þriðjudagur, nóvember 30, 2004

SAS
Skandinavar gera hlutina öðruvísi. Núna sit ég í flugvél SAS frá Zurich á leið til Kaupmannahafnar. Hverjum hefði dottið í hug, öðrum en Skandinövum, að hafa þrjú farrými í einni flugvél? Hérna er fyrsta farrými, viðskiptafarrými og almennt farrými. Ég sit á því almenna og fæ því engan mat, en matarlyktin er að drepa mig. Ég get ekki keypt heitan mat og samlokurnar fyrir almenna farrýmið eru af skornum skammti, samloka með spægipylsu eða snakkpoki var það sem flugfreyjan bauð mér að kaupa. Afþakkaði pent. Fyrsta farrýmið er á að giska þriðjungur flugvélarinnar, viðskiptafarrýmið er á að giska helmingurinn og almennt farrými eru því bara öftustu sætin. Ég sit samt fremst í almenna farrýminu, daðraði svo mikið og lengi við sæta strákinn í innritun að hann lét mig fá þetta sæti. Eina auða sætið í almenna farrýminu er við hliðina á mér. Hann spurði mig hvað ég hefði verið að gera í Sviss, ég þurfti endilega að segja honum að ég hefði verið á undirbúningsfundi homma og lesbía í Evrópu. Það þótti honum ekki leiðinlegt. Er samt pínu pirraður að hann hafi ekki reddað mér neinu að borða hérna. Get ekki beðið eftir að komast um borð í Icelandair og fengið mat og íslenskt vatn.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Ferðalag
Þegar þetta er skrifað er ég staddur í sex manna rúmgóðum bíl með stórum gluggum og hægindastólum, við hvern stól er borð til að sitja við. Í bílnum eru Florian og Andi frá Sviss, Sandra frá Hollandi, Robert frá Rúmeníu, Adrian frá Spáni og ég. Við fórum frá Zurich í morgun. Fengum þennan yndislega bíl afhendan til okkar um hálf átta leytið í morgun og lögðum af stað á fastandi maga. Stoppuðum í morgunmat á mjög dýru og fallegu hóteli. Við fengum okkur dýrasta kaffibolla og brauðhorn sem hvert okkar hefur fengið sér. Eitt af hvoru fyrir sex manns kostaði 4000 ISK! Þetta var ansi skemmtilegt og góður matur. Erum lögð af stað til Lichtenstein. Höfum fallegasta fjallahring sem ég hef séð lengi. Inni í bílnum erum við að njóta útsýnisins, Eurovision lög í útvarpinu og skriftir í hverju horni. Ég pikka á fartölvuna, Adrian skrifar póstkort, Sandra skrifar sms og Róbert sér um að taka myndir, enda myndasmiður með mjög góða stafræna myndavél.

Í Lichtenstein ætlum við að stoppa, kaupa, skrifa og senda póstkort. Eftir það verður ferðinni haldið til Austurríkis, þar stendur til að kaupa sér eitthvað til minninga og sælgæti í bílinn. Eftir Austurríki keyrum við til borgarinnar Konstant sem er í Þýskalandi til þess að borða síðdegisverð. Sandra á flug seinnipartinn og þess vegna munum við fara á flugvöllinn um leið og við nálgumst Zurich aftur.

Í kvöld er okkur boðið í Fondue veislu í Bern. Ég, Robert og Adrian verðum heiðursgestir ungliðahópsins þar. Mikið væri gaman ef að ég hefði hlaðið batteríið í stafrænu myndavélinni minni áður en ég hélt af stað frá Reykjavík EÐA að ég hefði tekið með mér hleðslutækið. Heimskulegt, en heppni að allir aðrir skuli taka með sér myndavél.

Fer til Kaupmannahafnar á morgun. Þessi ferð sem hófst síðasta föstudag hefur því samanstaðið af sjö löndum á fimm dögum, það eru ekki léleg afköst. Heppni að enginn í Sviss skuli læsa þráðlausa netinu sínu. Í íbúðinni hans Florian næ ég 9 mismunandi þráðlausum internettenginum, átti í basli stundum með að ná minni eigin heima hjá mér!

Í guðana bænum skrifið mér comment þannig að ég haldi áfram sögunni minni. Ég á alveg eftir að segja ykkur frá laugardagskvöldinu síðasta…

föstudagur, nóvember 26, 2004

Flugvöllur
Þá er ferðin mín til Sviss hálfnuð. Klukkan er að verða fjögur að norskum tíma og fluginu mínu seinkar örlítið. Ég er búinn að eyða rúmum þremur tímum í miðbænum, mér finnst ég samt hafa verið þar í viku. Mikið er Osló falleg og fólk yndislegt. Synd hvað maður ferðast sjaldan einn. Ég er búinn að kynnast mikið af fólki og daðra mér til aðstoðar. Byrjum samt á byrjuninni.

Eftir nýtt persónulegt met í niðurpökkun fyrir utanlandsferð lagði ég mig í fimm korter og fór svo að sofa. Persónulegt met er núna 25 mínutum, með sturtupásu! Ég náði meira að segja raða fötum svo snyrtilega að þeim er raðað í litarröð. Mikið var taskan falleg þegar ég horfði á hana opna og átti eftir að renna lokinu yfir. Fallegt verð ég að segja. Klukkan fjögur lagði ég af stað til Önnu Völu og Jóns, þau voru á leið til London og því tilvalið að sameina ferðirnar.

Eftir góðan verslunarleiðangur í fríhöfninni var tekið til við að máta gleraugu. Þeim tókst næstum að pranga inn á mig einu pari, en ég let ekki platast í þetta skiptið. Kannski næst. Flugið var yndislegt, ég hafði beðið um tvær sérþarfir við bókun. Önnur var að fá EKKI eggjahræru og hin var að fá sætan flugþjón (já ég bað um það). Ég fékk ekki flugþjóninn en góði maturinn bætti þetta allt upp.

Vegna þess að ég hafði keypt framhaldsflug af SAS í gegnum Icelandair þurfti ég ekki að taka töskuna mína né að innrita mig í næsta flug. Ég gat bara farið beint í bæinn á meðan fólki hýmdi yfir færibandinu. Osló er falleg borg, en hér er mikið af snjó og honum kyngir niður. Snjórinn er mikill á götunum, magn sem að Reykjavíkurbúar myndu aldrei sætta sig við. Sérstaklega ekki þegar þeir mæta á flatbotna skóm eins og ég (flýg ekki í öðrum skóm sjáið til).

Hvað gerir maður þegar maður kemur í miðbæinn og þekkir hvorki haus né sporð á borginni. Ég spurði gamla konu á frekar sænskhreimaðri skandinavísku hvar Karl Johann gatan væri. Hún leit á mig eins og ég væri helvítis Svíi, putaði höndunum út í loftið og svaraði mér á forn-norsku. Henni var ekkert um mig gefið en ég skildi hana þó.

Á aðalgötunni var fólk að safna undirskriftum fyrir baráttunni gegn ofbeldi á konum. Ung, glæsileg og tælandi kona gaf sig á tal við mig til þess að fá mig að krota á pappírinn sinn. Ég benti henni á að ég styði málstaðinn fullkomnlega en væri hvorki norskur né ætti heimili hérna. Skyndilega var þá engin forsenda fyrir krotinu mínu. Ég sagði henni þá að ég væri frá Íslandi og hefði bara nokkra tíma í borinni en vildi sjá það mesta og upplifa góðar 3 stundir. Þetta hefur verið eitt sniðugasta sem ég hef gert í mánuðinum. Ég fékk greinagóðar lýsingar um hvaða götur ég ætti að ganga, hvar ég ætti að stoppa og hverju ég ætti að taka eftir. Síðan sagði hún mér á hvaða stað ég ætti að borða, en hann var falinn til þess að ferðamenn flyktust ekki um of á hann. Staðurinn heitir Dus (lesist Dús) og er einn skemmtilegasti staður sem ég hef komið á, ekki skemmdi að þjónarnir voru gullfallegir og mikið þótti þeim gaman að láta daðra við sig. Fékk ekkert minna daður til baka, líklega hafa það verið rauðu skórnir mínir sem unnu í því máli fyrir mig.

Á leiðinni til baka á lestarstöðina rakst á ég norska Kaffitár. Með fullri virðingu þá væri ég alveg til í að fljúga spes til Oslóar til þess að drekka þennan kaffibolla aftur. Ég veit líka um nokkra vini mína sem hefðu áhuga á að koma með mér, því staðurinn var fullur af strákum sem þeim þykir skemmtilegt að horfa á.

Hér er ég svo staddur á flugvellinum í Osló. Mér líður eins og í stóru upplýstu gróðurhúsi. Þannig er byggingin, með glerjum á öllum veggjum, vel upplýst og þú sérð snjóinn kyngja niður alls staðar í kringum þig. Við erum beðin um að haska okkur út í flugvél, því við erum nú þegar á eftir áætlun. En þið eruð mikilvægari en tímaáætlun flugfélagsins, ég ætla að stelast til þess að posta þessa færslu fyrst.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Lunch
Fór í lunch í dag, í Seðlabankann. Eftir londonlamb, brúnaðar kartöflur, brúna sósu, sódavatn, grænmeti, skyr, ávexti, kaffi og ís í eftirrétt var haldið til að funda. Ég og verkefnastjóri Seðlabankans fórum yfir þúsundir evra, prósentur og bankareikninga. Ansi áhrifaríkt. Ef maður væri alltaf með svona mikla peninga í höndunum á hverjum degi.

Atvinnuviðtal í morgun. Aðalumræðuefnið voru skórnir mínir, þeim fannst þeir stórkostlegir. Þau voru þrjú að hitta mig. Ein vildi skoða þá betur. Þau spurðu mig hvað þeir kostuðu, hvar ég keypti þá og annað. Þegar ég sagði þeim að ég hefði keypt þá í Kaupmannahöfn, misstu þau vatnið. Ein spurningin var hvort að ég hefði þá ekki fengið TaxFree og hvort ég ferðaðist mikið. Ég sagði þeim að ég væri að fara til Sviss á morgun með stuttu stoppi í Osló. Þau höfðu aldrei komið þangað. Vildu fá að vita allt. Síðan fórum við að ræða hvert þau hafa ferðast síðast.

Þegar ég gekk út af fundinum áttaði ég mig á því að ég hafði ekki komið neinum upplýsingum til skila um mig. Ég reyndi ekki einu sinni, eða átti ég að reyna? Annaðhvort hafa þau verið svona örugg um að ráða mig eða talið mig svo langt frá því að vera væntanlegur starfsmaður að þau tóku sér pásu í viðtölum ákváðu því að ræða daginn og veginn við mig.

Jákvætt eða neikvætt? Ég mun ekki vita það fyrr en í næstu viku. Bíðum spennt.

Í kvöld er það aðalfundur húsfélagsins, videókvöld hjá Pétri og pakka niður fyrir Sviss. Fer þangað á morgun, þarf að muna að finna mér norskar krónur og svissneksa franka.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ég vil hafa áhrif
Mér verður oft hugsað um allt það sem ég hef lent í og upplifað. Ég á miklu láni, hamingju og heilbrigði að fagna. Ég vil ekki kvarta. Ég hef að vísu farið í gegnum heilt helvíti af einelti og öðrum döprum aðstæðum. En það er líka kominn tími til þess að maður geri eitthvað í málunum. Við erum samfélag manna, ef mennirnir sjálfir standa ekki upp og breyta þjóðfélaginu þá gerir það enginn. Ég ætla að leyfa ykkur að lesa bréf sem ég sendi til skólastjórans minns í barnaskóla.

Ég leyfi mér að fella út úr bréfinu hér og merki það með úrfellingarmerkjum.


Ágæti skólastjóri

PEN ÁBENDING TIL SKÓLASTJÓRA FRÁ FYRRVERANDI NEMENDA

...

Mig langar samt að segja þér frá persónulegri reynslu minni, því lífi sem ég lifði þá og geri í dag. Mér leið mjög illa andlega allan Xkóla, ekki út af aðbúnaði heldur vegna þess að mér fannst ég hvergi eiga heima og að eitthvað væri að mér. Ég áttaði mig svo löngu löngu síðar hvað það var. Ég man eftir fjórum sjálfsvígstilraunum eða alvarlegum aðstæðum þar sem lítið var annað heppnin sem stoppaði mig, sálin var löngu búin að gefast upp og sjálfsvígshugsanir komu upp frekar reglulega. Í dag hef ég engar slíkar hugsanir og lifi mjög góðu lífi, í fyrsta skipti er fjölskyldan mín og vinir farnir að virka. Það er góð tilfinnning. Ég veit það núna að ég hef aldrei átt vini fyrr en ég kom út úr skápnum með kynhneigðina mína og sagði fólkinu í kringum mig að ég væri hommi. Í dag er ég 23 ára og finnst ég hafa lifað í svo stuttan tíma hamingjusamur.

Ég vildi óska að einhvern tímann á skólagöngunni minni hefði kennari minnst á orðin hommi eða lesbía, fjallað um margbreytileika lífsins og þann hluta mannlífsins sem ég tilheyri. Ég vildi óska að kennari hefði leitt bekkinn minn, þann veruleika sem ég þekkti, í uppbyggjandi og fræðandi umræður um þá hópa sem verða undir í samfélaginu.

Ég man vel eftir þeim degi þegar kennarinn tók lungan úr einum deginum til að ræða um stelpu sem var þroskaheft í bekknum mínum, hún var fjarverandi þann dag. Við ræddum það hvernig það væri að vera þroskaheft og hvers vegna okkur bæri að taka tilllit til hvors annars. Strax daginn eftir var hún skyndilega mætt nýjum bekk með nýjum viðhorfum, bara vegna þess að við vorum upplýst. Líklega þarf ég ekki að segja þér að hún tók miklum framförum frá þeim degi og þó hún hafi kannski aldrei orðið hluti af hópnum leið henni greinilega mun betur.

Það sér það enginn á okkur hvort við séum sam- eða tvíkynhneigð en það meinar okkur ekki um þann rétt á að vera meðhöndluð á sama hátt og þroskahefta stelpan sem var með mér í bekk. Ef krakkarnir í bekknum, þar með talin við sjálf fáum ekki að heyra, læra og skilja um homma og lesbíur þá seinkar það þáttöku okkar í lífinu, okkar sem ekki fremjum sjálfsmorð eða lendum í alvarlegu þunglyndi.

Ástæða bréfsins míns er að hluta persónuleg. Á næstu árum munu yngri systkini mín fara að stunda nám í Xskóla á sama hátt og ég gerði. Ég man eftir hnútnum og erfiðleikunum sem fylgdu því að skipta um skóla, mér fannst þetta óyfirstíganlegt. Litlu systkinin mín eru mjög meðvituð um að ég er hommi og fjölskyldan mín leyfir þeim að taka fullan þátt í þeirri umræðu. Þau hafa bæði mætt skilningi og stríðni í Þjórsárskóla, það hefur mikið tekið á þau og það er oftar en einu sinni sem þau hafa mætt grátandi heim því að krakkarnir voru að stríða þeim fyrir mína kynhneigð.

Litlu systkinin mín eru það dýrmætasta sem ég á og ég gæti aldrei gert neitt sem að særði þau eða gerði þeim erfitt fyrir. Samt velti ég því oft fyrir mér hvort að ég hafi gert rangt með því að lifa í fyrsta skipti sáttur við sjálfan mig og að upplifa hamingju í fyrsta skipti. Þurfa systkinin mín að gjalda fyrir það eitt að ég sé hommi? Undanfarið hefur þetta legið svo þungt á mér að sú hugsun hefur komið upp hvort að betra sé fyrir mig að fremja sjálfsmorð til þess að litlu systkinin mín losni við það að vera sú/sá sem eigi homma fyrir bróður og vera strítt fyrir það í skólanum.

Mig langar ekki að krefjast neins af þér eða segja þér að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég vildi bara upplýsa þig um mig, margbreytileika lífsins og hvernig ótrúlegir langsóttir hlutir geta bitnað á þeim börnum sem stunda nám hjá þér. Mig langar að benda þér á að samkvæmt bókhaldi Samtakanna 78 hefur Xskóli keypt myndina “Hrein og bein” sem fjallar um það hvernig það er að koma út úr skápnum og það að vera hommi eða lesbía á Íslandi. Einnig langar mig að benda þér á að Samtökin 78 veita góða þjónustu og ráðgjöf, en þar starfar framkvæmdastjóri, félagsráðgjafi og fræðslufulltrúi ásamt því að þar er rekið mjög gott bókasafn. Fræðslufulltrúinn heimsækir skóla ásamt ungu samkynhneigðu fólki sem getur haldið fyrirlestra og sjálfur er ég tilbúinn að bjóða fram alla mína hjálp.

Þakka þér fyrir að lesa bréfið mitt og ég vona að það fái þig til íhugunar.


...


Guðlaugur Kristmundsson
Fyrrum nemandi Xskóla

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Skipulagsárátta
Ég ætti að vera orðinn vanur að ferðast, eða kannski er ég orðinn mjög vanur og viðbrögð mín mjög professional. Ég er að tala um að ferðast. Á föstudaginn fer ég út á völl áleiðis til Sviss með dagstoppi í Osló. Hér liggur ferðataskan opin og merkt VISA spjaldinu mínu, vegabréf, flugseðlar, tvenn umslög og tvennir gátlistar liggja á borðinu. Í öðru umslaginu eru afrit af öllum ferðakostnaði mínum, það er ólokað, því ég á eftir að bæta við fleiri kvittunum á leiðinni áður en ég afhendi reikningana í Sviss og fæ það endurgreitt. Í hinu umslaginu eru bréf og skjöl sem ég þarf að taka með mér á ráðstefnuna, ég enda á því að setja þetta í leðurmöppuna mína ásamt fleiru sem ég á eftir að bæta við. Á öðrum gátlista er það sem ég þarf að kaupa á leiðinni (jólagjafir og hlutir til persónulegra nota), hann er hreinskrifaður og á stífu blaði sem mun ekki skemmast í handfarangrinum mínum, á hann er þó enn að bætast hlutir. Á hinum gátlistanum eru hlutir sem ég þarf að taka með, öðru megin eru hlutir eins og myndavél, tannbursti og fleira, en að aftan er sá fatnaður sem ákveðið er að taka með. Að sjálfsögðu er ég búinn að setja hring utan um þann fatnað sem ég ætla að ferðast i út, með tilliti til þess í hvaða jakka ég gæti ferðast í heim og hugsanlegum buxum þar við.

Samt hlakkar mig mest til þess að fara út, alltaf ákveðin stemning í því. Á fimmtudagskvöldið mun ég takast á við mörg strembin verkefni, meðal annars aðalfund húsfélagsins í Maríubakka. Já já, maður er að afsala sér gjaldkerastöðunni í blokkinni sem ég flutti út úr fyrir nokkrum mánuðum. Ræð ekki yfir milljónum lengur. Eftir fundinn stendur til að fara í hommavideókvöld hjá ákveðnum vini mínum, gestalistinn er ansi áhugaverður og merkilegur. Þegar þessu er lokið er klukkan líklega orðin miðnætti eða klukkutímanum betur. Þá er líklega best að moka sér heim, leggja sig í smá stund og skunda svo heim til Önnu Völu í morgunmat upp úr klukkan fjögur.

Anna Vala og Jón eru nefnilega að fara til London þessa sömu helgi, við ætlum því að vera samferða. Foreldrar Jóns, sem eru líka tengdaforeldrar Önnu, munu einnig vera á flugvellinum á sama tíma en mér skilst að þau séu að fara til Kaupmannahafnar.

Pælingin í því að borða mikinn morgunmat og leggja snemma af stað er ekki af öðrum ástæðum en praktísk. Auðvitað ætlum við ekki að eyða dýrmætum tíma í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í að borða þegar við gætum bæði gert það heima hjá okkur og um borð í flugvélinni. Að vísu mun Anna ekkert fá að borða í sínu flugi, hún flýgur með Express.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Furðuleg vinna
Í vinnunni minni er samansafn karlmanna. Kvenfólk er í aukastörfum og er notað til þess að leysa karlmenn af. Hér er langt frá því að vera jafnrétti eða horft til jafnréttissjónarmiða við ráðningu starfsfólks. Þó er karlmaður sem vaskar upp, en kona sem skúrar.

Það má því lýsa starfinu mínu sem karlaklúbb, en það þykir mér ekki leiðinlegt. Áður en ég gekk inn á staðinn var Marian eini homminn á staðnum, núna skyndilega erum við orðnir fleiri. Í síðustu viku var mér boðið á deit, vegna þess að honum langaði að vera opnari gagnvart tilfinningum sínum...

Skiljanlega vissi ég ekkert hvað ég átti að segja, en auðvitað neitaði ég ekki í annað sinn sem mér er boðið á stefnumót á minni ævi. Í kvöld brutum við ísinn og veltum fyrir okkur stjörnuspám hvors annars. Öðruvísi.

En hjálp samt, af hverju lendi ég alltaf í einhverjum svona furðulegum strákum, sem hvorki eru hommar en samt inni í skápnum? Held ég hringi mig inn veikan á morgun. Sé hvort að hann muni sakna mín.

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Matta - snilldin ein
Já já, þið hafið orðið var við það að ég er í fríi þessa helgina. Blogga eins og vetrarvindurinn. Verð eiginlega að vitna svolítið í hana Möttu. Við erum búin að vera tala saman svolítið undanfarið á MSN. Rifjuðum meðal annars upp síðasta sumar, sem fólk talar um sem "Snilldarsumarið 2004".

Nokkrir puntkar frá sumrinu:

 • Matta keyrði tvisvar yfir sama Tjaldarungann.
 • Sannleiksmelónan - melónan gengur hring og allir þurfa að svara sömu spurningu.
 • Heitt kakó, kampavín og snúðar í heitum potti í Reykjadal klukkan fjögur að nóttu á sumarsólstöðum.
 • Heitur pottur í fjöruborðinu, bjór, grill og teppi að kvöldi til í Hvalfirði.
 • Mjög svo skyndileg útilega með Pétri og Héðni, ákveðið hvert skyldi halda þegar veðurspáin var skoðuð í tölvunni á Select, Vesturlandsvegi. Enduðum á Malarrifi og Sjómannadegi í Ólafsvík.
 • Ölstofan.
 • Rómantískt kvöld með Ingigerði; línuskautar í sjávarmálinu sunnan Reykjavíkur.
 • Sömu aðstæður, allt annar einstaklingur, hann er ekki í náðinni hjá vinahópnum.
 • Pulsur grillaðar að nóttu til í Öskjuhliðarskógi.
 • Velti mér í grasi fyrir utan borgarmörkin í góðum félagsskap, horfandi á norðurljósin að nóttu til.
 • Svaf úti á þaki í miðbæ Reykjavíkur á heitasta degi ársins.
 • Bjó til mikið mikið af kaffidrykkjum, hef hugsað mér að gerast kaffibarþjónn, get nú orðið bara drukkið mitt eigið kaffi.
 • ...svo miklu miklu meira.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Laugardagskvöld
Það er kvöld laugardags og ég er á Ránargötunni minni. Dagurinn byrjaði á því að ég svaf yfir mig og komst ekki á stefnumót með Siggu systur, sorry Sigga! Fljótlega eftir að ég komst á fætur dreif ég mig á fimleikamót. Já já, maður er eiturhress á laugardagsmorgni eins og segjir í jólakvæðinu Einiberjarunn.

Ég var á fimleikmóti til þess að hvetja Heiðrúnu litlu systur. Foreldraeiningarnar ekki að standa sig og til þess að litla stelpan liði ekki eins og munaðarleysingja fór stóri bróðir af stað. Ég tók með mér myndavél, datt í hug að það væri gaman fyrir Heiðrúnu að eiga myndir af sér. Sjálfum þykir mér svo undurvænt um allar þær myndir sem teknar voru af mér þegar ég æfði og keppti í dansi, ég er með heilu albúmin og videóspólurnar fullar af mér. Yndislegar eignir. Örugglega einu eignirnar mínar sem ég myndi vilja bjarga úr eldsvoða.

Hafið þið samt einhvern tímann komið á stelpufimleikamót? Það er líklega möguleiki á því að þið hafið mætt, ef þið eruð ekki strákar. Því ég var líklega eini strákurinn sem kom til þess að horfa á. Hinn strákurinn var pabbi og kom með konunni sinni. Í íþróttasalnum voru á annað hundrað stelpna í sundbolum að keppa í fimleikum. Ég ákvað að taka ekki upp myndavélina, fannst allt þetta kvenfólk ekki vera bjóða mig velkominn með öllum þeim augnarráðum sem ég fékk. Hefði ég tekið upp myndavél hefði ég þurft að skýra mál mitt fyrir lögreglunni eða barnaverndanefndinni. Eða kannski er ég bara gunga.

Því næst fór ég með íbúum Hverfisgötu í sund, Subway og kaffi á Súfistanum. Ég eyddi löngum tíma í að lesa greinina um það hvort að Robbie Williams væri gay í tímaritinu Attidute. Þetta var einkaviðtal. Það er skemmst frá því að segja að Robbie fékk 2.895.687 stig af 100 mögulegum. Ég og Robbie ætlum að byrja saman þegar við erum báðir tilbúnir í það, viljum ekkert flýta hlutunum of mikið. Við erum báðir svo uppteknir þessa dagana...

Er búinn að vera heima hjá mér í kvöld eftir að hafa lesið blöðin á Súfistanum. Labbaði heim. Það er góð tilfinning. Hérna hefur verið brotinn saman þvottur, vaskað upp, sturtan þvegin, unnið í skáldsögunni sinni, taneglur klipptar, klámsíður skoðaðar, skrifuð bréf, farið yfir bókhaldið, skórnir burstaðir og þvegnir, matur étinn og fleira. Hápunktur kvöldsins er samt án efa að tala við Möttu á MSN. Matta er svolítið smellin og sniðug stelpa. Við töluðum um margt sniðugt. Meðal annars sniðugustu atriðin í Amelie; dvergurinn, samstarfskonan segjist vera með ofnæmi fyrir koltvísýring, Amelie breytir hraðvölum hjá vonda karlinum og hárið í hnakkanum hennar. Ógleymanlegt.

Fréttatími Stöðvar 2 af VefTíví Vísis, Amelie og Robbie Williams hafa fengið að ganga undir þessu öllu saman ásamt kertum og reykelsi, þetta allt hefur gert kvöldið mitt ógleymanlegt.

Hver fór svo á djammið? Hef nefnilega upplifað það að djamm er ljósrit síðasta djamms, undantekningalaust. Heima hjá mér stjórna ég atburðarásinni frekar, auk þess sem maður lyktar betur.

Jæja, þá hefur Addi sent sms-ið og með því eru öll verkefni dagsins að ljúka.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Fyrir nákvæmlega ári síðan
bar þennan dag upp á sunnudag. Ég hafði unnið kvöldið áður á Argentínu, unnið lengi frameftir. Ég og Addi gengum út af Argentínu um þrjúleytið og fórum í bæinn til þess að taka einn hring. Ég kom heim klukkan sex um morguninn, fór í sturtu til þess að losna við reykingalyktina og skreið upp í. Gemsinn minn hringdi þremur korterum síðar og ég hrökk við. Teygði mig í símann, bjóst við að það væri Addi að hringja en ég man að ég brosti út í annað þegar ég sá að það var mamma sem hringdi. Ég held að ég hafi svarað: “Hæ mamma, af hverju hringiru alltaf þegar ég er nýsofnaður eða ennþá upp í rúmi? Má ég ekki bara hringja í þig þegar ég vakna?” Mamma bauð mér góðan daginn og sagði mér að núna þyrfti ég að vakna og skipaði mér mjög rólega að fara fram úr, þetta væri mjög mikilvægt. Ég man að ég sagði henni að ég væri nýkominn heim úr vinnunni og væri ekkert í skapi fyrir einhverja leiki. En hún náði mér nú einhvern veginn fram úr og fékk mig að hlusta á sig.

Ég vona að ég þurfi aldrei að upplifa næstu sekúndur aftur. Hún sagði mér að það hefði gerst slys fyrir hálftíma síðan. Síðan kom þögn. Hún hélt að ég hefði sofnað en ég vildi leyfa henni að halda áfram. Hún sagði mér að hafa ekki áhyggjur en pabbi hefði verið í þessu slysi. Hann hafði verið að keyra, misst vald á bílnum í hálkunni og runnið út af veginum fyrir neðan túnið heima. Ég man að mér fannst allt snúast og ég gat ekki andað, eins og einhver hefði sprautað plasti inn í lungun á mér. Tárin byrjuðu að streyma niður kinnarnar mínar. Hún sagði að hingað hefði Pétur læknir komið, sjúkrabíll frá Selfossi og vakstjórinn úr Búrfellsvirkjun. Pabbi væri núna á leið til Reykjavíkur með þyrlunni. Þarna fór ég að gráta og tárin fóru að aukast. Ég held að ég hafi grátið eins og lítið barn. Ég var svolítið reiður. Einhverra hluta vegna fannst mér það svo eigingjarnt af mér að skilja foreldra mína eina eftir út í sveit. Hver á að hjálpa þeim þegar eitthvað svona bjátar á?

Næst bað mamma mig um að vera sterkan, því hún gæti ekki verið sterk ein. Mér finnst eins og við höfum talað saman í nokkra klukkutíma, en líklega voru það bara örfáar mínutur. Hún sagði mér að fara í sturtu og fara svo upp á Landsspítala til þess að taka á móti pabba þegar hann kæmi á þyrlunni. Þó að ég hefði verið nýbúinn í sturtu kveikti ég á henni og stóð undir buninni. Ég fann ekki fyrir vatninu og ég hætti alls ekki að gráta. Vatnið var svo hart og kalt að mér fannst þúsundir nagla vera að detta á mig. Allt í kringum mig snérist og ég þurfti að halda með báðum höndum í sturtuhausslána til þess að detta ekki til hliðar. Stóð undir buninni með lokuð augun á meðan ég meðtók allar þessar upplýsingar. Ég gerði mig undir það búinn að sjá pabba minn stórslaðan eftir slys. Ég gerði mig líka tilbúinn til þess að eiga aldrei fleiri minningar eða stundir með honum. Ég man hvað ég hugsaði stíft um margar minningar sem ég átti með honum.

Þegar ég opna augun átta ég mig á því að ég skelf úr kulda en ég næ ekki að átta mig á því af hverju. Hægt skynja ég það að það er vatnið sem er svona kalt og því lít ég niður á hitastillinguna og sé að þar er bara kuldi. Ég hef nefnilega þann vanann á að enda allar sturtur með köldu vatni, það lokar svitakyrtlunum og gerir allt hár fitu minna.

Mér verður bilt við þegar ég heyri skyndilega mjög hávært hljóð fara yfir blokkina mína og átta mig á því að það er þyrla. Ég man að ég hleyp fram og inn í stofu til þess að sjá á eftir henni, hún flýgur yfir Fossvoginn og í átt að Borgarspítalanum. Pabbi er kominn í bæinn. Ég man að mér líður eins og ég sé of seinn, stekk í skóna og úlpu, hugsa ekkert um hvað ég ætti að taka með mér, tek þess vegna ekkert.

Ég hef örugglega verið mjög lengi á leiðinni. Ég hef keyrt á ca. 30-40 km hraða með augun full af tárum. Ég man að ég sé ekkert. Hafið þið einhvern tímann keyrt á sunnudagsmorgni að vetri til. Það er enginn á ferli. En ég man lítið eftir að hafa keyrt þetta, líklega hefði ég aldrei átt að gera það.

Það næsta sem ég man að ég stend í afgreiðslunni á Bráðamóttökunni í Fossvogi og horfi á konuna í móttökunni, kem ekki upp orði. Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja. Tárin byrja því bara að streyma, halda áfram að streyma og ég segji henni að pabbi minn hafi lent í slysi. Ég hef líklega litið út fyrir að vera fimm ára þegar ég segji henni í stuttum setningum frá því hvað gerðist. “Pabbi lenti í slysi. Pabbi kom með þyrlunni. Pabbi er meiddur.”

Hurðin opnast og hjúkrunarfræðingurinn stígur fram, tekur í hendina á mér og leiðir mig inn. Ég lít niður á fæturna á mér og sé að ég er í sitthvorum skónum. Lakkskór á öðrum og strigaskór á hinum. Bílllyklarnir í hendinni og ég átta mig á því að ég hef ekki hugmynd um hvar ég lagði bílnum. Ætla út, en hún tekur af mér bíllyklana og ætlar að leggja bílnum mínum. Segjir mig í engu ástandi til þess að keyra.

Síðan kom sálfræðingur að tala við mig, lét mig setjast í sófa og horfa á teiknimyndir. Löngu síðar kemur læknir sem talar við mig um hvernig ástandið á pabba er, það er mjög slæmt. Eins og er væru þeir að gera aðgerð á honum. Fleiri teiknimyndir, djús, kaffi og yndislegar hjúkrunarfræðingar.

Næst kemur einhver kona sem hafði einhvern sérstakan titil. Mér líkaði ekki vel við hana frá því að hún gekk inn í teiknimyndaveröldina mína. Hún var með blað með sér, kynnti sig og settist niður. Hún spurði mig margra spurninga; hvers vegna mamma hefði ekki komið með pabba í þyrluna, hvort að foreldrar mínir væru skildir, hvernig heimilsástandið væri, hvort ég væri náinn foreldrum mínum, hvort foreldrar mínir rifust oft, hvort pabbi væri alkóhólisti, hvort hann væri þunglyndur eða jafnvel lífsleiður. Mér brá svo mikið, mér fannst ég vera Palli einn í heiminum, konan gaf mér þær grillur í hausinn að foreldrar mínir væru ófreskjur, pabbi hefði jafnvel verið í sjálfsmorðshugleiðingum og að fjölskyldulífið mitt væri í rúst.

Þó ég reyndi að útskýra það fyrir henni að foreldrar mínir væru bændur. Þó að einn fjölskyldumeðlimur tæki upp á því að vera með drama og þyrfti að fara á sjúkrahús, þá eru samt 130 dýr sem þurfa athygli, mat og umhirðu. Kannski vildi hún ekki heldur hlusta á mig. Mér fannst ég vera farin að rífast við hana og hafði enga orku í það. Fór þess vegna að svara spurningunum hennar bara játandi til þess að losna við hana. Það kom í bakið á mér síðar.

Allur dagurinn var mjög erfiður, frændi minn kom upp á spítala að sækja mig, tók mig heim og gaf mér að borða og lét mig sofa. Pabba var haldið sofandi þangað til á miðvikudag og það var ekkert víst að hann myndi vakna aftur. Það var ómetanlegt að fá að halda í hendina á honum og sjá þegar hann opnaði augun í fyrsta skipti.

Í dag er pabbi frískur en auðvitað er hann ekki eins og hann var áður. Sem betur fer er okkar samband í dag orðið enn nánara og skemmtilegra. Ef það er fólk í kringum mann sem manni þykir vænt um á maður að nýta stundirnar með þeim í botn. Lífið er brothætt og skyndilega er hægt að svipta mann öllu. Ekki hika við að nýta þínar stundir í botn!


Þið afsakið að ég hef ekki birt þessa færslu fyrr, vissi ekki hvort ég ætti að vera að því.

sunnudagur, nóvember 14, 2004Are you Addicted to the Internet?

34%


Newbie (21% - 40%)
You've started to learn that there is more to the internet than AOL. You've recovered from that email virus that wiped your hard drive and are thinking of getting DSL. You still tend to forward too many jokes and inspirational thoughts via email to your entire address book.
The Are you Addicted to the Internet? Quiz at Quiz Me!laugardagur, nóvember 13, 2004

Ástríðufull lesbía
Já, það er kannski erfitt að vera ég, en það virðist vera erfiðara að skilja mig. Ég átta mig ekki á því hvoru megin við borðið það er betra að vera. Ég er samt oftar fyrir innan afgreiðsluborðið, leitast frekar í slík störf.

Mér finnst ég tilneyddur til þess að útskýra lesbíuna sem býr innan í Gulla. Hún er til. Hún sér það fyrir sér að sofa hjá konum, alveg eins og Lísa gerði í L-word. Þið sem ekki hafið fylgst með L-word skilja ekki lesbíuna inni í mér.

Í vinnunni minni áðan kom samstarfsfélagi minn upp að mér, hvíslaði því að mér að ég væri mest passionate kynlífsfélagi sem hann hefði verið með og það færi í taugarnar á honum að hans kynlífsfélagi væri svo langt frá því að vera jafn ástríðufullur og ég. Hvernig átti ég að svara? Auðvitað tók ég því sem hrósi... En ég vissi ekki hvort ég átti að æsast kynferðislega eða taka þessu eins og hrósi fyrir góða ilmvatnslykt. Hefur einhver lent í þessu?

Evrópan mín verður rauð!
Smelltu hér til þess að sjá ferðakortið mitt! En svona mun ferðakort mitt líta út í lok þessa mánaðar þegar ég hef heimsótt Noreg og Sviss. Fleiri lönd verða líklega ekki heimsótt á þessu ári. Svo er stefnan tekin á að nýta alla þessa ferðapunkta sem ég hef eignast síðustu ár til þess að komast til New York á nýju ári, já eða San Fransisco - ég leita bara að ferðafélaga. Vill einhver vera memm?

Samkvæmt upplýsingum World666 hef ég verið í 10 löndum Evrópu sem þekja 19% af þurru landi heimsálfunnar. Af nógu er að taka! Bætum við Kænugarði og þeim tveimur næstu ráðstefnum sem FSS hefur á prjónunum. Það ferðakort gerið þið séð hér. Þá hafa 16 lönd verið heimsótt sem þekkja 31% af þurru landi heimsálfunnar. Merkilegt.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Lesbían Lísa - Lesbían Gulli
Átti í erfiðleikum síðasta partinn í kvöld að láta allt ganga upp. Þáttur af L-word var í sjónvarpinu, ég þurfti nauðsynlega að pissa, setja í nýja þvottavél og setja úr þeirri gömlu í þurrkarann. Allt þetta þurfti að gerast en ekki gat ég sleppt sekúndubroti af L-word. Mikið var ég þakklátur fyrir auglýsingahléin. Það fyrsta fór í að losa um þvagblöðruna en hún hefur áreiðanlega sett met í fjölda vantsrúmetra þvagláti á þessum örfáu sekúndum sem það reið yfir. Næsta auglýsingahlé var nýtt í að stökkva niður í kjallara í bókstaflegri merkingu til þess að taka úr þvottavélinni og setja í þurrkarann, taldi mig ekki hafa tíma til þess að setja í þá næstu þannig að ég stökk upp og viti menn, þátturinn var að byrja aftur. Næsta hlé var sett í vélina og þá hafðist það á ný.

Áhugavert atriði kom í þættinum, en karlmaðurinn Lísa sem skilgreinir sig sem lesbíu, svaf hjá fallegustu konunni í þáttunum. Ég hef lengi samsannað mér með þessum karakter og séð sjálfan mig endurspeglast þarna í þáttunum. Ég fékk nýja sýn á kynlíf og samband mitt við kvenna þegar hann tók upp dildó sem honum langaði til þess að nota til þess að ríða henni. Hún vildi samt að hann riði sér sjálfur með typpinu sínu. Ég upplifði með Lísu hversu viðurstyggilegur slíkur verknaður og langt frá þeirri náttúru sem við búum yfir.

En niðurstaða kvöldsins er að ég get í fyrsta skipti á ævinni ímyndað mér og séð fyrir mér langtímasamband og kynlífssamband við aðra konu, en hún YRÐI að vera lesbísk. Gerir þetta mig tvíkynhneigðan eða samtvíkynhneigðan?

Svör óskast.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

100%
Já, heimsborgarinn hefur ákveðið að bjóða upp á 100% bloggfærslur frá og með deginum í dag. Þetta er gert til þess að mæta vaxandi samkeppni frá bönkunum. Bla bla bla. Það eru allir að keppast um og herma eftir hverjum öðrum. Ætli hver banki sé með sérstakan aðila í að fylgjast með hvað hinir gera til þess að geta gert alveg eins? Í síðustu viku gátu allir fengið 80% lán, en síðan hafa þrír gæjar hjá Íslandsbanka reiknað eitthvað saman og ákveðið að grundvöllur væri fyrir 100% láni, skyndilega geta allir boðið það líka. Af hverju gerðum við þetta þá ekki í byrjum? Síðan byrjuðu þessir vextir í 4,4% en þremur dögum seinna var hægt að fá 4,2%. Síðan eru kennarar búnir að vera í verkfalli í sex vikur og síðan aftur í dag. Hvaða þjóðfélag er þetta? Hver býr til leikreglurnar?

Annars hef ég undanfarið verið í ansi gefandi og skemmtilegri vinnu. Ég hef verið hérna á Apótekinu að hella upp á kaffi, bera fram samlokur, fínan fisk og þjóna skemmtilegu fólki. Strákarnir í eldhúsinu eru bæði sætir og skemmtilegir, samstarfsfólkið í salnum er frekar spes, en hér er mikið hægt að starfa og hendur manns ekki bundnar mikið. Hér fær einstaklingsframtakið að njóta sín og lítill stífleiki. Hef fengið ágætlega mikið þjórfé, ótrúlegt hvað fáar krónur geta hvatt mann mikið áfram.

Helginni eyddi ég á Lýsuhóli og á Stóra-Kambi með Trúnaðarráði, Stjórn og gestum Samtakanna ´78. Þetta er árleg vinnuhelgi hjá Samtökunum og ég tek þátt í þriðja skiptið. Hérna förum við yfir starfið undanfarið ár, gagnrýnum, forgangsröðum og hvetjum hvort annað áfram. Starf Samtakanna er svo fjölbreytt og tekur á svo mörgum málum að fáir gætu gert sér grein fyrir því. Á laugardeginum var í fyrsta skipti tekið á ákveðnum málefnum og var einblínt á fjölmiðla fyrri partinn og skólana þann seinni. Í tilefni þess kom formaður Blaðamannafélags Íslands, Róbert Marshall ásamt framleiðslustjóra SkjásEins, Sigursteins Mássonar, grunnskólakennara, námsráðgjafa, fræðslufulltrúa og fleiru góðu fólki. Flottasti rassinn fer án efa til formanns Blaðamannafélagsins, hefur einhver séð hann? Synd að hann skuli alltaf vera falinn undir borði þegar hann les fréttir...

Á laugardagskvöldinu á Stjóra-Kambi eftir góðan mat og veitingar þá var farið til við að horfa á stuttmyndir, fræðslumyndir og annað skemmtilegt. Að því loknu voru margir komnir með í aðra tánna og fundið upp á skemmtilegum leik. Þeir sem hafa horft á The L-word vita út á hvað þetta gengur, en þá eru öll nöfn skrifuð niður á blað og síðan tengt á milli þeirra sem hafa sofið saman... 15 hommar og 15 lessur, lessukortið leit hræðilega illa út, það voru svo mörg strik að ómögulegt reyndist að lesa hvaða nöfn höfðu staðið þarna upprunalega. Strákakortið var með þremur feimnum strikum og sannast þar með sú goðsögn að hommar séu lausir í brókinni.

Sunnudagskvöldinu var svo eytt hjá Ungliðahóp Samtakanna 78 þar sem ég og Ásta kynntum starf FSS og komum þeim þar með í skilning um að það væri líf eftir ungliðahópinn en þau þurfa að yfirgefa hann þegar þau eru tvítug. Rúmlega þrjátíu krakkar eru núna í þessum hópi og ótrúlega mikill kraftur og gleði hjá þeim, yngstu krakkarnir eru 13 ára! Ég vildi að ég hefði komið út svona ungur. Á eftir var stefnan tekin á Gay-Centerið á Hverfisgötunni þar sem yfirleitt ráða Þórir og Sigga ríkjum, ég stoppaði í búðinni til þess að byrja mig upp með sykur og almenn sætindi. Hugmyndin var að hafa náttfatapartý en öll vorum við "bara" klædd í föt frá Russell Athletic eins og við gengum í í gamla daga, en Sigga systir gengur enn í. Auðvitað enda öll náttfatapartý á því að maður gistir, þannig var því líka háttað í þessu náttfatapartýi.

Föstudagurinn var yndislegur, eyddi honum með foreldrum mínum og Adda. Við vorum að keyra um allan bæ, útrétta saman og slíkt. Kringlan var tekin með smá kaffipásu og fleiri skemmtilegum hlutum. Í fyrsta skipti sem foreldrar mínir koma til Reykjavíkur til þess að hanga, mikið var það gaman. Við hlógum og hlógum. Foreldrar mínir sögðu mér og Adda til dæmis frá því hvernig ég kom undir, skemmtileg saga sem ég ætla að segja ykkur. Ég vona að þið þekkið öll vin minn hann Pétur, ef ekki þá eru þið allavega að fara á mis við mikið. Pétur býr núna í íbúð á Laugarveginum þar sem foreldrar mínir bjuggu áður og ég kom undir...

Eftir góðan rúnt og kaffi var kominn tími fyrir mig að fara í ræktina. Dirty dance tíminn á föstudeginum hjá Unni er algjört must í lok vikunnar. Skemmtileg dansspor sem taka svo virkilega á. Á eftir var stungið á hópferð á Salatbarinn í Skeifunni sem lauk svo eftir bíóferð á The Forgotten um hálf eittleytið. Ég, Jói og allar fertugu konurnar í leikfimi erum sko góður félagsskapur sem erfitt er að slíta í sundur. Öllum konunum fannst gaman að heyra sögurnar sem ég og Jói gátum sagt af hvorum öðrum, held að þær hafi yngst um mörg ár og skemmt sér konunglega, ef ekki þá eru þær góðar í að búa til gervihlátra.

Á föstudaginn bannaði ég líka Jóa að hann og Eyþór myndu nokkurn tímann umgangast Þóri án míns leyfis eða leiðsagnar. Þeir hafa náð að stórskemma strákinn og heimilislíf hans. Þórir er farinn að segja orð sem bara ég gat sagt áður...

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Heimsborgari bregður undir sig betri fætinum
Var að ljúka við að kaupa mér far til Sviss síðar í þessum mánuði. Ég mun millilenda í Osló á leiðinni út og hafa rúma fimm tíma til þess að skoað borgina, fá mér að borða og kaffi. Mikið hlakka ég til. Fyrr um morguninn mun ég samt eiga með Önnu Völu og Jóni sem eru að fara til London þessa sömu helgi og tengdaforeldrum Önnu, það gæti orðið mjög áhugavert.

Lendi svo í Sviss um hálfsjöleytið um kvöldið og við tekur partý á heimili Florians. Daginn eftir munum við fara frá Zurich í borg sem heitir Lucern og vera þar í fundarhöldum alla helgina með öllum snillingunum frá Sviss og einum fulltrúa frá hverju landi.

Á sunnudagskvöldið ætlum við aftur til Zurich og Florian ætlar að ferðast með mér um Sviss þangað til ég á flug heim aftur frá Sviss um fimmleytið á þriðjudeginum, en þá flýg ég til baka í gegnum Kastrup.

Heimsborgarinn er því aftur byrjaður að ferðast og um leið að blogga. Er ekki lífið yndislegt?

Komst á netið!
Hæ hó heimur. Mikið er gott að sjá ykkur öll. Mér líður eins og málleysingja á internetinu. Leigusalinn minn hefur ekki enn tengt símalínuna mína innanhúss eins og samningurinn okkar hljóðaði svo sterklega upp á. Í upphafi sagði hann að þetta væri allt saman svo vel tengt að ekki þyrfti annað en að tengja símann sinn í vegginn og hringja í símann til þess að fá símanúmer. Í dag á alltaf að gera á morgun. Hafið samt ekki áhyggjur, ég hefni mín með því að greiða ekki leiguna, sem ég þurfti ekki í upphafi hvort sem er því ég er af svo góðum ættum...

Er staddur núna í nýju vinnunni minni á Apótekinu, tók með mér tölvuna í vinnuna því hérna er þráðlaust net. Vííí.