miðvikudagur, nóvember 29, 2006


Rautt en ekki bleikt
Áður en ég gleymi því vil ég benda á að Sigga systir bloggar eins og vindurinn, en hefur samkvæmt nýjustu upplýsingum ekki enn ælt.

Ég eignaðist minn fyrsta framtíðarkúru- og kelerífélaga fyrir rúmum mánuði. Hann skipar sæti kærasta míns þangað til það sæti hefur verið skipað öðrum. Hann er rauður og sér fyrir öllum mínum þörfum. Hann er líka ástæðan fyrir því af hverju skipt var um á rúminu í gær, skúrað var heima hjá mér í dag, kaflinn kláraður í bókinni og ég er farinn að ganga í gömlum gallabuxum eftir að hafa tapað nærri tíu kílóum í WorldClass. Og allt þetta gert til þess að styðja við baráttuna við alnæmi í Afríku með Bono.

Fyrirtækið mitt tók upp á því í október að láta starfsfólk mæta með bleika borða til að minna á krabbamein. Ég vil að við minnum líka á alnæmi. Ég ætla að redda mér rauðum borða fyrir föstudaginn og mæta þannig í vinnuna. Minni svo í lokin á rauða nebba Unicef, ef þú vilt ekki ganga með rautt nef, skaltu þá bara skrá þig sem heimsforeldri.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006


Pólsk jól
Það er voðalega gaman þegar Nettó auglýsir að fólk geti fengið að upplifa pólsk jól í verslunum sínum núna fyrir jólin, þegar ég sá fyrstu auglýsinguna frá Nettó velti ég því fyrir mér að það væri áhugavert að sjá hvernig pólskur jólamatur væri. En ég var aldrei svo áhugasamur að ég myndi bjóðast til þess að vera þar í nærri sjö daga yfir hátíðarnar.

En þannig er nú í pottinn búið. Vinnuskráin mín fyrir desember er komin. Ég fer til Egilstaða kvöldið fyrir Þorláksmessu og mun svo á skötudaginn sjálfan fljúga með fulla vél af Pólverjum sem vinna á Kárahnjúkum til sinna heima yfir hátíðarnar. Skjaldamerki Katowice, er að sjá hér til hliðar, staður sem státar sig af því að vera "the most industrial place in Europe", skjaldarmerkið gefur það kannski ágætlega til kynna. Til þess að fara strax í Pollýönnu-leik þá er hægt að gleðjast yfir því að rúmlega 1000 pólskar fjölskyldur geta haldið jólin saman og að ég verð staddur á sama stað með snilldarfólki í áhöfn.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Stefnumót?
Upphaflega ætlaði ég að skrifa þessa færslu eins og hún væri um vin minn, en ég ætla bara að skrifa hana eins og hún kemur af kúnni, eins og hún kemur af mér. Ég fór í skemmtilegt átak að bjóða strákum á deit, þetta átak er búið að standa í svolítið tíma og ágætum hóp hefur verið boðið á deit. Ég er mjög snöggur að fara yfir árangur þessara stefnumóta, ef stefnumót mætti kalla. Tvö þeirra hafa orðið að veruleika. Aðrir hafa afþakkað en boðið kynlíf eða rekkjufélagastöðu í staðinn og trúið mér, það var erfitt að hafna. Ef ég væri nefnilega kona, þá væri meyjarhaftið vaxið upp á nýtt og mér ætti frekar að kvíða fyrir næsta skipti en að hlakka til.

Annars var ég í Baltimore um helgina, fínn staður, eitt stórt bílastæði og engar gangbrautir. Það má því þekkja Íslendingana í borginni, því við erum eina fólkið sem gengur meðfram bílunum. Það er erfitt að komast yfir sex akreinabraut þegar engin götuljós eru fyrir gangandi umferð og fólki leyfist að fara yfir og beygja til hægri á rauðu ljósi. Það bara flækir málin fyrir gangandi umferð. En þetta stutta stopp mitt í Baltimore var ólíkt öðrum, því við fengum að verða vitni að skotbardaga milli tveggja unglingahópa og eins lífvarða forsta Bandaríkjanna. Fjögur ungmenni voru flutt á sjúkrahús, líklega dó enginn en það liggur auðvitað ljóst fyrir að fólk er slasað eftir skotárás.

Myndin sem fylgir færslunni er af flugvellinum í Kerry, Írlandi. Fínn staður, þar er ekki töluð enska heldur flæmska. Stafrófið er öðruvísi en okkar. Vissu þið þetta? Öxlin er af honum Gussa sem ég var með í Helsinkiverkefninu í september og bauð mér heim á síðasta fimmtudagskvöldi.

Annars auglýsi ég eftir því að einhver bjóði mér á nýju James Bond myndina. Ég nefnilega fer ekki í bíó nema einhver bjóði mér, þetta er ný stefna.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006


Mánaðarmót
Uppáhaldsdagurinn minn er ekki föstudagur eða laugardagur. Ef ég ætti að velja einn vikudag væri það fimmtudagur. Einhvern veginn er létt yfir fólki, samt er fólk pínu einbeitt að vinnu og afköstum en er samt ekki jafn stíft og aðra daga. Það eru líka margir sem fara til útlanda á fimmtudögum, eins og tilfellið er með Möttu og Hlédísi sem núna eru leið til Ásdísar í London.

En uppáhaldstíminn minn í öllum mánuðinum eru mánaðarmótin. Þau eru lang lang best. Eru ekki fleiri sem finnst æðislegt að borga reikningana sína, leggja fyrir í sparnaðinn sinn og horfa á allt flæðið á peningnum sínum færast á milli reikninga í Einkabankanum? Það að láta reikningana hverfa af forsíðu Einkabankans með því að greiða þá. Ég vildi hreinlega að mánaðarmót væru oftar, svo maður gæti fengið að borga reikninga oftar.

Vinir mínir samsama mér oft við Bree van de Kamp og Monicu Geller. Að þessu leyti er það alveg rétt. En eitt kvöld í vikunni var ég að vinna ritgerð langt fram á nótt og var endalaust að blaða í bókum. Mér finnst ekkert leiðinlegt að skrifa ritgerð, alveg eins og mér finnst alls ekki leiðinlegt að vaska upp eða þvo þvott. En Ási spurði mig mjög gagnrýnnar spurningar um daginn, sem ég held að eigi eftir að hafa áhrif á allt líf mitt hér eftir: Ef að þessi ritgerð hefði verið uppvask, hefðiru látið verkefnið dragast svona á langinn?

Svarið er auðvitað nei, því þeir sem þekkja mig vita að ég sofna ekki í svefnherberginu mínu ef það er óhreint leirtau í vaskinum. Ég hef meira að segja þurft að vaska upp í fullum einkennisklæðnaði heima hjá mér rétt áður en ég fer í vinnuna, til þess að vera viss um að sofna á hótelherbergi á vesturströnd Bandaríkjanna seinna um nóttina, eftir 12 tíma vinnuvakt.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006


Af samskiptum
Sum samskipti ganga verr en önnur, önnur ganga framar vonum. Til dæmis á ég ekki í góðu sambandi við blogger, því að það er sama hvaða færslu ég hef reynt að færa hér inn undanfarið, ekkert ætlar að komast til skila.

Ég hef haft milligöngu með að kynna tvo aðila sem vilja fara í viðskipti saman. Annar aðilinn er strákur sem ég kannast lítila við en hitt eru alþjóðleg félagasamtök þar sem ég þekki stjórn ágætlega. Drengurinn sendi tölvupóst en hafði daginn ekki fengið svar og hringdi í mig áhyggjufullur yfir því að stjórn félagsins litist illa á málið. Daginn eftir hringir hann aftur, óðamála vegna svita og stress. Þegar hann hringdi svo í áttunda skiptið, þá nennti ég ekki að svara. Stuttu seinna fékk ég mjög svo dónaleg skilaboð á símann sem spurðu mig hvers vegna ég ætti farsíma ef ég svaraði aldrei í símann? Ég svaraði 12 tímum seinna, klukkan hálf sex að morgni og sagði að mér hefðu þótt skilaboðin frekjuleg og móðgandi. Hann svaraði því kvöldinu seinna með öðrum skilaboðum að meiningin hafi ekki verið sú að vera dónalegur en hann bað mig um að senda sér aldrei skilaboð eða hringja aftur á nóttunni, því ég hafi vakið hann og hann hafi átt erfitt með að sofna aftur.

Því stend ég frammi fyrir nokkrum valmöguleikum og vildi gjarnan heyra hvað ykkur þætti um málið? Á ég að svara honum og biðja hann þá um að hafa aldrei samband við mig aftur, þar sem ég vinn vaktavinnu (næturvinnu sem dæmi) eins og slökkviliðsmenn, lögregla, þjónar og aðrir. Hann gæti því aldrei vitað hvort ég væri á dag, kvöld eða helgarvakt og myndi þar af leiðandi ekki vita hvort ég væri sofandi að nóttu, morgni, kvöld eða degi.

Ætti ég kannski bara að segja honum að stinga símanum sínum þar sem sólin aldrei skín og hafa slökkt á símanum eða hringingu hans þegar hann vill ekki vakna upp við hringingar.

Mér finnst það allavega merkilegt í þessari tæknuvæddu tímum að fólk vilji fá fullkomna síma, með útvarpi, myndavél, dagbók og öllu. En er svo ekki tilbúið að slökkva á símanum þegar það ætlar að sofa eða vill ekki verða truflað með hringingum.

Arg, ég er pirraður.