föstudagur, desember 31, 2004

Mohair jakkaföt
Í gær fékk ég gjöf frá vinnunni. Mohair jakkaföt. Fyrir ykkur alþýðuna sem ekki skiljið fatamenninguna þá eru það föt sem voru framleidd í Vestur-Þýskalandi þegar það var og hét. Fötin voru framleidd úr lamadýrshárum og þykja einstaklega glæsileg. Sveif hreinlega út úr vinnunni í dag með fötin á herðartrénu. Mikið var ég hamingjusamur.

Í dag gerði ég líka mikla lukku í vinnunni. Hafði lesið það í stjörnuspánni að ég myndi verða verðlaunaður á vinnustað og vinna þar gott verk. Ég bjóst ekki við þessu þegar ég mætti tíu mínutum of seint í morgun...

Í gær vorum við ansi dugleg við að endurraða peysunum í versluninni. Þeir sem hafa komið í Verslun Guðsteins ættu að þekkja peysuborðið og hillurnar sem þar eru fyrir aftan. Þið vitið hinsvegar ekki að núna eru þessar sömu peysur raðaðar eftir stærðum, litum, efnablöndu og hálsmáli. Ekki nóg með það heldur er þeim raðað í stærðir og litirnir "fade" allir. En með því meina ég að veikur litur kemur alltaf á eftir sterkari lit og þannig raðaðast þeir allir í ákveðna litaröð... Þessu var vel tekið.

Í dag tókum við svo lagerinn í gegn. Öllum buxum var endurraðað (en á lagernum eru um 12.000 pör af buxum), allar peysur (7.000 stk) var raðað og sloppum (500 stk) var raðað. Allt var þetta dregið fram og ég fór af stað með ryksuguna á bak við þetta allt saman, þurrkuðum af, skiptum á herðartrjám og sléttum úr hverri einustu flík. Lyktin var mun betri á lagernum.

Við tókum til mikið af fötum sem hægt er að gefa og verður líklega gert. Þarna fundust meðal annars hommableikar buxur, fölfjólubláar og gular buxur. Flestar framfellingar sem við fundum voru þrjár og sumar hverjar voru með tvenna vasa sitthvorum megin... Þá fundum við líka fullan kassa af dönskum FALKON buxum. Þær voru allar bláar og eru hálf plastgerðar viðkomu. Við hættum með þær í sölu því að upp komst að lítil börn í Thaílandi voru látin búa til buxurnar á 5 krónur á tímann, ekki furða að þær kostuðu ekki meira en 2.200 ISK... Okkur þykir því best við hæfi að senda þær aftur til Thaílands núna þar sem að krakkarnir þar eru líklega orðnir stórir og myndu mjög gjarnan vilja fá buxur sem þau passa í.

Skemmtilegast var samt að finna tvö skópör af verslunarstjóranum, hún var svo hamingjusöm að finna þá! Hún alveg hreint gargaði, við þurftum samt bæði að ryksuga þá og bursta til þess að við sæum litinn á þeim. Eftir tveggja mínutu gleði hennar lét hún skóna sína falla í ruslatunnuna. Tveir stólar frá ameríska hernum fundust þar einnig ásamt gamalli ferðatösku, fjólublárri að lit. Taskan reyndist merkt verslunarstjóranum og því var hún opnuð. Þegar taskan var borin undir hana þá gapti hún alveg hreint. Hún hafði fyrir löngu verið búin að týna þessari tösku! En taskan týndist eftir verslunarferð til Þýskalands! Hún hafði tekið þrjár flugvélar og var þess vegna ekkert hissa á því að hún fyndi ekki töskuna. En að finna hana fyrir utan skrifstofudyrnar undir treflum og buxum eftir fimm ár er kannski aðeins of mikið af því góða. Töskunni var hent en peysurnar sem í henni fundust verða líklega settar á útsöluslá á nýju ári.

Bestu þakkir fyrir samfylgdina á árinu. Fylgist með áramótauppgjörinu í næstu viku!

fimmtudagur, desember 30, 2004

Gyðja
Ég tók svona próf á netinu, það var skemmtilegt. Smellið hér til þess að sjá hvað ég er. Ætli það sé eitthvað til í þessu eða eru þau bara svona dugleg að búa til tilbúið hrós handa fólki? Á ég kannski ekki að taka þessu sem hrósi... hmm...

miðvikudagur, desember 29, 2004

Dagbókin
Vinur minn hringdi í mig í kvöld, vildi bjóða mér í mat þann 20. janúar. Ég vil alls ekki að þið haldið að ég sé það upptekin að það þurfi að panta mig með svo löngum fyrirvara. Ég fór sem dæmi í yndislegt matarboð í kvöld sem var ekki ákveðið með lengri fyrirvara en 5 tímum. Samt gekk það vel. Er þetta kannski ástæðan fyrir því af hverju síminn minn hringir bara þegar Anna Vala er stödd í hræðilegu Hangiketsjólaboði hjá Ingvari Helgasyni.

Hausinn á mér hringsnýst eftir áðurnefnt matarboð. Mikið var gaman.

Fékk annars margar fallegar jólagjafir; meðal annars bol, kerti, peysu, bók, diska, glös, geisladisk, sturtusápu, sturtugel, háreyðingarkrem (?), náttbuxur og DVD-spilara - fattaði svo þegar ég tengdi hann að ég á enga DVD-diska. Þurfti að leita til Kjánans til þess að fá lánaða diska til þess að prufukeyra tækið. Það virkar svona fínt. Kjáninn benti mér svo pent á að hægt er að kaupa seríur af Will og Grace, Friends og einhverju fleiru á ca. 30 dollara! Ég reyni svo mikið að forðast allar innkaupssíður á netinu þessa dagana...

föstudagur, desember 24, 2004

Jólin
Mig langar að óska öllum lesendum mínum og vinum, nær og fjær gleðilegra jóla. Mikið af pælingum hafa gengið í gegnum hausinn minn að undanförnu. Mikið væri bloggað ef að það væri beintenging inn í heilan á mér. En margt á enn eftir að gerast í tækninni þangað til það verður.

Það er margt sem mig langar að segja ykkur frá en veit ekki hvort ég myndi drekkja ykkur í frásögnum sem dræpu hvor aðra. Það er margt sem mig langar að skrifa um og segja ykkur, en veit ekki hvort og þá hvað ég á að skrifa. Hjálpið mér endilega.

Mig langar að segja frá því hvaða samband ég átti við Ragnar sem núna er fluttur til Suður-Afríku, ég gæti sagt ykkur frá því þegar presturinn kom að okkur systkinunum í hláturskasti við leiðið hjá ömmu í dag, manninum sem kom og keypti buxur hjá mér en talaði allan tíman um 38 tommu typpið sem hann hefði, drukkna manninum sem vildi ólmur komast inn í Guðstein til þess að versla sér föt eftir lokun á Þorláksmessu - hitti hann svo síðar í Select á Vesturlandsvegi þegar ég var á leið í sveitina, gæti sagt ykkur frá því þegar ég gaf foreldrum mínum í skóinn í nótt og þau vöknuðu, gleymdi jólafötunum mínum í Reykjavík (samt gerði ég lista), bauð fólki góða helgi í vinnunni í stað gleðilegra jóla, gerði það svo aftur þegar ég kvaddi vini mína, ég get sagt ykkur frá því þegar Ási lét mig drepast úr hita næturnar sem hann gisti hjá mér í Reykjavík og ég get líka sagt ykkur frá því að mér fannst hápunkturinn af allri jólahátíðinni var að hitta hann.

Ég vona að þið eigið góða og innihaldsríka daga framundan.
Ykkar vinur
Gulli

þriðjudagur, desember 14, 2004

Homminn er mættur til starfa
Ég hef unnið á nokkrum stöðum. Oftast hafa þetta verið veitingastaðir eða þjónustutengd störf. Ég hef alltaf verið "homminn" í vinnunni. Fólk hefur æst mig upp í að reyna við hinn og þennan strákinn. Jafnvel reyna við viðskiptavininn, það finnst mér þó alltaf skemmtilegast. Ég veit að þetta er ýkt hegðun og samfélagið á erfitt með að samþykkja hana, þess vegna segji ég bara eins og Robbie Williams: "Ég veit að þessi hegðun er ýkt og meðvituð, en það horfa allir og vilja ekki missa af þessu"

Í vinnunni minni núna í Guðsteini eru mikið af eldri konum sem eru æðislegar en hræðilega gamlar. Ég hafði alltaf í huganum að þær væru íhaldsamar og stífar. Í dag hefur hinsvegar spurningunum rignt yfir mig frá öllu samstarfsfólki, hvort ég þekki hinn eða þennan homma, hvernig maður viti að maður sé hommi, hvers vegna ég eigi ekki kærasta, hvort að pressan til þess að eignast maka sé minni ef maður sé hommi, hvernig best sé fyrir ömmur og afa að haga sér ef barnabarnið komi út úr skápnum og fleira.

Ég veit ekki hverju ég á von á morgun í vinnunni. Kannski eiga þessar sjötugu gömlu konur eftir að spurja mig eitthvað út í kynlíf eða skyld málefni. Eitt er samt allavega víst, ég hef meira rætt um hvernig það er að vera hommi í þessari vinnu við gamlar konur en ég gerði allan minn skólaferil í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.

Hvað segjir það? Er samfélagið alveg í lagi?

mánudagur, desember 13, 2004

Enn eitt áfallið fyrir flokkinn
Ég vaknaði í morgun á Hverfisgötunni. Í gærkvöldi spiluðum við regnhlífina og myndarammann úr buxunum þar eftir mikla átveislu þar sem kjúklingur var snæddur með hrísgrjónum, nanbrauði, pönnusteiktu grænmeti og jógúrtsósu. Unaður. Við erum snilldarkokkar.

Sá er árla rís verður margs vís og það varð ég svo sannarlega í Sundhöllinni eftir að hafa borðað staðgóðan morgunmat með Siggu og Þóri. Ég var mættur ofan í sundlaugina með sundgleraugun um hálf níu. Á bakkanum stóðu tveir gamlir menn íklæddir húð sem var tveimur númerum of stór á þá. Þeir lyftu lóðum af ákafa. Vöðvarnir þeirra sáust ekki spennast því húðin á þeim var svo víð og mjúk. Annar maður gekk ákveðnum skrefum á bakkanum og lyfti hnánum upp þannig að þau mynduðu rétt horn. Líklega gekk hann á bakkarbrúninni til þess að eiga mjúkt fall þegar hann dytti. Hann datt samt ekki þó ég hafi beðið eftir því allan tímann. Annar maður stóð út í miðri laug og gerði vatnsleikfimiæfingar með höndunum. Allir voru þeir dreifðir út um allt sundlaugarsvæðið. Ekki töluðu þeir saman, heldur kölluðu á hvorn annan. Köllin urðu að samtali og mér þótti líklegt að ykkur þætti gaman að hafa heyrt það sem þeim fór í milli.

...
"Ha?"
"Já það var maður sem lamdi mann um helgina"
"Hann dó víst"
"Ha?"
"Það er alltaf verið að drepa einhvern"
"Þetta var víst einhver Framsóknarmaður"
"Hann var víst í mótorhjólagengi Sivjar Friðleifs"
"Enn eitt áfallið fyrir flokkinn"
...

Þannig var það. Vinnudagurinn í dag var ágætur í Guðsteini. Ég þarf að kynna ykkur fyrir henni Guggu. Hún er ein af snillingunum þarna. Kona á sjötugsaldri, hokin, með gleraugu og óhamingjusöm. Henni hundleiðist vinnan þarna og vinnur bara þarna því að þegar hún var 12 ára skipuðu foreldrar henni að afgreiða í búðinni, hún er enn að. Stundum á konan sín gullkorn og hittir boltann alveg í mark. Í dag kom stjórn Framtíðarinnar í MR í uppdressingu hjá okkur. Þetta eru allt ungir strákar í framhaldsskóla. Þegar þeir ganga inn heyrist í kerlingunni; "nei sko, þarna er eitthvað handa Gulla!"

Ég vonaði svo heitt að þeir höfðu ekki í henni því það var endalaust verið að kalla á mig með nafni. Gugga talar samt mjög hátt. Ég átti samt ekkert að fara hjá mér, fannst þeir ekkert sætir.

sunnudagur, desember 12, 2004

Jólin eru að koma
Ég kemst alltaf í jólaskap með því að setja á jólalagið með Í svörtum fötum þar sem Jónsi syngur um að jólin séu að koma í kvöld. Ég hef ósjaldan staðið heima hjá mér og þanið raddböndið eins og Jónsi um leið og stekk einhver spor í stofunni/svefnherberginu. Hef oft þakkað fyrir að hitta hvorki nágranna fyrir eða eftir þessar æfingar á göngunum, hvað þá að þeir geti kíkt inn um gluggana hjá mér.

Ég vildi hins vegar að það kæmu fleiri en þessi jól...

laugardagur, desember 11, 2004

Eldri borgarar
Ég hef gert svo margt í dag. Líka allir eldri borgarar í Reykjavík. Þeir komu allir í Verslun Guðsteins á Laugarvegi og mátuðu hnepptar jakkapeysur. Konur og karlar. Fólk leit út eins ullarhnoðrar með ýmist skalla eða snævi þakta toppa. Ógnvænlegt. Ég hef unnið í Verslun Guðsteins í 8 ár og aldrei hefur fólk fyrr viljað mátta allar jakkapeysurnar. Allir vildu máta allar stærðir og alla liti. Þetta eru þrjár stórar breytur: allt gamalt fólk, allir litir á peysunum og allar stærðir á peysunum. Ef þið margfaldið þessar þrjár breytur saman getið þið ímyndað ykkur hvað það var bara mikið að gera hjá okkur í peysudeildinni...

Eftir góðan og skemmtilegan vinnudag fór ég til Siggu systur á Te & Kaffi. Byrjaði á því að fá mér einn yndislegasta kaffibolla sem um getur. Drukkinn yfir öllum dagblöðum dagsins. Eftir síðasta dagblað kaffihússins var lesið þaut Sigga út um dyrnar á kaffihúsinu eftir vaktina sína. Ég horfði á hana loka dyrunum og um leið fuku spurningarnar á andlitið á mér frá samstarfsfólkinu hennar. Síðan komu yfirlýsingar.

"Þú hlýtur bara að vera hrifinn af Siggu?" - "Ertu hrifinn af Siggu?" - "Ég held að allir séru hrifnir af Siggu" - "Ég vildi að ég væri strákur handa Siggu..."

föstudagur, desember 10, 2004

Jólaóskagjafalistinn minn
Þá hefur listinn verið gefinn út sem beðið er með meiri eftirvæntingu en Bókatíðindi sjálf og er meira lesin en Andrés Önd og Símaskráin til samans; má ég kynna óskajólagjafalistann árið 2004!

Vegna fjölda áskoranna frá ættingjum þá birti ég listann hér, en bendi fólki á að vera í samráði við móður mína sem þykir fátt leiðinlegra en þegar einhver opnar samstæðar gjafir undir hennar jólaþaki á aðfangadagskvöld. Þar sem ég held enn jólin í foreldrahúsum (því ekkert á ég húsið sjálfur) þá virði ég þessar þarfir móðureiningarinnar.

Hitti mann í gærkvöldi sem sagði að í jólagjöf ætti maður bara að óska þess sem manni langaði í, en alls ekki það sem maður vantaði. Maður keypti alltaf allt það sem manni vantaði en aldrei það sem manni langaði í. Ég vona að mér takist nokkuð vel að hafa ráðleggingar hans að leiðarljósi. Listinn hefur verið í mótun síðastliðna tvær vikur. Hefst þá lesturinn.

Ferðataska - gripurinn verður að vera meðfærilegur, á sterkum hjólum, með útdregnu haldfangi, örlítið stækkanleg, dökk á lit og stærðinni minni en taskan sem ég fæ gjarnan lánað hjá Halla frænda mínum.

Fræði- og handbækur - mega vera af öllum sortum. Hef ákveðna söfnunaráráttu gagnvart þeim. Mér finnst fátt jafn gaman en að fletta upp og fræðast um margt. Landafræði, tungumál, saga, stjórnmál, efnis og eðlisfræði ásamt ritgerðasmíð og íslenskrum orðatökum koma mjög svo til greina.

Tungumálanámskeið - má annaðhvort vera á geisladisk sem ég smelli í tölvuna mína eða tímar sem ég sæki. Tungumál sem eru ofarlega á dekki eru öll tungumál utan frönsku. Spænska, finnska, sænska, baskneska, gríska, pólska og rússneska gætu verið áhugaverð.

Buxur - ekki gallabuxur. Verða að vera dökkar og hægt að skipta. Efnið verður að vera þægilegt en fágað og klassískt.

Leikhúsferð - ekki ferð fyrir tvo HELDUR ferð MEÐ gefenda, annars fer maður aldrei.

Síðerma einlita boli - bómull er skilyrði og halda sér vel í þvotti. Allir litir koma til greina nema skærbleikur, á svoleiðis.

Góða skáldsögu - Belladonna, Arnaldur, erlendir reifarar... eitthvað sem fer vel með inniskóm, kanillykt, smákökum og heitu kakó. Guð gefi að það verði smá rok og mikill snjór yfir öllu þegar ég sest til lestursins...

Leðurhanska - þeir mega hvorki vera glansandi né mattir. Meðalvegurinn þar á milli er fullkominn. Fóðrið má hvorki vera kvenlegt né þunnt. Kanínufóður er alveg út úr myndinni, þó það fari vel með húðina... Svart skilyrði.

Sokkar - verða að vera vandaðir og svartir, mega vera háir eða ökklaháir. Verð alltaf að eiga nóg af svörtum sokkum. Hvítir sokkar eru svo turn off... Finnst líka gaman að litríkum sokkum. Þessi flokkur er svolítið opinn.

Út að borða með Juliu Roberts - þarf ekki að vera dinner, lunch er nóg.

Transmiðilsfund til að hitta Ömmu Ragnheiði - sakna hennar eiginlega alveg helling. Þessi gjöf yrði algjört dúndur.

Ný gleraugu - verð að vera einlit eða tvílit. Mega alls ekki vera hringlaga, í lagi að vera öll glær á lit. Er nærsýn og styrkleikinn er -2.

Friends - er ekki að óska mér vina. Langar í alla þættina frá seríu 1 til 9 á VHS, vantar seríu 10.

Seðlaveski - smart, dökkt (ekki brúnt og ekki grátt - líklega er svartur einn eftir...) og verður að taka svolítið að kortum. Má ekki vera stórt, en ekki það lítið að það fari lítið fyrir því... Erfitt en ekki minn hausverkur. Spurning hvort það ætti að brjóta seðlana saman eða halda þeim beinum... Kemur í ljós.

Ilmkerti - frábærar vörur til þess að slaka á. Reykelsi kemur vel til greina. Er hrifinn af reykelsi sem brennt er á spýtuprikum. Á mikið af lakkríslykt, þoli ekki meira af henni.

Sturtustykki - undanfarið hef ég notað nýjar aðferðir í sturtu. Finnst notalegt að nota sápustykki til þess að þvo mér. Núna er þetta sápustykki að verða búið. Vantar nýtt, eitthvað sem fer vel með viðkvæma og þurra húð...

Andlitskrem - þið sem eruð viðkvæm fyrir viðkvæmri húð ættuð að skrolla bara neðar í bloggið strax! Kremið má ekki vera feitt en þarf að vera silkimjúkt og drjúgt. Ég vil heldur litla dollu með litlu kremi heldur en stóru dolluna með smjörinu! Má gjarnan vera í pumpulíki, ekki nauðsyn.

Súkkulaði - í hvaða formi sem þið náið í það. Ét það allt! Piparmynta, salthnetur, kaffi og áfengi af nokkru tagi á enga samleið með súkkulaði, hafið það í huga.

Geisladiskur - ég er ekki mikill sérvitringur á tónlist. Get ómögulega skoðað plötuverslanir. Þess vegna er gott þegar einhverjir sem hafa eyra fyrir því velja eitthvað gott handa mér. Sjaldan eins leiðinlegt en þegar maður á ekkert til að spila. Langar þessa dagana í disk með erlendri dægurtónlist, klassískri og nútíma. Mjög gjarnan mætti þetta vera í útsetningu einhverrar hljómsveitar eða söngvara. Eitt hljóðfæri og ein rödd í hverju lagi. Diskurinn mætti á sama tíma róa mann og fylla mann orku.

DIOR MAINS - Handáburður frá Christian Dior. Sá besti í bransanum, er með bleiku loki.

DVD spilara - ætli maður þurfi ekki að fara tæknivæðast til þess að geta verið með í þessu þjóðfélagi.

Tónleikaferð á Robbie Williams eða Madonnu - Christina Aqulera kemur alls ekki til greina! Ekki er nauðsynlegt að senda einhvern með mér. Get farið einn.

Má maður ekkert lengur?
Síðasta mánudag hætti ég að vinna á Apótekinu og er því ekki að vinna neitt í augnablikinu. Og það má alveg vera á þeim stað að gera ekki neitt og stefna ekki neitt. Þannig að ef þú spyrð mig spurningar þá áttu að vera tilbúinn að fá svar við henni, annars áttiru aldrei að bera upp spurninguna!

Ef þú spyrð mig:
"Ha, hvað ertu hættur að vinna á Apótekinu? Af hverju hættiru? Hvar ertu þá að vinna? Hvert ætlaru þá að stefna?"
Þá má ég alveg svara - því það er sannleikurinn:
"Ég bara hætti, margar ástæður. Ég hef enga aðra vinnu og mig langar ekki að gera neitt."

Auðvitað á ég nokkur afbrigði af svörunum, jafn fjölbreytt og spurningar voru fjölbreyttar. Stundum voru svörin mín svolítið beinskeitt og harðskeytt. Stundum jafnvel dónaleg eða harðskeytt... Þið afsakið mig, en ekki vera spurja spurninga ef þið þolið ekki að fá svarið!

fimmtudagur, desember 09, 2004

Bloggrugl
Ég blogga daglega en það gengur illa að birtast hérna á síðunni. Þórir sagði í gærkvöldi að blogger hefði sínar ástæður; "We will not post your blog because it´s boring". Ég væri nú til í allar útskýringar í heiminum en þessa...

Þannig vill til að oft vill blogger ekki birta færslurnar svo dögum skiptir. Hefur einhver lent í þessu? Mér leiðist mikið að skrifa færslur sem birtast ekki fyrr en einum, tveimur dögum síðar...

miðvikudagur, desember 08, 2004

Tollur
Ég er mjög iðulega stoppaður í tollinum í Leifstöð. Hvergi annars staðar í heiminum hefur tollgæslan stoppað mig. Ég hef heyrt um marga Íslendinga sem aldrei eru stoppaðir og smygla alltaf einhverju. Ég hef aldrei smyglað neinu, ekki einu sinni komið með sígó og ef ég hef komið með vín hefur það einungis verið léttvínsflaska. Ég er búinn að prófa margar leiðir og veit ekki hvað ég geri rangt, kannski einmitt það - að vera alltaf að reyna nýjar leiðir.

Nýjasta leiðin mín var að ég stillti mér upp með kerruna mína og horfi beint fram í tollhliðið, beið eftir að allir færu og gatan væri greið. Svo gaf ég bara vel í. Hljóp í átt að tollgæslunni, ætlaði að komast í gegn, var alveg til í smá vesen. Tollgæslan var snögg að átta sig, maðurinn stökk fyrir mig og ég keyrði vagninn létt í annan sköflunginn hans. Hann skoðaði allt sem ég hafði, meira að segja það sem ég verslaði í fríhöfninni. Honum var ekki skemmt þegar hann fann ekkert. Það eina sem ég hafði komið með til landsins voru sápur og jólagjafir, hann tók meira að segja utan af einni til þess að hefna sín á mér. Ég ljái honum það ekki.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Tilviljanir?
Ég hef ekki átt marga kærasta og ég hef ekki verið ástfanginn í mörgum strákum. En er það ekki svolítið skrítið ef að 5 þeirra sem ég hef verið eitthvað veikur fyrir og eru allir af erlendu bergi brotnir skuli allir senda mér langa "yfirlýsingatölvupósta" á sama degi, nánar tiltekið sama síðdegið.

Það furðulegasta er að tölvupóstarnir eru mjög álíka og halda mætti að um ákveðið samráð væri að ræða. Ofan á þetta er að bæta að ég hef við engan þeirra talað síðan í september sem gerir þetta enn meira furðulega.

Hvers vegna í dag?

mánudagur, desember 06, 2004

Mér þykir vænt um Héðinn
Héðinn says:
Hvað ertu að gera her enn?
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
ég er að horfa á L-word
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
borða kex
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
og skrifa blogg
Héðinn says:
Eg sakna tess að koma til tin á Argentinu og fa kaffi og sukkuladi
Héðinn says:
Lesbia
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
ég sakna þess að hitta þig í tilgangslausum hittingi í kaffi og ekkert
Héðinn says:
Jæja, var að klára ad skrifa niður viðtalsupptökuna, klukkan er tuttugu minutur í 3...
Héðinn says:
Tilgangslaus hittingur
Héðinn says:
Hljomar vel
Héðinn says:
Eg fer ad verda treyttur a ad vera iðjulaus aumingi. [ritskoðað]
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
he he
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
þú ert svo ómetanlegur
Héðinn says:
Var jafnvel ad hugsa um ad flyta fluginu minu, fra 21 til 19 en veit ekki hvort eg geri tad. Hvernig ometanlegur...
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
ef þú tækir ekki væmni svona illa þá væri ég skælandi yfir MSN og vælandi yfir því hvað þú værir æðislegur og hvað mér þætti vænt um þig - eins og ég væri fullur eftir eina rauðvín og eina hvítvín
Héðinn says:
Hlatur
Héðinn says:
Þetta var fallegt
gulli - Nylon vildi koma mér á deit! says:
ef þú kemur þann 19. þá kemuru með konunni minni en hún kemur að vísu með Icelandair
Héðinn says:
Þú ert lika kynlifsvel
Héðinn says:
Og graddi daudans
Héðinn says:
Jæja. A madur ad segja goda nott
[ritskoðað]

sunnudagur, desember 05, 2004

Nylon vill fá mig á deit!
Já góðir lesendur, þið lesið enga vitleysu, þetta gerðist í kvöld. Eftir mikla og góða helgi fór ég í heimsókn til Önnu Völu og Jóns í Kópavogsborg. Það er nú aldrei neitt slor að sækja þau heim, mikil og góð veisla ásamt góðum gestum. Að þessu sinni var Emilía í Nylon í heimsókn og það hefur nú aldrei verið lognið í kringum okkur þegar við hittumst. Emilía var svo æst í að koma mér á stefnumót við einhvern vin sinn að ég veit ekkert hvað er framundan. Fylgist með.

Vann minn fyrsta vinnudag í Verslun Guðsteins í dag. Þetta er í áttunda skiptið sem ég tek þátt í jólavertíðinni í verslunninni. Mikið þykir mér þessi vinna skemmtileg. Veit ekki hversu marga illa lyktandi og framstæðu bumbukarla ég hef mælt mittið á í dag. En vinnan er skemmtileg. Auk þess sem að ég þarf mikið að hlaupa upp og niður stigann, sem hefur alltaf gefið mér killer-rass – sem ég hef alltaf náð að éta af mér um hátíðirnar. Kannski ég fari bara að gera stigaæfingar um jólin þannig að ég muni halda í rassinn þegar ég mæti í Sódómu á nýju ári.

Veit ekki hvað mér líkar svona vel við þessa vinnu. Kannski af því að búðin er hugguleg, starfsfólkið skemmtileg, kúnnahópurinn breiður, nóg að gera, mikið um hreyfingu, fjölbreytt vöruúrval og þá staðreynd að ég er einstaklega góður í þessu starfi. Ég veit nákvæmlega hvað það er sem selur í búðinni, daðra við dætur eða eiginkonur mannanna sem ég mæli út, þær ákveða hvað selt er. Veit ekki hvort það segjir meira um mig eða konur almennt?

Helgin er annars búin að helgast börnum. Í gær eyddi ég deginum með litla bróður mínum. Ég lék áhugasama foreldrann á hliðarlínunni í æfingarleik í fótbolta. Í kvöld passaði ég litlu frændsystkini mín, Þröst 4 ára og Ragnheiði 7 ára. Þau eru alveg hreint yndisleg. Þegar ég kom til þeirra beint eftir vinnu þá höfðu þau verið ein heima í 20 mínutur og Þröstur kom á móti mér með þær yfirlýsingar að hann væri nú frekar þreyttur en enn meira svangur. Ég fór því strax í þau verk að búa til mat en þurfti að hafa mig allan við að hafa Þröst vakandi. Eftir matartíma, uppvask, tannburstun og hágæða náttfata veljunartíma var komið að því að lesa bók fyrir Þröst. Við lögðumst því upp í rúm með bók um jólin. Ég las bókina og áður en við flettum hjálpuðumst að við að telja stjörnur, hænur, engla og fjárhirði á hverri blaðsíðu. Þegar bókinni var lokið tók Þröstur þéttingsfast utan um mig, lagði höfuðið á brjóstið á mér og sagði rétt áður en hann sofnaði: “Gulli, ég elska þegar þú lest fyrir mig” – síðan tóku við djúpar og miklar hrotur sem héldu áfram eftir að ég hefði smokrað mér undan honum, tekið hann í fangið mitt og lagt hann í rúmið sitt.

Guð gefi að ég fái að ættleiða barn í framtíðinni með manninum mínum og taka þátt í að skapa einstakan og fallegan einstakling.

laugardagur, desember 04, 2004

Opinber aumingji
Fékk launaumslag og innborgun í vikunni sem mér er frekar illa við. Líður eins og hreppsómaga, mér er ekki skemmt. Fór þess vegna að velta fyrir mér samfélaginu okkar, tilganginum fyrir því hvers vegna við búum í samfélagi, en ekki bara einhverju ættarveldi. Þessi innborgun er semsagt leigubætur frá sveitarfélaginu heima. Ótrúlega fáranlegt kerfi. Hvers vegna ætti sveitarfélagið að borga mér fyrir að leigja íbúð? Svo er meira segja svo fáranleg klausa í leiguúthlutunarreglunum, að ef þú leigir MEÐ einhverju, þá fær maður ekki bætur. Ég átta mig ekki á því, þannig að ef þú ert að spara húsnæði með einhverjum, þá styrkjum við það ekki. En ef þú átt nógu mikla peninga til þess að leigja sjálfur þá borgum við þér.

Hvers vegna ætti ég að fá borgaða peninga fyrir að leigja íbúð? Hvers vegna er ekki hægt að borga mér pening fyrir að búa heima hjá foreldrum mínum? Fyrir utan það hvað mér finnst þetta kerfi asnalegt þá líður mér enn kjánalega að taka við þessum peningum. Pabbi þekkir mig eitthvað og notaði sálfræðina á mig. Hann hvatti mig til þess að taka við þessum peningum og leggja þá bara fyrir í húsnæðiskaupasjóðinn minn. Fann skyndilega frið fyrir því að taka við þessum fjármunum, en gef það ekki eftir að kerfið er fáranlegt.

Og fyrst ég er byrjaður að ræða um bætur, hvers vegna fer fólk á bætur þegar það eignast börn? Mér finnst hugmyndin góð og markmið/tilgangur með því kerfi finnst mér réttlætanlegra en húsaleigubótakerfið. Mér finnst samt ekki réttlátt að við erum að gefa út milljónir króna í barnabætur á hverju ári þegar stór hluti fólks fær ekki að eignast börn annaðhvort með tæknifróvgun eða ættleiðingu. Því við getum alveg litið á staðreyndir, þeir sem fara í tæknifrjóvgun eða ættleiðingarferlið er fólks sem virkilega langar að eignast börn og leggur sig fram við að eignast eitt - það fólk skilur ekki hvort annað eftir ólétt eftir eina helgi í miðbænum.

Eitthvað til þess að hugsa um.

föstudagur, desember 03, 2004

Kænugarður
Maður er ekki fyrr kominn heim en næsta ferð er í burðarliðnum. Eins og við munum svo vel þá var konan mín svo spennt fyrir því að fara til Kænugarðs til þess að vera viðstaddur Eurovision í maí á næsta ári. Ég er búinn að liggja yfir heimasíðum flugfélaganna um hvernig best er að komast til Kiev/Kænugarðs í Úkraníu. Mér líst best á að kaupa flugmiða með Icelandair og framhaldsflugi. Ef keypt er flugmiði út á miðvikudegi er flogið út í gegnum Stokkhólm þar sem gefast 7 tímar þangað til beðið er eftir áframhaldandi flugi. Ég hef aldrei komið til Stokkhólms þannig að þar gefst gott tækifæri til þess að skoða borgina og fá sér sænskar kjötbollur. Þaðan er flogið áfram til Kiev og til baka á mánudegi (í gegnum Amsterdam) eða á þriðjudegi (í gegnum Kaupmannahöfn).

Allt þetta bara fyrir 78.000 ISK! Hver er ekki tilbúinn í þetta? Líst best á að fljúga út í gegnum Stokkhólm og heim í gegnum Köben. Skellum við okkur ekki bara á þetta Ási? Við gætum hist í Stokkhólmi í brunch áður en við legðum í hann.

Núna er bara að ganga í að fá vegabréfsáritun, sendiráð Úkraínu í Helsinki sér um vegabréfsáritanir en við þurfum að hafa samband við ræðismanninn í Reykjavík fyrst. Kostnaðurinn við vegabréfsáritun yrði líklega ekki meiri en 10.000 ISK.

Islande - douze point, me et Ási sera là-bas

fimmtudagur, desember 02, 2004

Miðvikudagsfyllerí
Til mín á barinn komu tvær fyllibyttur á miðvikudagsfyllerí. Önnur þeirra heitir Sigga en hin heitir Þórir, þær eru sambýlingar. Sigga þykir tíðari gestur á Apótekinu og gjarnan fæ ég spurninguna frá strákunum í eldhúsinu hvort hún vinkona mín sé komin í dag og hvort að hennar seinni heimsókn sé jafnvel yfirstaðin. Sigga er í miklu uppáhaldi á Apótekinu, samlokurnar okkar með skinku og osti eru í miklu uppáhaldi hjá henni.

Í gærkvöldi, miðvikudagskvöld, komu þau og hrundu svona líka hressilega í það. Sigga er búin í skólanum á þessari önn og Þórir komst klakklaust í gegnum vinnunna þann daginn. Auðvitað var það ákveðin tímamót til þess að halda upp á.

Ef ég þyrfti að telja upp alla þá drykki sem þau drukku hjá mér, þyrfti ég að opna nýtt blogg, til þess að gera ykkur ekki leið af upptalningu.

Komst samt að því þetta kvöld að Þórir hefur ákveðna fordóma annaðhvort gagnvart þjónustustörfum eða fólki í þjónustustörfum almennt, náði ekki hvort það var, kannski hafði ég ekki áhuga þar sem ég var að bera ofan í þau drykkina.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Laugardagskvöld
Það er laugardagskvöld í svissneska bænum Lucern. Bærinn virðist friðsæll og rólegur, en þegar betur er að gáð liggur spenna í loftinu. Samtök homma og lesbía í bænum eru 25 ára og halda upp á það í kvöld með miklum látum. Um kvöldið er stór hátíðarsamkoma með plötusnúðum, fordrykk, sýningum afmælisköku og fleiru. Heiðursgestir kvöldsins eru evrópskir gestir Diagonal, landssamtaka ungliðahreyfinga homma og lesbía í Sviss. Staðurinn er fullur af fólki, aðallega strákum, flestum mjög sætum. Einn heiðursgestanna er Íslendingur, þið ættuð að kannast við hann. Hann skemmtir sér konunglega, mikið er spilað af lögum með Robbie Williams og plötusnúðurinn sýnir honum mikinn áhuga þannig að lagalistinn fer eftir höfði þessa unga Íslendings. Það finnst honum gaman. Með honum eru svo margir frá Evrópu sem hann þekkir; Adrian frá Spáni, Sandra frá Hollandi, Ole frá Danmörku, Róbert frá Rúmeníu, Andrea frá Slóvakíu, Nino og Peggy frá Þýskalandi ásamt langflestum þeim Svisslendingum og eina Liectenstein hommanum sem hann þekkir. Þessi hópur kann að skemmta sér saman og á auðvelt með að taka upp þráðinn frá því síðast þegar þau hittast. Í gríni segjast þau vera alþjóðlegur partýhópur. Það er ekkert fjarri sanni. Þau eru búin að skemmta saman um flesta alla Evrópu.

Þessi Íslendingur er ég.

Eftir marga dansa, daður, drykki, hristinga og ósæmilega hegðun gengur inn svissneskur strákur. Hann grípur athygli mína strax. Kvöldið var skemmtilegt fyrir en núna finnst mér það vera orðið spennandi líka. Mér hefur borist áskorun. Flest allir strákarnir sjá hann og veita honum athygli. Honum þykir það ekki leiðinlegt, enda á hann það líka alveg skilið.

Næsta klukkutímann og korterið er stiginn alþjóðlegur daðursdans. Hvorugur okkar þykist hafa áhuga á hinum en báðir gefa þó frekar mikið færi á sér. Við erum jafn stórir og notum örugglega sömu stærð í fötum. Við erum með svipaðan fatasmekk og sést það líklega best á því að við erum báðir í PUMA bolum, nákvæmlega eins, nema ég er í bláum og gulum á meðan hann er í hvítum og svörtum.

Svissneski strákurinn hefur upphandleggsvöðva og brjóstkassa eins og ég hafi ræktað þá sjálfur. Augun eru full leyndardóms og ástríðu, þau eru spennandi. Skórnir hans eru eins og mig hefur alltaf langað til að eignast en aldrei þorað að kaupa því mér þykir þeir svo sexý. Fingurnir hans eru mjúkir, beinir, langir og breiðir, smart. Húðin hans er ljósbrún og slétt, mjúk viðkomu, eins og baðströnd á hásumri. Varirnar eru þykkar og stórar, viðkomu eins og vatnsrúm sem búið er um með silkirúmfötum.

Hann á heima nálægt skemmtistaðnum. Skemmtileg íbúð. Gaman, eins og Héðinn myndi segja, svona til þess að vera hógvær en koma því samt til skila að maður hafi verið að springa úr hamingju.

Honum þótti það ekki sniðug hugmynd eða spennandi að skipta um bol eftir veðreiðakapphlaupið. Mér hefði þótt það svo fyndið að mæta í sama bolnum en nýjum litum aftur í partýiið. Ég vildi þess vegna ekki skiptast á símanúmerum. Ég þoli ekki fólk sem getur ekki verið létt á því og verið með góðan húmor. Við vorum því enn í okkar eigin bolum þegar við komum aftur á skemmtistaðinn. Ég væri alveg til í að fara aftur til Lucern.