þriðjudagur, mars 29, 2005

Mis
Þá er maður orðinn Frónbúi á ný. Kom í gær. Ætlaði í skólann í dag, gekk mína leið en komst svo að því að ég var eini nemandi Háskóla Íslands sem mætti í skólann - það var víst frí - hefði betur átt að vera úti í Baunalandi einum degi lengur og kela við konuna. Áttaði mig úti í Danmörku að ég er einmana og er bara sáttur við það, gott að vera einn. Saknaði samt ekki neitt að bloggheima og það fær mann til þess að hugsa. Hlakka samt til þess að deila með ykkur örstuttum ferðasögum síðar í vikunni, en skyldan fyrst og skemmtun svo - núna leggst ég í lestur.

mánudagur, mars 21, 2005

Fljúgandi pabbaleikur
Ég hélt að ég væri ennþá sofandi þegar ég gekk upp Ægisgötuna á leiðinni í skólann. Fyrirbærið var svo furðulegt að ég varð að stoppa, hefði átt að vera með myndavél. Upp í háu tré mátti sjá ryksugu bundna upp á rafmagnssnúrunni og ekki nokkur leið að sjá hvernig henni hefði verið komið þarna fyrir. Kannski þetta átti að vera táknrænt eða list, ryksugan sem sýgur í burtu veturinn já eða laufblöðin á haustin...

Litla systir hefur verið hjá mér alla helgina, ótrúlega gaman að vera í svona pabbahlutverki. Hlakka eiginlega bara svolítið til þess að takast á við að ala upp mín eigin börn, ekki svo að skilja að það eigi að gerast strax, svo spenntur er ég nú ekki. En þvílíkur tími fer í að ala börn upp, sinna þeim og slíkt. Ég var bara að hugsa um eitt barn og það var tólf ára, hvað með foreldra mína? Pælum í því hvað er búið að fjárfesta miklum klukkutímum í okkur, fæða okkur, klæða, ala, sinna og styrkja. Hvernig borgar maður svo slíkt til baka? Er það kannski bara sjálfsagt að eiga rétt á þessu öllu, hluti af mannréttindum manns eða réttindi sem barn krefur foreldra sína?

Ein lítil sæt saga af systur minni frá helginni. Hún hefur hitt þónokkuð af vinum mínum um helgina, yfirleitt í mýflugumynd, því ég er í svo miklu foreldrahlutverki að auðvitað þarf maður að gæta að nægum svefn, heilbrigðu mataræði og hreinu, reglusömu heimili. En systir mín hitti alveg á naglann eftir að hafa hitt nokkra vini mína á föstudagskvöldið:

"Gulli; þú átt mikið af heilbrigðum, skynsömum og skemmtilegum vinum, hvernig fer maður að því að velja sér svona vini?"

Ég gat engu svarað, Danmörk á morgun og litla systir á eftir að hitta enn fleiri af vinum mínum...

sunnudagur, mars 20, 2005

Sunnudagar
Ég held að sunnudagar séu í tilvistarkreppu, eru þeir upphaf eða endir? Hvíld eða erill?

laugardagur, mars 19, 2005

Hitch
Mikið þótti mér og öllum stelpunum í sjöunda bekk hann Will Smith sætur. Já gott fólk, ég gerði nokkuð sem ég var búinn að gleyma að maður gerir ekki á laugardagskvöldi klukkan átta. Maður fer ekki á stelpumynd í bíó, já eða bíó yfir höfuð. Ég og Heiðrún litla systir (sem einmitt er í sjöunda bekk) fórum með Helgu frænku. Fyrir utan allan hláturinn og hvíslið þá var klappað við lok myndarinnar. Já og sagði ég ykkur frá því að þegar fólk kyssist, er víst eðlilegt að hlæja eða flissa. Ég er greinilega ekki nógu vel að mér í viðbragðafræðum...

Hef aldrei orðið jafn hissa í bíó eins og þegar strákarnir í bekknum fóru saman á Boogie Nights. Myndin var ekki eins og við bjuggumst við (seinna kom í ljós að ég og Ómar urðum ekkert fyrir vonbrigðum, reyndum samt að lítast út fyrir að vera sjokkeraðir). Menntaskólastrákarnir sem fóru saman á þessa mynd litu skyndilega út fyrir að vera hópur af ávaxtakökum...

föstudagur, mars 18, 2005

Helgarpabbi
Stemningin ætlar allt um koll að keyra. Heiðrún litla systir á leið í bæinn og svo beint á þriðjudaginn út með mér og mömmu til Danmerkur. Stelpan er búin að pakka öllu niður og þegar þetta er skrifað er hún á leið í höfuðstaðinn með frímerki á rassinum og allan farangurinn. Við systkinin ætlum að vera afkastamikil um helgina. Hún ætlar að keppa í öllu mögulegu og ómögulegu á íþróttamóti en sjálfur ætla ég að klára þetta hópverkefni með hryðjuverkahópnum mínum.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Að versla
er góð skemmtun. Sérstaklega þegar versla skal fatnað á útsölu og í búðum þar sem allt fæst á innan við tíu krónur. Eftir hádegið í dag fór ég og pabbi í verslunarleiðangur. Ætluðum að kaupa föt á karlinn. Slysuðumst fyrst inn í skóbúð. Þar mátaði pabbi karlmannsstígvél með hæl. Konan í búðinni missti augun fram á kinnar þegar hún sá okkur feðgana hegða okkur eins og fávita. Pabbi keypti svo ekki stígvélin, ef ég þarf að taka það fram, en sjálfur keypti ég geðveika skó á upphækkun á innan við 3000 krónur, fyrsta flíkin sem keypt er á þessu ári fólks!

Í Sautján létum við strákinn snúast í kringum okkur, hann kunni hreinlega ekki neitt. Lét pabba máta jakka númer 52 og 50 þegar fólk sér það auðvitað strax að pabbi notar frekar stærð númer 24 og 25. Þegar ég reyndi á penan hátt að koma því á framfæri að þessir jakkar sem pabbi væri að máta lægju ekki vel, hreyfivíddin og brotin færu ekki nógu vel fékk ég svarið:

"Af hverju ert þú þá ekki bara að vinna hérna?"

Hann skammaðist sín strax þegar hann sá svipinn á pabba, pabbi var ekkert á því að vaðið væri yfir fjölskylduna hans. Eftir vel valið augnarráð varð drengurinn hér eftir sem lamb. Sótti fleiri jakka í þessum stærðum því ég var ekki sáttur við fráganginn í þessum og hinum jakkanum. Allt gekk þetta svakalega vel.

Dagurinn endaði með því að ég og Anna Vala keyrðum út um allan bæ að leita að ódýrum páskaeggjum, þau voru uppseld.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Sem lítið barn í skugga
Eftir langan dag og handhlaup í íbúðinni minni stökk ég út úr húsinu mínu og gekk rösklega eftir Ránargötunni þegar lítill strákur, á að giska 7 ára, horfði skyndilega upp á mig og spurði mig hvort að ég ætti síma. Og hvort að hann mætti fá hann lánaðann? Hann fær að hringja hjá mér og reynir að hringja í mömmu sína. Þegar hún svarar ekki byrjar hann að hágráta á milli þess sem hann tautar eitthvað á pólsku. Án þess að átta mig á því stend ég með lítið barn í fanginu, sundtöskuna mína hangandi á olnboganum, held á vettlingunum mínum, sólgleraugun á smettinu og skólataskan á bakinu.

Ég hef líka aldrei séð fleira fólk á ferli í götunni minni og í fyrsta skipti var fólk að glápa. Þegar flugfreyjuhópurinn er loksins farinn, bílarnir hafa allir keyrt framhjá, kettir farnir úr gluggum og gamla fólkið komið fyrir horn næ ég að róa krakskrattann. Lítið sætt barn var skyndilega orðið eins og afmyndað skrímsli, vott og afmyndað. Þegar við erum búnir að róa okkur svolítið og setjast á stéttina, kasta steinum og tala svolítið saman náum við loksins í mömmuna, hún var rétt að koma.

Mikið var strákurinn feginn, brosti svo fallega til mín en var samt svo órólegur. Fannst ég hafa lagt svo fallegt framlag til heimsins, núna bara bíð ég eftir að fá það til baka.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Hrísgrjón
Munið eftir verðstríðinu í síðustu viku? Ísskápurinn og mallinn minn muna vel eftir því, bæði fullt af mjólkurvörum. Já já, það þýðir ekkert annað en að búa til mikið af mjólkurgrautum á þessum síðustu og verstu tímum. Hef reiknað mér það til að máltíðirnar mínar upp á undanfarið hafa ekki kostað meira en 28 krónur en tvöfaldast þó í verði ef ég bæti við brauðsneið, þrefaldast ef ég bæti við hana áleggi en fjórfaldast ef ég borða kexköku með því. Þá er ekki sniðugt að elda núðlur lengur því að máltíðin af þeim kostar 59 krónur. Ég hef því borðað hrísgrjónagraut, makkarónugraut, hafragraut og mjólkurglös almennt. Hef samt drukkið og borðað allt of mikið af þessari nýmjólk, þoli hana ekki, bý þess vegna til mikið af grautum og aldrei fæ ég nóg af grjónagraut en mikið var gott að hafa makkarónugrautinn til tilbreytingar.

Í kvöld fór ég út að borða með Hlédísi minni á Rossapommodoro. Máltíðin kostaði jafn mikið og öll mín matseld síðustu þrjár víkur, ekki það að ég sé að telja. Hef bara áráttu þessa dagana til þess að setja allt upp í Excel. Til dæmis hefur hið myndarlegasta Excel skjal verið tekið í notkun sem reiknar út verð og tíma við danmerkurferð mæðgnanna í næstu viku. Excelskjalið tekur breytingum miðað við gengi og hvort við ákveðum að taka bílaleigubíl eða lest. Ég er voðalega stolltur af þessu öllu saman. Ég veit til dæmis hvenær mamma mín mun vakna í næstu viku þegar hún veit ekki sjálf hvenær hún vaknar í fyrramálið, því í næstu viku þarf hún að lifa eftir mínu plani. He he, mikið á hún eftir að sjá eftir því að hafa látið mig sjá um undirbúning, ákvörðunartöku og skipulagningu á þessari ferð. Fæ vonandi fulla hjálp frá Ása og Paw við að gera mömmu úrvinda í sínu hlutverki.

Er alvarlega samt farin að trúa á svona hluti eins og ef þú gerir eitthvað fyrir heiminn, þá gerir heimurinn eitthvað fyrir þig. Til dæmis í fyrra þá kynntist ég voðalega skemmtilegum strák á Laugarveginum í hádegi á þriðjudegi. Þarna voru Vigdís og Þórir sem urðu vitni að því hvað mér þótti þessi strákur spennandi, hljóp þess vegna á eftir honum og við kynntumst. Kynntumst meira að segja nokkuð vel. Hef til dæmis aldrei kynnst þýskumælandi Sýrlendingi áður, en það hef ég semsagt gert núna og ef þið voruð að velta því fyrir ykkur, þá talaði hann ekki orð í ensku, bara þýsku. Mikið hugsaði ég vel til Þorgerðar þýskukennara í Versló og ég minntist þess þegar hún stóð upp við töflu og sagði: "Það kemur að því fyrr eða síðar að þið eigið eftir að hugsa til mín, þakka mér fyrir og skammast ykkar um leið fyrir að hafa tekið þessa þýskukennslu í vafa." Svo mörg voru þau orð sem hittu naglann á höfuðið.

Í stað þess að ég gaf mér á tal við þýskumælandi Sýrlendingin í fyrra, þá kom ungur og myndarlegur Bandaríkjamaður að tali við mig á nákvæmlega stað og ég veiddi Sýrlendinginn, afsakið kynntist. Bandaríkjamaðurinn var svona almennilegur og greinilega með prófgráðu í daðri, horfði stíft í augun á mér, brosti, hrósaði skónum mínum, snerti mig svo fagmanlega að ég varla tók eftir því sjálfur og náði á einstaklega snilldarlegan hátt að opna samræður. Þegar ég hafði fengið skammt minn af daðri og sjálfsánægjufyllingu; gerði ég eins og Dórótea í OZ, smellti saman hælunum og var á örskot stundu kominn heim til mín. Svaf svona vært alla nóttina og steingleymdi að fara með bænirnar.

mánudagur, mars 14, 2005

Fjörur?

Guðlaugur er yndislegur

hefur mikinn sjarma

mikið væri gaman að

velta honum upp ur rósablöðum

og dansa síðan álfadansinn

í róðaslegnum lundi kvöldsólarlagsins

mun ég eiga þig ad fjólu

sunnudagur, mars 13, 2005

Tenglasúpa
Þessa dagana finnst mér ég setja inn mikið af tenglum á síðuna mína og ætla að auka enn frekar á tenglasafnið mitt í þessari færslu. Veit einhver hvað einn maður getur verið fljótur með eitt páskaegg? Plastið utan af egginu fór á sama tíma í ruslið og skrautið, tók því ekki að fara tvær ferðir...

Mæli með þessari auglýsingu, einstaklega skemmtileg
Afrakstur helgarinnar minnar með sætu tölvunarfræðingunum í VRII
Linkurinn sem ekki virkaði í seinustu færslu

Geisp geisp
Góða nótt, p.s. 8 dagar í Köben!

laugardagur, mars 12, 2005

PHP & SQL
Munið þið þegar skólinn var ótrúlega spennandi og maður reyndi að klára vikuskammtinn og stærðfræðibókina áður en að vikan var búin? Ég man að það þurfti að búa til aukadæmi handa mér því að seinni bókin var einhvern tíman ekki komin. Þannig leið mér í dag. Ég var á námskeiði í PHP & SQL sem er eitthvað sem ég get samt ekki útskýrt en tengist tölvum. Þið getið séð hvað ég er búinn að vera duglegur í dag að læra hjá öllu sætu strákunum í Tölvunar og rafmagnsverkfræðinni á þriðja ári.

Hérna er eitt og hér er annað.

föstudagur, mars 11, 2005

Staupasteinn
Mér líkar það vel að horfa á Staupastein þessa dagana, rifjar upp þegar ég og pabbi horfðum saman á sjónvarpið í gamla daga.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Saltkjöt og kleinur - túkall!
Heimsótti Ómar og Davíð sem búa í alveg yndislegri íbúð, ég var strax svo skotinn í smekknum þeirra og öllu bakkelsinu sem þeir snöruðu fram. Eftir að hafa rifjað upp gamla tíma, sameiginlega vini, ferðalög og aðrar sögur þá voru allir spenntir að fara versla saman. Strákarnir voru duglegir að kaupa sér eitthvað hollt, en ég keypti mér tvö páskaegg, þrjá lítra af mjólk, gúrku, perur, kók, álegg, brauð, skyr, magic og margt fleira; kostaði innan við 800 krónur! Meira svona verðstríð takk!

Kvöldinu lauk svo hjá Áslaugu frænku, ömmusystur minni, við eigum alveg yndislegt lag á að púkast í hvoru öðru og gera grín, við værum góð saman í ríkisstjórn eða einhverju svoleiðis. Dagurinn endaði á gólfinu hjá Siggu systir á Hverfisgötu þar sem ég góndi á hana aðdáunaraugum þegar hún spilaði og söng fyrir mig. Spilaði og söng, spilaði og söng, sat sú gamla upp á þakinu og spilaði og söng!

miðvikudagur, mars 09, 2005

Íbúðaskipti
Mun standa í því í fyrsta skipti að sofa í annarra manna rúmi á meðan ég sef í rúmi þeirrar manneskju. Þóra Gerður kemur heim um páskana, en líklega hendi ég mömmu og annarri systurinni í hennar íbúð svo ég nái að kúra hjá Ása. Já stelpur, núna eru bara 12 dagar í að við förum til Danmerkur!

þriðjudagur, mars 08, 2005

Lok með byrjun
Síðasta kvöldvaktin var á Hagstofunni í kvöld. Í tilefni þess vorum við nokkur sem enduðum heima hjá mér (allir komust fyrir) eftir vaktina og skoðuðum í spilin. Skemmst frá því að segja að ein gekk út ólétt en önnur mun eignast barn á næsta ári.

mánudagur, mars 07, 2005

Hryðjuverkamaður
Prófinu lokið, finnst prófið hafa verið létt og get þess vegna titlað mig sem lærðan hryðjuverkamann í lok árs. Ömmusystir mín hringdi í mig í gær, vildi plata mig í kaffi, ég afþakkaði pent því ég væri að læra fyrir lokapróf. Fyrir kurteisissakir spurði frænka hvaða próf ég væri að fara í. Hryðjuverk var svarið og hún tók andköf, þegar hún áttaði sig á því að ég væri ekki að grínast. Stuttu síðar fékk ég símtal frá mömmu því að frænka hafði hringt í hana. Ömmusystirin vildi ekki trúa því að ég væri í svona námi, hvort að mamma hafði samþykkt svona lagað. He he. Gaman að því.

Í gær fór ég svo í innkaupaferð með Pétri, við fórum í Krónuna til þess að spara örfáar krónur. Ég keypti mér páskaegg á 300 krónur sem ég gleymdi svo á kassanum - helvítis djöfull, ætla aftur í vikunni og kaupa mér tvö.

Kjúklinga Will og Grace kvöld heima hjá Önnu Völu og Jóni, namm namm. Takk fyrir mig!

sunnudagur, mars 06, 2005

Vitleysingur
Árshátíð FSS var í gær, ég var endurkjörinn í stjórn. Súper skemmtun í kvöldið og áfengið fór á kostum þegar það rann niður kokið á mér, endalaust alveg hreint. Líklega er ár og öld síðan ég hef farið niður í bæ að drekka. Ef ég hefði verið Júmbó hefði ég flogið um miðbæinn á eyrunum með roða í kinnum. Frítt og ódýrt áfengi í stíðum straumum hefur greinilega þessi áhrif á mig, var lengi búinn að afneita því en þarf núna að borða hattinn minn. Endaði svo í vitlausu rúmi í nótt, kolröngu en vaknaði samt heima hjá mér í morgun. Það er ekki mörgum sem tekst það.

laugardagur, mars 05, 2005

Hommi?
Ég sat á Kaffitári áðan sem er ekki frásögufærandi nema af því leyti að ég efaðist um kynhneigð mína. Við vegginn sat svo aðlaðandi stelpa með kærastanum, hún var ekki kannski falleg eða sæt, meira svo aðlaðandi og kynæsandi. Ég glápti hreinlega þannig að óþægilegt varð fyrir okkur bæði. Ég stóð því upp og settist í stól þannig að ég snéri í hana baki, því ekki vildi ég trufla kaffisopa parsins, en ég var stöðugt að horfa yfir öxlina á sjálfum mér, undir handakrikann í eitt skiptið.

Mig ruglaðist svo í rímini.

föstudagur, mars 04, 2005

Fyndinn lítill bróðir
Ég og litli bróðir minn erum áætir vinir, reynum að tala svolítið saman í síma og svo sendum við gjarnan tölvupóst a hvorn annan. Siggi er 11 ára, verður 12 ára á þessu ári. Ég fékk einn yndislegasta tölvupóst frá honum í dag. Hann sendi mér skemmtilega sögu og brandara.


I fámennum skóla í Suðurlandi var strangur kennari sem réði sig um sumar á togara hann sigldi frá Þorlákshöfn að veiða fisk aðallega Þorsk og Ýsu. En alla litlu fiskana sem veiddust tók kennarinn heim og seldi nágrönnum sínum. Þetta var ólöglegt það vissi strangi kennarinn. En í götunni bjuggu krakkarnir sem hann kenndi og vissu þau að þetta mátti ekki. Svo um
veturinn þegar hann var að kenna krökkunum létt hann svo skringilega hvert sinn þegar einhver nemandi spurði, er þetta eða hitt ólöglegt þá létt hann nemandann reikna 2 blaðsíður í stærðfræði fyrir. Svo einu sinni gerðist það að eftirlitskallarnir sjá að það eru fullt af litlum fiskum í togaranum og þá er kennarinn strangi tekinn og staðinn að verki að selja fiskinn sem var of lítill . Þetta var ekki gott. Nú þurfti kennarinn að borga sekt og hætta á togaranum og sagði krökkunum söguna. Þegar hann fór aftur að kenna og þá var hann ekki lengur strangur bara þægilegur og góður.

Guð hefur týnt falegasta engli sínum
honum hefur verið leitað
PS.ég seigi ekki hvar þú ert.

þú ert æðisleg dírleg best flottust og...........
úpps afsakið vitlaust síma númer

ég fékk tanburstan þin lánaðan og núna klóra ég mig ekki í
rasinn, nema tennurnar séu hreinar og kokið hreint.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Fríska mín
Munið þið eftir gamla Fríska mín sem maður fékk alltaf í stórri skeið á morgnanna? Framan á flöskunni er mynd af tveimur krökkum sem að hnykkla vöðvana og verða svakalega sterk á því að taka Fríska mín. Flaskan lítur enn þá eins út. Furðulegt á meðan mjólkin hefur breyst svona um það bil 15 sinnum á sama tíma - kannski líka meira keypt af mjólk, veit ekki. Var semsagt í búð um daginn og bara VARÐ að kaupa mér svona flösku. Núna vakna ég á hverjum morgni eins og lítill krakki sem fær Fríska mínið. Stóð sjálfan mig svo að því að hnykkla vöðvana eins og ég gerði með systur minni gjarnan á morgnanna. Hugsaði til Siggu systir, en ég veit að hún gerir það sama á morgnanna. Fliss.

Er að fara í lokapróf á mánudaginn í hryðjuverkum. Ég er að lesa bókina og flétta henni saman við glærurnar og glósurnar, það gengur bara ekkert allt of vel. Vissu þið að ef maður les of mikið um árásir, morð og sprengjur - þá bara sofnar maður! Hvernig fer fólk að sem vinnur í Varnarmálaráðuneytum - já eða bara herjum og hryðjuverkahópum. Ég er ekki skapaður til þess að sjá um þessi mál.

Síðasta bloggfærsla hefur skapað hörð viðbrögð, kom mér á óvart. Þykir samt leiðinlegt ef að ég særi einhvern, það er mín síðasta ætlun.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Manstu?
Leyfi mér að birta hér bloggfærslu frá því í sumar af blogginu hennar Unu sem Matta sendi mér til upprifjunar.

Sátum á Austurvelli í dágóða stund. Þar slóst Gulli í hópinn, með breska koddann sinn og með íslenska skjaldarmerkið framan á bolnum. Ákaflega þjóðlegt allt saman. Röltum síðan og spókuðum okkur enn meira. Gaman að því. Þegar klukkan sló 17:00 skunduðum við á ÖlstofUna en þar stóðu Héðinn og Ragnar vaktina til 21:00. Þar var enginn inni nema við. Allir aðrir voru úti í góða veðrinu. Við skemmmtum okkur þó konunglega.

Sögðum líka gamlar prakkara sögur (símaöt)og sé að við krakkarnir, sem erum utan að landi, vorum ekki alveg jafn fagmannleg og Fríða Fróða og co í Reykjavíkinni. Við hringdum til dæmis í eitthvað númer og spurðum hvort að Bolli væri heima. Ef það var sagt ,,ha, nei það býr enginn Bolli hér" þá sögðum við alltaf ,,ahahahah, úr hverju drekkið þið þá". Þetta fannst okkur fyndið. Fríða og Co hringdu aftur á móti á hótel og pöntuðu herbergi fyrir hr. Kahólf, Hans. Þá sagði starfsmaðurinn náttúrulega. Já, tveggja manna herbergi fyrir Hans Kahólf (hanskahólf!) Klukkan hálf tíu datt okkur í hug að fara út að borða á Hornið. Ég, Skratthea, Héðinn, Þórir og Gulli fengum okkur því kvöldmat á Horninu. Gaman að því.

Munið þið eftir þessum tíma? Ég og Matta munum eftir því, rifðjuðum það upp í nótt. Á þessum tímum var ekki vanur að fá tölvupósta frá Suður-Afríku. Hef ég selt vinskap fyrir drátt?

þriðjudagur, mars 01, 2005

Systir mín
Þeir sem leggja vel við hlustir heyra strák hlæja hátt einan heima hjá sér. Þið hugsið kannski að þetta sé strákur sem á við vandamál að stríða, en hann er bara að hlæja yfir bloggi systur sinnar. Furðulegt að hún sé farin að skrifa, Völu systur minni fallast venjuelga hendur - bara við það eitt að þurfa að skrifa nafnið sitt.

En núna er hún farin að skemmta fólki í gríð og erg hérna í bloggheimum. Ágæt breyting. Svo er hún sérstaklega sniðug og gáfuð. Sjáið þið til dæmis könnunina hennar, hefur einhver komið með svona góðar spurningar á sínum bloggum? Ekki einu sinni sálfræðingar hafa velt því fyrir sér hvort að fólk almennt finnist eggið eða hænan hafi komið á undan - en það gerir hún systir mín!

Best að hafa hana bara í Danmörku, sérstaklega þar sem hún er búin að bjóða öllum fjölskyldumeðlimum að taka þátt í boxpúðakaupum, nema mér. Ég veit að ég myndi aldrei kaupa slíkan og hvað þá í svona fælleskaupum, en ég vil samt að mér sé boðið - af minni eigin systur!