Finnar eru snillingar
Fólk hefur stórkoslega rangsýn á flugfreyjustarfið. Vinir manns telja mann hafa lagt land undið fót, séu nokkurs konar Kristófer Kólumbusar nútímans eða Neil Armsstrongs í áþreifanlegri fjarlægð. Sannleikurinn er sá að starfið felst aðallega í sprengjuleit, þrífa einkennisfatnað, rútuferðir, bið, óvissu og þreyttum áhafnamat - aðrir hlutar starfsins fara nokkuð fram á leiksviði farþegarýmisins sem flestir hafa mætt í.
Það er stórmisskilið að maður hafi lagt Osló undir sig í gær og Barcelóna á morgun, París á hinn, Rovaniemi um helgina og svo Budapest beint eftir frídaginn. Það vill heldur enginn ferðast þannig. Við sjáum í mesta lagi flugvellina og flugvallarstarfsfólkið. Þessi störf eru láglaunuð og fólkið er eftir því. Gul endurskinsvesti fær fólk til þess að líta nokkuð svipað út nefnilega.
Flugfreyjustarfið er gefandi, krefjandi og skemmtilegt. Það er það einmitt út af farþegunum, að gera þeim það kleift og taka þátt í því að koma þeim af einum stað til þess næsta. Ástæður ferðalaganna geta verið svo misjafnar og því er samsetning farþega jafn fjölbreytt og lífið sjálft. Á veitingastað eða íþróttaleikvangi gætir þú aldrei séð jafn flókna og fjölbreytta samsetningu af fólki. Á meðan þú ætlar í frí, er maðurinn við hliðina á þér að fara í jarðarför, flugfreyjan er bara að gera ykkur þetta mögulegt.
Yndislegt.
Ég er núna búinn að vera með sama fólkinu í bráðum 12 daga. Með þessu fólki hef ég verið með þegar ég hef augun opin, hvort sem ég borða, vinn, tala, græt, les, geng, hleyp eða skrifa. Ef ég þarf að ræða við einhvern ræði ég við þau, ef ég er svangur leita ég til þeirra, ef ég er einmana fer ég til þau og ef ég næ ekki að raka hárin af bakinu sjálfur, fer ég til þeirra. Það er líklega vika eftir og þetta er æðislegt fólk.
Við erum búin að vera mikið í saunu. Ég hef líklega sagt ykkur það áður. Þrír tímar í saunu er ekkert óalgengt hjá okkur. Það er líka ekkert annað gert þann daginn. Húðin á mér er orðin svo strekkt og fín að þegar ég brosi, kreistast fram þurrir fílapenslar þannig að einn þvottapoki má fara beint í ruslið eftir stroku yfir andlitið. Hlandið er líka glært. Hafið þið pissað glæru hlandi í marga daga í röð? Mér finnst ég svo hreinn eitthvað. Það liggur við að ég sturti ekki niður þegar ég hef lokið mér af. Samt fékk ég mér McDonalds í gær.
Á þessu hóteli sem við erum í núna er sauna, eins og á öllum öðrum hótelum í Finnlandi. En við erum skyndilega komin í borgina, hér eru götur malbikaðar, hér er ekki skógur í kring og við heyrum hvorki í íkornum, beljum eða þurfum ekki að vera hrædd um að vera á ein á ferli vegna hugsanlegra skógarbjarna. Hér þarf bara að passa sig på rampen (sem er einhvers konar strætó).
En aftur að sauninni. Í sveitinni vorum við vön að hlaupa út úr saununni og henda okkur í kaldan sjóinn, vatnið, lækinn og nærrum því drullupollinn í veginum. En hér er ekkert slíkt.
Ég hélt því að hann væri að meina það, samstarfsmaðurinn minn, þegar hann stakk upp á því að við myndum hlaupa út af hótelinu, taka lyftuna, í gegnum mótttökuna, yfir götuna og lestarteinana, hlaupa á harðaspretti yfir hraðbrautina sem kemur næst og stökkva yfir grindverkið eins og Elgar til þess að kæla okkur í köldum og söltuðum sjónum. Þörfin mín fyrir að kæla mig eftir 90°C heitu saununa í 20 mín var svo mikil að mér fannst hugmyndin ekki vitlaus.
Þó að hugmyndin væri vitlaus er meðfylgjandi mynd ekki svo vitlaus. Vatnið gáraði bara örlítið þegar ég stökk út í það eftir heita heita saununa... Ég sakna sveitarinnar og þá meina ég bæði Fiskars og Þjórsárdalsins.