið og fórum þvi framfyrir í allar raðir og þurftum ekki að borga. Afköstin voru því alveg gríðarleg. Samt vorum við með pínu samviskubit því að restin af krökkunum voru heima í sumarbúðunum - sofandi.

Þegar á flugvöllinn i Bilbao var komið og Íslendingarnir búnir að checka sig inn í flugið sitt var komið að kveðjustund. Allir hóparnir höfðu farið með okkur á flugvöllinn því að við áttum flug klukkan tíu en restin átti flug klukkan 3 og 5 seinna um daginn. Ég var ekki búinn að spenna sætisólarnar þegar ég sofnaði. Þá byrjaði einmitt svona fight-club fílingur þar sem að maður vaknar bara á nýjum og nýjum stað. Vaknaði semsagt við það að flugvélin var að lenda á London-Stansted og lét alla vita pent að ég væri vaknaður með pínu stelpulegu og skræku öskri. Tautaði svo eitthvað um lélega þjónustu því að aldrei hafði mér verið boðið neitt að drekka. Á Stansted komu ekki allar töskur í leitirnar, en ég, Elfa og Héðinn fengum töskurnar okkar og drifum okkur því áfram til Kaupmannahafnar. Við vorum rétt búin að tjekka okkur inn, búin að borða á Point1s þegar við heyrðum last call with EasyJet to Copenhagen. Við vorum ekki lengi að snara okkur í gegnum öryggishliðin og taka lestina í rétt Terminal. Þegar á staðinn var komið hafði verið kallað út í vitlausa flugvél, en EasyJet var með flugvél til Kaupmannahafnar og Prag á sama hliði og vegna misskilnings var kallað út í Kaupmannahöfn, þó að hún væri enn lokuð en Prag var komið á eftir áætlun. Sniðugt! Þegar við vorum svo loksins komin um borð í vélina og búið að telja farþegana svona 500 sinnum í rúmar 20 mínútur kom í ljós að það vantaði einn farþegann og seinna komst í ljós að hann hefði verið meðvitundarlaus í landganginum. (!) Já maður spyr sig. Þegar þeim hafði tekist að vekja hann kom hann um borð í vélina. Hvítur, fölur en sætur strákur.

Ætli við höfum ekki beðið í svona 15 mínútur til þess að komast frá Terminalinu því það var verið að redda okkur nýrri flugleið. Þegar við vorum svo hálfnuð út á flugbrautina snýr flugvélin skyndilega við á punktinum og er fylgt til baka með bláblikkandi bílum. Þá var okkur nú ekki farið að standa á sama. Þegar vélin hafði verið stöðvuð voru hurðarnar á vélinni rifnar upp af mössuðum vöðvatröllum sem gengu um vélina eins og vélmenni. Það helsta sem vakti athygli þeirra var veiki maðurinn aftast í vélinni en eftir að hafa sinnt honum í hálftíma og annað lið af mannskap hafði greinilega verið að leita að sprengjum á vélinni var ákveðið að halda af stað. Já og kannski ætti ég að segja ykkur frá hóp manna sem stóð stutt frá tilbúinn að rífa farangur vélarinnar út úr henni. Jæja hérna er nú þegar kominn einhver svolítil töf en hún var nú ekki mikil eftir og ekki til umræðu eftir allt það sem á undan gekk.

Lögreglan í Kaupmannahöfn beið svo eftir okkur þegar við mættum. Héðinn bauð upp á pulsu en Elfa var sótt af lesbískupari. Við tókum þá lestina, ég til Norreport en Héðinn á Hovedbannegården. Þegar ég kom og ætlaði að taka strætóinn til Ása og Paw horfði ég á eftir 5A en vissi að 16 færi sömu leið. Án þess að pæla neitt mikið meira í því stökk ég upp í strætóinn sem kom næstur þegar ég áttaði mig á því að það væri 14. Eftir smá vesen komst ég aftur á leið 5A sem tók mig heim til Ása. Ég mæli ekkert með því að labba á hellulögðum gangstéttum Kaupmannahafnar með 26 kíló í eftirdragi, samt fannst mér það ekkert mál þar sem ég hafði ekki hitt þessa elsku í hálft ár.

Núna er ég semsagt staddur á Rådmannsgötunni minni með bláa klippikortið mitt. Ég ætla að lifa eins og dani í fimm daga í viðbót. Held að ég komi heim með harðsperrur í brosvöðvunum.