fimmtudagur, júlí 29, 2004

Stokkhólmur
Ég ætla að svíkja loforðið mitt og skrifa ekkert um ástarsokka í þetta skiptið, geymi þá sögu. Í staðinn langar mig að segja ykkur frá Stokkhólmi. Þangað hef ég aldrei komið og enginn sem er mér blóðskyldur, við ferðumst svo mikið til Kaupmannahafnar að annað kemst bara ekki að. Til dæmis er framundan hjá mér að fara til Kaupmannahafnar - hvað annað. Ég meina að í dag eru 54 dagar þangað til ég flyt til Spánar en samt ætla ég að skreppa fyrst til Kaupmannahafnar - annað er auðvitað ekki hægt; ég verð að kyssa konuna mína bless og hljóta blessunar hennar áður en ég fer til Spánar á vit ævintýranna.

Planið er að koma til Kaupmannahafnar á fimmtudegi eða föstudegi og taka þátt í ráðstefnu á vegum FSS frá föstudegi fram á sunnudag, koma til baka til konnunar á sunnudegi og fara til Stokkhólms með fimm tíma lestarferð á mánudagsmorgninum - snemma. Eyða svo öllum mánudeginum og jafnvel þriðjudeginum í Stokkhólmi, hitta svo Ragnar sæta sem vann með mér á Café Óperu og drífa sig svo heim. Ragnar er semsagt með draumaprinsinn minn þarna úti og vill endilega að ég hitti hann... en þetta var óþarft innskot.

Hver hringir svo í mig í gær til þess að tilkynna mér að hún sé að fara til Helsinki þessa sömu helgi og ég er að fara til Kaupmannahafnar, auðvitað hún systir mín. Hún er að fara til Helsinki til þess að hitta stelpu sem hún kynntist þegar þær voru saman í herbergi í Englandi á síðasta ári og ég heimsótti, en þessi stelpa - hún heitir Hanne, er búin að skipuleggja ferðalag með ferjunni til Stokkhólms á mánudagsmorgninum og heim á þriðjudeginum.

Já - þannig að þið náðuð þessu. Ég ákvað að fara til Kaupmannahafnar, fékk utanaðkomandi hvatningu til þess. Vala systir mín var hvött til þess að fara til Helsinki. Ási skipuleggur ferð til Stokkhólms frá Kaupmannahöfn og Hanne skipuleggur ferð frá Helsinki til Stokkhólms. Inn í þetta allt saman drögumst við systkinin á ótrúlega skemmtilegan hátt. Þess má alveg geta að konan mín og Hanne þekkjast ekkert og vita ekkert af tilvist hvors annars. Hverjar mega líkurnar vera á þessu?

Það má auðvitað geta þess að við höfum öll ákveðið að hittast í Stokkhólmi, þó ekki væri nema að fá sér kaffi. Ég kem til Stokkhólms 30. ágúst klukkan 12:40 á aðallestarstöðina. Hlakka til að hitta systur mína þar, en síðast hittumst við Vala systir einmitt síðast erlendis var það á Stansted, þegar hún var á leið heim úr skóla á Englandi og ég heim frá Berlín...

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Tölur
Já það er endalaust hægt að velta tölum fyrir sér, í dag eru til dæmis 54 dagar þangað til ég flyt til Spánar, 2 dagar í Verslunarmannahelgi, 8 dagar í ráðstefnu FSS, 10 dagar í GeyPræd, mánuður í Köben, 1 dagar í endurgreiðslu frá skattinum og 2 dagar síðan ég heyrði nokkuð í Arabanum mínum, 6 dagar síðan ég hözzlaði hann á Laugaveginum á hábjörtum degi í hádeginu...

Var í helgarfríi um helgina, hún var góð, fór í Borgarfjörð til þess að fagna afmæli Jón Þórs, deidi tjaldi með Héðni en Bentína vildi ekki sofa með okkur í tjaldi... Hafði fyrir helgina talað mikla þýsku og sænsku, en það eru einu tvö tungumálin sem Arabinn minn talar, hann hefur hinsvegar kennt mér mikið í arabísku, það hefur verið skemmtilegur.

Loksins er maður að verða almennilegur heimsborgari. Þetta er allt að koma.

Matta og Hlédís komu til mín í vinnuna áðan, Hlédís hafði verið að koma úr strekkingu hjá tannlækninum sínum á spöngunum, Hlédís og tannlæknirinn rifust og öskruðu hvort á annað. Hún hvatti hann endalaust til þess að strekkja meira og hann strekkti og strekkti, kallaði hana íllum nöfnum þangað til vírinn slitnaði. Ég veit hvað þið eruð að hugsa, ég hugsaði það líka.

Aftur í Borgarfjörðinn, nánar tiltekið í Þverárhlíð í Þverárhlíðarhreppi, þar sem áðurnefnt afmæli Jón Þórs var. Þar kynntist ég Hækjunni en því miður ekki Hommanum. Hækjan bað mig um að skipta um útlit á síðunni minni eftir mikla og djúpar umræður um töluna ####íu og níu (69). Kannski maður upplýsi það hér með að nýtt útlit er í vændum...

Svo lofa ég að blogga ekki meira um tölur, í bili, en næst ætla ég að blogga um sokka, ástarsokka.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

69
Já 69 er tala dagsins og trúið mér, það tengist sko ekki kynlífi. Nei í dag eru nákvæmlega 69 dagar þangað til ég kveð þennan heim og í fyrsta skipti er mér að líka það sem talan stendur fyrir. Hún stendur fyrir þann tíma þangað til ég fer af þessu landi og fer í það næsta, tími minn hérna er að verða búinn. 69 stendur líka fyrir fiskamerkið í stjörnuhringnum og svo hina margfrægu kynlífsstellingu sem dregur nafn sitt af þessum tölustöfum.
 
Ég og fiskar höfum aldrei náð langt saman enda eru fiskar mjög óskipulagðar tilfinningar sem er erfitt fyrir meyju eins og mig. 69 stellingin er bara til vandræða, hvort ertu að gefa eða þiggja? Ég hef meira að segja dottið úr stuði þegar þessari stellingu hefur verið brugðið upp á borðið. Kannski er það einfaldleiki minn eða hið örfáa karlega í mér, ég get hreinlega ekki gert bæði á sama tíma, þegið og gefið. Vil njóta þess frekar í botn sem fram fer. Svona svipað að borða köku og steik á sama tíma, bæði er jú næring en betra að borða í sitthvoru lagi og þegar það á við.
 
Já, maður verður að hlusta á magann sinn og fylgja hjartanu. Maginn vill ekki köku og kjöt á sama tíma og hjartað segjir: "út vil ek"

mánudagur, júlí 12, 2004

Getur það verið?
Ég er búinn að vera lesa stjörnuspána mína á öllum hugsanlegum heimasíðum í dag. Þetta er mikið verk. Ætli ég sé ekki í smá tilvistarkreppu, hvert stefni og ég og hvernig nýti ég mér áhugamálin mín til þess að uppfylla draumana.

Áhugavert hvernig Spámaðurinn spáir sumrinu mínu sem þið getið séð með því að smella hér.

laugardagur, júlí 10, 2004

149
Ég tók svona IQ-test á netinu, fékk 149 stig. Hef ekki hugmynd um hvort að það sé mikið eða lítið, mér var boðið að borga 29 dollara fyrir að vita hvað þessi tala segði mér og hvar hæfileikar mínir lægu. Glætan! Hver vill láta segja sér hvert maður eigi að stafna og það af einhverri tölvu! Þið platið mig ekki.

Samt fór ég að pæla að kannski er 149 ekkert svo gott og einmitt mjög lág tala. Hvað ef það er kannski best að fá 1000 stig og ég er bara svo heimskur og með lága IQtölu að ég vil ekki kaupa þessa skýrslu um mig.

En ég kemst allavega ekki að því í bráð.

sunnudagur, júlí 04, 2004

Að sama tíma að ári...
Fyrir nákvæmlega ári síðan, upp á dag, hitti ég yndislegan strák. Ég var staddur í spænskahluta Baskalands. Strákurinn er baski, geðugur og skemmtilegur.

Ég sit inni í loftlausu og heitu fundarherbergi hjá Samtökum homma og lesbía í Baskalandi, klukkan er hálf átta að kvöldi til og búið að funda allan daginn um allt og ekkert. Þá labbar hann inn, þessi sæti og broshýri strákur. Ég hafði séð hann útundan mér kvöldið áður og hann mig - augljóslega. Hann sest niður við borðið hjá okkur og ég nenni þessum fundi ekki lengur. Mér finnst fundurinn skyndilega vera smábarnalegur og við karpa um hallærisleg atriði. Fundurinn var um að búa til samskiptareglur og dagskrá fyrir fund evrópskra stúdenta 6 vikum síðar á sama stað. Löndin sem tæku þátt væru Ísland, Danmörk, Sviss, Ungverjaland og Baskar.

Mér gat ekki verið meira sama hvort að morgunmatur yrði klukkan níu eða hálf tíu, hvort að bannað yrði að reykja alveg á svæðinu eða bara á afmörkuðu svæði, hvort að fólk þyrfti að borga 20 evrur fyrir sjúkratryggingu eða það skorið af sameiginlegum ferðasjóð allra.

Kvöldin þróaðist skemmtilega, við fórum út að borða, ég sat við annan enda langborðsins og sæti strákurinn sat á hinum endanum. Við höfum líklega verið með um 25 homma á milli okkar, en ég hvorki heyrði né talaði við þá sem sátu mér á hægri eða vinstri hönd. Ég held meira að segja að ég hafi ekkert borðað svo mikið af matnum, allavega man ég mjög lítið eftir því hvað við borðuðum eða hvernig það smakkaðist.

Um leið og maturinn er búinn stökkvum við báðir úr sætunum okkar og göngum út, við höfðum aldrei sagt orð við hvorn annan en þarna göngum við út og löbbum af stað niður í bæinn á undan öllum hinum. Skyndilega heyrum við strákana koma í loftköstum á eftir okkur, þeir voru ekkert sáttir við að við höfðum stungið svona af. Strákurinn minn fer að rífast við einhverja Spánverja/Baska og Danirnir (vinir mínir) fara að lýsa því yfir að ég sé nú meiri aulinn að stinga af og bla bla bla.

Eftir þetta er eins og allur hópurinn reyni að koma í veg fyrir að við fáum að tala saman eða vera nálægt hvorum öðrum. Tilfinningin er eins og það sé samsæri um að gera kvöldið eins leiðinlegt fyrir okkur tvo og hægt væri. Ég held allavega að enginn hafi náð að slaka á eða skemmta sér, því það voru allir svo uppteknir við að gera eitthvað annað.

Hvert einasta tækifæri var nýtt til þess að tala saman, snertast eða dansa. Það var eins og við drægjumst svo mikið að hvorum öðrum. Hef aldrei upplifað jafn mikla svörun við neinu eins og þarna. Mikið var þetta gott. Kannski hafa aðstæðurnar gert þetta betra, að allir hafi verið að halda aftur af okkur, því það fór líklega ekki framhjá neinum hvað okkur langaði.

Allt í einu var ákveðið að skipta um skemmtistað og fyrir einstaka tilviljun stóðum við einir í sitthvoru horni skemmtistaðarins á meðan allir aðrir voru að ganga út um dyrnar. Mig minnir að ég hafi bara lagt frá mér jakkann minn og glasið, gæti samt vel verið að ég hafi haldið á því. Við hittumst á miðju dansgólfinu og eftir þægilegt líkamstal og daður vorum við byrjaðir að kyssast. Ég hef ekki hugmynd um hvað við vorum lengi að kyssast, missti líklega eitthvað tímaskyn, en þegar við hættum eru allir 25 hommarnir aftur komnir á skemmtistaðinn og standa í hóp, starandi á okkur. Þegar við höfðum hætt að kyssast þá var eins og þeir gengu allir samstíga út af skemmtistaðnum, við höfðum unnið og þeir tapað. Við hittum þá ekkert meira það sem eftir var kvölds, því auðvitað fórum við í göngutúr um fallegustu borg í Evrópu og enduðum á ströndinni.

Eftir heilt ár eru tilfinningarnar jafn sterkar og við getum ennþá talað saman nokkrum sinnum í viku. Ég hef ekki enn fengið nóg af aulahúmornum hans, eða hvað þá hæfileikanum hans til þess að snúa út úr öllu. Dagurinn í dag er búinn að vera einstaklega tilfinningaríkur því auðvitað hugsar maður til baka þegar við hittumst fyrst. Skilaboðin hafi flogið á milli Madridar og Reykjavíkur í dag, en hann er í fríi núna í Madrid í tilefni þess að prófin hans eru búin.

Þegar ég loka augunum þá finn ég lyktina af húðinni hans og þegar fingurgómarnir hans léku við líkamann minn. Þegar ég opna augun þá finnst mér eins og ég horfi beint inn í brúnu fallegu augun hans, það er hægt að eyða löngum tíma í að horfa í þau. Áður en ég veit af finnst mér eins og mjúku varirnar hans séu farnar að leika sér að líkamanum mínum sem enda svo á því að kyssa mig um leið og fingurgómarnir okkar reyna að límast við hvern annan. Þessu lýkur svo öllu þegar ég heyri hláturinn hans og þá átta ég mig á því að ég á hann bara í minningunni en ekki í alvörunni, og ég þoli það ekki.

Stundum væri gott ef að raunveruleikinn og minningarnar væru á meiri samleið, þá væri maður heilsteyptari persónu og lífið í meira flútti. Á þessu þarf ég að takast á sem allra allra fyrst.