Meira af FinnlandiGaman að sjá þig hér og gaman fyrir þig að sjá þessa færslu. Akkúrat þessa stundina átti ég að vera að undirbúa aðflug til Parísar, en vegna þess að flugið okkar var niðurfellt þá fengum við mjög óvænt frí. Í dag er vika síðan við komum í þessar vinnubúðir og í það minnsta jafn margir dagar eru eftir, líklega teygjist þetta þó eitthvað áfram en í síðasta lagi verður maður kominn heim eftir 10 daga.
Í Finnlandi er búið að vera gott veður. Ég hef vaknað flesta morgna milli eitt og fjögur á nóttunni til þess að fara að vinna. Styðsti dagurinn hingað til var þegar ég var kominn upp á hótel klukkan þrjú en flutti þaðan hálftíma síðar á annað hótel.
Í höfuðstað Finnlands fór nefnilega fram leitogaráðstefna ESB og öll hótel uppbókuð. Við þurftum því að hótelsendast á milli hinna ýmsu gististaða á milli þess sem við erum búin að vera vinna. Ég er núna á mínu þriðja hóteli hérna og flyt næst á mánudagsmorgun. Það er líklegt að það verði í síðasta skipti, en alls alls ekki líklegt. Hlutirnir breytast svo hratt hérna hjá okkur.
Við erum hérna á vegum Icelandair til þess að fljúga fyrir finnsk flugfélag í eigu SAS sem heitir
Blue1. Ástæðan er sú að Blue1 var að kaupa sér nýja flugvél en hefur ekki fengið hana afhenta ennþá, þannig að til þess að geta flogið öll flugin sín sem þeir voru búnir að selja á þurftu þeir að leigja flugvél með áhöfnum. Við erum bæði að fljúga innanlands og löng Evrópuflug. Við erum fjórar áhafnir sem skiptumst á að fljúga vélinni sem við tókum með okkur hingað fyrir viku en við erum voðalega lítið á sama hótelinu.
Í gær var okkar fyrsti frídagur og mikið var ljúft að sofna, vitandi þess að svefninn myndi ekki vera stöðvaður eða verða truflaður af símhringingu, vekjaraklukku eða upplýsingum um breytingu á vinnutíma. Ég náði mínum fyrsta almennilega nætursvefni frá því ég fór að heimann.
Við erum búin að vera í viku, en okkur líður eins og það sé kominn nóvember og okkur þykir fáranlegt að hér sé ekkert byrjað að skreyta fyrir jólin. En við erum bráðum að verða hálfnuð semsagt... undirmeðvitundin á þá eftir að halda að það verði komið nýtt ár.
Þó að vinnan, tímamismunur og óþægileg, hávær hótelherbergi séu búin að vera erfið, er búið að vera erfiðast að skipuleggja matartímanna sína. Við erum ekki alltaf búin að vera á hótelum í miðbænum, heldur meira á sveitahótelum þar sem bara er hægt að kaupa sér mat á ákveðnum tímum og útidyrahurðin er lokuð á öðrum tímum. Það hentar manni illa þegar við förum af stað á nóttunni og komum heim þegar kvöldmat er lokið. Það verður til þess að oft sofnar maður svangur eða vaknar með hungurverki. Þegar matvöruverslun er í 5 kílómetra fjarlægð þá er reynt að skipuleggja innkaupaferðir ofan á allt saman.
En við erum líka búin að vera dugleg að nýta þessi örfáu frí inn á milli til þess að gera hitt og þetta sniðugt. Á hverjum einasta degi hef ég hlaupið 3 til 9 kílómetra sem hefur lokið með því að fara í saunu í að minnsta kosti 2-3 tíma. Ekki er verra ef að saunan er á strönd eða við vatn þannig að þú getur kastað þér út í ískalt vatnið, helst ber og hlaupið svo inn í saununa aftur til þess að ná enn betra þoli í þessum viðjbóðslega, þurra hita. Húðin er orðin svo strekkt að ég held að ekkert okkar þurfi lýtaaðgerðir á þessari öld.
Ég er líka búinn að læra að hlaupastígur heitir kuntupolki. Eitthvað sem hefur allt aðra merkingu í okkar máli en frænda okkar Finna. Finnarnir hafa líka sagt mér að gælunafnið mitt er ansi líkt orðinu sem þeir nota yfir typpi, eiginlega er það hættulega líkt...
En í nótt og síðustu nótt höfum við verið á æðislegu hóteli í bæ sem heitir Fiskars. Hér búa ekki meira en 600 manns, það er ef við teljum alla þá sem búa á bóndabæjunum í kring. Hér þekkja okkur líka allir. Í gærkvöldi settist maðurinn sem á bæinn við borðið hjá okkur þar sem við borðuðum á veitingastaðnum á hótelinu, hann heitir Ingmar Lindberg, ólst upp á Akureyri. Langa langaafi hans var amtmaður á Akureyri á sínum tíma. Lindberg er einn magnaðasti maðurinn sem við höfum hitt hérna í Finnlandi. Hann getur rekið ættir sínar til allra Norðurlandanna utan Færeyja og Grænlands, talar líka öll tungumálin og skilur íslensku. Það var svo magnað að upplifa það að tala við hann, enda kom hann með tvær flöskur af Koskinkorva sem er finnskur vodki með á borðið til okkar. Við vorum bara þrjú sem drukkum flöskurnar með Ingmar. Helvíti góður vodki...
En þegar önnur flaskan var búin þá var hringt til Íslands, til þess að ræða við sendiherra Finna á Íslandi. Það var ansi magnað símtal og ég gat notað tækifærið til þess að þakka sendiherranum fyrir þá aðstoð sem hún veitti mér þegar ég var að gera ritgerð um Schengen samstarfið í vetur. Við ræddum um ýmsilegt og hún þurfti meðal annars að panta sér veitingastað í Reykjavík fyrir einhvern hóp og við pent bendum henni að fara á Sjávarkjallarann til þess að fara út að borða hjá Adda vini mínum. Ég vona að hún hafi skilað kveðjunni til hans frá mér.
Annars er lífið rólegt í Fiskars. Hér var búinn til fyrsti örbylgjuofninn, sama fyrirtæki og Ingmar á í dag, en það er líka sama fyrirtæki og býr til 70 milljón skæra á ári, þessi appelsínuguluskæri sem við könnumst öll við. Daginn eftir að Ingmar hafði drukkið með okkur, þekkti allur bærinn okkur. Við slysuðumst að ætla að kíkja á safnið, þá vorum við spurð hvort við værum ekki Íslendingar og vinir Ingmars? Öööö... Veit ekki, þá var fólkið alveg með það á hreinu að við ættum ekki að taka pening úr veski en hljóta úrvals þjónustu, sem við höfum fengið.
Meira að segja í búðinni er ekkert mál þó að maður hafi gleymt veskinu heima, hún hringdi bara í hótelið og bað þau að setja úttektina mína á herbergisnúmerið mitt. Ég borga bara þegar ég fer. Í kvöld þegar við vorum skyndilega í fríi var kokkurinn á veitingastaðnum hinum megin við götuna ekki lengi að keyra okkur heim til sín til þess að leyfa okkur að velja úr DVD myndasafninu sínu. Þegar við pöntuðum svo pizzu, var hún komin upp á herbergið okkar eftir smá stund, en enga greiðslu vildi drengurinn fá því að hótelið hafði nú þegar greitt fyrir pizzuna.
Í morgun voru líka komin þrjú hjól sem að bæjarbúar lána okkur, því að hér er hvorki hjólaleiga eða videóleiga. Hér er bara lánað. Í gær kynntumst við líka konunni sem á hestana. Hún á þónokkuð marga en hún á líka slána karl fyrir eiginmann. Karlinn talar ekkert en konar talar þó mun meira. Allar setningar hjá henni byrja á sænsku en enda á finnsku. Við áttum okkur því ekkert á því hvert hún er að fara.
Í sjónvarpinu mínu eru þrjár sjónvarpsstöðvar. Ég var að ljúka að horfa á einn þátt um að "Allir litir hafsins væru kaldir" í sænska sjónvarpinu á íslensku með sænskum texta. En núna er ég að horfa á finnska SkjáEinn sem býður ekki á verra sjónvarspsefni en mynd með Jacki Chan. Ég er kominn á sloppinn núna og mín bíður 85°C heit sauna sem ég ætla að vera í einn og hálfan tíma áður en ég sofna við það að bera á mig body lotion.
Myndin er frá mömmu minni þegar hún fór með bílinn í þvott um daginn. Hún er nefnilega enn með hönd í fatla og kemst ekki yfir öll störfin sín ein.