HrísgrjónMunið eftir verðstríðinu í síðustu viku? Ísskápurinn og mallinn minn muna vel eftir því, bæði fullt af mjólkurvörum. Já já, það þýðir ekkert annað en að búa til mikið af mjólkurgrautum á þessum síðustu og verstu tímum. Hef reiknað mér það til að máltíðirnar mínar upp á undanfarið hafa ekki kostað meira en 28 krónur en tvöfaldast þó í verði ef ég bæti við brauðsneið, þrefaldast ef ég bæti við hana áleggi en fjórfaldast ef ég borða kexköku með því. Þá er ekki sniðugt að elda núðlur lengur því að máltíðin af þeim kostar 59 krónur. Ég hef því borðað hrísgrjónagraut, makkarónugraut, hafragraut og mjólkurglös almennt. Hef samt drukkið og borðað allt of mikið af þessari nýmjólk, þoli hana ekki, bý þess vegna til mikið af grautum og aldrei fæ ég nóg af grjónagraut en mikið var gott að hafa makkarónugrautinn til tilbreytingar.
Í kvöld fór ég út að borða með Hlédísi minni á Rossapommodoro. Máltíðin kostaði jafn mikið og öll mín matseld síðustu þrjár víkur, ekki það að ég sé að telja. Hef bara áráttu þessa dagana til þess að setja allt upp í Excel. Til dæmis hefur hið myndarlegasta Excel skjal verið tekið í notkun sem reiknar út verð og tíma við danmerkurferð mæðgnanna í næstu viku. Excelskjalið tekur breytingum miðað við gengi og hvort við ákveðum að taka bílaleigubíl eða lest. Ég er voðalega stolltur af þessu öllu saman. Ég veit til dæmis hvenær mamma mín mun vakna í næstu viku þegar hún veit ekki sjálf hvenær hún vaknar í fyrramálið, því í næstu viku þarf hún að lifa eftir mínu plani. He he, mikið á hún eftir að sjá eftir því að hafa látið mig sjá um undirbúning, ákvörðunartöku og skipulagningu á þessari ferð. Fæ vonandi fulla hjálp frá Ása og Paw við að gera mömmu úrvinda í sínu hlutverki.
Er alvarlega samt farin að trúa á svona hluti eins og ef þú gerir eitthvað fyrir heiminn, þá gerir heimurinn eitthvað fyrir þig. Til dæmis í fyrra þá kynntist ég voðalega skemmtilegum strák á Laugarveginum í hádegi á þriðjudegi. Þarna voru Vigdís og Þórir sem urðu vitni að því hvað mér þótti þessi strákur spennandi, hljóp þess vegna á eftir honum og við kynntumst. Kynntumst meira að segja nokkuð vel. Hef til dæmis aldrei kynnst þýskumælandi Sýrlendingi áður, en það hef ég semsagt gert núna og ef þið voruð að velta því fyrir ykkur, þá talaði hann ekki orð í ensku, bara þýsku. Mikið hugsaði ég vel til Þorgerðar þýskukennara í Versló og ég minntist þess þegar hún stóð upp við töflu og sagði: "Það kemur að því fyrr eða síðar að þið eigið eftir að hugsa til mín, þakka mér fyrir og skammast ykkar um leið fyrir að hafa tekið þessa þýskukennslu í vafa." Svo mörg voru þau orð sem hittu naglann á höfuðið.
Í stað þess að ég gaf mér á tal við þýskumælandi Sýrlendingin í fyrra, þá kom ungur og myndarlegur Bandaríkjamaður að tali við mig á nákvæmlega stað og ég veiddi Sýrlendinginn, afsakið kynntist. Bandaríkjamaðurinn var svona almennilegur og greinilega með prófgráðu í daðri, horfði stíft í augun á mér, brosti, hrósaði skónum mínum, snerti mig svo fagmanlega að ég varla tók eftir því sjálfur og náði á einstaklega snilldarlegan hátt að opna samræður. Þegar ég hafði fengið skammt minn af daðri og sjálfsánægjufyllingu; gerði ég eins og Dórótea í OZ, smellti saman hælunum og var á örskot stundu kominn heim til mín. Svaf svona vært alla nóttina og steingleymdi að fara með bænirnar.