VeikurÍ dag er ég veikur og það sem er enn merkilegra, ég leyfði mér það. Held ég hafi síðast tekið mér veikindafrí í mars 2000 þegar ég var í Verzló - þá var ég þunnur ef ég man rétt. Í dag hef ég ekki opnað námsbók, ekki þrifið einn blett heima hjá mér eða þvegið þvott. Í staðinn hef ég leikið mér í tölvuleikjum, horft á sjónvarpið, borið á mig krem og lesið skáldsögur. Mætti ekki í skólann, finnst það pínu aumingjalegt, er að reyna réttlæta það fyrir mér að hafa sofið í staðinn.
Annars var góðri helgi að ljúka, það voru réttir heima í sveitinni. Tvö réttarböll fór ég á, annað var í Árnesi þar sem ég dansaði frá mér allt vit og hitt var á Brautarholti þar sem ég stökk til bjargar á bak við barborðið, af tómri góðmennsku - því hvað er mikilvægara en leyfa samsveitungum mínum að drekka frá sér allt vit.
Komst að því að það er slæmt að vera góður. Slæmt að vera góðhjartaður og hjálpsamur. Í einfeldni minni hélt ég að ég væri að fara taka þátt í góðri skemmtun, aðstoða og þjóna fólk við að gera kvöldið ánægjulegt. Ég hef líklega aldrei haft jafn rangt fyrir mér, nema þá kannski þegar ég tók próf hjá Hannesi Hólmstein hér um árið - en það er önnur saga. Ég hef aldrei kynnst annari eins svívirðingu, dónaskap og frekju frá nokkru fólki, orð sem voru látin falla um mig - afkastamesta barþjóni kvöldsins - eru ekki til þess að hafa eftir, og samt kalla ég ekki allt ömmu mína, lesendur þessarar síðu þekkja það nú...
Þannig að ef þið eruð í kringum pirrað, frekt, ofurölvað og dónalegt fólk; þá eru það líklega Skeiðamenn eða gestir þessa réttarballs.
Ballið í Árnesi var skemmtilegra, þar mátti sjá fullorðið fólk í fótboltaleik með munntóbaksdós og heilu fjölskyldurnar dansa saman. Upplifun kvöldsins var að sjá tvo bindindismenn, bæði blóðskyld mér, verða húrrandi fullt - frændi minn fór fram úr tveimur dögum síðar. Uppákoma kvöldsins var þegar inn á ballið kom drengur sem ég vann einu sinni með í veislum á Varðskipinu Þór einn veturinn. Ég veit ekki hvor okkar var hissa; þegar hann sá mig eða þegar ég sá að hann var ennþá í þeim leik að leita sér að stelpu.
Já - svo fékk ég koss í afmælisgjöf frá Nonna sæta frá Stóra-Núpi á ballinu.
Og já! Afmæli hjá mér í síðustu viku, vakinn upp með söng og morgunverðarbakka sem samanstóð af kerti, nýbökuðu brauði, niðurskornu grænmeti, osti, sultu og nýlöguðu, rammsterku espressó. Ólöf sambýliskona söng allar þær afmælisvísur sem hún kunni og greip mig í bólinu með stelpu, Siggu systur. Svo hlóðust á mig gjafir frá þeim stelpum en það var meðal annars: súkkulaði húðaðar kaffibaunir, kaffi, alvöru kakóduft fyrir flóaða mjólk..., gróft pestó og súkkulaði fondue.
Ætli fólk sé almennt búið að ná því að ég sé sælkeri?
En jæja, núna sný ég mig að því að fara vera veikur aftur. Er að lesa svo skemmtilega bók um sorglega atburði eftir Sigmund Erni fréttamann.