þriðjudagur, desember 19, 2006

Bless bless
Ég er hættur þessu. Ég nenni ekki blogger. Um leið og ég kvaddi vinkonu mína, samferðamanni, þá kveð ég blogger. Ég hef tekið saman við Morgunblaðið á netinu. Mun hér eftir blogga á blog.is. Heimsborgarinn býr nú á heimsborgari.blog.is, ég vona að þið fylgið mér öll þangað.

föstudagur, desember 08, 2006

Samferðamaður er látinn
Ég flaug með konu til Lundúna í ágúst. Þetta var 82 ára barnakólakennari frá San Francisco. Hún var á ferðalagi með dóttur sinni, þær höfðu verið tvær vikur á Íslandi en framundan væri London, Madrid og Marakko. Hún var með leðurderhúfu á höfði og í þröngum leðurbuxum. Hún var í rauðri peysu sem var svo fínleg að ég gæti best hafa trúað því að blindar nunnur hafi ofið og búið til handa henni peysuna. Mikið var þessi kona skemmtileg. Við ræddum um lífið og tilveruna, heillengi. Hún sagði mér frá lífinu sínu og hún fékk að vita um mitt. Við ræddum um ástina, framtíðina, stjórnmál, náttúruna, homma, lesbíur og peninga. Hún hafði verið særð mikið í gegnum ævina og varaði mig því að láta særa mig eins og hún hafði verið særð. Hún talaði við mig eins og hún þekkti mig, eins og hún vissi hvað stæði til hjá mér næstu daga. Svo sagði hún mig svo fallegan og aðlaðandi, hefði það fallegasta bros sem hún hefði séð. Ég trúði henni líka, í fyrsta skipti trúði ég að þessar lýsingar gætu átt við mig.

Í gærkvöldi rétt áður en ég sofnaði kom hún til mín þessi kona, svo fylgdi hún mér í draumalandið. Hún sagði mér frá restinni af ferðinni sinni. Ég heyrði hvernig hún talaði, hún var enn með þurrar varir og reyndi að bleyta þær reglulega með mikið þurrari tungunni sinni. Hún sagði mér örlítið frá framtíðinni minni, hvað ég ætti að leggja áherslu á og hvað ég ætti að forðast. Svo kvaddi hún mig og hlakkaði til að sjá mig seinna. Núna þegar ég skrifa þetta finn ég lyktina af henni.

Þegar ég vaknaði í morgun beið mín tölvupóstur frá dóttur hennar. Konan lést fyrir þremur vikum og þegar hún var að fara í gegnum dót móður sinnar fann hún miðann með nafninu mínu, heimilisfangi og netfangi. Á miðanum voru skilaboð til mín.

fimmtudagur, desember 07, 2006


Í hríðarbyl
Mánudagsmorgninum eyddi ég í hríðarbyl í 597 metra hæð yfir sjávarmáli, nánar tiltekið sat undir steini í Esjuhlíð og klukkan var ekki orðin ellefu. Við vorum þrjár flugfreyjurnar sem vorum lagðar af stað rétt yfir tíu en vaknaðar um áttaleytið, umferðin í borginni er sein nefnilega á mánudagsmorgni, við komumst að því. Ég, átta barna ofurfreyju móðir og öryggiskennari flugfreyja Icelandair. Magi, rass og læri. Þetta var hressandi þó að hægri vangi hafi verið hélaður þegar upp kom. Ég var ekki mjög vel búinn, í bol, flíspeysu, íþróttabuxum, sléttum skóm og þunnum sokkum. Ég náði að renna mér niður á rassinum, hlaupa yfir mýri, detta á trýnið þegar ég renndi mér niður skriðu á hælnum og bjarga andlitinu með því að steypa mér í kollhnís í loftinu og lenda á rassinum í mýrinni sem skautaði mér svo fram af klettabrún.

Ég er semsagt marinn og barinn. En mér líður vel. Ég fór svo auðvitað seinna í ræktina um daginn og sit á púða í dag, því harðsperrurnar í rasskinnunum eru að gera út af við mig. Ég fór til læknis í morgun og stóð á biðstofunni, því mér sýndist stólarnir ekki vera rassavænir.

Annars er ég líklega að upplifa mínu minnstu jólastemningu, ég vil helst missa af þessum jólum einhvern veginn. Finnst ekki taka því að leggja mig fram við að undirbúa ef ég missi svo af öllu. Nenni ekki að kaupa jólagjafir og nenni ekki að pakka þeim inn. Ég skil Skrögg í fyrsta skipti á ævinni.