þriðjudagur, desember 19, 2006

Bless bless
Ég er hættur þessu. Ég nenni ekki blogger. Um leið og ég kvaddi vinkonu mína, samferðamanni, þá kveð ég blogger. Ég hef tekið saman við Morgunblaðið á netinu. Mun hér eftir blogga á blog.is. Heimsborgarinn býr nú á heimsborgari.blog.is, ég vona að þið fylgið mér öll þangað.

föstudagur, desember 08, 2006

Samferðamaður er látinn
Ég flaug með konu til Lundúna í ágúst. Þetta var 82 ára barnakólakennari frá San Francisco. Hún var á ferðalagi með dóttur sinni, þær höfðu verið tvær vikur á Íslandi en framundan væri London, Madrid og Marakko. Hún var með leðurderhúfu á höfði og í þröngum leðurbuxum. Hún var í rauðri peysu sem var svo fínleg að ég gæti best hafa trúað því að blindar nunnur hafi ofið og búið til handa henni peysuna. Mikið var þessi kona skemmtileg. Við ræddum um lífið og tilveruna, heillengi. Hún sagði mér frá lífinu sínu og hún fékk að vita um mitt. Við ræddum um ástina, framtíðina, stjórnmál, náttúruna, homma, lesbíur og peninga. Hún hafði verið særð mikið í gegnum ævina og varaði mig því að láta særa mig eins og hún hafði verið særð. Hún talaði við mig eins og hún þekkti mig, eins og hún vissi hvað stæði til hjá mér næstu daga. Svo sagði hún mig svo fallegan og aðlaðandi, hefði það fallegasta bros sem hún hefði séð. Ég trúði henni líka, í fyrsta skipti trúði ég að þessar lýsingar gætu átt við mig.

Í gærkvöldi rétt áður en ég sofnaði kom hún til mín þessi kona, svo fylgdi hún mér í draumalandið. Hún sagði mér frá restinni af ferðinni sinni. Ég heyrði hvernig hún talaði, hún var enn með þurrar varir og reyndi að bleyta þær reglulega með mikið þurrari tungunni sinni. Hún sagði mér örlítið frá framtíðinni minni, hvað ég ætti að leggja áherslu á og hvað ég ætti að forðast. Svo kvaddi hún mig og hlakkaði til að sjá mig seinna. Núna þegar ég skrifa þetta finn ég lyktina af henni.

Þegar ég vaknaði í morgun beið mín tölvupóstur frá dóttur hennar. Konan lést fyrir þremur vikum og þegar hún var að fara í gegnum dót móður sinnar fann hún miðann með nafninu mínu, heimilisfangi og netfangi. Á miðanum voru skilaboð til mín.

fimmtudagur, desember 07, 2006


Í hríðarbyl
Mánudagsmorgninum eyddi ég í hríðarbyl í 597 metra hæð yfir sjávarmáli, nánar tiltekið sat undir steini í Esjuhlíð og klukkan var ekki orðin ellefu. Við vorum þrjár flugfreyjurnar sem vorum lagðar af stað rétt yfir tíu en vaknaðar um áttaleytið, umferðin í borginni er sein nefnilega á mánudagsmorgni, við komumst að því. Ég, átta barna ofurfreyju móðir og öryggiskennari flugfreyja Icelandair. Magi, rass og læri. Þetta var hressandi þó að hægri vangi hafi verið hélaður þegar upp kom. Ég var ekki mjög vel búinn, í bol, flíspeysu, íþróttabuxum, sléttum skóm og þunnum sokkum. Ég náði að renna mér niður á rassinum, hlaupa yfir mýri, detta á trýnið þegar ég renndi mér niður skriðu á hælnum og bjarga andlitinu með því að steypa mér í kollhnís í loftinu og lenda á rassinum í mýrinni sem skautaði mér svo fram af klettabrún.

Ég er semsagt marinn og barinn. En mér líður vel. Ég fór svo auðvitað seinna í ræktina um daginn og sit á púða í dag, því harðsperrurnar í rasskinnunum eru að gera út af við mig. Ég fór til læknis í morgun og stóð á biðstofunni, því mér sýndist stólarnir ekki vera rassavænir.

Annars er ég líklega að upplifa mínu minnstu jólastemningu, ég vil helst missa af þessum jólum einhvern veginn. Finnst ekki taka því að leggja mig fram við að undirbúa ef ég missi svo af öllu. Nenni ekki að kaupa jólagjafir og nenni ekki að pakka þeim inn. Ég skil Skrögg í fyrsta skipti á ævinni.

miðvikudagur, nóvember 29, 2006


Rautt en ekki bleikt
Áður en ég gleymi því vil ég benda á að Sigga systir bloggar eins og vindurinn, en hefur samkvæmt nýjustu upplýsingum ekki enn ælt.

Ég eignaðist minn fyrsta framtíðarkúru- og kelerífélaga fyrir rúmum mánuði. Hann skipar sæti kærasta míns þangað til það sæti hefur verið skipað öðrum. Hann er rauður og sér fyrir öllum mínum þörfum. Hann er líka ástæðan fyrir því af hverju skipt var um á rúminu í gær, skúrað var heima hjá mér í dag, kaflinn kláraður í bókinni og ég er farinn að ganga í gömlum gallabuxum eftir að hafa tapað nærri tíu kílóum í WorldClass. Og allt þetta gert til þess að styðja við baráttuna við alnæmi í Afríku með Bono.

Fyrirtækið mitt tók upp á því í október að láta starfsfólk mæta með bleika borða til að minna á krabbamein. Ég vil að við minnum líka á alnæmi. Ég ætla að redda mér rauðum borða fyrir föstudaginn og mæta þannig í vinnuna. Minni svo í lokin á rauða nebba Unicef, ef þú vilt ekki ganga með rautt nef, skaltu þá bara skrá þig sem heimsforeldri.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006


Pólsk jól
Það er voðalega gaman þegar Nettó auglýsir að fólk geti fengið að upplifa pólsk jól í verslunum sínum núna fyrir jólin, þegar ég sá fyrstu auglýsinguna frá Nettó velti ég því fyrir mér að það væri áhugavert að sjá hvernig pólskur jólamatur væri. En ég var aldrei svo áhugasamur að ég myndi bjóðast til þess að vera þar í nærri sjö daga yfir hátíðarnar.

En þannig er nú í pottinn búið. Vinnuskráin mín fyrir desember er komin. Ég fer til Egilstaða kvöldið fyrir Þorláksmessu og mun svo á skötudaginn sjálfan fljúga með fulla vél af Pólverjum sem vinna á Kárahnjúkum til sinna heima yfir hátíðarnar. Skjaldamerki Katowice, er að sjá hér til hliðar, staður sem státar sig af því að vera "the most industrial place in Europe", skjaldarmerkið gefur það kannski ágætlega til kynna. Til þess að fara strax í Pollýönnu-leik þá er hægt að gleðjast yfir því að rúmlega 1000 pólskar fjölskyldur geta haldið jólin saman og að ég verð staddur á sama stað með snilldarfólki í áhöfn.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Stefnumót?
Upphaflega ætlaði ég að skrifa þessa færslu eins og hún væri um vin minn, en ég ætla bara að skrifa hana eins og hún kemur af kúnni, eins og hún kemur af mér. Ég fór í skemmtilegt átak að bjóða strákum á deit, þetta átak er búið að standa í svolítið tíma og ágætum hóp hefur verið boðið á deit. Ég er mjög snöggur að fara yfir árangur þessara stefnumóta, ef stefnumót mætti kalla. Tvö þeirra hafa orðið að veruleika. Aðrir hafa afþakkað en boðið kynlíf eða rekkjufélagastöðu í staðinn og trúið mér, það var erfitt að hafna. Ef ég væri nefnilega kona, þá væri meyjarhaftið vaxið upp á nýtt og mér ætti frekar að kvíða fyrir næsta skipti en að hlakka til.

Annars var ég í Baltimore um helgina, fínn staður, eitt stórt bílastæði og engar gangbrautir. Það má því þekkja Íslendingana í borginni, því við erum eina fólkið sem gengur meðfram bílunum. Það er erfitt að komast yfir sex akreinabraut þegar engin götuljós eru fyrir gangandi umferð og fólki leyfist að fara yfir og beygja til hægri á rauðu ljósi. Það bara flækir málin fyrir gangandi umferð. En þetta stutta stopp mitt í Baltimore var ólíkt öðrum, því við fengum að verða vitni að skotbardaga milli tveggja unglingahópa og eins lífvarða forsta Bandaríkjanna. Fjögur ungmenni voru flutt á sjúkrahús, líklega dó enginn en það liggur auðvitað ljóst fyrir að fólk er slasað eftir skotárás.

Myndin sem fylgir færslunni er af flugvellinum í Kerry, Írlandi. Fínn staður, þar er ekki töluð enska heldur flæmska. Stafrófið er öðruvísi en okkar. Vissu þið þetta? Öxlin er af honum Gussa sem ég var með í Helsinkiverkefninu í september og bauð mér heim á síðasta fimmtudagskvöldi.

Annars auglýsi ég eftir því að einhver bjóði mér á nýju James Bond myndina. Ég nefnilega fer ekki í bíó nema einhver bjóði mér, þetta er ný stefna.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006


Mánaðarmót
Uppáhaldsdagurinn minn er ekki föstudagur eða laugardagur. Ef ég ætti að velja einn vikudag væri það fimmtudagur. Einhvern veginn er létt yfir fólki, samt er fólk pínu einbeitt að vinnu og afköstum en er samt ekki jafn stíft og aðra daga. Það eru líka margir sem fara til útlanda á fimmtudögum, eins og tilfellið er með Möttu og Hlédísi sem núna eru leið til Ásdísar í London.

En uppáhaldstíminn minn í öllum mánuðinum eru mánaðarmótin. Þau eru lang lang best. Eru ekki fleiri sem finnst æðislegt að borga reikningana sína, leggja fyrir í sparnaðinn sinn og horfa á allt flæðið á peningnum sínum færast á milli reikninga í Einkabankanum? Það að láta reikningana hverfa af forsíðu Einkabankans með því að greiða þá. Ég vildi hreinlega að mánaðarmót væru oftar, svo maður gæti fengið að borga reikninga oftar.

Vinir mínir samsama mér oft við Bree van de Kamp og Monicu Geller. Að þessu leyti er það alveg rétt. En eitt kvöld í vikunni var ég að vinna ritgerð langt fram á nótt og var endalaust að blaða í bókum. Mér finnst ekkert leiðinlegt að skrifa ritgerð, alveg eins og mér finnst alls ekki leiðinlegt að vaska upp eða þvo þvott. En Ási spurði mig mjög gagnrýnnar spurningar um daginn, sem ég held að eigi eftir að hafa áhrif á allt líf mitt hér eftir: Ef að þessi ritgerð hefði verið uppvask, hefðiru látið verkefnið dragast svona á langinn?

Svarið er auðvitað nei, því þeir sem þekkja mig vita að ég sofna ekki í svefnherberginu mínu ef það er óhreint leirtau í vaskinum. Ég hef meira að segja þurft að vaska upp í fullum einkennisklæðnaði heima hjá mér rétt áður en ég fer í vinnuna, til þess að vera viss um að sofna á hótelherbergi á vesturströnd Bandaríkjanna seinna um nóttina, eftir 12 tíma vinnuvakt.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006


Af samskiptum
Sum samskipti ganga verr en önnur, önnur ganga framar vonum. Til dæmis á ég ekki í góðu sambandi við blogger, því að það er sama hvaða færslu ég hef reynt að færa hér inn undanfarið, ekkert ætlar að komast til skila.

Ég hef haft milligöngu með að kynna tvo aðila sem vilja fara í viðskipti saman. Annar aðilinn er strákur sem ég kannast lítila við en hitt eru alþjóðleg félagasamtök þar sem ég þekki stjórn ágætlega. Drengurinn sendi tölvupóst en hafði daginn ekki fengið svar og hringdi í mig áhyggjufullur yfir því að stjórn félagsins litist illa á málið. Daginn eftir hringir hann aftur, óðamála vegna svita og stress. Þegar hann hringdi svo í áttunda skiptið, þá nennti ég ekki að svara. Stuttu seinna fékk ég mjög svo dónaleg skilaboð á símann sem spurðu mig hvers vegna ég ætti farsíma ef ég svaraði aldrei í símann? Ég svaraði 12 tímum seinna, klukkan hálf sex að morgni og sagði að mér hefðu þótt skilaboðin frekjuleg og móðgandi. Hann svaraði því kvöldinu seinna með öðrum skilaboðum að meiningin hafi ekki verið sú að vera dónalegur en hann bað mig um að senda sér aldrei skilaboð eða hringja aftur á nóttunni, því ég hafi vakið hann og hann hafi átt erfitt með að sofna aftur.

Því stend ég frammi fyrir nokkrum valmöguleikum og vildi gjarnan heyra hvað ykkur þætti um málið? Á ég að svara honum og biðja hann þá um að hafa aldrei samband við mig aftur, þar sem ég vinn vaktavinnu (næturvinnu sem dæmi) eins og slökkviliðsmenn, lögregla, þjónar og aðrir. Hann gæti því aldrei vitað hvort ég væri á dag, kvöld eða helgarvakt og myndi þar af leiðandi ekki vita hvort ég væri sofandi að nóttu, morgni, kvöld eða degi.

Ætti ég kannski bara að segja honum að stinga símanum sínum þar sem sólin aldrei skín og hafa slökkt á símanum eða hringingu hans þegar hann vill ekki vakna upp við hringingar.

Mér finnst það allavega merkilegt í þessari tæknuvæddu tímum að fólk vilji fá fullkomna síma, með útvarpi, myndavél, dagbók og öllu. En er svo ekki tilbúið að slökkva á símanum þegar það ætlar að sofa eða vill ekki verða truflað með hringingum.

Arg, ég er pirraður.

mánudagur, október 16, 2006

Mánudagur
Dagurinn í dag var góður. Ég vann í alla nótt og að loknu löngu en ánægjulegu (fámennu) flugi vakti ég Héðinn og við vorum fyrstu gestir Kaffitárs þennan morguninn. Svo fór ég heim og var vakinn klukkan fimm síðdegis. Hef verið í tölvuleik síðan þá að drepa heilafrumur en bjargaði þeim aftur með því að borða grjónagraut með rjóma og slátur með sinnepi.

Kvöldstund með Möttu og Héðni er framundan sem lofar góðu.
Mamma sendi mér brandara í dag:

Maður nokkur var staddur í Hagkaupum að kaupa sér kjúkling þegar gullfalleg kona, sem stóð við kælinn, veifaði í hann og brosti til hans. Hann varð hálfvandræðalegur, en gekk til hennar og spurði hvort þau þekktust. "Já, ég er ekki frá því að þú sért pabbi eins stráksins míns" svaraði hún.

Varð nú okkar maður heldur betur vandræðalegur, hrökk allnokkuð við og stamaði klúðurslega út úr sér "ha... ert þú stripparinn á Bóhem sem ég dúndraði í steggjapartíinu mínu fyrir framan alla vini mína og spreyjaði með þeyttum rjóma meðan þú tróðst agúrku upp í rassgatið á mér... ó mæ god, ég þekkti þig ekki!"

Konan svaraði svipbrigðalaust: "Nei, ég er umsjónarkennari sonar þíns!"


Ég vil biðja allt barnafólk um að koma vel fram við kennara og flugfreyjur.

föstudagur, október 06, 2006


Myndavélin elskar mig ekki
Sumar stundir eru góðar, aðrar ekki. Sumar stundir eru góðar til þess að láta taka mynd af sér, aðrar alls ekki. Ef einhver vill koma með tillögu að því hvað í fjandakorninu ég var að gera þegar þessi mynd var tekinn, þá má hinn sami koma með pena ábendingu, án þess að gera lítið úr mér.
Ég er umkringdur stjórnmálafræðinemum á írskum skemmtistað í Brussel í mars síðastliðnum. Stór hluti hópsins ætlar að taka upp þráðinn á ný og er að undirbúa ferð til Washington og New York í upphafi næsta árs. Stefnan er sett á að heimsækja Bandaríska þingið, Alþjóðabankann, Sameinuðu þjóðirnar, stóra bandaríska sjónvarpsstöð, sendiráð Íslands í Washington, sendinefnd Íslands í New York og vonandi einhverjar góðar bandarískar stofnanir, eins og FBI eða slíkt.

Vonandi verða þær betri myndirnar sem verða teknar af mér í þeirri ferð. Fylgist spennt með!

þriðjudagur, október 03, 2006

Vandræði
Blogger er að biðja um vandræði. Ég hef reynt að skrifa inn færslur hingað núna í rúma viku en blessaður gagnagrunnurinn vill ekkert með mig hafa. Ef þið lesið þessar línur, láti mig þá vita. Ég verð glaður og reyni að skrifa allt aftur sem ég hef hér eytt miklum tíma í að tjá mig.

þriðjudagur, september 12, 2006





Finnar eru snillingar
Fólk hefur stórkoslega rangsýn á flugfreyjustarfið. Vinir manns telja mann hafa lagt land undið fót, séu nokkurs konar Kristófer Kólumbusar nútímans eða Neil Armsstrongs í áþreifanlegri fjarlægð. Sannleikurinn er sá að starfið felst aðallega í sprengjuleit, þrífa einkennisfatnað, rútuferðir, bið, óvissu og þreyttum áhafnamat - aðrir hlutar starfsins fara nokkuð fram á leiksviði farþegarýmisins sem flestir hafa mætt í.

Það er stórmisskilið að maður hafi lagt Osló undir sig í gær og Barcelóna á morgun, París á hinn, Rovaniemi um helgina og svo Budapest beint eftir frídaginn. Það vill heldur enginn ferðast þannig. Við sjáum í mesta lagi flugvellina og flugvallarstarfsfólkið. Þessi störf eru láglaunuð og fólkið er eftir því. Gul endurskinsvesti fær fólk til þess að líta nokkuð svipað út nefnilega.

Flugfreyjustarfið er gefandi, krefjandi og skemmtilegt. Það er það einmitt út af farþegunum, að gera þeim það kleift og taka þátt í því að koma þeim af einum stað til þess næsta. Ástæður ferðalaganna geta verið svo misjafnar og því er samsetning farþega jafn fjölbreytt og lífið sjálft. Á veitingastað eða íþróttaleikvangi gætir þú aldrei séð jafn flókna og fjölbreytta samsetningu af fólki. Á meðan þú ætlar í frí, er maðurinn við hliðina á þér að fara í jarðarför, flugfreyjan er bara að gera ykkur þetta mögulegt.

Yndislegt.

Ég er núna búinn að vera með sama fólkinu í bráðum 12 daga. Með þessu fólki hef ég verið með þegar ég hef augun opin, hvort sem ég borða, vinn, tala, græt, les, geng, hleyp eða skrifa. Ef ég þarf að ræða við einhvern ræði ég við þau, ef ég er svangur leita ég til þeirra, ef ég er einmana fer ég til þau og ef ég næ ekki að raka hárin af bakinu sjálfur, fer ég til þeirra. Það er líklega vika eftir og þetta er æðislegt fólk.

Við erum búin að vera mikið í saunu. Ég hef líklega sagt ykkur það áður. Þrír tímar í saunu er ekkert óalgengt hjá okkur. Það er líka ekkert annað gert þann daginn. Húðin á mér er orðin svo strekkt og fín að þegar ég brosi, kreistast fram þurrir fílapenslar þannig að einn þvottapoki má fara beint í ruslið eftir stroku yfir andlitið. Hlandið er líka glært. Hafið þið pissað glæru hlandi í marga daga í röð? Mér finnst ég svo hreinn eitthvað. Það liggur við að ég sturti ekki niður þegar ég hef lokið mér af. Samt fékk ég mér McDonalds í gær.

Á þessu hóteli sem við erum í núna er sauna, eins og á öllum öðrum hótelum í Finnlandi. En við erum skyndilega komin í borgina, hér eru götur malbikaðar, hér er ekki skógur í kring og við heyrum hvorki í íkornum, beljum eða þurfum ekki að vera hrædd um að vera á ein á ferli vegna hugsanlegra skógarbjarna. Hér þarf bara að passa sig på rampen (sem er einhvers konar strætó).

En aftur að sauninni. Í sveitinni vorum við vön að hlaupa út úr saununni og henda okkur í kaldan sjóinn, vatnið, lækinn og nærrum því drullupollinn í veginum. En hér er ekkert slíkt.

Ég hélt því að hann væri að meina það, samstarfsmaðurinn minn, þegar hann stakk upp á því að við myndum hlaupa út af hótelinu, taka lyftuna, í gegnum mótttökuna, yfir götuna og lestarteinana, hlaupa á harðaspretti yfir hraðbrautina sem kemur næst og stökkva yfir grindverkið eins og Elgar til þess að kæla okkur í köldum og söltuðum sjónum. Þörfin mín fyrir að kæla mig eftir 90°C heitu saununa í 20 mín var svo mikil að mér fannst hugmyndin ekki vitlaus.

Þó að hugmyndin væri vitlaus er meðfylgjandi mynd ekki svo vitlaus. Vatnið gáraði bara örlítið þegar ég stökk út í það eftir heita heita saununa... Ég sakna sveitarinnar og þá meina ég bæði Fiskars og Þjórsárdalsins.

sunnudagur, september 10, 2006




Hann á afmæli í dag
Það var í Landmannalaugum í sumar sem þessi mynd var tekin. Á góðum degi. Af tilviljun sá ég hrossið mitt þar á sama tíma. Merin var í útleigu hjá manni í sveitinni sem að gerir út hestaferðir fyrir útlenda ferðamenn. Það var svo í síðasta mánuði sem ég lagði heilan Spán undir mig eftir þriggja daga vinnutörn til San Francisco, átta tíma stoppi heima hjá mér áður en ég lagði af stað til Baskalands á Spáni. Mæli ekki með því að fólk pakki niður eftir að vera jafna sig eftir átta tíma mismun og tíu tíma vinnulotu. Það nefnilega verður til þess að þú gleymir gleraugunum þínum, auka-linsum, linsuboxi og linsuvökva. Þegar þú ert svo kominn í einhvern bæ sem að búa í einhver örfá þúsund þar sem allt er lokað í ágúst vegna sumarleyfa (nema verslunin og bankinn) þá er erfitt að fá linsur. Þess vegna er gott að gullfalleg móðir skuli vera sú smartasta í bænum og geti með einum fingrasmelli fengið manninn sem á linsu og gleraugnabúðina til þess að hitta okkur í rauðvínsglasi sem lýkur með því að ég fái linsur í mínum styrkleika ásamt linsuvökva og boxi.

Svo er veröldin svo æðisleg að núna sit ég í Helsinki með þessar nákvæmlegu sömu linsur í augunum á mér og skrifa blogg sem verður lesið út um allt.

En vegna þess að sá sem þú ætlar að heimsækja vinnur í bankanum (sem var opinn í ágúst eins og verslunin) þá verður þú að eyða deginum með mömmunni, en hún talar enga ensku, solomente Castellano! Það verður til þess að þú verður bæði að taka til leikhæfileika þína og hrista vel upp í spænskunni. Þýska eða norðurlandamál hjálpar ekkert, þá meina ég ekkert. Tvö ensk orð kunni konan, það lærði ég á átjánda klukkutímanum sem við eyddum saman. Open & closed. En hún ruglaði hvort var hvað.

Til hamingju með öll afmæli!

föstudagur, september 08, 2006


Meira af Finnlandi
Gaman að sjá þig hér og gaman fyrir þig að sjá þessa færslu. Akkúrat þessa stundina átti ég að vera að undirbúa aðflug til Parísar, en vegna þess að flugið okkar var niðurfellt þá fengum við mjög óvænt frí. Í dag er vika síðan við komum í þessar vinnubúðir og í það minnsta jafn margir dagar eru eftir, líklega teygjist þetta þó eitthvað áfram en í síðasta lagi verður maður kominn heim eftir 10 daga.

Í Finnlandi er búið að vera gott veður. Ég hef vaknað flesta morgna milli eitt og fjögur á nóttunni til þess að fara að vinna. Styðsti dagurinn hingað til var þegar ég var kominn upp á hótel klukkan þrjú en flutti þaðan hálftíma síðar á annað hótel.

Í höfuðstað Finnlands fór nefnilega fram leitogaráðstefna ESB og öll hótel uppbókuð. Við þurftum því að hótelsendast á milli hinna ýmsu gististaða á milli þess sem við erum búin að vera vinna. Ég er núna á mínu þriðja hóteli hérna og flyt næst á mánudagsmorgun. Það er líklegt að það verði í síðasta skipti, en alls alls ekki líklegt. Hlutirnir breytast svo hratt hérna hjá okkur.

Við erum hérna á vegum Icelandair til þess að fljúga fyrir finnsk flugfélag í eigu SAS sem heitir Blue1. Ástæðan er sú að Blue1 var að kaupa sér nýja flugvél en hefur ekki fengið hana afhenta ennþá, þannig að til þess að geta flogið öll flugin sín sem þeir voru búnir að selja á þurftu þeir að leigja flugvél með áhöfnum. Við erum bæði að fljúga innanlands og löng Evrópuflug. Við erum fjórar áhafnir sem skiptumst á að fljúga vélinni sem við tókum með okkur hingað fyrir viku en við erum voðalega lítið á sama hótelinu.

Í gær var okkar fyrsti frídagur og mikið var ljúft að sofna, vitandi þess að svefninn myndi ekki vera stöðvaður eða verða truflaður af símhringingu, vekjaraklukku eða upplýsingum um breytingu á vinnutíma. Ég náði mínum fyrsta almennilega nætursvefni frá því ég fór að heimann.

Við erum búin að vera í viku, en okkur líður eins og það sé kominn nóvember og okkur þykir fáranlegt að hér sé ekkert byrjað að skreyta fyrir jólin. En við erum bráðum að verða hálfnuð semsagt... undirmeðvitundin á þá eftir að halda að það verði komið nýtt ár.

Þó að vinnan, tímamismunur og óþægileg, hávær hótelherbergi séu búin að vera erfið, er búið að vera erfiðast að skipuleggja matartímanna sína. Við erum ekki alltaf búin að vera á hótelum í miðbænum, heldur meira á sveitahótelum þar sem bara er hægt að kaupa sér mat á ákveðnum tímum og útidyrahurðin er lokuð á öðrum tímum. Það hentar manni illa þegar við förum af stað á nóttunni og komum heim þegar kvöldmat er lokið. Það verður til þess að oft sofnar maður svangur eða vaknar með hungurverki. Þegar matvöruverslun er í 5 kílómetra fjarlægð þá er reynt að skipuleggja innkaupaferðir ofan á allt saman.

En við erum líka búin að vera dugleg að nýta þessi örfáu frí inn á milli til þess að gera hitt og þetta sniðugt. Á hverjum einasta degi hef ég hlaupið 3 til 9 kílómetra sem hefur lokið með því að fara í saunu í að minnsta kosti 2-3 tíma. Ekki er verra ef að saunan er á strönd eða við vatn þannig að þú getur kastað þér út í ískalt vatnið, helst ber og hlaupið svo inn í saununa aftur til þess að ná enn betra þoli í þessum viðjbóðslega, þurra hita. Húðin er orðin svo strekkt að ég held að ekkert okkar þurfi lýtaaðgerðir á þessari öld.

Ég er líka búinn að læra að hlaupastígur heitir kuntupolki. Eitthvað sem hefur allt aðra merkingu í okkar máli en frænda okkar Finna. Finnarnir hafa líka sagt mér að gælunafnið mitt er ansi líkt orðinu sem þeir nota yfir typpi, eiginlega er það hættulega líkt...

En í nótt og síðustu nótt höfum við verið á æðislegu hóteli í bæ sem heitir Fiskars. Hér búa ekki meira en 600 manns, það er ef við teljum alla þá sem búa á bóndabæjunum í kring. Hér þekkja okkur líka allir. Í gærkvöldi settist maðurinn sem á bæinn við borðið hjá okkur þar sem við borðuðum á veitingastaðnum á hótelinu, hann heitir Ingmar Lindberg, ólst upp á Akureyri. Langa langaafi hans var amtmaður á Akureyri á sínum tíma. Lindberg er einn magnaðasti maðurinn sem við höfum hitt hérna í Finnlandi. Hann getur rekið ættir sínar til allra Norðurlandanna utan Færeyja og Grænlands, talar líka öll tungumálin og skilur íslensku. Það var svo magnað að upplifa það að tala við hann, enda kom hann með tvær flöskur af Koskinkorva sem er finnskur vodki með á borðið til okkar. Við vorum bara þrjú sem drukkum flöskurnar með Ingmar. Helvíti góður vodki...

En þegar önnur flaskan var búin þá var hringt til Íslands, til þess að ræða við sendiherra Finna á Íslandi. Það var ansi magnað símtal og ég gat notað tækifærið til þess að þakka sendiherranum fyrir þá aðstoð sem hún veitti mér þegar ég var að gera ritgerð um Schengen samstarfið í vetur. Við ræddum um ýmsilegt og hún þurfti meðal annars að panta sér veitingastað í Reykjavík fyrir einhvern hóp og við pent bendum henni að fara á Sjávarkjallarann til þess að fara út að borða hjá Adda vini mínum. Ég vona að hún hafi skilað kveðjunni til hans frá mér.

Annars er lífið rólegt í Fiskars. Hér var búinn til fyrsti örbylgjuofninn, sama fyrirtæki og Ingmar á í dag, en það er líka sama fyrirtæki og býr til 70 milljón skæra á ári, þessi appelsínuguluskæri sem við könnumst öll við. Daginn eftir að Ingmar hafði drukkið með okkur, þekkti allur bærinn okkur. Við slysuðumst að ætla að kíkja á safnið, þá vorum við spurð hvort við værum ekki Íslendingar og vinir Ingmars? Öööö... Veit ekki, þá var fólkið alveg með það á hreinu að við ættum ekki að taka pening úr veski en hljóta úrvals þjónustu, sem við höfum fengið.

Meira að segja í búðinni er ekkert mál þó að maður hafi gleymt veskinu heima, hún hringdi bara í hótelið og bað þau að setja úttektina mína á herbergisnúmerið mitt. Ég borga bara þegar ég fer. Í kvöld þegar við vorum skyndilega í fríi var kokkurinn á veitingastaðnum hinum megin við götuna ekki lengi að keyra okkur heim til sín til þess að leyfa okkur að velja úr DVD myndasafninu sínu. Þegar við pöntuðum svo pizzu, var hún komin upp á herbergið okkar eftir smá stund, en enga greiðslu vildi drengurinn fá því að hótelið hafði nú þegar greitt fyrir pizzuna.

Í morgun voru líka komin þrjú hjól sem að bæjarbúar lána okkur, því að hér er hvorki hjólaleiga eða videóleiga. Hér er bara lánað. Í gær kynntumst við líka konunni sem á hestana. Hún á þónokkuð marga en hún á líka slána karl fyrir eiginmann. Karlinn talar ekkert en konar talar þó mun meira. Allar setningar hjá henni byrja á sænsku en enda á finnsku. Við áttum okkur því ekkert á því hvert hún er að fara.

Í sjónvarpinu mínu eru þrjár sjónvarpsstöðvar. Ég var að ljúka að horfa á einn þátt um að "Allir litir hafsins væru kaldir" í sænska sjónvarpinu á íslensku með sænskum texta. En núna er ég að horfa á finnska SkjáEinn sem býður ekki á verra sjónvarspsefni en mynd með Jacki Chan. Ég er kominn á sloppinn núna og mín bíður 85°C heit sauna sem ég ætla að vera í einn og hálfan tíma áður en ég sofna við það að bera á mig body lotion.

Myndin er frá mömmu minni þegar hún fór með bílinn í þvott um daginn. Hún er nefnilega enn með hönd í fatla og kemst ekki yfir öll störfin sín ein.

sunnudagur, september 03, 2006

Helsinki
Er í Helsinki. Ég er að vinna. Hér er mikið að gera. Ég blogga seinna.