föstudagur, apríl 29, 2005

Í skýjunum
Ég er alveg í skýjunum þessa dagana og verð það í allt sumar í nýju vinnunni minni hjá Icelandair. Öll mín kvöld og helgar fara þessa dagana ásamt öðrum verðandi Fluffum í Icelandair Training Center.

Það er gaman þegar mikið er að gera hjá manni, þá nýtur maður tímann betur. Ég var til dæmis að taka til áðan en ákvað í leiðinni bara að setja niður í kassa. Skyndilega varð minna af drasli og ég þurrkaði af ýmsum hlutum í síðasta skipti hér á Ránargötunni = tímasparandi.

Þess á milli hlustar maður á slökunartónlist, les Alchemistann og fer í hugleiðslu. Svo eru auðvitað próf í Háskólanum, rúllaði einu þar upp í dag...

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Börn
Í dag og gær hafa börn komið upp í umræðuna mjög oft. Þá í því samhengi þau börn sem ég ætla að eignast. Nú síðast í dag er það stjörnuspáin sem hefur eitthvað til málanna að leggja.

MEYJA 23. ágúst - 22. september
Nú væri ekki vitlaust að ræða sameiginlega ábyrgð á barnauppeldi, þar sem það á við. Einnig ætti meyjan að nota tímann til þess að ræða verkaskiptingu á heimilinu við maka þinn.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Stefnumót
Ég játa mig sigraðan, ég hef orðið stefnumótabólunni að bráð. Fór í gærkvöldi á stefnumót með tveimur stelpum, bara svona til þess að prófa eitthvað nýtt. Þær dekruðu mig í druslur, við drukkum og átum frameftir kvöldi. Samræðurnar þróuðust frá saklausum framtíðarplönum yfir í sameiginlega fortíð. Við höfum til dæmis öll unnið saman á mismunandi mörgum stöðum þó, og mismunandi kysst af sömu strákunum.
Eftir góða máltíð enduðum við á Grand Rokk þar sem Alabama Thunderpussy var að spila... Það kostaði 1500 krónur inn.

Hápunktur kvöldsins þegar við gáfum strákunum sem við höfum öll kysst einkunnir fyrri frammistöðuna þeirra. Hversu furðuleg var veröldin mín þegar ég var að þjóna?

föstudagur, apríl 22, 2005

Nörd
Ég er svo mikið nörd. Hef undanfarið verið að skoða starfsemi Sameinuðu Þjóðanna. Meðal annars halda samtökin úti stofnun sem meðal annars sér um þetta hér. Merkilegt.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Sveitin
Dreif mig í sveitina í gærkvöldi. Hef byrjað að hamra lyklaborðið aftur. Skrifa allar mínar hugsanir niður í tölvuna, koma einhverju í verk. Skil á tveimur ritgerðum næsta þriðjudag, það mun heppnast. Að sjálfsögðu.

Vaknaði mörgum sinnum í nótt. Hundurinn svaf fyrir utan gluggann minn, vaknaði þegar hann geispaði. Fuglarnir byrjuðu að syngja klukkan fimm, fljótlega byrjaði ég að semja ritgerðir í hausnum mínum. Mér fannst eins og fuglarnir væru að reyna segja mér eitthvað, kannski voru þeir að segja að ég væri latur.

Sumardagurinn fyrsti er hátíðisdagur í sveitinni. Við vorum boðin í morgunmat til langömmu sem býr uppi á lofti. Hún varð níræð síðasta haust kerlingin og hleypur enþá stigana upp á loftið til sín. Hún hafði bakað rjómakökur og bauð upp á sitt víðfræga heimabaka brauð ásamt ís, jarðaberum og öðru sem tilheyrir sumri. Að loknum morgunmat er komið að gegningum. Ég byrjaði með litla bróðir að skríða upp í súrheysturn að sækja þangað kettlingana sem Skrauta kettlingamamma felur þá yfir nóttina. Þeir þurfa að venjast sveitinni og í dag fórum við með þá út í garð, það lengsta sem þeir hafa farið frá fjósinu hingað til. Skrauta var ekki par sátt, henni líkar það alltaf svo illa þegar kettlingarnir hennar eru látnir þroskast frá henni. Flottast var samt að sjá Skrautu príla niður stigann úr súrheysturninum, ætla að vakta turninn í kvöld og sjá þegar hún klifrar upp með kettlingana.

Fór svo vesturúr að gefa geldneytinu. Þarna er allt orðið svo fínt, stórar og miklar hurðir og sjálfmokandi skafa undir nær öllum gripum. Áberandi hvað þeim leið vel og voru snyrtilegir. Annars er það helsta héðan að frétta að ekki næst sátt um það hvar á að byggja hesthús og hvort byggja eigi slíkt yfir höfuð.

Grillmatur í hádeginu í dag og á eftir því fylgdu að sjálfsögðu pólitísk umræða eins og svo oft áður. Stundum segjir fólk að ég borði hratt og ég áttaði mig á því í dag hvers vegna það er. Við setjumst öll niður, borðum eins hratt og við getum og um leið og búið er að ganga f

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Afmæli
Í gær áttu Ingvi og Ómar afmæli. Þeir voru með mér í bekk í Verzló. Við vorum vön að halda upp á þennan dag ansi hressilega, mjög gjarnan var farið í sumarbústaðaferð, svona rétt áður en allir lögðust í skólabækurnar fyrir próf - eða fórum við kannski eftir próf. Man þetta ekki alveg. Man eftir því einu sinni að ég og Ingvi höfum haldið upp á afmælið hans á American Style, svona eins og við vorum vanir að halda upp á föstudaga.

Föstudagar, þeir voru líka skemmtilegir. Man bekkurinn eftir fínu föstudögunum? Strákarnir í bekknum mættu gjarnan með bindi á fínum flöskudögum. Einhvern tímann var drukkinn bjór í íslenskutíma þegar Egilssaga var lesin á þessum degi.

Var svo seint í gærkvöldi eftir vinnu boðinn í kökur til Þórhalls, síðar eftir að ég kom í heimsókn kom í ljós að hann átti afmæli. Ég ætla að lemja hann við tækifæri en við fórum öll að leika okkur í ponýhestum strax eftir kökuát þannig að það er ekki hægt að vera fúll.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Ratleikur 2005
Þegar sumarið er handan við hornið er um að gera fara skipuleggja eitthvað sniðugt og spennandi. Áhangendur gay-centersins voru í fyrra duglegir að fara í lautarferðir, óskipulaggðar útilegur, óvæntar uppákomur með partýum og slíkt. Þemað í sumar verður öðruvísi. Skipulagning, keppni og útsjónarsemi verða einkunarorð þessa sumars.

Allir í bátana því þeir sem eru síðastir borga einn umgang!

Hist verður í morgunmat klukkan tíu um morgun. Dregið verður í tvö lið sem hér eftir munu keppa á móti hvoru öðru í tveimur leikjum samtímis; stigakeppni og ratleik. Eftir léttan morgunmat verður farið í keppni milli liðanna um það hvort þeirra fær 30 mínutna forskot og fær að velja um eina af tveimur vísbendingum. Hitt liðið þarf að sitja eftir í íbúðinni og ganga frá með hina vísbendinguna. Það eina sem liðin mega vera með er: fatnaður, eitt par af skóm á mann, tvo gsm síma, einn bíll, 5 strætómiðar, 5000 krónur í reiðufé og polaroyd myndavél. Öll kretitkort, peningar og aðrir gsm-símar verða gerðir upptækir á meðan leik stendur.

Fylgja þarf vísbendingum og oft að leysa verkefni. Hópar þurfa án efa að skipta sér upp í tvö lið til þess að þetta takist. Samfara ratleiknum fer fram stigakeppni. Dæmi um það hvernig lið vinna sér inn stig:

a. fá gefins Evrur frá ferðamönnum - eitt stig fyrri hverja Evru
b. eitt stig fyrir hvern þann kaffibolla (með undirskál) sem stolið er af kaffihúsi (mikilvægt að þeim sé skilað að leik loknum)
c. eiginhandaráritanir frá ákveðnum hópi fólks - eitt stig fyrir hverja eiginhandaráritun og þrjú stig ef viðkomandi flettir upp bol/skyrtu svo hægt sé að taka mynd af maganum með polaroyd myndavélinni
d. 10 stig fást ef hópurinn framkvæmir eitthvað sem mun birtast í kvöldfréttum sjónvarps

...og fleira

Hópur missir stig ef hann eða meðlimur:

a. brýtur umferðarlög - helmingur lokastiga færist til hins hópsins
b. gefst upp - öll stig eyðast


Þetta er svona helsta úr uppkastinu. Hlédís tekur við skráningum í leikinn, en þátttökugjald verður á bilinu 1-3.000 krónur. Fólk ætti að hafa svefnpoka, tannbursta og handklæði með - plana svo ekkert næstu 24 tímana eftir að leikurinn hefst...

Líst fólki ekki vel á þetta þema fyrir sumarið? Hverjir sjá núna eftir því að hafa flutt af landinu, he he he - alltaf skemmtilegast hér!

mánudagur, apríl 18, 2005

Svartir kettir
Tímarnir breytast og mennirnir með. Þessa dagana gerist það mjög hratt. Áður fyrr trúði ég því að þegar svartur köttur hljóp fyrir bílinn þinn þá boðaði það ógæfu fyrir mig. Í morgun áttaði ég mig á því að það er bara þeirra ógæfa. Bílinn á undan mér keyrði yfir einn. Allir bílar stoppuðu, fólk stóð út úr bílnum sínum. Skyndilega var enginn að flýta sér. Þögnin var svo yfirþyrmandi að ekki var víst hvort fólk væri í áfalli, vonsvikið, sárt eða fyllt viðurstyggð. Þetta leit ekki illa út. Blóðið lak úr kettinum eins og þykk málning. Þegar blóðið var búið að leka rúma tvo metra frá kettinum var hann enn í andarslitrunum. Hann var í mikilli kvöl. Enginn gerði neitt. Ef ég hefði verið uppi á Grease tímabilinu hefði ég sest upp á húddið á bílnum og kveikt mér í sígarettu á meðan líf kattarins hefði fjarað út. En ég er ekki af þeirri kynslóð. Blóðlyktin sveif upp í vitin mín og ég lagðist fram á húddið á meðan ég náði meðvitund á nýju.

Bakkaði svo út götuna og fór aðra leið heim. Starfsmenn franska sendiráðsins sáust í dag með fulla fötu af vatni að reyna afmá stóra blóðpollinn sem rann niður alla götuna. Það sást lítið eftir þeirra vinnu. Hefði þetta verið manneskja hefðu allir vitað hvað átti að gera og enginn hefði átt þá afsökun að horfa á köttinn eða leyfa sér að fá yfirlið. Erum við ekki komin of langt frá náttúrunni? Var það okkar siðmenniing sem flatti út höfuð kattarins og gerði það að pönnuköku? Ásættanlegur fórnarkostnaður kannski. Morðinginn sást keyra í burtu, leit kannski í baksýnisspegilinn og hægði örlítið ferðina, stoppar áreiðanlega á næstu bensínstöð til þess að þurrka helvítis blóðpollana af bílnum. Morðingjans er ekki leitað.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Fluffur
Var á árshátíð fyrirtækis sem ég hafði unnið á í 5 daga í gærkvöldi. Árshátíðin var haldin á grand hóteli í Reykjavíkurborg. Á sama hóteli gista slóvenskar flugfreyjur...

...þær vöktu athygli. Dansað, káfað, daðrað, spjallað og blikkað - góður kokteill. Ég og Unnur aðstoðarframkvæmdastjóri skiptum þeim bróðurlega á milli okkar. Góðar stundir.

laugardagur, apríl 16, 2005

Þemur
Þema vikunnar hefur verið Mangó, þemað í kvöld verður dáti...

föstudagur, apríl 15, 2005

Ávaxtakaka á náttbuxum
Það var langt áliðið á nóttina þegar síminn hringdi, húsfrúin var að þvo kornakremið framan úr sér og dilla sér rólega við lög úr Pretty Woman. Gummi var í vandræðum, læstur úti. Næturkremið var borið létt á andlitið eftir að andlitið hafði verið skolað með köldu vatni, frískandi. Götuskórnir voru ekki í samræmi við heildarlúkkið þegar stigið var út á gangstéttina um kalda nótt. Næfurþunnar náttbuxur og allt of þykk peysa, hræðileg að lit. Götuskórnir voru allt of stórir þannig að það reyndist erfitt að hlaupa út alla Ránargötuna til þess að komast í bílinn, hann var kaldur en súkkulaðibitakökurnar sem teknar voru með sigruðu kuldann á fjórðu köku..

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Faraldsfótur
Lífsins listisemdir komu til sögu í þremur kjördæmum landsins í dag, settur var undir sig betri fóturinn og unaður landsins var notið, innan og utan.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Varahlutaverslun
Slíkir staðir geta verið einstaklega skemmtilegir. Sérstaklega ef að sætir strákar eru að vinna. Segjum sem svo að það eru bara tveir strákar undir þrítugu á staðnum (annar er viðskiptavinur og hinn er starfsmaður) og aðrir eru bara yfir fimmtugt. Svo heppilega vill til að það byrjar eitthvað svona daður, bara af tilviljun. Einhver hrósar einhverjum fyrir að líta vel út - velt fyrir sér í hvaða rækt menn séu. Næsta spurning er til þess að fá það staðfest að þetta sé nafn viðkomandi, skemmtilegt nafn er svarið... Viðbrögðin við því eru, "nú jæja, líkar þér það, þú ætti að heyra símanúmerið mitt...."

Strákur skilur símanúmerið sitt eftir í afgreiðslunni í varahlutaverslun og fær rúðuþurrkur á bílinn sinn í kaupbæti.

mánudagur, apríl 11, 2005

Ísland - Grikkland
Staðan eftir fyrsta leikhluta; 1-1

sunnudagur, apríl 03, 2005

Kostar bara ekkert!
Núna er komin hugur í mig og ég er orðinn léttari á brá á ný. Út vil ek, sagði einhver og það vil ég líka! BLUS er með partý þann 16. apríl og það kostar mig bara 24.000 ISK að stoppa í Köben í 24 tíma... Hverjum öðrum en mér dettur í hug að velta þessu fyrir mér? Þetta eru ekki nema 1000 krónur á tímann, eins og gott tímakaup!

laugardagur, apríl 02, 2005

Kýr eru svalar
Langaði að benda ykkur á þessa síðu, sérstaklega mömmu, hún hefur fetisma fyrir beljum. Bið svo alla um að gefa Karenu vinkonu tvær mínutur SMELLA HÉR, hún er að útskrifast, meira en ég get sagt...