laugardagur, mars 18, 2006

Heimsborgari/Cosmopolitan
Mér finnst það bara hafa verið í gær þegar ég og Anna Vala skyndilega ákváðum á föstudagskvöldi að blanda okkur Cosmopolitan. Þeir urðu örugglega sjö í heildina. Seinna um nóttina kom nágranninn og slóst í þetta litla partý hjá okkur. Þegar búið var að drekka bjór og Cosmopolitan þá var Camenbert djúpsteiktur og étinn mep pepperoni, sultu, kexi, sörum og öðru sem okkur þótti ætilegt. Síðar bættist frændi nágrannans í þetta litla Kópavogsteiti.

Morguninn eftir, mjög snemma, var ég mættur í blóðprufu. Ég tek nefnilega þátt í rannsóknum fyrir blóðfitulyf. Þeim þótti blóðið mitt eitthvað gruggugt... Ég benti þeim á (líklega enn í glasi) að þarna væri bæði djúpsteiktur ostur og kjötfita...

Þeim þótti það ekki sniðugt. En ég var skemmtilegur í öll skiptin og blóðsugurnar voru snöggar að fyrirgefa mér eftir nokkur skemmtileg skipti.

En núna er ég að ljúka því að pakka niður. Á morgun er það Amsterdam þar sem ég horfi á hollenska vinkonu mína spila við einhverjar lesbíur í einhverjum leik sem ég ekki skil. Seinna um daginn munu ég og Bas keyra til Parísar (jafnvel á við þriðja eða fjórða mann) á bíl, álíka þessum hér. Ég er búinn að kaupa á fjórða tug af skonsum, mun kaupa hvítvín í fríhöfninni og svo verður þetta étið í einhverjum vegkantinum í frönskum sveitum.

Þessa helgi er einhver svakaleg homma og lesbíu hátíð í Brussel. Þetta snýst víst bara um einhver partý, dans og læti. Hver haldið þið að sé búinn að koma sér á gestalista, jú ykkar einlægur.

Fyrir einhverjum árum voru tveir ungir drengir að pakka niður fyrir utanlandsferð. Þeir komu beint af veitingastað þar sem þeir átu og drukku. Svo fóru þeir á bar og drukku meira. Síðan komu þeir heim og urðu að berjast við að halda sér vakandi á meðan þeir pökkuðu niður. Samt vöknuðu þeir og áttu ferð sem enn er í fersku minni.

Annars varð mér hugsað til vinar míns í dag. Ég var nefnilega í ræktinni. Þessi vinur minn er oft í ræktinni og því var ég á heimavellinum hans. Þessi vinur minn er blindur á tvo hluti; kynhneigð og liti. Þegar ég var staddur í búningsklefanum í dag, fór ég að hugsa hvernig hann myndi spjara sig í þessum aðstæðum sem ég var í. Þessi vinur minn sagði mér einu sinni hvernig hann berst við þessa blindu sína. Til þess að vita hvort að strákar í kringum hann eru hommar hefur hann fylgst með hvort þeir fara í sokkana eða buxurnar fyrst. Þegar hann er óviss með liti, hefur hann gjarnan spurt mig - eða nærstadda.

Ég velti því samt fyrir mér hvort að þessi elska hefði farið á mis við sæta hommann sem var í ræktinni í dag. Hann fór nefnilega fyrst í sokkana áður en hann fór í nokkra aðra flík. Hefði hann misst af skemmtilega daðrinu og vandræðaheitum þegar einhver ætlar að smyrja á sig krem en sprautar hvítu kreminu yfir sig allan.


Ég er farinn að rugla og ég ætti að fara sofa. Samt langar mig í einn Cosmopolitan. Svo langar mig líka í páskaegg.

mánudagur, mars 13, 2006

48 klukkustundir
Undanfarna tvo sólarhringa hef ég horft upp á fjóra vini mína annaðhvort grátandi eða um það bil að bresta í grát. Einn þeirra gat ekki talað við mig því að hann sagði að þá myndi hann fara að háskæla. Annar vinur minn vildi bara tala um litinn á snjónum þá stutta stund sem hann þurfti á mér að halda, bara að sitja við hliðina á honum í fimmtán mínutur meðan mesti ekkinn átti sér stað.

Enginn þeirra vildi ræða málin. Enginn opna sig. Enginn vildi deila neinu. Ég hlýt að vera svona lokaður persónuleiki og eiga erfitt með að tala um tilfinningar og gráta. Þurfti að fara veikur úr vinnunni í gær, tilfinningar eru erfiðar, sérstaklega þegar maður ælir undan þeim.

Svo toppar stjörnuspáin þetta allt í dag, þegar talað er um áreynslulaust flæði í gegnum mig, held ég að sá sem skoðaði í stjörnunar vissi ekki að hann væri að skrifa um meltingarveginn minn:

MEYJA 23. ágúst - 22. september
Svo mikil jákvæð orka flæðir í gegnum meyjuna upp á síðkastið að hún veit varla af allri vinnunni sem hún er að sinna. Hún flæðir áreynslulaust í gegn. Hvernig getur þú nýtt þér þetta sem oftast?

fimmtudagur, mars 09, 2006

Fyrstur og frystur
Ég var örugglega með þeim allra fyrstu sem skilaði skattframtalinu á Íslandi þetta árið, skilaði því nefnilega inn í gær. Mikið var þetta gott, sérstaklega þegar það stefnir í það að ég fái endurgreitt - en ég hef yfirleitt greitt sex stafa tölu undanfarið þrjú ár til baka - samhliða náminu.

Annars lýsi ég eftir sæta stráknum sem keyrði samsíða mér á Hringbrautinni fyrr í vikunni. Við sungum með sömu útvarpsstöðinni og okkur þótti síður en svo leiðinlegt að "þurfa" að stoppa saman á ljósum. Öðrum ökumönnum þótti uppátækið ekki jafn skemmtilegt.

Svo vil ég benda fólki á að það er ekki gott að "krúsa" háskólakennara, sérstaklega ekki þegar maður mætir þeim í stiganum - kennarinn á uppleið og þú sjálfur á niðurleið. Þér getur nefnilega orðið stórkostlegur fótaskortur og endað með trýnið í neðstu tröppunni, en ómögulegt er að segja til um það hvort upptækið væri vandræðalegra fyrir þig eða kennarann. Sérstaklega þegar kennarinn veit ekki hvort hann á stökkva til og sýna hluttekningu eða hreinlega að koma sér í burtu úr vandræðalegum aðstæðum, eftir hlátur og bros.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Af útlendingum og áfengi
Síðast fréttu þið af mér þegar ég átti von á útlendingum í heimsókn. Heimsóknin var bæði erfið, ljúf, skemmtileg, þreytt og full. Sem dæmi má ég nefna ykkur að:

Þá hlógum við okkur mátlausa yfir bæjarnafninu Vindbelg í Mývatnssveit, sem síðar kom í ljós fyrir að vera eintenntur gamall maður sem býr þar, frændi Rósu, vinkonu Önnu Völu. Sé strax eftir að hafa ekki komið við þar, örstutt.

Tókum Önnu Margréti Akureyrardrottningu með okkur til í Jarðböðin í Mývatnssveit og lærðum að stelpur hafa ekki jafn mikla mótstöðu við heitu vatni og hommar, enda var hún ein með þremur hommum. Gufuböðin í Jarðböðunum geta samt ekki verið ólystugri en ógeðslegustu gay-gufuböðin í Evrópu.

Þrír hommar lágu í sundlauginni í Varmahlíð, kepptu þar í flugsundi og skriðsundi - en flissuðu þess á milli eins og smástelpur yfir raunum hvers annars en slökuðum á með því að liggja í heita pottinum og telja stjörnur og gervihnetti.

Að loknum sveitum þjóðvegaborgara í Varmárhlíð störðum við upp í himininn í 8° frosti og nutum fjólublárra og skærgrænna norðurljósa sem dönsuðu með meiri ákafa en við, þrír hommarnir, höfum nokkurn tímann getað leikið eftir.

Komist að því að bara tvær blöndur af Gin og tonic eru góðar. Gin verður annaðhvort að vera 25% af blöndunni eða 75%, ekkert þar á milli. En þegar gin er drukkið eintómt er hringt til útlanda til þess að skemmta félögum sínum sem þar eru staddir í mastersnámi.

Undirritaður getur tekið fjögur skot af vodkaskoti um miðja nótt án þess að það hafi nokkra áhrif á aðra hæfileika hans til göngu, samræðna eða ákafa til þess að fara spila fatapóker.

Húðin þurrkast ekkert svo mikið upp þó daglega sé farið í sund í hverri viku: Varmárhlíðarsundlaugin, Jarðböðin Mývatni, Bláa Lónið, Laugardalslaugin, Akureyrarlaug og Vesturbæjarlaug. "Húð mín er frekar orðin eins og epli, slétt að utan, rök að innan."

Hollenskur siður er að afmælisbarn greiði ofan í aðra þegar viðkomandi á afmæli. Á Íslandi er afmælisbarnið einmitt alltaf stikkfrí. Mér og vinum mínum þótti ekkert furðulegra en þegar Bas ætlaði að kaupa bjór fyrir alla á barnum og panta pizzu handa okkur. Seinna áttuðum við okkur á því að hann gæti hafa móðgast pínulítið að mega ekki hafa greitt heldur að við "skiptum þessum hin á milli okkar".


Framundan hjá mér er spennandi tími. Í næstu viku flýg ég ásamt Stjórnmálafræðinni til Amsterdam. Á meðan hópurinn fer með rútu til Brussel ætlar Bas vinur minn að sækja mig á flugvöllinn á Citroen, árgerð 1970. Á þessum nýuppgerða og gamla bíl ætlum við að keyra á sveitavegum til Parísar. Ég fæ að vera með sólgleraugu og hvíta pasmínu sem bærist í vindinum þegar hann keyrir í átt til vöggu franskrar menningar. Í aftursætinu verður bastkarfa með íslenskum skonsum, íslenskum gauda, ítölskum parmesan, ódýru hvítvíni, plastglösum, berjasaft, rautt köflótt teppi, súkkulaði og annað kruðerí. Í skottinu verður ferðataskan mín með tvennum jakkafötum, 5 skyrtum og 5 bindum ásamt tveimur pörum af skóm og þremur alklæðnaði á djammlífið.

Í París ætla ég að fara á hommaklúbba, borða góðan mat, láta taka myndir af mér með sólgleraugu, hvíta pasmínu og Citroen á svart-hvíta filmu fyrir framan Eiffel-turninn. Daginn eftir ætla ég að labba um borgina, drekka kaffi og borða Croissant. Einnig væri æðislegt að hafa tækifæri á því að hitta Ásdísi og Bobby Fischer.

Daginn eftir verður keyrt til Brussel þar sem að stíf dagskrá af heimsóknum í stofnanir eins og NATÓ, EFTA, Evrópuþingið og íslenska sendiráðið eru ráðgerðar ásamt fleiri dagskrám. Matar og kokteilboð eru meðal annars í sendiráðinu íslenska, officeraklúbb NATÓ, aðalskrifstofum NATÓ og Evrópuþinginu. Meira man ég ekki í augnablikinu.

Kannski verður toppur ferðarinnar þegar við verðum boðin til belgískra munka og skoða bjórframleiðslu þeirra fyrir 3-4 Evrur. Þeir ætla að sýna okkur framleiðsluna en ábyrgjast það að það þurfi ekki nokkur maður að muna eftir neinu af ferlinu, sökum ölvunnar.

Ég er voðalega spenntur en húð og magi er minna spennt.

Í nótt hringdi ég í Héðinn, sem er orðinn hundgamall. Allir vinir mínir eru gamlir, nema ég.