Komment
Mamma mín kommentar undir nafni hjá vinum mínum, en býr til dulnefni þegar hún kommentar hjá mér. Að vísu þegar hún kommentar hjá fólki í kringum mig sem hún hefur ekki hitt, notar hún dulnefni líka. Varið ykkur á grís, refnum og konunni. Hún er hættuleg og það er erfitt að rekja ferðir hennar um bloggfærslurnar. Hún er útsmogin, lærði á Excel í kvöld og bjó til forrit með hjálp mín um það hvernig mélið er gefið í fjósinu. Þegar hún hafði reiknað út prósentuhlutfall Skvísu, Æsu, Sjoppu og Druslu í heildarmélgjöfinni, þá var hún tilbúin að fara út í fjós með nýprentað skjalið til mélgjafar. Ætli það verði ekki bara mjólkað á morgun eftir nýju excel skjali?
Annars líkar mér illa við orðið komment. Getum við ekki breytt þessu orði eða notað eitthvað annað. Eigum við að nota orðið athugasemd eða ummæli? Kannski við steypum saman nýyrði, veitum verðlaun og höldum árshátíð bloggara eða blöggara - íslenskara.
Vegna lögmála um framboðs og eftirspurnar þá vil ég bjóða fólki að skrifa sín komment á minni síðu, en það eru nokkrir hér í blöggheimum sem hafa tekið út sín kommentakerfi. Vegna eftirspurnar þá leysi ég úr því með framboði á mínu eigin kommentakerfi. Megi kommentin lifa og við líka!