fimmtudagur, október 28, 2004

Sá er árla rís verður margs vís
Klukkan hálf sjö í morgun sagði líkaminn mér að hann væri ekki lengur þreyttur, það er langt síðan að líkaminn minn vaknaði á undan sálinni. Yfirleitt er það sálinn sem er að berjast við líkamann um að koma sér fram úr. Í morgun var því öfugt farið, líkaminn var búinn að troða sér í sturtu áður en að sálin vaknaði. Síðan var kveikt á Bítinu og hlustað á fyrirsagnir dagsins, ég varð margs vísari á meðan ég stundaði hinar ýmsu leikfimiæfingar. Ég til dæmis horfði á Opruh í fyrsta skipti á sunnudaginn var hjá Kjánanum, mikið er þetta merkilegur þáttur. Þangað kom einhver söngvari sem ég man ekki hvað heitir en hann er með svakalega magavöðva – galdurinn er víst 200-300 magaæfingar á dag, þannig að ég var ekki lengi að leika það eftir, vonandi höldum við því áfram á morgun. Því næst tók við tölvuvinna, tölvupóstur og fleiri óunnin verk. Eftir staðgóðan morgunmat og tvo lítra af vatni var lesið sér til um umhirðu húðar karlmanna, heilbriðga lífshætti og annað sniðugt.

Þá reyndi ég að hafa samband við annað fólk, en Unnur Aerobik kennarinn minn, Ragnar, Ási, Þóra Gerður, Þórður leigusalinn minn, mamma og pabbi, Íris Ann, Vigdísi, Ásta, Ingigerður eða Addi svöruðu engin! Hvernig væri að vakna svolítið snemma fólks! Fór þess vegna í stutta heimsókn til Freyju frænku og fór með bílinn á bílaþvottastöð. Endaði svo eins og venjulega – fyrir hádegi nota bene á Segafredo til þess að komast á netið og fá mér kaffi.

Fann einstaklega skemmtilega færslu sem ég skrifaði á tölvuna mína um borð í flugvélinni á leið til Kaupmannahafnar í síðasta mánuði þegar ég fór að heimsækja Ása og hélt svo áfram til Barcelona. Skemmtileg tilviljun að ég skuli skrifa núna um morgun þegar ég skrifaði einnig um morguninn sem ég upplifði á leið til Leifsstöðvar og morgunflugið mitt til Köben.

Morgunn í Leifsstöð
Ég og Óli forseti mættum á sama tíma í Leifsstöð í morgun. Hann var með einkabílstjóranum sínum, ég var með Völu systur. Vala systir var ekki jafn fín í taujinu og bílstjórinn hans Óla, en ég sló Óla við, nokkrum sinnum. Margfalt glæsilegri.

Eftir einstaklega stutta og ljúfa innritun var það öryggisgæslan. Ég er búinn að fara í gegnum nokkur öryggishlið á flugvöllum í Evrópu, ekki marga, en nokkra. En þarna sá ég sætasta starfsmanninn. Langaði að kasta mér á gólfið með yfirlýsingum um sprengju í Flugstöðinni eða vonaði að einhver hefði laumað vafasömum hlut í farangurinn minn. Hvorugt gerðist, ég er nefnilega gunga eldsnemma á morgnanna. Heppni að ég tók morgunflug en ekki síðdegisflug.

Leifsstöð græddi mjög vel á mér, verslaði nokkur raftæki, sælgæti, filmur, rafhlöður, tannbursta, krem, krem, krem, krem og lykt. Mátaði nokkur gleraugu en kaffiþyrstan bjargaði mér frá því að hafa keypt mér þau sem mér líkaði mjög vel við. Fékk svo soðna mjólk en ekki flóaða í Lattinn minn. Ég hefði betur sleppt kaffinu en keypt gleraugun, muna það næst.

Tókst ekki að kaupa gjaldeyri í bankanum, 400 Japanir og Evrópubúar voru að fá Tax-Free endurgreitt, ég blóta því núna, en ekki þegar ég kem heim frá Köben.

Fékk gott sæti í flugvélinni, sæti 4A. Autt sæti við hliðina á mér, síðan situr strákur. Hann er líklega 30 ára gamall. Mér finnst gaman að horfa á hann. Hárið er dálítið sítt og hrokkið eða liðað, veit ekki hvort. Hárið er dökkt og það eru augun líka. Nasaholurnar hans eru alveg hringlaga, báðar tvær. Hann er frekar grannur með sterklega fingur. Hann vinnur líklega einhverja útivinnu. Húðin er gróf og illa hirt. Hann fer greinilega í ljós og hann reykir örugglega. Æðarnar í kinnunum eru rauðar og auðsjáanlegar. Lærin eru sterkleg en jafn breið frá mjöðmum niður að hnján, ólíkt mínum sem mjókka niður. Gallabuxurnar eru flottar, örugglega ekki keyptar á Íslandi, þessi tíska er ekki heima. Ætli hann búi í Danmörku vegna náms? Hann hefur rakað sig síðast fyrir tveimur dögum síðan, hann er ekki með hraðan skeggvöxt. Það vaxa þó hár út úr fæðingarblettunum sem hann hefur á hálsi og andliti. Skórnir hans eru gamlir og slitnir. Hann hefur burstað þá með naglabursta og heitu vatni í gærkvöldi. Líklega hefur hann verið í þeim á djamminu um helgina.

Ská á móti mér sitja nokkrir Arabar. Þeir eru frekar sætir, myndi samt ekki vilja sofa hjá þeim. Hugsa ósjálfrátt til Hamsa. Hvað var ég að hugsa? Fyrir framan mig sitja þrjár sænskar vinkonur. Þær eru ótrúlega fallegar. Mig langar rosalega að reyna við þær. Þær voru fyrir framan mig í innritun og einnig í landganginum. Reyndi að brosa við þær, en kunni ekki við að reyna við þær. Fannst það einhvern veginn rangt, eins og það væri ekki það sem heimurinn ætlaðist til af mér. Eftir að maður kemur út úr skápnum þá búast allir við því að maður sé bara hommi til eilífðar. Það myndi eyðileggja mömmu mína ef ég myndi svo hætta við að vera hommi, pabbi yrði líklega svekktur líka, myndi samt skipta hann minna máli. Nei Gulli, vertu einbeittur, ég reyni að einbeita mér að strák/stelpu parinu sem situr fyrir aftan mig með eitt tveggja ára barn. Barnið grætur og er búið að gráta síðan að flugfreyjan bauð það velkomið um borð. Ofan á allt saman eru þau að rífast.

Í kallkerfi flugvélarinnar er verið að tilkynna að tollfrjáls varningur verður brátt í boði til sölu. Ég ætla að fara loka fartölvunni minni, vista þessa færslu og fara máta treflana sem eru í boði.

Þetta er reyklaust flug með engar karlkyns flugfreyjur, næst ætla ég að biðja um það samhliða því þegar maður pantar sérfæði.

þriðjudagur, október 26, 2004

Af svo góðum ættum
Ég leigi íbúð á Ránargötunni en ég hef ekki ennþá fengið að greiða leiguna mína. Til þess að fara alveg nákvæmlega yfir hlutina þá hef ég ekki einu sinni gert leigusamning. Það eina sem við höfum gert formlega var að hann bannaði mér að reykja inni í íbúðinni minni, frammi á gangi og fyrir framan útidyrnar og ekki fyrir utan opna glugga á húsinu. Síðan þegar hann afhendi mér lyklana þá þurfti ég að svara hvar slökkvitækið á hæðinni minni væri og hvar hentugt væri að komast út ef að hættu bæri að höndum. Hef búið þarna núna í meira en tvær vikur, alltaf þegar ég hringi í karl eða hitti hann þá vill hann ganga frá þessu á morgun. Um daginn spurði ég hann hvort að honum liði ekki betur með að ég myndi fara borga leiguna mína, hann hló, lagði höndina á öxlina á mér og sagði: Ég treysti þér alveg vinur, þú ert af svo góðum ættum.

Hef sjaldan verið jafn ánægður að vera af góðum ættum, á meðan liggur peningurinn minn þá bara á vöxtum, eða réttara sagt, yfirdrátturinn er ekki nýttur í botn.

mánudagur, október 18, 2004

Með lífsmarki
Læknir hefur staðfest að ég sé með lífsmarki. Þið getið andað léttar. Eftir að hafa komið heim úr reisunni frá Barcelona/London/Kaupmannahöfn/Sitges/Costa Brava/Leifsstöð var Vodafone búið að aftengja nettenginuna mína í Maríubakkanum. Vegna þess að ég ákvað að hanga lengur á meginlandinu en fyrri plön gerðu ráð fyrir var skyndilega komið að þeim tímamótum að leita sér að íbúð. Hún fannst að lokum á Ránargötunni. Íbúðin er prinsessuvæn og björt. Síminn er svo ekki búinn að geta tengt netið í mínum nýju híbýlum vegna þess að leigusalinn minn hefur tengt símasnúrurnar eitthvað vitlaust, unnið er í málinu.

Fartölvan mín hefur svo neitað að tengjast öllum þeim "heitu reitum" sem boðið er upp á í miðborg Reykjavíkur. Slysaðist svo inn á Segafredo rétt í þessu, þar er loksins net sem að tölvunni minni líkar og kaffi sem mér líkar einnig. Maður á aldrei að leita of langt yfir skammt, elta mallann sinn er lang lang best. Hérna fæst besta kaffið og núna besta internetið. Hingað er ég líka bara 3 mínutur að labba frá íbúðinni minni.

Eftir að ég flutti endanlega hef ég lítið notað bílinn. Loksins losnaði þetta fína stæði fyrir utan íbúðina mína og ég stökk út hálfnakinn, sótti bílinn og var ekki lengi að leggja bílnum þangað. Þar hefur bílinn verið síðan.

Á móti íbúðinni minni er hverfisbúðin Pétursbúð. Þar er allt verðmerkt með límmiðum og slegið inn í kassa. Þar eru grænmeti og ávextir handvigtaðir og geymdir í bastkörfum. Á veggjum má sjá auglýsingar frá fólkinu í hverfinu sem auglýsir eftir vitnum að árekstri, kettinum, barnapíu, aðstoð við tölvuna sína, aðstoð við þrif og fleira. Fyrsta heimsóknin mín stóð yfir í góðan hálftíma á meðan ég grandskoðaði hverja einustu vöru og tilkynningu sem ég fann. Mikið var það gaman.

Á djamminu um síðustu helgi hef ég skemmt gemsann minn þannig að ég er sambandslaus við heiminn. Get bara svarað símhringinum, get ekki hringt, lesið sms eða sent þau. Skemmtilegt og síðan veit ég aldrei hver hringir því að skjárinn er ónýtur. Keypti nýjan í dag og hann er í hleðslu í þessum töluðu orðum.

Samt líður mér ekkert svo vel. Ég hef nóg að gera og það hefur alltaf verið grundvöllur hamingju minnar, en það er svo lítið, svo ótrúlega lítið sem getur rústað tilfinningalegu lífi manns og sett allt í uppnám. Svo er það svo vont og erfitt þegar gjörðir manns hafa áhrif á fleira fólk. Ég tala nú ekki um þegar þetta fólk sem verður fyrir barðinu á manni eru vinir manns. Ég hef aldrei verið eigingjarn og hef alltaf einsett mér að sjá ekki eftir neinum hlut. Ég sé ekki eftir neinu, en skyndilega finnst mér ég eigi að vera eigingjarn og ég eigi í fyrsta skipti rétt á því að vera það. Mér finnst eins og ég komist bara út úr þessu með því að standa upp og krefjast þess að hlutirnir séu gerðir eftir mínu höfði og aðrir valmöguleikar séu ekki í stöðinni. Samt vil ég ekki vera frekur en mér finnst ég eigi rétt á að vera eigingjarn, því að á endanum elskar maður sjálfan sig mest og getur bara stólað á sjálfan sig.

mánudagur, október 11, 2004

Tæknin er eitthvað að stríða Ljúfu og Siggu
Glöggir vinir mínir hafa undanfarið hvatt mig til þess að blögga aðeins meira. Góð athugasemd, athugum hvernig við getum tekist á við hana.

miðvikudagur, október 06, 2004

Kvennask?lap?a ? ?tal?