mánudagur, janúar 30, 2006

Davos í Sviss
Ég og Brad Pitt eigum meira sameiginlegt en fegurð, þokka og útgeislun. Brad Pitt var fyrr í þessum mánuði í Davos í Sviss, en þar var ég einmitt síðasta sumar. Brad Pitt lét ekki þar við sitja, heldur sat einmitt í nákvæmlega sama sæti og ég í ráðstefnuhöllinni þar í borg. Við hliðina á honum sat Angelina Jolie, en þar sat einmitt Sandra vinkona mín frá Hollandi - bara 5 mánuðum fyrr.

Ég tók daginn annars snemma, bauð Siggu systur og Bergi í morgunmat til mín. Espressó, croissant og snúður var á borðum. Ég og Sigga værum mætt í sund tíu mínutur yfir níu og ég mættur til náms einum og hálfum tíma síðar. Dagurinn hefur verið æðislegur.

Um helgina vann ég á árshátíð hjá tryggingafélagi. Mér þótti mikið gaman að fylgjast með skemmtiatriðunum, sérstaklega Eddu Björgvins. En ég var nærri búinn að míga á mig og hella rauðvíni á konu forstjórans þegar hún fór sem mestum kostum.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Aftur - og nýbúinn
Ég var að koma úr bíó, fyrir nákvæmlega viku síðan var ég í bíó með Völu systur á nákvæmlega sömu mynd og ég fór á núna. Núna fór ég hinsvegar með Pétri og ég naut myndarinnar aðeins öðruvísi. Myndin er auðvitað Brokeback Mountain og við erum að tala um kúrekahommana tvo. Ég tók eftir öðrum atriðum í myndinni í þetta skiptið og ég verð sannfærari um það í hvert skipti að hér er um að ræða einstakt meistaraverk. Tóku þið til dæmis eftir því að það er engin tónlist í myndinni, en reglulega er stef sett af stað, alltaf bútur úr sama stefi. Stefið er alltaf sett á þegar kúrekarnir tveir eiga einhverja tilfinningalega eða sameiginlega stund. Myndin endar svo á því að allt stefið er spilað, þannig að það er eins og það kveiki í öllum þeim tilfinningum sem maður fann fyrir í þeim atriðum sem þau voru spiluð undir. Það er þvi ekki óeðlilegt að maður gangi út úr bíóhúsi með örlítið vot augun og kökk í hálsi.

Það er gott að eiga vin eins og Pétur, fastir liðir eins og venjulega. Ég og Pétur tókum ákvörðun eftir að hafa séð myndina saman, að eyða lífinu ekki í neina vitleysu. Hvort það þýði að ég verði buxnalaus í afmælispartýinu hennar Ginger eða ekki, verður bara að koma í ljós. Talandi um Ginger, ég vil bara óska þessari elsku til hamingju. Á einu ári hefur hún náð að flakka um allan heiminn takandi myndir á karabískum eyjum, drekkandi staffabjór í öllum helstu skemmtiferðaskipum heims og nældi sér í heitasta gæjann í flotanum. Kemur svo heim með business hugmynd og er búinn að fá vinnu hjá stóru og rótgrónu fyrirtæki hér á Íslandi - bara af því þeir hafa trú á hugmyndinni hennar og að hún komi henni í framkvæmd. Hvað er ég svo að reyna ná mér í BA gráðu í stjórnmálafræði?

Munið eftir því þegar Halldór kom fram á náttfötunum í Strákunum? Gaman frá því að segja að Svava í Guðsteini bar það undir mig áður en hún lét þá hafa náttfötin, hvort hún ætti að láta náttfötin í svona "vitleysu þátt". Ég sagði henni að hlaupa af stað og gefa þeim eins mörg náttföt og þeir vildu, eins og kom í ljós er bara nýhætt að tala um Halldór á náttfötunum. Ég ætti að fara í markaðsmál, líkt og Tom og Lynette, fullkomna parið í Desperate Housewifes.

Var annars að vinna í Hraðbraut í dag. Mér skilst að krakkarnir hafi verið ansi spennt þegar þau vissu að það væri ég sem myndi vera hjá þeim í dag. Ég sel svo góða nærveru, sjáið til.

Fékk annars drátt um daginn, um miðja nótt, og það engan smávegis sinadrátt. Ég hélt að ég ætti ekki annað eftir. Sindráttinn fékk ég í vinstri kjálkann og ég vissi ekki hvert ég ætlaði, fannst eins og ég myndi bíta í tunguna mína og kafna á Nóa-Kroppinu sem ég át klukkan hálf þrjú að nóttu til liggjandi á bakinu uppi í rúmi. Þeir sem þekktu mig í Versló eru áreiðanlega að rifja upp aðra Nóa-Kroppsögu núna, sem einmitt gerðist líka í rúminu mínu.

Þetta er annars síðasti spretturinn af Janúar. Finnst það bæði óþægilegt, gott og skrítið. Finnst eins og ég sé búinn að vera duglegur að koma verkum frá en vera jafn duglegur að taka að mér verkefni og kúrsa upp í HÍ, þannig að það sér ekki högg á vatni.

En hafið ekki áhyggjur, ég mun ekki minnka bloggið, ekki á meðan þið kommentið.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Afmæli
Mér hefur aldrei fundist ég vera gamall, eða hafa náð háum aldri. Hvað þá að ég væri búinn að vera sjálfstæður í mörg ár. Það var ekki fyrr en um jólin og núna síðast um Þorrablótið að ég áttaði mig á því að ég er að eldast. Árin hreinlega hlaupa frá mér og mér finnst ég ekki hafa náð að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég hef til dæmis ekki náð að spara nógu mikinn pening, ég hef ekki lesið nógu margar bækur, ég hef ekki klárað nógu margar einingar í Háskólanum, ég hef aldrei búið erlendis, ég hef aldrei farið sem skiptinemi, ég hef aldrei keypt eða selt hlutabréf, ég hef aldrei unnið stóra vinninginn í Lottó, ég hef aldrei leikið í bíómynd, ég hef aldrei mætt með kærasta í nýársfagnað ömmu minnar, ég hef aldrei verið keppandi fyrir Íslands hönd, ég hef aldrei fótbrotnað á skíðum og ég hef aldrei átt klæðskerasaumuð föt.

Mér var sama um þetta allt saman, fannst ég alltaf lifa fyrir hvern dag og nýtti hann til hins ýtrasta, reyndi alltaf að blanda hann saman af örlítið af vinnu og örlítið af skemmtun - mismikilli blöndu þó.

Það er líklega ekki fyrr en maður sér foreldra sína eldast og verða var við það, sem manni finnst maður sjálfur vera eldast. Foreldrar mínir eru núna báðir komnir á seinnihluta fimmtugsaldursins, nákvæmlega á þeim tímapunkti sem fólk á að verða ömmur og afar. Samt er eitthvað svo andskoti langt í að þau verða það. Ég er ekki alveg að fara ættleiða strax og allir þeir sem þekkja hana systur mína, vita að hún er ekki að fara baka köku í sínum ofni - þegar hún ræður bara við að baka venjulegar skúffukökur.

Ég vil óska mömmu minni til hamingju með daginn. Hún fékk sinn afmælisdans síðasta föstudag.

mánudagur, janúar 23, 2006

Stefnumót og skilaboð
Vinkona mín á afmæli í næsta mánuði. Hún verður þrítug. Henni langar til þess að halda vel upp á afmælið sitt með stórri og mikilli veislu. Ég á að stýra veislunni, sjá til þess að haldnar verði ræður, fólk fari í leiki og almennt skemmti sér vel. Titillinn á þessu starfi kallast veislustjóri. Ég hlakka svolítið til veislunnar, vinahópurinn er ansi skemmtilegur, kjarninn myndaðist þegar við unnum saman á Argentínu. Regla veislunnar, eða þema, er að allir verða að mæta með maka, unnusta, kærasta eða deit. Þeir sem ekki mæta með eitt slíkt verða að fara úr buxunum um leið og yfirhöfninni þegar mætt er til veislunnar. Vinahópurinn leitar núna logandi ljósi að einhverju til þess að taka með sér, en ekki eru vinir eða eintök af röngu kyni tekin gild.

Talandi um stefnumót, þá á ég í stökustu vandræðum hvort ég eigi að finna mér deit til þess að taka með mér á Icelandairgroup árshátíðina. Flugfreyjuhópurinn minn er eiginlega allur búinn að skrá sig, og á að giska helmingur með deit. Ætti ég að draga einhvern með mér, eða tjútta kvöldið niður í sokkaleista? Yfirskrift kvöldsins er: "Rock the grúp 2gether!". Merkilegt að vera búinn að velja sér föt, skó og undirfatnað til þess að fara í, en eiga í vandræðum með maka, eða ekki og ef svo er, þá hvern?

Í nótt sendi ég skilaboð, þau áttu að fara til Ölmu, verðandi sambýlings, en skilaboðin innihéldu upplýsingar um Ólöfu, núverandi sambýlings, og ýmis grundvallaratriði. Ég sendi svo skilaboðin til Ólafar, ekki Ölmu. Komst svo ekki að því fyrr en nærri sólarhring síðar.

Þetta kom einu sinni fyrir mig áður, þá bara komst ég að því strax og það voru mistök eilítið alvarlegri. Á þeim tíma var ég að deita strák og hafði kynnt hann fyrir vinum mínum, fyrsta skipti sem hann hitti þá. Auðvitað verður svona stund þrungin dómum, vangaveltum og almennri kurteisi. En kauðinn sem ég deitaði var eiginlega ekki með kurteisi og sýndi á sér algjörlega nýja hlið. Það var einmitt þá sem ég áttaði mig á því að hann vann ekki vel undir pressu. Ég veit það núna.

Það var langt áliðið á kvöldið og ég keyrði hann heim, en morguninn eftir áttum við pantað flug til Kaupmannahafnar. Héðinn sendi mér skilaboð þegar við höfðum farið sem ég svarði svo á leiðinni heim til mín, með tárin í augunum, eyðilagður yfir atburðarás kvöldsins. Þessi skilaboð ætlaði ég að senda Héðni en sendust á þann mann sem alls ekki átti að vita innihald þeirra.

"Ég er svo vonsvikinn með hann, hélt að hann ætti þetta ekki til. Fyrirgefið strákar. Ég held að þetta samband eigi ekki langt eftir, ég fer til Kaupmannahafnar og lýk þessu svo þegar heim er komið. Takk strákar!"

Morguninn eftir sváfum við báðir yfir okkur, vöknuðum klukkutíma fyrir brottför, brunuðum til Keflavíkur saman og náðum helvítis flugvélinni á síðustu stundu, enda vélin aðeins sein úr fyrra flugi. Þvílík heppni. Ætla samt aldrei aftur til útlanda með einhverjum sem ég sendi óvart svona skilaboð. Í Kaupmannahöfn var magnþrungin bónusnótt, full af sættum og fyrirgefningu - sem náði að bjarga ferðinni, ferðinni sem var þolanleg alla leið til Keflavíkur aftur.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Flippstofa Íslands
Að vinna á Hagstofu Íslands er góð skemmtun. Innanhúsátök eru gífurleg, þá aðallega um hver eigi stærstu skrifstofu, hver þurfi að sitja bak við súlu og hver fái glugga sem snúi ekki að umferðinni að Borgartúni. Daglegt þrætuepli og leiðindamál er samt um það hver hafi slökkt (eða réttarasagt ekki slökkt) á kaffivélinni.

Einu sinni benti ég á að í raun væru allir sekir, því enginn hafi slökkt á vélinni, eða væri kannski enginn sekur því enginn slökkti á henni? Velti því fram hvort einhver gæti í raun verið sekur um eitthvað sem hann hefði aldrei gert. Ég hef síðan þá ekki verið boðið í deiluna um kaffivélina, enda líklega einn af þeim fáu sem ekki drekk Hagstofu-kaffi.

Allir muna eftir því þegar 300.000 Íslendingurinn fæddist, þetta var víst einhver Suðurnesjamaður. En það sem alþjóð veit ekki, það var að starfsfólk Hagstofunnar fór í veðmál um hvenær 300.000 einstaklingurinn leit dagsins ljós. Þrír giskuðu á rétta dagsetningu og fengu að gjöf kaffikörfu og eitthvað sælgæti, enda var það Ólöf sjálf í Mannfjöldadeild Hagstofunnar sem sá um það. Ólöf er þekktust fyrir að stelast í sælgætið mitt, súkkulaði og hlaup, en skilja allt það súra og sterka eftir.

Í vinnunni minni komst ég að því að einn vina minna heitir Guðjón að millinafni, en það var eitthvað sem ég hafði ekki nokkra hugmynd um. Þeir sem giska á rétt svar fá verðlaun frá Þjóðskrá.

laugardagur, janúar 21, 2006

Þorrablót og verkföll
Í gærkvöldi blótuðu Gnúpverjar Þorra venju samkvæmt. Það sem var hinsvegar óvenjulegt var að þessu sinni mætti ég sem gestur en sá ekki um að veislan færi vel fram og færði fólki áfenga drykki. Mér fannst alveg við hæfi að draga Siddý með mér, sérstaklega af þeirri ástæðu að hún hafði ekki farið á íslenskt þorrablót, þá ekki nema á erlendri grundu.

En sveitungum mínum þótti það einstaklega athyglisvert að ég mætti með kvenmann upp á arminn, og fólki spurði bæði mig og spússu mína hverju þetta sætti. Ég held samt að Siddý hafi ekki verið spurð beint hvort að hún vissi að ég væri hommi, en ég var spurður hvort ég væri búinn að hætta við...

Annars langar mig að segja ykkur frá vini mínum, vini mínum sem er einlægur í sinni trú og starfar meðal annars í sunnudagaskóla og æskulýðsstarfi í stærstu sókn landsins. Vinur minn er mjög samviskusamur í sínu starfi og vill gera allt á sannan hátt. Nú þarf ég líklega að segja ykkur það að presturinn í þessari sókn þykir ansi forhertur, jafnvel erfiður en vinur minn er blússandi hommi. Vinur minn var látinn sjá um hóp væntanlegra fermingarbarna eitt síðdegi og var meðal annars eitt af því sem börnin vildu ræða var að ræða um samkynhneigð. Í framhaldi af því var hann tekinn inn á teppið hjá sóknarpresti og aðstoðarprestum. Honum leið illa yfir því. En eftir nýárspredikun biskups, tók steininn úr og vinur minn fór í verkfall, hætti að mæta til þessara starfa í kirkunni.

Vinur minn ætlar að mæta til vinnu á morgun, presturinn er víst búinn að sjá að sér og sagan segjir að sérann hafi í fyrsta skipti áttað sig á því að "homminn" hafði tilfinningar - það hafði hann bara ekki áttað sig á fyrr. Mig langar að vita

Síðdegis í dag tók ég rússneskt vodkaskot með karli föður mínum, það þótti mér gaman. Brennivínsskotin voru samt mun fleiri en eitt í gærkvöldi, enda renndu þau niður lundabagganum sem mér þótti mjög góður.

föstudagur, janúar 20, 2006

Brokeback Mountain
Í dag sinnti ég yfirsetukennslu í Menntaskólanum Hraðbraut. Ég fékk að læra heima, aðstoða við heimanám og stjórna krakkaher líkt og herforingi - allt á launum. Velti því alvarlega fyrir mér af hverju ég færi ekki að læra kennarann. Það væri mér að skapi, verst að mega ekki aga börn almennilega - eða má það?

Eldsnemma um morguninn fór ég aftur til húðsjúkdómalæknisins, við bjuggum til plan. Ég sé hann aftur, seinna á þessu ári þegar ég verð búinn að safna mér pening. Mikið hlakka ég til, held hann líka.

Kvöldinu var eytt á Flippstofu Íslands þar sem ég eytti flestum stundum í að aðstoða og leiðbeina fólki sem er eldra en ég sjálfur. Þar sem ég er algjör elítu-hommi er ég búinn að liggja á fjórum frímiðum á hollýwúd-hommamynd og hafði sterka þörf til þess að skella mér. Reyndi að draga sem flesta með mér, allir neituðu utan minnar tryggu systur.

Á morgun skundum við Siddý í sveitina, strax eftir að ég er búinn í Hraðbraut og látum Völu systur keyra okkur austur á þorrablót. Ég sé þetta mjög skýrt fyrir mér; ég og Siddý situm í aftursætinu með bjór, Madonna er undir geislanum og við segjum skítugar sögur. Um kvöldið munu sveitungar mínir verða ringlaðir og álykta að ég sé skyndilega upp á kvenmennina kenndur.

Ég á því tvo afgangsmiða á homma-hollýwúdmynd. Vill einhver koma með mér?

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Ofnæmi og svefn
Í dag hitti ég húðsjúkdómalækninn minn í þriðja skiptið á jafn mörgum vikum. Í dag benti ég honum á mjög svo ört stækkandi dökkan fæðingarblett á brjóstinu á mér. Honum fannst þetta ekki merkilegt og skelti mér frekar í ofnæmispróf, ætlaði að skoða "dílinn" þegar ég kæmi svo í álestur af ofnæmisprófinu.

Sjúkraliðinn (hún var einmitt merktur sjúkraliði, en ekki hjúkrunarfræðingur, eða hjúkrunarliði eða eitthvað slikt - heppni bara að hún var ekki ræstingartæknir) límdi stóra plástra á bakið á mér og hafði á orði hvað það yrði vont fyrir mig að taka plástrana af. Mjög svo pent benti hún mér á aðgerð sem þau bjóða upp á, en ég snéri þessu í höndunum á henni þegar ég sagði henni að ég ætti pantaðan tíma.

Þegar ég var svo að ganga út sagði hún við mig: "Já og ekki taka neitt á næstu daga, leyfa plástrunum að liggja óhreyfðum á bakinu". Ég kallaði til baka að það yrði ekkert mál. Svo fannst henni hún þurfa að bæta við: "Og alls ekki skúra, það fer eiginlega verst með þetta allt saman".

Það var einmitt þá sem ég snéri við, kímdi og spurði hvort hún væri að grínast, það hefði einmitt verið efst á aðgerðalistanum mínum þegar heim væri komið. Þegar hún sá að ég var ekki að grínast, sagði hún: "Mér datt ekki einu sinni í hug að þu skúraðir, hefði áhyggjur af því að þú myndir móðgast".

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Bjúgu og kartöflumús
Í dag byrjaði kúrs með "Berta" einn helsti ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar í utanríkis- og varnarmálum. Berti er voðalega viðkunnalegur maður, einstaklega málheppinn, brúnaþungur, fyndinn, dapur og hnitmiðaður. Hann var hægri hund, guðs föðurs almáttugs, D. Oddsonar.

Berti er svona maður sem hefur verið þarna, upplifað þetta allt. Ef hann væri Kani hefði hann verið í Víetnam. Ef hann hefði verið upp á nýlendutímanum, hefði hann stjórnað nýlendustefnu Breta eða Spánverja, náð árangri. Ef hann væri Rússi hefði hann komið í Höfða og lokið kalda stríðinu, en hefði hann verið Serbi hefði hann planað aftöku Austurríska ríkisarfans sem kom af stað seinni heimsstyrjöld.

En af því að Berti er Íslendingur fundar hann í Osló og deilir við Norðmenn um fisk eða í Þórshöfn og deilir við Færeyjinga um miðjulínu. En í dag er hann kominn í skrifborðsstarf í ráðuneyti og er því ekki jafn mikið úti á "vellinum" og áður. Þess vegna hefur Berti verið skipaður sendiherra, sendiráðslaus sendiherra. Nú er bara að bíða eftir að það losni sendiráð handa karlinum.

Á síðustu önn var hann spurður um forsendur þess að Íslendingar studdu innrás Bandaríkjamanna inn í Írak. Berti var að kríta á töflunni þegar spurningin var borin upp (því Berti má eiga það að hann er skýr og skipulagður maður, flokkar námsefnið niður). Berti snýr sér við, greinilega orðinn þreyttur á endalausri orrahríð eða kannski lá bara svona ljómandi vel á honum - í raun veit það enginn (í alþjóðlegum samningaviðræðum er nauðsynlegt að kunna fela hinar raunverulegar skoðanir og tilfinninar, sérstaklega í ljósi fælingarlíkansins). Berti yptir því öxlum og spyr á móti: "Hvernig á maður að bregðast við þegar maður er staddur á einhverjum loftslagsfundi í Kanada, svefnvana og pirraður á fundarfólki, þegar hringt er frá Íslandi um miðja nótt og spurt sé hvort Ísland ætti að styðja innrás inn í Írak með bandaþjóðum?" Berti blæs út loftinu í nefholunum þegar hann segjir: "Auðvitað segjir maður já, og er ekki nokkurri aðstöðu til þess að segja annað".


Í kvöld bauð ég mér í mat til Árna Grétars og Höllu, en sá fyrrnefndi var að fest kaup á íbúð. Ég og Halla fórum út í búð að versla, komum heim með bjúgu og kartöflur. Í nýrri íbúð Árna Grétars voru því étin feiknin öll af bjúgum, kartöflumús, rauðkáli og uppstúf.

mánudagur, janúar 16, 2006

Skólinn er byrjaður
Ég var mættur í skólann í dag, þremur mínutum eftir að tíminn byrjaði eða klukkan 8:18. Tíminn var samt búinn þegar ég mætti. Fyrsti dagurinn í Háskólanum er ótrúlega skrítinn. Kennarinn átti að kenna lang flestum nemendum aftur klukkan 11 síðar um daginn, en hún neitaði að gefa upp hvort það yrði kennsla eða ekki. Fólk yrði bara að mæta til þess að finna það út.

Sem betur fer var ég búinn með þann kúrs, en hefði ég látið bjóða mér það að bíða í þrjá klukkutíma eftir næsta tíma sem myndi kannski standa í þrjár mínutur. Er þetta virkilega akademískt umhverfi? Æðsta menntastofnun landsins?

Samt var skemmtilegast að ganga í skólann í morgun. Ég þurfti að klofa snjóinn og það var eiginlega bara pínu gaman, enda beit kuldinn í kinnarnar og snjórinn læddi sér upp með kálfunum, undir buxnaskálmunum (ekki pilsinu). Ég tók fram úr tveimur bræðrum, annar hefur verið svona sjö eða átta ára, hinn var örugglega í tíunda bekk. Sá yngri þurfti að hoppa í hverju skrefi því hann var rosalega smávaxinn og réð ekki við snjóskaflana. Sá eldri var þónokkrum skrefum framar en samt héldu þeir upp þeim krúttlegustu samræðum sem ég hef orðið vitni að.

Sá eldri kenndi þeim yngri hvernig best væri að nota fölsuð skilríki, en samkvæmt honum þyrfti maður bæði að passa skegg, rödd, föt, augnaráð og líkamstilburði.

Langt síðan ég hef verið beðinn um skilríki.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Hópuðust í messu
Samkvæmt fréttum í dag flyktust hommar og lesbíur í messu í dag. Ég fór í messu í Fríkirkjunni en get ekki sagt að við höfum ekki beint flykst í messu, en stór hluti okkar mætti allt allt allt of seint, gekk á eftir prestunum inn kirkjugólfið.

Fyrsta tilraun til þess að sjá Brakeback Mountain var í dag, hún var ekki sýnd klukkan átta. Fór heim.

laugardagur, janúar 14, 2006

Laugardagur til lukku?
Nei, ekki ef föstudagurinn þrettándi heppnaðist vel. Ég vaknaði við magann á mér. Þegar ég opnaði augun og sá fötin mín, áttaði ég mig á því að ég hafði ekki afklætt mig sjálfur. Sama hversu fullur ég hefði komið heim hefði ég aldrei lagt þau svona frá mér. Aldrei. Samt var ég einn. Áður en ég náði að velta þessu meira fyrir mér þurfti ég að sinna kalli innyflanna minna sem kölluðu á morgunæfingarnar.

Þynnkan var ólýsanleg. Það var eins og ég hefði borðað heilan pakka af galvínseruðum saum og rafstraumur endasendist heilahvelfanna á milli. Sambýliskonan var einstaklega hjálpleg við að gera mér daginn bærilegan, þoldi mig á nærbrók einni saman allan daginn - því föt voru svo óþægileg viðkomu. En hún fór líka á taugunum þegar ég fór að kasta upp blóði, þá kallaði hún til lækni. Ég held að Ólöf hafi í alvörunni verið mjög hrædd um mig, en þegar ég loksins stóð upp af gólfinu, tók til þrífilögursins og burstans, þá sagði Ólöf við lækninn:

"Nei, bíddu, hann er orðinn eins og hann á að vera. Þetta er líklega ekkert alvarlegt."

Um kvöldið vorum við búin að hesthúsa vænni pizzu frá Hróa hetti, horfa á góða mynd með Adam Sandler og eiga almennar góðar sambýlisstundir - þegar sú hugmynd kviknar að fara í strætóferð.

Og það gerðum við þegar klukkan var gengin korter í tólf á miðnætti, tókum við S6 upp í Spöng .... OG TIL BAKA. Með okkur voru litlar Rimastelpur sem eiga ríka foreldra og út frá útliti þeirra hafa ekki fermst til þess að játast trúnni. Þær voru allar í svörtum fötum, skítugt hár, gaddabelti og fleira. Ég og Ólöf vorum bara pínulítið hrædd við þær. En þær létu okkur vera - að mestu. Við komumst að því að þær voru að sækja sér áfengi til einhverra stelpu sem hét Begga. Þær öskruðu á hana.

Eftir þennan eina og hálfa klukkutíma í strætó með Rimastelpunum var gott að leggjast upp í rúm og svífa inn í draumalandið. Við vorum nokkuð hamingjusöm með því að leigja hér í miðbænum, því að Grafarvogurinn er langt í burtu og okkur fannst við ekki missa af miklu.

Í næstu strætó/könnunarferð sambýlisins að Hringbraut verður farið suður í Hafnarfjörð. Ég ætla að leggja til að það verði að degi til og stoppað verði (rétt á meðan skiptimiðinn rennur út) og fengið sér kaffi.

Þetta er sko alvöru sambýli.

föstudagur, janúar 13, 2006

Hinn fullkomni dagur
Föstudagurinn þrettándi er greinilega minn lukkudagur. Dagurinn hefur verið alveg hreint dásamlegur. Hann byrjaði nokkrum sinnum þegar ég var að berjast við augnlokin, en þau gáfust upp þegar ég setti Madonnu af stað. Fæturnir drógu mig fram úr áður en ég náði að fara í nokkra flík og ég dillaði mér í hverju einasta herbergi íbúðarinnar á meðan ég tannburstaði mig, greiddi, útbjó morgunmat, setti í skólatöskuna og fletti blöðunum.

Skóladagurinn bauð upp á síðasta kennsludag í hraðkúrsinum um Menningarmyndun sem hefur verið þessa vikuna. Skoski kennarinn okkar var léttur í dag, lék fyrir okkur á sekkjapípur og sagði skemmtilegar sögur. Hádegishléinu eyddi ég í að svara skemmtilegum tölvupóstum, aðallega frá útlendingum sem fengu frá mér jólakort og búa ekki við þann skemmtilega sið.

Klukkan tvö þegar tíminn var búinn spretti ég heim til mín, kveikti á ofninum og skellti í eitt bananabrauð. Ákveð að skella smá Grand Mariner og minnka sykurmagn að þessu sinni, pipar og negul í þetta skiptið. Á meðan brauðið bakaðist hringdi ég í systur ömmu sem átti afmæli, hún sagði mér að hún hafði gert sér ferð í bankann um morguninn til þess að millifæra. Ég held að ég hafi aldrei gert mér ferð í bankann. Svo hringdi ég niður í Guðstein og sagði þeim að ég skyldi sjá um meðlætið með kaffinu að þessu sinni. Gömlu kerlingarnar urðu spenntar og ég gekk í þessu rólega og fallega veðri með heitt bananabrauð undir hendinni. Bananabrauðslyktin duldist engum þeim sem ég mætti.

Eftir rúman klukkutíma í kaffi hjá öllum í Guðsteini fór ég í stutta heimsókn til Siggu systur þar sem við fórum yfir krísur í lífum okkar, bara örstutt áður en ég var sóttur af Önnu Völu sem keyrði mig heim. Ég hellti upp á nýju kaffikönnuna mína sem ég fékk í skóinn og notaði nýju bollana sem ég fékk í jólagjöf. Nauðsynlegur klukkutími þar sem við fórum yfir stöðu mála.

Jói kom og sótti mig tveimur mínutum eftir að Anna Vala fór. Jói fór með mig í Laugar, en þessi ferð verður mér ógleymanleg. Við fórum í Dirty Dancing tíma hjá Unni sem lét ekki stemninguna niður falla og við náðum að svitna ansi hressilega. Rúmt korter á hlaupabrettunum áður en við fórum í eina bestu sturtu sem ég hef farið í lengi.

Núna er ég kominn heim, Madonna er aftur að leika við mig, ég er búinn að borða, raka mig en er enn að ákveða í hvaða fötum ég ætla að vera í kvöld. Ég þarf að kveðja hann Jóa minn sem er að fara til New York á sunnudaginn, líklegt að kappinn verði ekkert hér á landi næsta árið... En vonandi verður stutt í að ég kíki til hans í New York.


Pæling dagsins var hinsvegar á hvaða forsendum og af hvaða tilgangi við bjóðum fólki heim til okkar. Þegar ég bjó í Maríubakkanum áttum við 22 kökudiska, enda var ég mjög duglegur að bjóða MÖRGU fólki í kökuboð. Ég átti hinsvegar bara 5 matardiska af einni sort og 3 af annarri. Ég bauð því ekki jafn mörgum í mat, en ég reyndi samt alltaf að bjóða þeim fjölda sem myndi nýta borðbúnaðinn minn sem best, hræðilegt að tveir kökudiskar sitji ónotaðir uppi í skáp þegar borðið er fullt af kræsingum!

Ég er að lesa skáldsögu eftir Braga Ólafsson sem gerðist í stigaganginum okkar hérna á Hringbrautinni. Mér finnst ég vera sögupersónan.

Which Fantasy/SciFi Character Are You?

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Kossaflens
Ég er enn að glotta með sjálfum mér eftir að hafa lesið frétt um einkirningasótt. Svo virðist vera að tveir strákar í ungmennalandsliði í ákveðinni boltaíþrótt hafi BÁÐIR smitast eftir að þeir voru herbergisfélagar í Póllandi með landsliðinu. Eins og Sverrir Páll benti á vefnum sínum þann 10. janúar síðastliðinn þá heitir þessi veiki öðru nafni kossasótt (samkvæmt læknavefnum) því að veikin smitast einkum með munnvatni.

Hvernig þeir smituðust báðir og voru þeir einu í liðinu sem smituðust, skulum við ekki velta okkur upp úr enda hefur þessi síða ekki sömu ritstjórnarstefnu og DV. Hvet ykkur öll til þess að skrifa undir á þessari síðu. Fáranlegt hvað fáir hafa skráð þig nú þegar, með tilliti til þess að þjóðin er sú netvæddasta í heimi.