föstudagur, október 28, 2005

Fyrirsagnir
Þið ykkar sem bloggið þekkið það áreiðanlega þegar maður semur hinar fullkomlegustu bloggfærslur í heilu og hálfu dálksentimetrunum, en kemur því svo ekki frá sér því að manni vantar fyrirsögn. Sagan og frásögnin er að öllu leyti fullkomin, hnitmiðuð, smellin, fyndin og vel orðuð. Svo vantar bara upphafið, það er ekkert mál að slá botn í þetta allt saman. En samt á ég ekkert mál með að byrja á öllum mögulegum og ómögulegum hlutum, en á erfiðara oft með að ljúka þeim.

Heima hjá mér er til dæmis ryksugan núna á gólfinu og spænskubókin opin, uppvaskið er hálfnað og ég á eftir að þvo þvott.

Var í Kaupmannahöfn um síðustu helgi. Kaupmannahöfn er alltaf svona eins og Akranes fyrir mér, voðalega þægilegt að koma þangað, engin fyrirhöfn, heimilislegt, þekki mikið af fólki og alltaf hægt að slaka á. Það sýndi sig líklega best þegar ég tók strætó upp á Norrebro til Ása að ég þekkti Jakob sem var í strætóinu, það þarf enginn að efast um það að Jakob er urrandi hommi. Ég var duglegur að slaka á og nýta tímann í Kaupmannahöfn. Stiklublogg í tilefni þess:

- ég fór á átta bíósýningar á CGLFF (sem var ástæða fyrir förinni minni) og sá hátt á þriðja tug mynda - ef við teljum allar stuttmyndir með
- ég drakk rauðvín
- ég hitti homma
- ég hitti Íslendinga út um allt
- ég hitti nýjan Þóri, Þóri á föstu
- ég hitti kærastan hans Þóris
- ég fór á mitt fyrsta alvöru hmm... vil ekki kalla það deit en við skulum nefna það stefnumót
- ég las
- ég svaf
- ég át
- ég vaskaði upp
- ég flaug heim með Hannesi Smárasyni, því miður vissi hann ekki hvað það var mikill heiður fyrir hann að fljúga með fremstu flugfreyjunni sinni, hann á eftir að læra það síðar
- ég ræddi flugfreyjubúninga við flugþjón hjá Sterling
- við mig var reynt
- mér var boðið í glas
- ég kom seint heim
- ég kom snemma heim
- ég var vakinn í amerískar pönnukökur

Eftir að ég kom heim:
- sá ég sambýliskonuna í mýflugumynd, en hún er nú floginn á vit Héðins í Manchester. Ég veit ekki hvort þeirra ég öfunda meira.
- hef ég þvegið baðherbergið mitt (ég lifi á ystu nöf)
- setið á 9 tíma úthlutunarfundi hjá Stúdentasjóði (er ég ekki spennandi týpa ef ég er kosinn í stjórn styrktarsjóðs á vegum HÍ...)
- tekið spænskupróf
- fengið hæstu einkunn í bekknum fyrir munnlega spænskuverkefnið mitt
- hef ég spjallað upp í rúmi við litlu systir fram undir morgun, eins og í gamla daga
- séð mömmu mína leika kanínu
- búið til leyniplan með Kröbbu
- farið beint í skólann eftir lendingu í Keflavík og þaðan í vinnuna, þaðan í heimsókn til vinar míns og þannig komist heim 11 tímum síðar
- lært rússneska stafrófið af samstarfskonu frá Úkraínu
- verið bent á gildi þess að vera einhleypur frá mömmu minni, hef enn verið að melta það hvort að það sé vegna þess að hún hryllir við þeim degi sem ég hætti að mæta í jólahefðina heim til hennar

Héðinn heim í næstu viku. Kaupmannahöfn um síðustu helgi. Manchester í næsta mánuði. París eftir áramót? Interrail næsta haust? Þetta er yndislegt líf...

miðvikudagur, október 26, 2005

Ball
Mig langaði að láta ykkur öll vita að á laugardaginn er ball með Páli Óskari á Pravda. Drífa sig þangað!

þriðjudagur, október 18, 2005

Til dularfulla aðdáanda míns
Mér er hætt að standa á sama og því tala ég umbúðalaust. Þú veist að ég er að tala við þig og þú þekkir upp á þig sökina. Einhvern tímann sagði amma mér að það væri sælla að gefa en að þiggja. Það var þá sem ég hélt að hún hefði orðið galinn, en ég veit það núna að hún var aldrei að skynja samfélagið betur en þá.

Ég er nefnilega undanfarið búinn að lenda í því að vera þiggja. Og þið sem eigið erfitt með að höndla almennt drama, ástir og glæstar vonir, ættuð ekki að lesa áfram.

Undanfarið hef ég orðið þess áskynja að eiga leyndan aðdáanda, og já, það meira að segja mjög leyndan. Þessi aðili hefur klárlega komið sér upp óþekkjanlegu netfangi sem hann notar til þess að senda mér stutt skilaboð um ágæti mitt. Þessu fylgir svo stundum nafnlaus skilaboð í símann, send af netinu.

Þetta hefur núna gengið í næstum tvo mánuði, á að giska. Og það sem verra er, þetta er varla áreiti því þetta er alltaf svo passlega mikið. Undanfarið hef ég skráð niður stund og staðsetningu þegar ég fæ send þessi skilaboð, til þess að reyna búa til tengingu við einhverja vini mína í kringum mig.

En það er sama hvort sem að þau skjótast úr landi, eru um borð í flugvél eða hreinlega við hliðina á mér þegar skilaboðin eru send, alltaf eru þau sem liggja undir grun svo passlega komin undan því með svo öruggum sönnunum.

Nema náttúrulega að vinahópurinn stæði í þessu saman. Og þegar vinahópurinn samanstandur af þessum vitleysingum og einum sem heitir Pétri, (og einum reiðum krabbameinssjúklingi) þá er þessum hóp bara trúandi til alls.

En aldrei, og þá meina ég aldrei, myndi vinahópurinn taka sig til og setja í púkk til þess að geta sent mér nafnlausa gjöf. Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu og þessi niðurstaða hlýtur þá að vera sönnuð með gjöfinni. Því hingað til mín barst pakki með Íslandspósti.

Inni í pakkanum var meðalstór Louis vuitton taska. En þessi hugsjúki aðdáandi lét sér ekki það nægja heldur lét Louis vuitton belti fylgja með!

Ég vil ekki hljóma vanþakklátur en ég hald að amma hafi alveg hitt naglann á höfuðið þegar hún sagði mér að sælla væri að gefa en þiggja, þessi aðdáandi eða eineltihópur er án efa að skemmta sér konunglega yfir þessu öllu saman. Sjálfur veit ég ekkert hvar taskan var keypt og því ekki hugmynd um hvar á að skipta henni.

Sælla er að gefa en þiggja.

fimmtudagur, október 13, 2005

Endajaxlar og fótbolti
Sambýliskonan Ólöf vakti mig í morgun við þá ánægjulega frétt að það stæði til að taka upp fótboltaauglýsingu í garðinum hjá okkur. Ég var því ekki lengi að smeygja mér fram úr, hella mér upp á gott kaffi, rista mér beyglur, opna hrísmjólk og tína til öll dagblöðin sem okkur berast nú daglega. Svo sat ég við morgunverðarborðið og naut útsýnisins, kaffins og nýprentaðra fréttanna. Tók mér góðan tíma við morgunverðarborðið í morgun af þessu tilefni.

Fór svo að hitta foreldraeiningarnar í morgun, þau á leið út til Ungverjalands og þau svo elskuleg að koma með nagladekkin mín í bæinn. Pabbi gamli að fara halda tónleika þar með Karlakórnum. Yfirleitt keyrir mamma en pabbi keyrði í þetta skiptið, líklega því mamma þurfti að róa sig fyrir flugferðina. Þess vegna hefur pabbi verið stressaðri en mamma. Skemmtilegast var samt að sjá mömmu hvað hún var útötuð í brúnkukremi. Ég á greinilega ekki langt að sækja þetta. Maður fer sko fínn á Völlinn...

En þar sem ég er búinn að fá nagladekkin mín í bæinn liggur beinast við að biðja kærustuna og fyrrverandi systur að hjálpa mér að koma þeim undir. Síðan við byrjuðum saman og slitum systkinaböndum þá höfum við nefnilega ekki sést. Það gæti verið góð upprifum á síðustu áramótum þegar við tvö vorum úti í skafli á miðnætti áramótanna að losa bílinn minn. Hlédís var búinn að draga upp pilsið upp á maga og stinga hælunum fast í skaflinn til þess að hjálpa til við að losa mig. Inni í hlýjunni sátu Þórir, Héðinn, Matta, Ásdís... og gátu ekki annað.

Annað í fréttum er að ég var í vikunni að láta fjarlægja einn endajaxl. Þar sem mín tannlæknareysla hefur einungis samanstaðið af pússun og skolun tanna, myndataka, tannsteinsafmáun og jafnvel leikfangi eða tyggjó á eftir - var það alveg ný tilfinning hjá mér að hafa hálfan munninn fullan af vopnum. Hvað þá að þurfa að gleypa þessa ógurlegu sprautu til þess að deyfa mig.

Ég þurfti að bíða lengi eftir að komast í tímann. Örugglega klukkutíma. Fannst það alveg hræðileg hugmynd að hafa farið þangað einn. Tannlæknabiðstofan er örugglega sú hræðilegasta sem ég hef komist í. Öllum dagblöðum og tímaritum var svo vel upp raðað að ég þorði ekki að hreyfa við listaverki mótttökuritarans. Þess vegna var það sólarljósið sem lék sér í gegnum gardínurnar sem fangaði augun. Í klukkutíma. Eitthvað til þess að drepa tímann.

Ég var varla búinn að koma mér fyrir í tannlæknastólnum og það var ennþá verið að halla bakinu þegar hann var kominn með sprautuna upp í mig. Ég var svo stífur af hræðslu að ég sat ennþá en fylgdi stólbakinu þegar færðist niður. Sem varð til þess að ég rak fæturnar í öll tækin sem hanga yfir manni. Ég reyndi að sannfæra hann um að þyrfti að svæfa mig. Þetta væri ómögulegt að framkvæma með mig vakandi. Það var eins og hann hafði ekki heyrt í mér en það var út af því að hann sá að ég er frá Haga í Þjórsárdal - fallegri sveit hefur hann ekki séð. Hann hafði riðið um heimahagana mína á síðasta ári og plataði mig svona innilega að ræða um þetta allt saman.

Endajaxlinn ætlaði ekki að fara. Ekki bara var hann of stór, heldur voru ræturnar báðar tvöfaldar og með króka á báðum endum. Karlinn þurfti því að byrja á því að bora ofan í miðjan jaxlinn til þess að taka hann í tvennt. Það var þá sem við komumst að því að deyfingin var ekki að virka, þegar borinn var kominn ofan í kviku. Þá sá hann líka að vörin var ekki byrjuð að slappast...

Þrisvar í viðbót þurfti að sprauta mig en eftir þriðja skiptið var ég hættur að finna fyrir holunni sem hann hafði borað í tíu mínutum áður. Ég hvatti hann því til þess að drífa þetta af. Eftir rúman klukkutíma var þetta allt búið og ég var hálf hissa þegar hann lyfti upp stólbakinu til þess að ég gæti skolað. Þetta gat ekki verið búið. En það var það. Versti hlutinn við þetta var að sjá slönguna í eitt skiptið sem er notuð til þess að sjúga blóð, munnvatn og tannflísar úr munninum. Þá fékk ég smá hnút í magann.

Nóttina eftir svaf ég eins og ungabarn. Fannst ég samt slefa eitthvað mikið og vaknaði um nóttina til þess að þurrka mér um munninn með handabakinu. Morguninn eftir fór í alls konar dútl og einhvern veginn tókst mér að horfa alveg framhjá öllum 5 speglunum heima hjá mér. Það var ekki fyrr en ég var loksins að fara í skólann, fullklæddur, tannburstaður og étinn sem ég leit í spegill. Og ég sá að hálft andlitið var útatað í storknuðu blóði - niður á háls.

Ég hefði ekki viljað lifað við restina af vetrinum í Háskólanum ef ég hefði ekki áttað mig á þessu. Ég var eins og ágætt skrímsli.

Svo er komið að mjög svo reglulegri Kaupmannahafnarferð í næstu viku. Ætla að vera fulltrúi Hinbio á CGLFF. Alþjóðastarf er æðislegt.

Hmm... Vinsamlegast gefið álit ykkar á þessu...
af því ég veit ekki hvernig á að taka þessu.

You scored as Satanism. Your beliefs most closely resemble those of Satanism! Before you scream, do a bit of research on it. To be a Satanist, you don't actually have to believe in Satan. Satanism generally focuses upon the spiritual advancement of the self, rather than upon submission to a deity or a set of moral codes. Do some research if you immediately think of the satanic cult stereotype. Your beliefs may also resemble those of earth-based religions such as paganism.

Buddhism

71%

Satanism

71%

Islam

67%

Hinduism

67%

Paganism

58%

agnosticism

54%

atheism

50%

Christianity

25%

Judaism

0%

Hvaða trú hentar þér?

þriðjudagur, október 04, 2005

Læknar án hurða
Það er ekki strákur sem ég er á föstu með, ég og Hlédís byrjuðum saman í síðustu viku. Okkar samband hefur farið fram á MSN síðan við byrjuðum saman, byrjuðum meira að segja saman í netheimum.

Fékk tölvupóst frá Siddý vinkonu minni sem var í Írak að vinna en er núna kominn í vinnu hjá "læknum án landamæra" og er þessa stundina að stjórna verkefni í Nígeríu. Hún er þar aðal stjarnan í öllum miðlum, blöðum, sjónvarpi og útvarpi. Segjist vera ótrúlega þreytt á að heyra í sjálfri sér alls staðar, sjá myndir og annað. Viðtölin hafa verið upp og ofan, til dæmis um daginn var hún kynnt svona:

"Dr. Lydia from Poland working for Doctors without Doors..."

Svona getur lífið verið furðulega skemmtilegt. Svo lýsi ég eftir vinkonu minni Möttu. Ég heyri meira í Leoncie en sérkennaranum í Lauganesinu.