mánudagur, febrúar 28, 2005

Komment
Mamma mín kommentar undir nafni hjá vinum mínum, en býr til dulnefni þegar hún kommentar hjá mér. Að vísu þegar hún kommentar hjá fólki í kringum mig sem hún hefur ekki hitt, notar hún dulnefni líka. Varið ykkur á grís, refnum og konunni. Hún er hættuleg og það er erfitt að rekja ferðir hennar um bloggfærslurnar. Hún er útsmogin, lærði á Excel í kvöld og bjó til forrit með hjálp mín um það hvernig mélið er gefið í fjósinu. Þegar hún hafði reiknað út prósentuhlutfall Skvísu, Æsu, Sjoppu og Druslu í heildarmélgjöfinni, þá var hún tilbúin að fara út í fjós með nýprentað skjalið til mélgjafar. Ætli það verði ekki bara mjólkað á morgun eftir nýju excel skjali?

Annars líkar mér illa við orðið komment. Getum við ekki breytt þessu orði eða notað eitthvað annað. Eigum við að nota orðið athugasemd eða ummæli? Kannski við steypum saman nýyrði, veitum verðlaun og höldum árshátíð bloggara eða blöggara - íslenskara.

Vegna lögmála um framboðs og eftirspurnar þá vil ég bjóða fólki að skrifa sín komment á minni síðu, en það eru nokkrir hér í blöggheimum sem hafa tekið út sín kommentakerfi. Vegna eftirspurnar þá leysi ég úr því með framboði á mínu eigin kommentakerfi. Megi kommentin lifa og við líka!

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Viltu vinna 5000 krónur?
http://www.questionpro.com/akira/TakeSurvey?id=214037
Þeir sem vilja eiga hættu á að vinna 5000 krónur smelli á tengilinn hér. Að sjálfsögðu vil ég svo fá helming ef einhver fór inn af mínum tengli...

laugardagur, febrúar 26, 2005

Vinnustaðahúmor
Það er gaman að vinna í nýjum og nýjum stað. Oft hafa vinnustaðirnir sinn sérstaka ljóma, starfið sjálft og svo samstarfsfólkið. Þessar tvær breytur skapa vinnustaðahúmor - eða drepa hann. Ég starfa núna sem spyrill á Hagstofu Íslands, það er svakalega gaman finnst mér - allt þrennt: samstarfsfólkið, vinnan og síðast en ekki síst vinnustaðahúmorinn.

Það væru ekki margir sem myndu hlæja að þessum brandara eða staðhæfingu, en ég hef séð það gerast: Hún hafði semsagt unnið í fyrra sem 1.11-34 en var farin að vinna sem 1.34-11!

Um er að ræða manneskju sem vann sem "ófaglærður ritari lögfræðings" en hafði tekið við starfi sem "forstöðumaður, framkvæmdastjóri eða æðsti yfirmaður líknarfélags". Um er að ræða vísanir í starfsgreinagreiningu Hagstofunnar en við vinnum við það að flokka störf fólks eftir þessu kerfi, bókin er álíka þykk og símaskráin - sem er skemmtilegt að það séu til jafn stór bók yfir fólk í þessu þjóðfélagi og störfin sem unnin eru í sama þjóðfélaginu! - var einhver að tala um yfirgreiningu?

föstudagur, febrúar 25, 2005

Floginn
Þá er hann farinn. Furðulegt. Hefur öðruvísi áhrif á mig en ég hafði búist við. Bjóst við að fara grenja eins og svo oft þegar ég hef kvatt fólk úti á velli. Gerði það samt ekki. Kannski var ég þreyttur, held samt að ég hafi bara verið sáttur. Nóttin hafði verið löng. Skipulagshæfileikar mínir höfðu fengið að njóta sín alla nóttina. Núna flýgur yfir hafið tvær töskur af skipulagshæfileikum mínum og 12 kassar í Reykjavíkurborg.

Ég og Þórir erum ágætir vinir. Samband okkar er mjög rólegt og afslappað, við þurfum einhvern veginn ekki að aðhafast neitt sérstakt eða stefna neitt. Einhvern veginn er bara ágætt að vera. Ég á eftir að sakna þess að hanga bara í heitum potti á milli sallýbuna í rennibrautinni eða sitja yfir Sex and the city og vera með ódýr skot á hvorn annan.

Í kvöld kemur Siddý heim frá Svíþjóð, það er smá sárabót að fá hana þegar maður missir hjákonuna sína. Yfir og út.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Súkkulaði og daður
Dagurinn í dag hefur verið skemmtilegur. Hann endaði í kvöld með FSS að éta páskaegg eins mörg og við gátum í okkur látið fyrir 500 krónur. Ég át yfir mig enda þóttu mér páskaegg mjög góð, ekki lengur...

Þegar ég gekk Ránargötuna mína í dag mætti ég sætum strák, ég er að tala um virkilega sætan strák, líklega var hann franskur eða frá botni miðjarðarhafs. Ég sá hann löngu áður en ég mætti honum og svo brosti hann til mín, hægði á sér og endaði á því að heilsa mér. Ég vildi óska að ég hefði einhvern tímann gert svona við einhvern strák. Ótrúlega smekklegt og fínt. Ég spurði hann aldrei hvaðan hann væri, við vorum svo stutt frá heimilinu mínu.

Talandi um daður, ég gekk aðra götu í Vesturbænum um daginn, það var heilsubótarganga seinnipartinn þegar ritstífla hafði gert vart við sig. Mér þótti ungi pabbinn með barnavagninn ansi sætur en hann missti allan sjarma þegar hann snéri sér við til þess að horfa á eftir mér ganga í burtu. Kannski voru þetta fordómar í mér, hommar geta auðvitað verið pabbar og það er kannski ekkert að því að daðra þegar maður er að ganga úti með börnin sín - foreldrar mínir hafa bara aldrei haft það fyrir mér.

Börnin gera jú það sem fyrir þeim er haft. Talandi um börn. Var á ráðstefnu um drengjamenningu í grunnskólum í dag. Haldið á Grand Hótel. Ég ætti að vinna við að sitja svona ráðstefnur, gæti verið fundarstjóri, opnað þær eða slitið, sagt brandara í hléi eða bara séð til þess að fólk væri að mingla eða eitthvað slíkt. Mikið þótti mér gaman og mikið var gaman að kynnast öllu þessu fólki. Ég passaði mig á því að setjast við borð sem var fullt af fólki frábruðnu mér. Ég náði stanslaust að snúa umræðunni upp á ungu hommana í grunnskólunum og ég held að allir grunnskólakennararnir hafi farið heim frá mínu borði með ansi þungar hugsanir. Ekki var það til þess að minnka umræðuna þegar Þorvaldur formaður Samtakanna 78 las upp hluta úr bréfi sem ég hafði sent skólastjórnendum grunnskólanna minna sem ég hef birt hérna á blogginu mínu.

Dagurinn var sukksess!

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Hugsanir í óskilum
Ég vil tilkynna hvarf tilfinninga minna og hugsanir. Þær virðast hafa týnst í þokunni miklu sem hafa umleikið höfuðborgarsvæðið undanfarna daga. Finnandi skili þeim vinsamlegast þegar vori lýkur og sumar tekur við. Þetta hentar mér ágætalega. Ég klára verkefnin af borðinu mínu eins og vindurinn. Ég er farinn að skila verkefnum til kennara DÖGUM fyrir skilafrest.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Mamma
Þessa dagana hef ég verið að vorkenna sjálfum mér og gefast upp á vinnunni minni. Mér finnst eins og síðan ég hef komið út úr skápnum hafi ég stimplað mig í vinnuna - og hafi ekki fundið stimpilklukkuna til þess að komast heim. Mér fannst allt vonlaust. Mamma kom til Reykjavíkur í gær, það var gott að setjast niður með henni. Við vorum bæði mjög svöng. Því var étið:

Rjómalöguð paprikusúpa, grænmetishorn, café latté, crossiant með skinku og osti en máltíðinni lokið með marenstertu ásamt rjóma og súkkulaði. Unaður. Samt var ég pínu svangur og ég sá það í munnvikunum á henni að hún var það líka - en við hættum, eins og dömum sæmir á veitingastað.

Mamma beygði sig einu sinni fram og horfði í augun á mér þegar hún sagði: "Ég hef aldrei verið hommi og ég get ekkert hjálpað þér með þetta" - Þá áttaði ég mig á því að ég hef bara svakalegan metnað fyrir því að vera hommi og ég veit nákvæmlega hvað ég er að gera, því ekki veit mamma það. Hvað var ég að spá í að gefast upp sem hommi?

Ég skulda mömmu núna.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Dagurinn í dag
Í gær var ég vakinn með símtali, Addi óskaði mér til hamingju með daginn. Sagðist ekki myndu gefa mér neina gjöf þar sem að ég hafði ekki gefið honum neitt á bóndadaginn. Mér þótti hann sniðugur. Takk Addi! Mun líklega reyna muna eftir því að gefa honum gjöf á næsta bóndadegi til þess að eiga rétt á dekri. Hvers vegna ætli konudagurinn sé á eftir bóndadeginum? Er eitthvað jafnrétti í því? Og hvers vegna er þetta bóndadagur en ekki karladagur? Mamma mín er til dæmis bóndi en enginn óskar henni til hamingju með daginn á þeim degi. Svo er konudagurinn á sunnudegi, engar vöfflur í vinnunni þann daginn eða extra löng sígópása. Það þarf að byrja hugsa þessa hugmyndafræði alveg upp á nýtt.

Mamma vaknaði eldsnemma í morgun, las bloggið mitt, hafði áhyggjur og brunaði í bæinn. Hún hafði þó ekki meiri áhyggjur af mér en það að fyrst skellti hún sér í klippingu, litun og plokkun áður en hún strauk unganum sínum um kollinn og hvatti hann til þess að vera áfram hommi, enda var hún sjálf svo gasalega vel til höfð.

Anna Vala vinkona mín er ýmist full, menningarleg eða að vinna. Um helgina gerði hún þetta allt saman. Helgin hennar endaði heima hjá Sólu eftir Food and fun hátíðina í Sjávarkjallaranum þar sem þær skemmtu sér við að lesa bloggið mitt fram eftir nóttu. Velkomin á bloggið mitt Sóla! Sögusagnir segja að Anna hafi verið með gin og tónik í vatnsbrúsanum sínum í vinnunni í dag - og hádegið er nýbúið!

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Hommar parast ekki?
Áttaði mig endanlega á því í gær. Annaðhvort hef ég ekki hæfileikann til þess að laðast að öllum þeim strákum sem reyndu við mig í gær eða laðast bara að strákum sem eru á föstu eða í skápnum - eða bæði. Og ég sem er í skápabanni... úff, gerir allt erfiðara og skapar brundfyllisgremju (og hér með hef ég brotið áheitið frá vinahópnum að segja hvorki né skrifa orðið brundur á árinu, fallinn með fjóra komma níu - ánægður með það!).

Síðan eru allir hommar í óskilgreindum samböndum. Kallið mig Sjálfstæðismann eða gamla íhaldið, en ég lána engum nærbuxurnar mínar og hef ekki áhuga á að fara í samband þar sem ég lána kærastann minn, eða hann lánar mig. Mér finnst sjálfsagt að deila mat og pening með fólki, en naríur, kærasti og Friendsspólur eru bara heilagri hlutur. Vinahópurinn lét klámspólurnar ganga hringinn einu sinni, mér þótti ekkert athyglisvert við það, en hommum finnst ekkert að því að láta makana ganga hringinn, ég vil ekki taka þátt í því! Er ég og hommavinir mínir þeir einu sem eru á þeirri skoðun? Og ekki getur maður deitað vini sína, það væri bara rangt og ekki sexý.

Fannst óhemju gaman í gær samt innan um alla hommana á ballinu. Margir sætir strákar, aðeins færri sem eru sexý og nokkrir sem maður hafði sofið hjá. Skemmtilegt að sjá viðbrögð fólks við manni. Sumir heilsa, aðrir vilja ekki kannast við mann og enn aðrir skammast sín. Síðan voru aðrir sem höfðu áhuga á mér. Sumir komu því pent og sexý til skila. Það þótti mér gaman, ef þeir hefðu verið meira edrú hefði ég verið viðráðanlegri. Fátt þykir mér leðinlegra en að vera pikkaður upp af yfirdrukknum homma.

Svo vil ég þakka öllum strákunum sem hrósuðu mér fyrir flotta skó og sexý bindi. Þeir skoruðu feit rokkprik hjá mér með slíku skjalli. Ef einhver hefði tekið sig til og hrósað mér fyrir nærbuxurnar mínar líka hefði hann átt mig, en allir vita að ég er með fetisma fyrir þrennu: skóm, bindi og naríum...

laugardagur, febrúar 19, 2005

Sódómískir í Silkeborg
Ég ætla að heimsækja litlu systur mína á Jótland um páskana. Hún er greinilega orðin spennt og er að reyna byggja upp spennu hjá mér sjálfum. Tvær myndir fékk ég í morgunsárið þessa hér og þessi hér. Báðar mjög ólíkar - þó ekki fyrir og eftir - því miður. Mér sýnist það gæti orðið gaman hjá mér, báðum systrum mínum og mömmu. - Já við erum að fara í mæðgnaferð!

Annars var farið á leikritið "Ég er ekki hommi" í gærkvöldi. Fínt leikrit og MJÖG sætur leikari sem leikur homma, ég keypti það alveg að hann væri hommi. Ég svosöm líka oft keypt það hjá öðrum strákum að þeir séu ekki hommar.... en það er auðvitað önnur saga. Svo var salurinn stútfullur af testesterónum, úff, eiginlega of mikið. Þessi karlhormón voru mörg hver mjög falleg og aðlaðandi, sjálfur átti ég á tímabili erfitt með mina eigin hormóna. Á meðan Gunnar í Krossinum býður afhommunarnámskeið var ég nærri farinn að bjóða áhommunarnámskeið.

Var þetta nógu mikið fyrir ykkur, teprurnar ykkar? Ég held ég hafi náð að tala ekkert undir rós í þessari færslu...

föstudagur, febrúar 18, 2005

Just do your best darling
Í gær upplifði ég mig sem hermann en í stað þess að koma heim og þrífa af sér blóðið rann af mér förðunin í sturtunni. Vöðvarnir náðu að slaka á og ég fékk frí frá hugsunum mínum. Undirbúningurinn undir stríðið var ekki erfitt, bara krefjandi. Metnaðurinn og greiningarþörfin ætlaði allt að drepa á sama tíma og hún fleytti okkur áfram. Markmiðasetning og smáskrefalíkön komu öll her að góðum notum. Hugsaði vel til Albert Jónssonar, vinstri handar Dabba, um hvernig hann kenndi mér um smáskrefalíkanið og Kúbudeiluna. Rifjaði upp kennsluna hjá henni Lilju Einars, dóttir Einars Bolla, um markmiðasetningu og selluvinnu í Versló. Pínulítill Bjarni Ansnes, skólastjórinn minn í grunnskóla sem reykti pípu á göngunum, kom upp í hugann - en bara í smá stund - en það var bara til gamans.

Það var þreyttur og ánægður hermaður sem lagðist í rúmið sitt í gærkvöldi. Sáttur við dagsstarfið sitt, fullur vilja til þess að takast á við aðra orustu undir sterkum kastaraljósum og stríðsmálningu, öruggur um að gera ekki sömu mistökin aftur.

40 sekúndur?
Eru allir til í að gefa henni Kareni vinkonu minni 40 sekúndur af þeirra lífi og svara þessari könnun hérna. Bestu þakkir!

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Hvað hefur Evrópa gert?
Evrópusinnanum í mér finnst þetta myndband ansi skemmtilegt og hollt.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Krefjandi og skemmtilegt
Upp er komið krefjandi og skemmtilegt verkefni. Ég hef verið að knúsa nýja stelpu í mínu lífi mjög mikið. Við höfum staðið, setið og hlegið, en umfram allt höfum við verið að tala saman og byrjum alltaf upp á nýtt í umræðum - eins og við séum alzheimerssjúklingar. Þetta er skemmtilegt.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Árshátíð einhleypra
Var haldin í gærkvöldi. Ef ykkur var ekki boðið, get the hint then. Gulli, Ólöf, Alma, Kamilla, Þórir, Vigdís, Sigga og Þórir héldu hátíðlega árshátíð með eplaköku, gulrótarköku og karamelluís. Kamilla og Gulli löbbuðu saman út í nóttina, stálust til þess að leiðast hluta af leiðinni. Hittum Keflvíking, það var ógurlegt...

mánudagur, febrúar 14, 2005

Minn heimur
Ég fór í sund í gær með Þóri. Það getur verið mikið gaman. Af því að rennibrautin var lokuð þá skoðuðum við bara stráka. Sáum Finna, Þjóðverja, svertingja, sæta Íslendinga og það sem var líklega best af öllu tvo Frakka. Þórir fékk að eiga þá báða. Hann lét ekki til skarar skríða, því miður.

Ég man samt alltaf eftir því þegar ég kem úr sundi að sundskýlan mín er eiginlega hætt að skýla mér á saumnum að aftanverðu. Skýlan er eiginlega farin að segja: "Welcome to my world" - eða kannski enn frekar "Welcome INSIDE my world". Þórir átti þetta skemmtilega komment á þær fyrir nokkru, þarf endilega að fleygja þeim frá mér áður en ég fer í þær aftur.

Geri það á morgun.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Viltu vinna milljón? - eða kærasta?
Laugardagskvöldinu var eytt í Skerjó þar sem að Dabbi Odds og Siddý eiga heima. Tilefnið var að Siddý átti 30 ára afmæli og er búinn að vera taka til í Írak eftir Dabba og Dóra. Nágranni Siddýjar kom þó ekki í heimsókn.

Eins og í öllum almennilegum boðum tók ég með mér deit, Anna Vala varð fyrir valinu því að hún kann að dressa sig svo smart og hrósa gestgjöfum fyrir veitingar, enda sjálf hámenntaður kokkur. Eftir að hafa eytt kvöldinu í að spila Viltu vinna milljón? við fjölskyldu og fjölskylduvini Siddýjar, eitt símtal til afa og 30 tertutegundum síðar stungum við Anna Vala á Thorvaldsen þar sem við fengum okkur, já sódavatn og kaffibolla.

Ég veit ekki hvort að Anna mín sé almennt svo umhyggjusöm um mig, en við ræddum tilgang og markmið með kærastaeign. Anna stillti mér með sódasprite í höndina upp við vegg og spurði mig hreinlega út af hverju ég ætti ekki kærasta. Við komumst að niðurstöðu sem við vorum bæði sátt við. Það sem meira er og betra var að við ræddum líka hvort að núverandi ástand væri ásættanlegt eða hvort því væri að breyta. Aðgerðaáætlun var samykkt og uppkast af plani B.

Skemmtilegt kvöld.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Stóri bróðir
Passaði litlu frændsystkinin mín í gærkvöldi, þau eru 5 og 7 ára. Foreldrarnir voru í fullorðisleikjum út í bæ þar sem 20 ára aldurstakmarsk er krafist. Þess vegna vorum við heima að horfa á Disney, búa til mat, reikna stærðfræði þar sem karlar hoppa misstór hopp á línum og síðan eru öll hoppin reiknuð saman. Þegar ég lærði stærðfræði reiknuðum við bara 2 + 2 en enginn Bubbi byggir var að hoppa á línum og svo var hann litaður. Eða kannski . Hver veit, kannski vil ég bara ekki muna það.

Foreldrarnir voru hæstánægðir með þá ákvörðun mína að ætla að gista. Fékk að finna fyrir því morguninn eftir þegar þau fengu að sofa út, en ég ekki...

Neibbs, ég er ekki barnapía sem passa börnin líka daginn eftir!

föstudagur, febrúar 11, 2005

Brot úr samtali
...
ok, það getur líka verið ansi leiðinlegt, t.a.m. að þurfa að neita sér um margt sem gefur lífinu gildi, eins og t.d. væntingar og tilhlökkun
...

Vinur minn var að ræða við mig á MSN í dag. Ég þarf að fara læra að lifa lífinu aðeins betur. Allar tillögur vel þegnar.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Grasekkja
Var vakinn í morgun þegar Ási var að fara. Hann var klæddur og kominn á ról, fékk koss og svo var hann farinn. Það tók fljótt af og ég var snöggur að sofna aftur. Hafði vaknað af draumi þar sem að mig dreymdi að neglurnar mínar væru rispaðar og illa farnar. Sofnaði til svefns þar sem mig dreymdi að Kalli Bjarna hefði opnað hárgreiðslustofu, kom út úr skápnum og hann væri nýji kærastinn minn. Kalla Bjarna þótti rosalega gaman að greiða mér, setja í mig strípur, strjúka á mér bringuna og kaupa handa mér föt.

Þegar ég vaknaði í morgun vissi ég ekki hvort ég átti að gráta, grenja eða vera hræddur. Stórfurðulegt.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Saltkjöt og baunir
Sat í dag í tíma um karlmennsku, úti var byrjað að snjóa og stórar flygsurnar féllu rólega til jarðar. Fyllir manni ró en um leið fann ég að það væri erfiður dagur, síðasti dagurinn með konunni minni. Eftir tímann beið hann svo úti í bíl með Kaffi latté handa mér frá Kaffitári og lögðum af stað í sveitina til mömmu og pabba, ferðin var erfið og rúðuþurrkan var alltaf að stríða okkur. Saltkjöt og baunir frá kvöldinu áður voru á borðum, eitthvað sem Ása líkar svo vel. Furðulegt, ég borðaði svolítið saltkjöt en át svo pasta-hvítlaukssalat. Namm namm. Afi og foreldrar mínir fóru á kostum. Í kvöld stendur svo til að spila Trivial með Daníel og Elínu - Elínu og Daníel. Veit ekki hvort maður ætti að segja, líklega Elín og Daníel, þar sem Elín er vinkona okkar og Daníel hennar fylgimaður.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Soðin Gullmundur með fínar neglur
Í gærkvöldi fórum við Ási í manicure og plokkun hjá Sæunni. Mikið mikið mikið rosalega var þetta gott og ljúft. Takk fyrir mig Sæunn! Vöknuðum svo í morgun í svitabaði því að Ási vill hafa alla glugga lokaða og hvern einasta ofn á fullum hita (andsk... djöf...). Venjulega gef ég ekkert eftir en það var einhvern veginn svo mikið auðveldara þegar maður er með svona vel plokkaðar augnbrúnir og neglur sem glansa...

mánudagur, febrúar 07, 2005

Bolla bolla bolla
Það hefur enginn flengt mig í dag og ég hef engan flengt, því miður. Konan mín gisti ekki heima í nótt þannig að hvorugur okkar var flengdur. En við borðuðum bollur og við borðuðum mikið af þeim. Í gærkvöldi var bolluveisla hjá Önnu Völu í Kópavogsborg. Anna Vala er víst að fara bjóða sig fram í Framsóknarfélagið Freyjuarnar, var að reyna plata mig og Ása með sér í stjórn, maður lætur kannski platast...

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Veltingur
Helgin í Eyjum hefur verið frábær. Þvílík afköst í 14 hommum og lesbíum! Aðstaða Háskóla Íslands í Eyjum er örugglega betri en aðstaðan í Reykjavík. Forseti bæjarstjórnarinnar tók okkur í göngutúr yfir miðjan dag í gær þar sem skansinn og hraunið var skýrt og skoðað. Um kvöldið var svo tekið til við mjög svo hýrt djamm í Eyjum, sem mjög mörgum heimamönnum þótti áhugavert og líklega hef ég eignast á þriðja tug nýrra vina í Eyjum. Kynhneigð er annaðhvort mjög fljótandi eða þá að margir skápar búa þar ytra.

Ferðin heim var vægast sagt hræðileg. Sunnanátt með meira en 25 metrum á sekúndum, undiralda og stórkostlegar öldur. Ég hef aldrei verið sjóveikur, en það voru stórmistök að segja aldrei... Ofan á þetta bætist svo að lesbíur eru ekki þægilegar þegar þær fara á túr og það gerðu fleiri en ein slíkt - á meðan ferðinni stóð! Ofan á þetta allt saman mátti bæta 400 stelpum sem voru á fimleikamóti í Eyjum, sem þótti gaman að hlaupa og hoppa um borð. Hamborgarinn sem ég át í byrjun ferðar (og var erfitt að berjast við að koma ofan í sig) kíkti reglulega upp í kok en ég náði að berjast við þetta allt saman.

Ég mun aldrei óska neinum þess að upplifa þetta, ekki einu sinni Gunnari í Krossinum, þó að guð eigi kannski eftir að sjá til þess til þess að hefna þess hvernig Gunnar talar um börn guðs...

laugardagur, febrúar 05, 2005

Eyjar
Jæja þá er maður vaknaður fyrir allar aldir. Búinn að pakka niður, fara í sturtu, gera morgunleikfimi og horfa á morgunsjónvarpið. Núna skunda ég af stað á fund með Lagabreytingarnefnd Samtökunum 78 í smá stund en flýg svo beint í hádeginu til Eyja á vinnuhelgi með FSS. Atvinnuhommi á ferð!

föstudagur, febrúar 04, 2005

Prump
Eftir síðasta kvöldið í leiðtoganámskeiðinu þurfti ég að skríða upp í sófann minn heima hjá Þóri þar sem ég slaka svo vel á. Kamilla var í heimsókn, sem var alls ekki verra. Þegar ég var að fara náði ég að prumpa og í stað þess að þau myndu fussa yfir því fékk ég klapp og hrós. Forsendur þess verða ekki gefnar upp hér.

Í dag kemur konan mín til landsins. Svaf lítið sem ekkert í nótt. Reyndi samt að hreyfa mig lítið til þess að styggja ekki við álfunum mínum. Ég held svei mér þá að þeir séu að hreiðra um sig hérna hjá mér. Þeir voru allavega að rogast með lítil álfahúsgögn yfir allt gólfið hjá mér.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Afmælisdagur
Til hamingju með afmælið pabbi! Í tilefni dagsins fór ég til miðils. Það var ágætt, eiginlega meira en ágætt, það var gott, mjög gott. Við ræddum námið mitt, framtíð, krafta, peninga og vini með hjálp ömmu Ragnheiðar heitinnar og afa Sigurðar heitins. Þau báðu mig samt um að yfirgefa allt gullt en halda mig við fjólublátt. Held ég geri það bara.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Álfaryk
Ég hef verið að kynnast sjálfum mér upp á nýtt undanfarna daga. Það er sumt sem mér líkar, annað ekki. Sumt langar mig að rækta og annað að losa mig við. Þetta er skemmtileg vinna. Um leið og ég er að kynnast mér upp á nýtt er ég líka að kynnast áhugaverðu fólki. Það er gaman.

Páll Óskar var með fyrirlestur á leiðtoganámskeiðinu sem við í FSS skipulögðum og stendur núna yfir. Hann var að tala um þá stráka sem margir hommar sækjast í. Við sækjumst allir í þá sem eru "N/A - Not Awailable". Og veistu, það er alveg satt og ég get alveg viðurkennt það. Þetta eru strákar sem eru annaðhvort: skápar, gagnkynhneigðir, forvitnir, útlendingar, á föstu eða á netinu. Það eru nefnilega til fullt af sætum, skemmtilegum og almennilegum hommum, sem maður væri jafn stoltur að deita og að vera hommi, strákar sem þurfa ekki að fela sig á netinu, á bak við stelpu eða kynhneigð til þess að líða vel.

Og ég veit að mér líður betur. Tilfinningin er svo góð að það er hægt að vakna upp yfir það um miðja nótt, dreymandi að það séu fljúgandi álfar í herberginu þínu sem dreifa yfir þig glitrandi stjörnum og álfaryki. Ég var sestur upp með stórt Sólheimabros og vellíðan þegar ég fann vindinn blása í bakið og snjókornin leggjast á bakið mitt og lakið. Þegar ég lokaði glugganum var ég ekki frá því að ég sæi pínulitla Álfa sitjandi á gluggakistunni minni með fulla lúku af stjörnuryki. Ég var því ekki lengi að skríða upp í sæng og sofna strax til þess að þeir gætu haldið áfram að breiða yfir mig stjörnuryki.

Það er langt síðan að álfarnir hafa verið hjá mér, en það er gott að þeir eru komnir aftur. Þá er bara að leggja sig fram við það að láta umhverfið sitt vera þeim fýsilegt áfram. Ert þú nokkuð búin(n) að leita að þínum álfum í dag?

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Aðalfundarboð
Ég fékk tölvupóst í dag. Mér var boðið að vera á aðalfundi landssamtaka homma og lesbía í Grænlandi. Ég veit ekki...

www.qaamaneq.gl